Skipulag- og samgönguráð 25. ágúst 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Lágmúli, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, stgr 1.260, skipulagslýsing og nýtt deiliskipulag:

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir enn og aftur þeirri ákvörðun skipulags- og samgöngusviðs að birta í dagskrá nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kvartanir. Fulltrúi Flokks fólksins er þess fullviss að þetta stríðir gegn persónuverndarlögum. Fólk á að geta sent inn athugasemdir og kvartanir án þess að nöfn þeirra séu birt með kvörtuninni eða ábendingunni.

 

 Bókun Flokks fólksins við Þverholt 13, breyting á deiliskipulagi:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur samúð með fólki sem telur sig hafa keypt húsnæði með einhverju ákveðnu útsýni en næsta sem gerist er að byggt er þannig við hlið þess að útsýni er ýmist skert eða hverfur alveg. Í sumum þessara mála er um hrein svik að ræða því fólk hefur verið sagt að ekki verði byggt þannig að útsýni þeirra verði skert. Í mörgum tilfellum hefur fólk jafnvel fjárfest í eigninni mikið til vegna útsýnis eða sólarlags nema hvoru tveggja sé.

Bókun Flokks fólksins við Bárugata 14,  breyta og hækka  mæni og útveggi:

Bárugata 14, um er að ræða að hækka hús. Að hækka hús í grónum hverfum og auka þar með skuggavarp, sem snertir nágranna mikið er ekki gott og ber að forðast. þess vegna er þessi breyting ekki ásættanleg. Íbúar í næstu húsum lýsa áhyggjum af auknu skuggavarpi í garði sínum við breytingarnar sem mun hafa áhrif á lífsgæði þeirra. Alvarlegustu áhrifin yrðu á jarðhæð. Hver hefði reiknað með að hækka ætti 100 ára gamalt hús? Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel áhyggjur íbúðaeigenda í næsta húsi við Bárugötu 14.

Bókun Flokks fólksins við Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar, drög til umsagnar:

Drögin fela í sér marga fallega hluti, s.s. að hafa vandaðar upplýsingar, víðtæka þátttöku borgara og samráð en tvíhliða samráð hefur einmitt verið Akkilesarhæll þessa meirihluta að mati fulltrúa Flokks fólksins. Eldar hafa logað  víða um borgina vegna samráðsleysis. Nefna má Skerjafjörðinn, Sjómannareitinn, Miðbæinn og fjölmargt fleira. Íbúaráðin eru nefnd sem samskiptaleið en borgarbúum hefur borgurum gengið misvel að koma málum sínum. Traust á borgarstjórn sem er afar lítið endurspeglar þetta. Stefnan (drögin) eins og hún er lögð upp er kannski meira draumsýn ekki nema tekið verði rækilega til hendinni. Lýðræði þarf að færa á hærra plan þannig að aldrei verði pukrast með hvort heldur skýrslur eða úttektir. Of oft er reynt að setja einstaklinga undir sama hatt eins og t.d. er börnum með ólíkar þarfir og sérþarfir  ætlað að stunda nám í skóla án aðgreiningar sem er vanbúinn og öllu er ætlað að eiga samskipti með rafrænum hætti.  Komið er inn á mannauðsmál á stefnunni. Þau þarf að skoða rækilega á t.d.  á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Þar hefur fólk verið rekið umvörpum.

Bókun Flokks fólksins við  tillögu stýrihóps um innleiðingu íbúaráða:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að rétt sé að það tekur tíma að þróa starf íbúaráðanna bæði innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar og meðal íbúa í hverfum. Margar af tillögum stýrihópsins eru ágætar. Stýrihópurinn leggur til að íbúaráði Miðborgar og Hlíða verði skipt í tvö íbúaráð. Sama ætti að gilda um Breiðholtið sem er stórt hverfi, eiginlega þrjú hverfi. Þessi breyting ætti að gerast strax og prófa hana út kjörtímabilið og má þá endurskoða hana við upphaf næsta tímabils. Vandi íbúaráðanna er hversu pólitísk þau eru. Meirihlutinn í þeim, hinn pólitíski yfirskyggir án efa oft skoðanir minnihluta og borgarbúa. Meirihlutinn hefur oft sínu fram í krafti valds.  Hugsa þarf íbúaráðin sem rödd borgarbúa og þurfa ráðin að hlusta á íbúana og taka mál inn á fundina sem óskað er eftir. Gott er að „ráðin“ fái aukna ábyrgð við mótun nærþjónustu. Íbúaráð ættu að  taka afstöðu til flestra stærri mála sem hverfin snerta og má ímynda sér að meirihluti íbúaráðs hafi endanlegt úrslitavald í sumum málum. Ekki ætti að setja íbúaráðum stífar og ítarlegar reglur. Íbúaráðin eru nefnd sem samskiptaleið í drögum um lýðræðisstefnu þannig að það er mikilvægt að þau virki sem slík.

Bókun Flokks fólksins við Erindi íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis, varðandi gönguljós yfir Kringlumýrarbraut við Listabraut:

Lagt er fram bréf íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis varðandi tímalengd gönguljósa yfir Kringlumýrarbraut við Listabraut. Fram kemur að gönguljósin við Kringlumýrarbraut loga það stutt að fáir komast yfir veginn á meðan þau loga. Það er ekki ásættanlegt. Úrbætur ættu að byggjast á því að nýta snjalltækni til að stýra ljósatímanum, svo sem að stýra tímanum í þágu gangandi vegfarenda,  eða að byggja göngbrú yfir götuna. Þessi vandi er víðar en stundum á hinn veginn og má nefna gönguljós  á Miklubraut. Þar er ljósstýring í ólestri. Bílar bíða í margra metra röðum og spúa mengun á meðan rautt ljós logar löngu eftir að vegfarandi hefur þverað  gangbrautina. Stýring umferðarljósa þ.m.t. gangbrautarljósa er þekkt vandamál víða í borginni.
 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skilti á steyptum sökklum í Pósthússtræti:

Svar hefur borist frá umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um skilti á steyptum sökklum í Pósthússtræti. Fram kemur í svari að uppsetning sökklana eru liður í að efla list og menningu í borginni og sé tímabundin aðgerð. Uppsettir kostuðu 10 ljósmyndastandar um 3,3 milljónir króna. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til gagnrýnnar hugsunar og varkárni þegar umhverfi er breytt og möguleikar á nýtingu gatna skertir. Mörgum finnst auk þess af þessu nokkur sjónmengun.

Bókun Flokks fólksins við  svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um Breiðholtsbraut, umsögn:

Svar/umsögn hefur borist við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Breiðholtsbraut en spurt var hvað skipulagsyfirvöld hyggjast gera vegna þróunar umferðarmála á Breiðholtsbraut. Þar er umferð mikil á annatímum og er orðið afar brýnt að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni. Fram kemur í svari ,,að samkvæmt núgildandi fjögurra ára samgönguáætlun 2020 – 2024, eru fyrirhuguð ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg en framkvæmdin er hluti af samgöngusáttmálanum. Aðrar framkvæmdir á Breiðholtsbraut eru ekki fyrirhugaðar á gildistíma áætlunarinnar.”  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta er einfaldlega vondur hluti af sáttmálanum. Vandinn sem spurt var um,  er að leggurinn frá Jafnaseli að Rauðavatni ber ekki nægilega vel þá umferð sem þegar fer þar um. Ný vegamót á Breiðholtsbraut vegna tengingar við Arnarnesveg bæta ekki úr vandanum. Þau auka hann. Hvað ætla skipulagsyfirvöld að gera í þessu?  Nú þegar eru þrengsli og tafir þarna með öllu óþolandi fyrir fólk sem fer þarna um ekki síst í aðdraganda helgar þegar borgarbúar fara úr borginni. Þá er umferðin stappfull lengst niður eftir Breiðholtsbrautinni.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, Húsverndunarsjóður Reykjavíkur, umsögn:

Svar hefur borist við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki sé rétt að tengja hverfisvernd Húsverndarsjóði en með því myndi opnast möguleikar á að vernda ákveðin stíl eða tíðaranda þess tíma þegar hverfið er byggt.

Fram kemur í umsögn að hverfisvernd sem slík sé ekki hlut að stefnu Húsverndarsjóðar en  áhersla er lögð á styrkveitingar til framkvæmda sem miða að því að færa ytra byrði húsa til upprunalegs horfs. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þótt þessi tenging hugnist ekki skipulagsyfirvöldum mætti engu að síður halda hugmyndinni enn á lofti og vinna áfram með hana.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,  um endurbætur á ljósum við gatnamót Breiðholts og Jafnasel.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær skipulagsyfirvöld hyggjast fara í endurbætur á ljósum við gatnamót  Breiðholtsbrautar og Jafnasels. Þau ljós eru í ólestri og má nefna að „græna ljósið“ kemur seint ef nokkurn tímann fyrir gangandi vegfaranda sem ætlar að þvera Breiðholsbrautina jafnvel þótt ýtt sé á hnappinn. Gangandi vegfarendur hafa neyðst til að sæta lagi og fara yfir á rauðu eftir að hafa beðið eftir grænu gönguljósi án árangurs. Ástand sem þetta hefur varað lengi.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,  um Steindórsreitinn og slysahættu þar:

Fyrirspurn um aðstæður við Steindórsreitinn sem er vestast í vesturbænum. Um er að ræða  frágang á athafnasvæði við Steindórsreit. Vakin hefur verið athygli fulltrúa Flokks fólksins á að þar sé slysahætta. Um er að ræða vestast á Sólvallagötunni og vestast á Hringbrautinni við hringtorgið við J.L. húsið.  Kringum Steindórsreit er búið að setja krossviðarplötur yfir gangstéttar sem veldur því að ökumaður sem keyrir vestur eftir Hringbraut og beygir til hægri út á Granda, hægra megin á hringtorginu getur með engu móti séð, gangandi, hjólandi fólk hvorki á vespum né  hlaupahjólum sem fara yfir gangstétt beint séð frá vestri inn á Sólvallagötuna. Þarna hefur orðið slys.

Hvað hyggjast skipulagsyfirvöld gera í þessu máli?

Þarna er búið að byggja stóran grjótgarð, taka gangstéttir í burtu og er aðgengi slæmt. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa haft eftirlit með að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi, þ.m.t. hvort að ásigkomulagi, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar sé ábótavant eða hvort að af henni stafi hætta.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut og þrengsli eftir breytingar á akrein:

Verið er að gera breytingar á  aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg  m.a. er verið að lengja rampa, gera göngustíga, hjólastíga við hlið akreinar.

Verkið skal að fullu lokið 1. október 2021. Áætlaður verktakakostnaður er 91.000.000

Vakin hefur verið athygli fulltrúa Flokks fólksins að þarna stefni í  þrengsli, að jafnvel að óeðlilega þröngt verði milli bíla og hjóla.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort lögum og reglugerðum sem og stöðlum sé fylgt  þegar svona framkvæmd er skipulögð. Hver er breidd hjóla- og göngustíga og akreinar og eru öllum reglum fylgt í þessu ákveðna tilfelli?

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi drasl og óreiðu vegna byggingarframkvæmda í Úlfarársdal:

Enn berast kvartanir frá íbúum í Úlfarsárdal og nú ekki síst vegna seinkunar á byggingarframkvæmdum og kvartanir vegna verkstýringar.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um nokkur verklok.

Sem dæmi átti að ljúka við verk í kringum Dalskóla fyrir mörgum árum. Enn átti að reyna í vor að ljúka verkum í kringum skólann sem nú fyrst er verið að byrja á þegar skólinn er byrjaður. Þeir sem hafa fengið lóðir draga að byggja á þeim eftir því sem næst er komið. Þetta er látið óáreitt af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Hvenær á að ljúka við þau verk sem hér eru nefnd? Af myndum sem okkur hafa verið sendar er ástandið í Úlfarsárdal víða skelfilegt. Um 15 ár er síðan skipulagið var kynnt og átti hverfið að vera sjálfbært. Margt er þarna óklárað. Engin þjónusta hefur orðið til í hverfinu þaðan af síður sjálfbærni, engin atvinnustarfsemi. Finna má tunnur, staura, vírnet við Úlfarsbraut ofan við kennslustofur í kjallara Dalskóla. Þarna má einnig sjá óbyggðar lóðir, ókláraða gangstíga, moldarhauga og drasl á götum.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi fyrirspurn,  vegna sorppoka og hvort rukkað sé fyrir tau og pappírspoka:

Nýtt átak er hjá Sorpu og skal nú allur úrgangur og efni sem komið er með þangað vera í glærum pokum þannig að sjá megi innihaldið. 1. júlí, var bannað að nota svarta plastpoka.

Tilgangurinn með glæru pokunum eins og segir hjá Sorpu er að auka hlutfall úrgangs sem fer í endurvinnslu. Sorpa hefur ákveðið að leggja 500 króna álagsgjald á hvern ógagnsæjan poka sem viðskiptavinir endurvinnslustöðva skila.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt inn fyrirspurn um þetta en ekki fengið svar við. Fyrirspurnin var hvort einnig eigi að leggja gjald á taupoka eða pappírspoka? Eða er hér aðeins átt við plast? Fyrirspurnin er hér með ítrekuð þar sem málið er óljóst. Halda mætti að nú sé einungis hægt að koma með sorp í glærum plastpokum og þar með engri annarri tegund poka. Það skýtur nokkuð skökku við þar sem verið er að reyna að draga úr plasti og nota frekar tau og pappír. Þess vegna er mikilvægt að fá þetta á hreint. Framkvæmdastjóri Sorpu hefur orðað þetta svo að skylda eigi alla til að koma með efnið í glærum plastpokum.

Frestað.