Skipulags- og samgönguráð 13. október 2021

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.1 Háaleiti-Múlar, kynning

Kynnt er hverfisskipulag Háaleitis og Bústaðahverfis. Kynning fylgdi ekki í gögnum. Ótal spurningar vakna við glærukynninguna en ekki er mikið um upplýsingar, meira vangaveltur. Fulltrúi Flokks fólksins spyr um hver sé áætluð fjölgun íbúa í þessum hverfum. Heimild er fyrir að fólk byggi við hús sín og á lóðum sínum en rennt er blint í sjóinn með hver sú fjölgun geti orðið. Hvað með atvinnutækifæri í hverfi, hvað með umferðarmál?
Talað er um deilibílastæði en engin önnur bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr um skólamálin. Hvernig á að stækka leikskóla og skóla en engin svör eru við því á þessu stigi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um samráðsfund vegna skipulagshugmynda við Arnarbakka, umsögn

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um samráðsfund vegna skipulagshugmynda við Arnarbakka. Samráð var vissulega viðhaft um breytingar við Arnarbakka og tekið tillit til athugasemda. Gagnrýna má að forkynningar hafi ekki verið nægilega vel kynntar og því fáar athugasemdir borist. Til þess að samráðsferli geti kallast samráðsferli verða upplýsingar um að boðið sé til samráðs að skila sér til íbúa. Það virðist hafa mistekist í þessu tilfelli.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sálfstæðisflokksins, um rafknúin farartæki í miðborg:

Tillaga Sjálfstæðisflokks snýr að því að umhverfis- og skipulagssvið bjóði út rekstur smárra rafknúinna farartækja sem gætu ferjað viðskiptavini frá bílahúsum að verslun og þjónustu í miðborg. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort hér sé verið að tala um að einhver sé á staðnum, þar sem viðkomandi skilur við bíl sinn, og ferjar hann eitthvað annað? Er hér átt við litla rafknúna vagna eða opin farartæki svo sem rafskutlur? Eins er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið hlutist til um gott aðgengi að reiðhjólum, rafskútum og öðrum sambærilegum farartækjum nærri bílahúsunum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sé viðkomandi með hjólastól í bílnum eða rafskútu þá er það varla mál borgarinnar. En tekið er undir að lítið mál ætti að vera fyrir borgina að setja upp stöðvar fyrir rafskreppur/ hlaupahjól sem allra víðast.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvenær könnun Maskínu var keypt:

Í svari kemur fram að Reykjavíkurborg óskaði ekki sérstaklega eftir að Maskína gerði könnun á ferðavenjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, heldur hefur fyrirtækið gert þær að eigin frumkvæði undanfarin ár. Í ár bauð Maskína borginni að kaupa niðurstöður könnunarinnar eins og segir í gögnum, sérstaklega flokkaðar m.a. m.t.t. hverfaskiptingar Reykjavíkur. Kostnaður var 290.000 kr. Spurning er hér hvort borgin keypti þessa könnun fyrir eða eftir að niðurstöður lágu fyrir?

Það sem könnunin sýndi niðurstöður sem ekki hentar stefnu og væntingum meirihlutans má ætla að gengið hafi verið frá kaupunum áður en niðurstöður lágu fyrir. Um þetta mun fulltrúi Flokks fólksins vilja senda inn sérstaka fyrirspurn. Það er ljóst að mati Flokks fólksins að skipulagráðs freistar einskis til að fá „staðfestingar“ á að notkun einkabílsins sé að dala. Það lítur út fyrir að vera óskhyggja samkvæmt þessari könnun sem sýnir að notkun einkabílsins er að aukast.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um úttekt á aðgengi gönguþverunum hjá Hörpu:

Fyrirspurn í tengslum við tillögu meirihlutans að gera úttekt á aðgengi á gönguþverunum í borginni. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja hvort búið sé að stilla gönguljósin móts við Hörpu sem loguðu án tilltis til hvort einhver hafði ýtt á gönguljósahnappinn?

Flokkur fólksins lagði til árið 2020 að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn. Ekki er vitað um afdrif þeirrar tillögu.

Í greinargerði með tillögunni kom fram sú ábendinga að þessi ljós ættu að vera í samhengi við ljósin á undan, ásamt gönguljósunum, en það virtist ekki vera og þess vegna myndast raðir að óþörfu. Um 40 metrum eftir gatnamótin frá Hörpu eru tvær gönguþveranir norðan megin götunnar, sem sameinast í eina við Seðlabankann. Önnur er án ljósa en hin með gönguljósum, þar sem er rofabox fyrir gangandi til að kalla fram skiptingu.

Síðari gönguþverunin með ljósastýringunni var lokuð með steinagirðingu og gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Á þessum ljósum hlýtur að þurfa að slökkva og kannski er búið að því

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um sjálfbærni í Úlfarsárdal

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir því með ákveðnari hætti að gera Úlfarsárdal sjálfbært hverfi eins og til stóð að það yrði og lofað var.

Óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal nú í september 2021 eru um 40 en hverfið er 15 ára. Í hverfinu eru engar verslanir og hverfið engan vegin sjálfbært. Íbúar verða að aka í Grafarholt eftir allri þjónustu og vistum, nema þá vanti byggingarefni sem hægt er að sækja í Bauhaus.

Lofað var að hverfið yrði sjálfbært. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér í þessum efnum. Í hverfinu er ekki einu sinni að finna bakarí, ísbúð, kaffihús eða hvað þá veitingastað.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um hreinsun í Úlfarsárdal:

Tillaga Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld gerir skurk með öllum ráðum og dáðum að tekið verði til í Úlfarsárdal n.t.t. við og í kringum Úlfarsársbraut þar sem finna má byggingarefni liggja eins og hráviði.

Enn berast borgarfulltrúum myndir af óreiðu og drasli einna helst byggingarefni við Úlfarsárbraut. Af þessu er mikil sjónmengun og hætta stafar af sumum efnum og aðstæðum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagssvið láti fara fram allsherjar tiltekt í hverfinu. Reykjavíkurborg/skipulagssvið getur varla verið að sinna skyldum sínum í skilmálaeftirliti og eftirfylgni víst ástandið er svo slæmt þarna sem raun ber vitni.

Skoða þarf það sérstaklega.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.

 Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um samráðsferli við börn þegar verið er að skipuleggja hverfi:

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins að haft verði sérstakt samráð við börn og unglinga í samráðsferli hverfisskipulags.

Börn fara um hverfið sitt, þekkja það og stunda ýmsa afþreyingu þar utan skóla.

Umhverfið og skipulag hverfis skiptir börn miklu máli og á því skilyrðislaust að hafa sérstakt samráð við þau eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og gefur tilefni til.

Hvað þau hafa að segja um samgöngur, græn svæði, umferðina og göngu- og hjólastíga er dæmi um samráð sem hafa skal við börn og unglinga. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.

Frestað.