Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga:
Hér er lagt fram Aðalskipulag Reykjavíkur, endurskoðuð stefna. Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vanda því ekki er nóg byggt. Vandinn er að lóðir vantar. Ekki hafa verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð segir Seðlabankastjóri. Áform um að koma húsaskjóli yfir alla þá sem vilja búa í Reykjavík hefur mistekist. Vandamálið er það vantar ábyrgð og yfirsýn meirihlutans og embættismanna og er skipulagsmálum borgarinnar undir verkstjórn borgarstjóra kennt um. Borgarkerfið, umsóknarferlið er þess utan langt og óskilvirkt. Árið 2019 voru um 5000 íbúðir í byggingu en nú eru aðeins 3400 íbúðir í byggingu. Ekki dugar bara að þétta á einum bletti. Byggja þarf víðar, sjálfbær hverfi þar sem fólk vill byggja og búa. Það er miður er að sjá að byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin. Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í Vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Fyllt verður í flestar fjörur. Gleymt er að gera ráð fyrir innviðum, lóðum fyrir skóla. í Laugarnesi liggur ekki fyrir þarfagreining um skólamál sem skoða átti í sumar. Framtíðarskólaúrræði þar eru í óvissu. Ekki er heldur hægt að sjá eins og lofað var að atvinnutækifæri væru í hverfum. Mikið skortir á sjálfbærni í hverfum sbr. í Úlfarsárdal.
Bókun Flokks fólksins við Hádegismóar, nýtt deiliskipulag:
Fulltrúi Flokks fólksins er samþykkur því að skátar fá þessa lóð, norðan við Rauðavatn, með skilyrðum. Þessi lóð liggur mjög vel með tillit til tengsla við vatn og náttúru. Tryggja þarf því aðgang almennings að þessu svæði , hugsanlega með skilyrðum í lóðasamningi. Þetta svæði á að vera opið almenningi svo allir geti notið þess.
Bókun Flokks fólksins við Laugarnestangi, friðlýsing menningarlandslags:
Fulltrúi Flokks fólksins telur að friðlýsa eigi Laugarnestangann. Þegar hefur vanhugsuð landfylling verið gerð við norðurhluta tangans og brýnt að taka fyrir að sú landfylling verði stækkuð og að náttúrulegri fjöru sem enn er við tangann verði látin í friði.
Bókun Flokks fólksins við Battavöllur á Landakotstúni, umsögn:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að þarna verði byggður battavöllur og að gert verði huggulegt umhverfi í kringum hann. Þetta er kjörinn staður fyrir slíkan völl og er hugmyndin um hann þarna vel til fundinn.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fræðslu rafhlaupahjóla fyrir börn
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulags- og samgönguráð beitir sér fyrir því, t.d. í samstarfi við skóla- og frístundaráð að börn og unglingar fái sérstaka fræðslu um rafhlaupahjól og hvernig þeim beri að hjóla þeim þegar hjólað er nálægt gangandi vegfarendum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá fólki sem kvartar yfir tillitsleysi þegar ungt fólk, sumt hvert, hjólar á gangstéttum. Fræða þarf börn og ungt fólk um mikilvægi þess að nota bjölluna. Fjölmörg dæmi eru um að bjalla sé ekki notuð þegar komið er hjólandi aftan að vegfaranda sem er að ganga eða hlaupa. Sumir hjólendur hjóla á hraða allt að 25 km/klst hraða, jafnvel með aðeins aðra hendi á stýri og símann í hinni hendinni og eru þar að leiðandi ekki að horfa fram fyrir sig.
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé aðeins tímaspursmál hvenær slys verður, að ekið verði á gangandi vegfaranda. Börn sem verða fyrir hjóli á þessum hraða geta stórslasast. Einnig eru komin rafhjól sem komast enn hraðar, upp í 45 kmh.
Velta má fyrir sér þeirri spurningu hvort setja ætti aldurstakmark á þau hjól sem komast svo hratt og hvort rafhlaupahjól eigi kannski heima á hjólastígum frekar en gangstéttum.
Vísað til meðferðar stýrihóps um innleiðingu hjólreiðaáætlunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innstig í strætó í tengslum við þéttingu byggðar í Mjódd
Fram kom í skýrslu um ferðavenjur sem unnin var fyrir SSH, sem liður í undirbúningi Borgarlínu, að flest innstig í strætó eru núna í Mjódd, 4000 talsins en á Hlemmi eru 3400 innstig á sólarhring.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Hvers vegna þarf að þétta byggð svona mikið í Mjódd?
Við hvaða innstigsfjölda er miðað við þegar tekin er ákvörðun um þéttleikaviðmið?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um kynningar á nýju skipulagi í Breiðholti
Fulltrúa Flokks fólksins finnst kynning á svo stórri fyrirhugaðri breytingu á hverfisskipulagi í Breiðholti ábótavant og má telja víst að ekki nema brot af þeim sem búa í Breiðholti hafa áttað sig á hvað til stendur.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi:
Hvernig stendur á að farið hafi svo lítið fyrir kynningu á svo stórri fyrirhugaðri skipulagsbreytingu í nærumhverfi fjölda fólks?
Í tilfelli Mjóddar, þar sem hægt er að lesa sér til í fleiri en einni rúmlega 200 bls. skýrslum að gert sé ráð fyrir að byggja 800 nýjar íbúðir og 60.000 fermetra atvinnuhúsnæðis á 5-8 hæðum, er ekki einu sinni minnst á þessa meiriháttar breytingu í 4 bls. kynningarbæklingi um helstu breytingar aðalskipulagstillögunnar?
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um innviði leikskóla til að taka við mikilli fjölgun
Leikskólar í Mjódd eru þétt setnir og sumir sprungnir.
Útreikningar sýna að 800 íbúða fjölgun í neðra Breiðholti er 53% fjölgun íbúða.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Ráða innviðir við svona mikla fjölgun á stuttum tíma?
Er gert ráð fyrir nýjum grunn- og leikskólum í Mjódd?
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um þéttleika í nýju skipulagi í Breiðholti
Fulltrúi Flokks fólksins telur að nýbyggingar sem kynntar hafa verið í nýju skipulagi í Breiðholti verði að vera í takti og tilliti við núverandi byggð. Í tillögu að aðalskipulagsbreytingu virðist mikill þéttleiki og há hús á sumum stöðum svo sem í Mjódd og tengist áformum um Borgarlínu.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi:
Voru áhrif á nærliggjandi byggð m.t.t. skuggavarps, umfangs, útsýnis og veðurfars skoðuð með þar til bærum sérfræðingum?
Um þetta er spurt vegna þess að við eigum því miður vond dæmi um veðurfarsleg áhrif á nærliggjandi byggð og skuggavarp sem dæmi í nágrenni Höfðatorgs í Reykjavík. Er tryggt að ný viðmið um hæðir húsa og þéttleika rýri ekki gæði núverandi byggðar í nágrenni þéttingarreita t.d. í nýju skipulagi í Breiðholti?
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvort leitað var til sérfræðinga þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð í Breiðholti
Breiðholtið er mörgum kært enda gott og barnvænt að búa í Breiðholti. Núverandi skipulag, sem er verðlaunaskipulag, þarf að skoða nánar með tillit til útsýnis, skuggavarps og umferðaröryggi.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um eftirfarandi í ljósi þess að skipulagsyfirvöld leita mikið til utan að komandi sérfræðinga:
Var leitað til sérfræðinga í byggðu umhverfi og áhrif byggðs umhverfis á fólk þegar viðmið um þéttleika og hæðir húsa voru ákvörðuð?
Sérfræðingarnir gætu verið sálfræðingar, félagsfræðingar, veðurfræðingar, arkitektar, landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar.
Ef svo er, hverjir voru sérfræðingarnir og var farið að ráðum þeirra þegar viðmið voru ákvörðuð?
Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um ljósastýringu í bílakjallara Ráðhússins
Tillaga Flokks fólksins að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verði lagaður hið fyrsta. Í mörg ár hefur verið ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins, þar sem umferð upp og niður var stýrt með rauðu og grænu ljósi, þar sem innkeyrslan er einbreið. Til viðbótar var ljós fyrir ofan með textanum „Fullt“ sem gaf til kynna að engin stæði væru laus og þá var rauða ljósið jafnframt logandi þótt enginn bíll væri að koma á móti. Nú hefur þetta verið tekið niður og einungis rautt og grænt ljós gefur til kynna hvort umferð sé að koma upp innkeyrsluna. Þetta er ekki lengur tengt teljara aðgangskerfisins. Afleiðingin er sú, að bílum er hleypt niður innkeyrsluna, en lokunarsláin opnast ekki ef stæðin eru öll upptekin. Það gerist einnig þótt einhver stæði séu laus, frátekin fyrir þá sem eru með sérstök kort frá Ráðhúsinu. Ófremdarástand hefur skapast við þessa breytingu þegar röð af 3-4 bílum eru á leið ofan í kjallarann en sláin lyftist þar sem kjallarinn er fullur. Allir meta það svo að græna ljósið þýði laus pláss og vandræði myndast þegar allir bílar þurfa að bakka aftur upp innkeyrsluna. Þessu þarf að breyta og setja aftur upp skiltið „Fullt“ ásamt rauða ljósinu sem áður var, þannig að ekki sé ekið niður í bílakjallarann við þessar aðstæður.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna álits umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötu
Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð skipulags- og samgönguráðs við áliti umboðsmanns Alþingis um að hreyfihamlaðir megi leggja í almenn stæði á göngugötum.
Fram hefur komið að handhafi stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja á hann stöðubrotsgjald. Handhafinn hafði lagt bíl sínum í almennt stæði á göngugötu en Bílastæðasjóður taldi honum aðeins heimilt að leggja í sérmerkt bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á göngugötu. Það var niðurstaða umboðsmanns að ekki væri hægt að fallast á þann lagaskilning að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða gætu eingöngu lagt í sérmerkt stæði á göngugötum. Þetta er einmitt sá skilningur sem fulltrúi Flokks fólksins hafði á þeim lögum sem hér um ræðir og hefur það margsinnis komið fram í bókunum Flokks fólksins. Heimildin nær til þess að P merktir bílar megi leggja í göngugötunni sjálfri.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skotsvæðið í Álfsnesi og hvað sé verið að gera í að leita að öðru svæði:
Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort sé verið að leita að nýrri staðsetningu með virkum hætti og þá hvar, innan eða utan dyra? Skotsvæðinu í Álfsnesi var lokað án fyrirvara? Fram hefur komið að lokunin hafi komið meirihlutanum á óvart sem er sérkennilegt því málið hefur verið a.m.k. tvisvar rætt í borgarstjórn. Margir voru búnir að hafa uppi varnaðarorð og hneykslast á aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar. Þegar loks er lokað er það ekki vegna mengunar heldur skipulagsmála. Halda mætti að „skipulagsmál“ séu notuð sem átylla fyrir að loka. Finna þarf aðra lausn fyrir þá 1.500 félagsmenn og aðra sem stunda skotæfingar. Erfitt getur reynst að finna svæði þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Ef utandyra er þarf það svæði að vera einangrað eða afskekkt og sem ekki er metið mikils virði út frá náttúru. Fyrirspurn Flokks fólksins lýtur að hvort verið sé að leita að nýrri staðsetningu og þá hvar, innan eða utan dyra?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal
Fulltrúi Flokks fólksins var fyrir nokkrum vikum með fyrirspurn um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal þar sem eru tröppur á göngustígum. Þarna fer fólk einnig um með barnakerrur. Í hverfinu eru tröppur víða og hafa börn sem hjóla í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppurnar eða leiða þau auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur. Sendar voru myndir með fyrirspurninni til að sýna aðstæður. Með þessari fyrirspurn sem hér er lögð fram er aftur sýnd mynd sem sýnir hvernig börn reyna að redda sér þegar aðstæður bjóða ekki upp á að hjóla á stíg.
Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir endurskoðun á þessu en fékk engin viðbrögð önnur en þau að þetta væri í lagi við Urðarbrunn. Hér má sjá hvernig þau einfaldlega hjóla á grasbakka með fram göngustígnum til að þurfa ekki að bera eða leiða hjól sín.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld vilja ekki reyna að lagfæra þetta þannig að börn komist leiðar sinnar hjólandi án erfiðleika og einnig að fólk geti farið um með barnakerrur bæði þrí- og fjórhjóla? Það ástand sem þarna ríkir getur verið hættulegt. Stígarnir eiga að þjóna börnum á hjólum og hlaupahjólum sem og fólki með vagna og kerrur.
Frestað.