Liður 1
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir.
Lagt er til að verkefnið Betri borg fyrir börn verði innleitt um alla Reykjavíkurborg. Markmið verkefnisins er að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Þá er lögð áhersla á að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs.
Meirihlutinn leggur til að verkefnið Betri borg fyrir börn verði innleitt um alla Reykjavíkurborg. Meirihlutinn ætlar að óska eftir 140 milljóna króna fjárframlagi frá borgarráði til að taka á biðlistum. Mjög líklega þarf mun meiri innspýtingu fjármagns en hér er lagt til ef takast á að sinna öllum þessum börnum svo vel sé. Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“. Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Það er miður að ekki hafi verið gripið fyrr í þessa óheillaþróun. Fyrstu tillögur Flokks fólksins að taka á biðlistum komu strax á fyrsta misseri þessa kjörtímabils. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi þau búa. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Íslensk ungmenni sýna meiri aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „börn“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti.
Liður 2
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir ásamt skýrslunni Heildstæð þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir, dags. í júní 2021 nánar tiltekið:
Lagt er til að aukin áhersla verði lögð á að taka tillit til lýðfræðilegra þátta við úthlutun fjármagns til grunnskóla í borginni með það að markmiði að auka jöfnuð milli barna og skóla í anda stefnunnar um Menntun fyrir alla.
Meirihlutinn leggur til að óskað verði eftir 140 m.kr. fjárheimild til borgarráðs til þess að vinna með börn og unglinga vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta allt of lága upphæð, bara dropi í hafið sem þarf. Þessi upphæð sýnir að börn eru ekki í forgangi. Biðlisti barna í skólum telur 1056 börn í dag og fjölgar á honum með hverjum degi. Gera þarf betur hér. Svo virðist sem eitthvað skorti á metnað? Ef ekki er beðið um meira þá er það metið svo að ekki meira þurfi. Þetta er ekki rétt leið til að ná árangri. Þegar börn eru annars vegar þarf að taka hærra stökk. Með þessu áframhaldi tekur mörg ár að sinna þessum hópi og þessi börn hafa ekki þann tíma. Bernskan bíður ekki frekar en annað tímaskeið. Þau verða þá orðin stálpuð, fullorðinn og líða fyrir andvaraleysi velferðar- og skólasviðs.
Liður 3
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir ásamt skýrslunni Heildstæð þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir, dags. í júní 2021 nánar tiltekið: Lagt er til að aukin áhersla verði lögð á að taka tillit til lýðfræðilegra þátta við úthlutun fjármagns til grunnskóla í borginni með það að markmiði að auka jöfnuð milli barna og skóla í anda stefnunnar um Menntun fyrir alla.
Meirihlutinn leggur til að nota ákveðinn stuðul (e. Learning opportunites index – LOI) sé reiknaður út fyrir grunnskóla til að sjá betur hverjir þurfa snemmtækan stuðning. Að veita snemmtæka íhlutun ef barn á í vanda eru mannréttindi. Börn eiga ávallt að fá snemmtæka íhlutun en einnig að fá nauðsynlegar greiningar sem kennarar og foreldrar ásamt fagaðilum hafa sammælst um að barn þurfi. Vel kann að vera að þessi meirihluti telji að með því að draga úr greiningum sé verið að spara mikinn pening. Svo er ekki. Ef barn er að fá ranga meðhöndlun og meðferð við sínum vanda því ekki hefur verið skoðað með gagnreyndum aðferðum hver sé grunnvandinn er verið að taka áhættu með líðan barnsins og það á eftir að kosta. Með því að fá upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (4ra ára skoðun barns) er hægt að sjá strax hvort barnið glími við vanda eða vísbendingar þar um. Því miður er ekki samræmd samvinna milli skóla og Heilsugæslu og hvergi er minnst á slíkt samráð í þeim tillögum sem hér eru lagaðar á borð. Flótti frá greiningum þessa meirihluta til að spara fé vekur ugg og má telja víst að einhver hópur barna eiga eftir að líða fyrir að lokað er fyrir nauðsynlegan sveigjanleika í þessum efnum.
Liðu 4
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir ásamt skýrslunni Heildstæð þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir, dags. í júní 2021 nánar tiltekið: Lagt er til að hafinn verði undirbúningur að rafvæðingu á umsóknarferli um skólaþjónustu þar sem ferlið verður endurskoðað í heild sinni út frá þörfum notenda.
Meirihlutinn leggur til að hafinn verði undirbúningur að rafvæðingu á umsóknarferli um skólaþjónustu þar sem ferlið verður endurskoðað í heild sinni út frá þörfum notenda. Fulltrúi Flokks fólksins styður að farið sé í þessa vinnu, en að það verði gert með skynsömum hætti og af ábyrgu fólki. Sviðin sjálf vita best hvað þau þurfa og hlýtur vinnan að þurfa að fara fram innan þeirra. Víða er kominn grunnur að snjalllausnum sem sjá má í öðrum stofnunum. Gríðarmiklu fjármagni hefur nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og lítið ber á afrakstri eða afurðum. Fjármagni hefur verið eytt í tilraunir sem litlu hafa skilað enn sem komið er. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með marga milljarða af lausung. Eftir á að koma í ljós hvort og þá hvenær þær afurðir verða komnar í virkni sem væntingar standa til. Öll höfum við sameiginleg markmið sem er að auðvelda aðgengi skóla og foreldra að skólaþjónustu og að einfalda samskipti bæði skóla og foreldra barna við skólaþjónustu. Forgangurinn hlýtur þó ávallt að vera sá að byrja á því að sinna börnunum sem beðið hafa á biðlistum jafnvel mánuðum saman. Í það þarf að setja fjármagn fyrst og fremst.
Liður 5
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir ásamt skýrslunni Heildstæð þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir, dags. í júní 2021 nánar tiltekið:
Lagt er til að fram fari faglegt mat á árangri af sérkennslu, sértækum stuðningi í skóla- og frístundastarfi, skólaþjónustu og þjónustu velferðarsviðs við börn og fjölskyldur.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um að nauðsynlegt sé að gera árangursmælingar á sérkennslu. Í sérkennslu eru um 30% af grunnskólabörnum en enginn veit neitt hvernig sérkennslan er að skila sér til barnanna. Börn kunna einnig að vera að fá mismunandi þjónustu eftir því hvar þau búa. Alltof langur tími hefur farið hjá þessum meirihluta í að koma því á blað að mæla þarf árangur. Sérkennarar eru ofhlaðnir og undir miklu álagi. Í þeirra hópi eru börn ekki aðeins með námserfiðleika af ýmsu tagi og á ýmsum stigum heldur einnig með hegðunarvanda/raskanir. Þetta tvennt fer vissulega stundum saman en alls ekki alltaf. Barn sem ekki fær viðeigandi aðstoð við vanda sínum tapar fljótlega sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi og þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Annað áhyggjuefni er læsi barna og lesskilningur en eins og ítrekað kemur fram í könnunum er stór hópur barna sem útskrifast úr grunnskóla sem ekki lesa sér til gagn né gamans. Þessi hópur hefur farið stækkandi með hverju ári. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða helstu tækifæri til úrbóta.
Liður 6
Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um heildstæða þjónustu fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir ásamt skýrslunni Heildstæð þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir, dags. í júní 2021 nánar tiltekið: Lagt er til að verkefnisstjórn verði sett á laggirnar sem undirbúi Reykjavíkurborg fyrir nýja löggjöf um farsæld barna.
Meirihlutinn leggur til að verkefnisstjórn verði sett á laggirnar sem undirbúi Reykjavíkurborg fyrir nýja löggjöf um farsæld barna. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að þetta frumvarp er bara frumvarp sem ekkert er víst að verði að lögum. Finna þarf fjármagn í það sem ekki er enn séð hvar ríkisstjórnin ætlar að taka ef marka má umræður t.d. úr fréttum. Hafa skal í huga að ekki fannst nægt fjármagn hjá þessari ríkisstjórn til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu til framtíðar jafnvel þótt allir væru sammála um að gera það Reykjavíkurborg verður að taka ábyrgð á sínum börnum, grunnskólabörnum sem eru alfarið sveitarfélagsins að sinna Ef engir biðlistar væru, þá myndi vandi barna ekki ná að vefja upp á sig. Það að bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð, með eða án greiningu gerir það að verkum að vandinn verður sífellt stærri. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja að leikslokum og sjá þetta Farsældarfrumvarp verði fyrst að veruleika áður en hlaupið er upp til handa og fóta og halda að mikið sé að gerast ríkisins megin. Meira fjármagn þarf til málaflokksins, ráða fagaðila og bretta upp ermar. Best væri ef sá hluti sem snýr að velferð grunnskólabarna heyri undir skóla- og frístundaráð eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til.