Borgarráð 13. október 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Frumvarp til fjárlaga:

Fjölmörg verkefni eru sameiginleg ábyrgð ríkis og borgar. Það er þekktur vandi að ekki fylgi nægt fjármagn frá ríki til borgar vegna verkefna sem komið er inn á borð sveitarfélaga. Þetta er sagan endalausa og hefur bitnað alvarlega á þjónustuþegum. Leiðrétta þarf fjárframlög ríkisins til borgarinnar þannig að fjármagn verði veitt eftir því sem það kostar að veita þjónustuna. Flokkur fólksins vill nefna hér sérstaklega þjónustu við fatlað fólk og íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Flokkur fólksins bendir á að nú þegar eru langir biðlistar í íslenskuver borgarinnar en þar eru ungmennin í forgangi. Staðan er þannig núna að það eru eingöngu nemendur í unglingadeildum sem fá inni í íslenskuverum borgarinnar. Það verður að fjölga íslenskuverum sem hafa gefið góða raun. Þannig væri hægt aðstoða fleiri nemendur og yngri nemendur fengju þá kennslu líka. Því miður virðist ríkja ákveðið skilningsleysi á þörfum barna því þessu verkefni fylgir ekki nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu. Að þessu verkefni þurfa ríki og borg að vinna saman.

Viðbót:

Aðstæður á markaði eru mjög erfiðar. Lækkanir hér heima og erlendis eru umtalsverðar.
Fasteignaverð hefur hækkað en nú eru vísbendingar um viðsnúning. Vextir Seðlabankans eru 5.75%, atvinnuleysi er lítið, 2.8% í september. Ákveðið að fara í óverðtryggðan flokk en verið er að gera hvoru tveggja

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Borgartún 34-36:

Í nýjustu breytingunni felst að fækka eigi íbúðum um tvær, þ.e. úr 102 í 100. Húsið er lækkað um eina hæð, skuggavarp er minnkað og fjölgun er á íbúum hússins. Þetta eru litlar breytingar í heildarsamhengi. Var ekki vilji til að lækka húsið um fleiri hæðir? Er almennt ráðlagt að setja svo margar íbúðir í eitt hús? Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þéttingarstefna meirihlutans ganga ansi langt hér og óttast að of mikil þrengsli verði og umferðarvandamál. Svo mikil þétting hefur neikvæð áhrif á sálræna líðan margra. Flokkur fólksins styður þéttingu ef hún er gerð skynsamlega og án öfga. Vissulega þarf að nota landið vel en ekki á kostnað grænna svæða og heilsufars fólks. Fjölmargar athugasemdir hafa borist og eru flestar af sama meiði, of mikið byggingarmagn og áhyggjur af umferð. Taka hefði mátt meira tillit til skoðana fólks í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Öskjuhlíð, deiliskipulag:

Flugbjörgunarsveitin mótmælir skerðingu á bílastæðum og að önnur bílastæði sem fyrir eru verði óaðgengileg með þessari breytingu. Félagar í Flugbjörgunarsveitinni sinna mikilvægu sjálfboðastarfi við að aðstoða Reykvíkinga og gesti þeirra þegar neyð steðjar að. Skerðing á bílastæðum um ⅔ hluta mun hefta útköll, fjáraflanir og félagsstarf Flugbjörgunarsveitarinnar verulega. Bílastæðum hefur þegar fækkað mikið. Varast ber að ganga of langt í þessu sem öðru. Gæta þarf meðalhófs. Er hægt að finna lausn sem allir geta sætt sig við? Þetta er vissulega gömul ákvörðun en þeim má breyta eins og nýjum. Best væri að fresta þessu og eiga samtal. Vika eða vikur til eða frá skipta ekki sköpum í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Kaup á sorpílátum vegna fyrirhugaðra breytinga á sorphirðu í Reykjavík árið 2023:

Flokkur fólksins telur að þetta þurfi að gera. Meta þarf í hverju máli hvenær útboð er hagkvæmari kostur og á sama tíma kostur sem kemur vel út fyrir borgarbúa. Reykjavíkurborg getur ekki vasast í öllu sjálf og á ekki að gera það. Það sem hér er lagt fram getur gengið þar sem þetta er mikið magn. Kannski mætti skoða með að bjóða út rekstur á þessu og tæmingu eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur áður lagt til að skoðað yrði t.d. í einu póstnúmeri þar sem aðilar myndu taka við tunnum og sjá um þær, s.s. þrif, endurnýjun og fleira sem verkinu tengist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 3. október 2022 á tillögu varðandi framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi:

Flokkur fólksins fagnar þessari niðurstöðu enda er hér verið að ákveða að byggja ofan á farsælt skóla- og frístundastarf í Laugardal og menning hverfanna fær að halda sér. Flokkur fólksins styður þessa sviðsmynd, þ.e. að byggja við þá skóla sem fyrir eru í hverfinu, Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla, þar sem kostir þess eru ótvíræðir. Við þessa stefnumarkandi ákvörðun hefur verið hlustað á foreldra sem ráða má af máli þeirra sem staðið hafa að undirskriftasöfnuninni „stöndum vörð um skólana í Dalnum“. Full þörf er á því að lærdómur sé dreginn af þeim seinagangi sem þetta mál hefur einkennst af. Nú verður að taka til hendinni og bregðast við aðþrengdri stöðu skólanna með aðgerðum. Íbúar hverfisins kalla hátt eftir tímasettri aðgerðaáætlun og forgangsröðun verkefna, við tökum undir með þeim. Tekið er undir mikilvægi þess að viðunandi aðstaða verði tryggð fyrir frístundaheimilis- og félagsmiðstöðvarstarf í Laugarnes- og Langholtshverfi í þeirri vinnu sem er framundan.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2022, varðandi minnisblað um stöðu fjölmenningarlegs skóla- og frístundastarfs í Reykjavík í október 2022:

Fjöldi fjöltyngdra barna hefur aukist á liðnum árum bæði í leikskólum og grunnskólum. Árið 2015 voru börnin 1654 í grunnskólum en 2021 var fjöldinn kominn upp í 2929. Tölur yfir fjölda fjöltyngdra grunnskólabarna fyrir 2022 liggja ekki fyrir en af nýjustu tölum frá 1. september að dæma hefur fjölgunin verið mikil. Nýir nemendur bætast við í viku hverri. Sennilega mun fjöldi tvítyngdra nemenda í grunnskólum Reykjavíkur fara yfir 3200 á þessu ári. Þessi hópur hefur litlar forsendur til þess að taka þátt í almennu grunnskólastarfi með jafnöldrum sínum án sérstakrar aðlögunar og stuðnings til að ná tökum á íslenskunni. Þessi gríðarlega fjölgun kallar á fleiri skólaúrræði og fjölgun á starfsfólki. Flokkur fólksins bendir á að nú eru þegar langir biðlistar í íslenskuver borgarinnar en þar eru ungmennin í forgangi. Staðan er þannig núna að það eru eingöngu nemendur í unglingadeildum sem fá inni í íslenskuverum borgarinnar. Það verður að fjölga íslenskuverum sem hafa gefið góða raun. Þannig væri hægt aðstoða fleiri nemendur og yngri nemendur fengju þá kennslu líka. Því miður virðist ríkja ákveðið skilningsleysi á þörfum barna því þessu verkefni fylgir ekki nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu. Að þessu verkefni þurfa ríki og borg að vinna að saman.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Bréf velferðarsviðs, dags. 11. október 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. október 2022 á tillögu um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings:

Flokkur fólksins fagnar tillögu um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings. Flokkur fólksins lagði til svipaða tillögu um endurskoðun reglna um sérstakan húsnæðisstuðning í borgarráði 30. júní 2022. Það vakti furðu að þegar Flokkur fólksins lagði til samskonar tillögu var kostnaðurinn metinn á 24-30 m.kr. á ári og metið sem svo að auka þyrfti fjárheimildir. Umsögn velferðarsviðs barst Flokki fólksins 14. september. Það er athyglisvert að nú aðeins 4 vikum síðar er samskonar aðgerð meirihlutans metin innan fjárheimilda. Flokkur fólksins fagnar þessari viðhorfsbreytingu hjá meirihlutanum því batnandi mönnum er best að lifa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengisvanda í miðbænum á hátíðisdögum, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. október 2022:

Flokkur fólksins lagði það til í ljósi ábendinga eftir menningarnótt um slakt aðgengi að miðbænum og á salerni t.d. í Hljómskálagarðinum að skipuleggjendur viðburða af þessu tagi finni lausnir til að hátíð af þessu tagi geti tekið á móti öllum þar sem stórt svæði er hátíðarsvæði. Fatlað fólk á að geta tekið þátt í hátíðarhöldum eins og ófatlaðir. Í tillögu Flokks fólksins var sérstaklega nefnt að forgangsakstur fyrir stæðiskorthafa og akstursþjónustu fatlaðra að jaðri svæðisins dugar ekki til. Í umsögn menningar- og ferðamálasviðs finnst fulltrúa Flokks fólksins frekar lítið gert úr þessum ábendingum. Það liggur fyrir að Öryrkjabandalag Íslands kom að undirbúningi menningarnætur og aðgengi fatlaðs fólks hafi verið bætt. En aðgengileg ferðasalerni eru fá. Skoða þarf skipulagið frá grunni ef ætlunin er að fatlað fólk eigi að geta tekið fullan þátt með sama hætti og aðrir. Það er einfaldlega mjög erfitt þegar um er að ræða svo stórt svæði sem er alveg lokað af fyrir bílaumferð. Umsögnin tekur ekki á því.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum 2. og 4. lið fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 6. október 2022:

Liður 2; Flokkur fólksins tekur undir bókun aðgengisnefndar. Nefndin bókar um kynningu á rafrænum skilríkjum þess efnis að leiðir til að sækja þjónustu í borginni fyrir fatlað fólk og aðra jaðarsetta hópa án rafrænna skilríkja skuli aldrei vera verri en þegar sótt er þjónusta með rafrænum skilríkjum. Einnig er bókað að gott væri að hafa sérstakt símanúmer sem hægt væri að hringja í til að fá aðstoð við stafræna þjónustu og stafræn mál. Minnt er á ómæld vandræði sem ákveðinn hópur öryrkja lenti í þegar Klapp greiðslukerfið var sett upp í Strætó.

Liður 4; í umsögn aðgengis- og samráðsnefndar vegna tillögu Flokks fólksins um aðgengis- og salernismál á hátíðum eins og menningarnótt er vísað til aðgengisstefnu borgarinnar. Varðandi aðgengisstefnuna þá kom á daginn ekki alls fyrir löngu að hún var ekki aðgengileg og hvergi að finna á vefnum. Flokkur fólksins vakti athygli á þessu og var lofað að bæta þar úr. Stefnan nýtist ekki neinum sé hana hvergi að finna.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið nr. 2 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 6. október 2022:

 

Liður 2

Flokkur fólksins tekur undir bókun Aðgengisnefndar. Nefndin bókar um kynningu á rafrænum skilríkjum þess efnis að leiðir til að sækja þjónustu í borginni fyrir fatlað fólk og aðra jaðarsetta hópa án rafrænna skilríkja skuli aldrei vera verri en þegar sótt er þjónusta með rafrænum skilríkjum. Einnig er bókað að gott væri að hafa sérstakt símanúmer sem hægt væri að hringja í til að fá aðstoð við stafræna þjónustu og stafræn mál. Minnt er á ómæld vandræði sem ákveðinn hópur öryrkja lenti í þegar Klapp greiðslukerfið var sett upp í Strætó.

Liður 4

Í umsögn Aðgengis- og samráðsnefndar vegna tillögu Flokks fólksins um aðgengis- og salernismál á hátíðum eins og Menningarnótt er vísað til Aðgengisstefnu borgarinnar. Varðandi Aðgengisstefnuna þá kom á daginn ekki alls fyrir löngu að hún var ekki aðgengileg og hvergi að finna á vefnum. Flokkur fólksins vakti athygli á þessu og var lofað að bæta þar úr. Stefnan nýtist ekki neinum sé hana hvergi að finna.

 

Bókun flokks fólksins undir 8 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2022:

Skipulagsyfirvöld leggja til að gerðar verði breytingar á hverfisskipulagi Efra-Breiðholts, Seljahverfis og deiliskipulag fyrir Arnarnesveg. Tillöguna á að samþykkja án grenndarkynningar og auglýsingar. Rökin eru sögð þau að hún varði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og/eða sveitarfélagsins. Þegar samþykkt liggur fyrir í umhverfis- og skipulagsráði þá leggja skipulagsyfirvöld það til að bæði breytingartillögur fyrir hverfisskipulag og nýtt deiliskipulag fyrir Arnarnesveginn hljóti staðfestingu í B-deild Stjórnartíðinda samtímis. Hér er gróflega farið áfram með aðgerð sem ekki einu sinni hefur verið útkljáð í kæruferli en Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og skorti á samráði við íbúa í nágrenni Vatnsendahvarfs sem og fleiri hagaðila. Aðgerðin er í hrópandi ósamræmi við allt tal um grænt plan. Flokkur fólksins hefur margrætt þetta mál í borgarstjórn og þá helst að nauðsynlegt sé að gera nýtt umhverfismat. Þetta á að gera þrátt fyrir að Framsókn hafi lofað á fundi með Náttúruvinum Reykjavíkur í aðdraganda kosninga að gert yrði nýtt umhverfismat fyrir 3. kafla Arnarnesvegar. Það er hvorki umhverfislega né siðferðislega rétt að byggja svo stóra framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins undir 8. lið yfirlits yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið og taka undir ánægju skólanefndar Fjölbrautarskólans í Breiðholti sem fagnar því að nú lítur út fyrir að bygging verknámshúss sem hýsa á rafvirkja-, húsasmíða- og listnámsbrautir sé að komast á útboðsstig. Það er afar mikilvægt að tryggt verði að verkefnið haldi áfram en um leið verði rætt hvernig bregðast megi við stækkandi biðlistum í þessar verknámsbrautir og leitað leiða til að tryggja að nýtt hús verði ekki strax sprungið þegar það opnar. Þær brautir sem um ræðir eru löngu sprungnar og mikil ásókn er í þær.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að fela skóla- og frístundasviði í samvinnu við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að fara kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti og ofbeldi:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði í samvinnu við mannréttindaskrifstofu og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð að fara kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti og ofbeldi. Markmiðið er að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Í framhaldi er óskað eftir yfirliti um stöðu mála.

Greinargerð:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að sjá hvort samræmt verklag er hjá skólum til að fullvissa ríki um að skólar standi  nokkurn veginn jafnfætis varðandi forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnslu mála af þessu tagi. Lagt er til að athugað verði hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri og aðferðir til að geta tekið á móti og unnið með eineltismál með faglegum og skilvirkum hætti. Til dæmis að kannað verði hvort skólar hafi  tilkynningareyðublað á heimasíðu; hvort viðbragðsáætlun sé á heimasíðu til upplýsinga fyrir foreldra; hvort lýsing á úrvinnsluferli kvörtunarmála sé aðgengileg á heimasíðu; hvort fyrir liggi upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans og loks hvort að skýrt sé hverjir  taka við eineltiskvörtunum í viðkomandi skóla.

Frestað.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fela skóla- og frístundaráði að vinna að því, í samráði við skólasamfélagið, að gera úttekt á öryggisvörnum í skólum þegar kemur að verklagi og viðbrögðum ef ytri vá steðjar að:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundaráði að vinna að því, í samráði við skólasamfélagið, að gera úttekt á öryggisvörnum í skólum þegar kemur að verklagi og viðbrögðum ef ytri vá steðjar að s.s. utanaðkomandi hættuástand eða ógn/hótun um að skaða börn og starfsmenn. Mikilvægt er að fyrir liggi skýrar reglur og verklagsferlar sem allir starfsmenn séu meðvitaðir um og þekki í þaula. Hver og einn þarf að vera með sitt hlutverk á hreinu standi fyrir dyrum ógn, hótun um skaða eða önnur ytri vá sem steðjar að börnunum og starfsfólki. MSS22100129

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að fela skóla- og frístundasviði að vinna að, í samráði við skólasamfélagið, að komið verði upp öryggismyndavélum á leikvöllum barna á vegum borgarinnar:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela skóla- og frístundasviði að vinna að, í samráði við skólasamfélagið, að komið verði upp öryggismyndavélum á leikvöllum barna á vegum borgarinnar.

Greinargerð:

Ógn ytra ofbeldis af alls kyns toga er sífellt að færast í aukana og því mikilvægt að leita allra leiða til að tryggja börnum fyllsta öryggi í borginni hvar sem er. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem finna  má börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á leiksvæðum. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.  Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð.

Frestað.