Borgarráð 30. september 2021

Álit fulltrúa Flokks fólksins vegna heimildar byggingarréttar lóðarinnar Frakkastígur 1:

Turn upp á 7 hæðir mun loka á útsýni í báðar áttir. Þessi ákvörðun skerðir útsýni og græn svæði.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að að taka þátt í stuðningsverkefni vegna innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í íslenskum sveitarfélögum:

Borgarstjóri leggur til að borgarráð samþykki að taka þátt í stuðningsverkefni vegna innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í íslenskum sveitarfélögum og tilnefni tvo fulltrúa til að bera ábyrgð á innleiðingarvinnunni. Flokkur fólksins lagði til árið 2019 að Reykjavíkurborg innleiddi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína með formlegum hætti en tillagan var felld, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur sátu hjá. Nú skyndilega hugnast meirihlutanum að leggja þetta sjálfur til. Af hverju? Þótti þessi tillaga Flokks fólksins ekki tímabær árið 2019? Margar tillögur Flokks fólksins hefur meirihlutinn vísað frá eða fellt sem hann síðar leggur síðan sjálfur fram. Þetta er ein af þeim. Fulltrúa Flokks fólksins þótti miður að þessari tillögu var hent árið 2019. Í tillögu Flokks fólksins var lögð áhersla á yngstu börnin enda mikilvægt að byrja snemma að ræða heimsmarkmiðin við þau þar sem líklegt er að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Óhætt er að segja að þessi meirihluti í borgarstjórn er afar seinn að taka við mikilvægum málum og hann hefði verið farsælli ef hann hefði í ríkari mæli meðtekið mál sem minnihlutinn leggur fram.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. september 2021, þar sem óskað er eftir að leigusamningur um atvinnuhúsnæði í Víkurhvarfi 1 verði samþykktur:

Leiga fyrir Listasafn Reykjavíkur. Sé þetta hagstæðasta tilboðið verður svo að vera, en þetta er ekki lág leiga: Leigugjaldið er 1.452.700 krónur á mánuði fyrir 730 fermetra

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. september 2021, varðandi tillögur valnefndar fjárfestinga um fjármögnun grænna framkvæmda með grænum skuldabréfum:

Sjálfsagt er að koma með fjármögnun grænna fjárfestinga með grænum skuldabréfum. Fulltrúi Flokks fólksins kallar engu að síður eftir meiri samkvæmni hjá borgarmeirihlutanum í umræðu um græn mál. Segir í meðfylgjandi gögnum að „Reykjavíkurborg hafi markað sér þá stefnu að verða kolefnishlutlaus borg fyrir árið 2040. Græna planið byggir á sjálfbærni og framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag.“ Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að hér er ekki allt gott og sóknarfæri eru lítt nýtt. Nefna má Úlfarsárdal, 15 ára hverfi sem til stóð að yrði sjálfbært. Ekki er vísir að neinni sjálfbærni enn þá í því hverfi. Fleira mætti telja, t.d. að ekkert er að gerast að heitið geti í nýtingu metans sem er orkugjafi sem nú er sóað. Fram kemur hjá meirihlutanum að græna netið hefur það að markmiði að fjölga gróðursetningu á trjágróðri og fjölæringum á opnum svæðum og með fram helstu hjóla- og gönguleiðum. Þar er sagt að verkefnið uppfylli stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika og markmið í græna planinu. En hvað átt er við með líffræðilegum fjölbreytileika er með öllu óljóst hvað þá hvernig sá fjölbreytileiki tengist kolefnisbindingu? Skógrækt er vissulega kolefnisbinding. Hægt væri t.d. að planta trjám frá Reykjavík og upp að rótum Hengils og Bláfjalla.

 

Bókun Flokks fólksins við trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-júlí 2021, dags. 28. september 2021:

Til umræðu eru nokkur verkefni sem falla undir græna planið. Reykjavíkurborg hefur markað sér þá stefnu að verða kolefnishlutlaus borg fyrir árið 2040 og var Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum 2021-2025 samþykkt. Græna planið er til 10 ára og á að byggja á sjálfbærni og framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag. Hér er ekki allt gott og sóknarfæri eru lítt nýtt. Ekkert á að gerast að heitið geti í nýtingu metans sem er orkugjafi sem nú er sóað. Græna netið hefur það að markmiði að fjölga gróðursetningum á trjágróðri og fjölæringum á opnum svæðum og meðfram helstu hjóla- og gönguleiðum. Þar er sagt að verkefnið uppfylli stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika og markmið í græna planinu. Ávinningur er reiknaður sem kolefnisbinding m.v. fjölda trjáa eða m3 af trjám eða tegund gróðurs. Hvað er átt við þegar talað er um líffræðilegan fjölbreytileika og hvað kemur hann kolefnisbindingu við? Óskað hefur verið eftir skilgreiningum á hvernig hugtakið líffræðilegur fjölbreytileiki er notað í borgarkerfinu og hjá þeim verkfræðistofum sem borgin skiptir við. Skógrækt er sögð vera kolefnisbinding, sem er rétt, en það sem á að gera er skiptir ekki sköpum. Hægt væri t.d að planta trjám frá Reykjavík og upp að rótum Hengils og Bláfjalla.

 

MEÐHÖNDLUN Á FJÁRHEIMILDUM VEGNA EDDU:

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. september 2021, ásamt fylgiskjölum:

Lagðar er fram eftirfarandi tillögur til samþykktar í borgarráði um fjármál og rekstur á skóla- og frístundasviði: 1.
Lagt er fram til samþykktar líkan til úthlutunar á fjárheimildum til grunnskóla Reykjavíkurborgar, Grunnskólalíkanið Edda, sbr. kynning í borgarráði dags. 9. sept. 2021 og skóla- og frístundaráði 14. september 2021. 2.
Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2022 hækki um 1.546 m.kr. sem felur í sér fulla fjármögnun á áætluðum rekstri grunnskóla Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 skv. líkaninu og forsendum þess. 3.
Lagt til að reynslutímabil líkansins verði til tveggja ára eða rekstrartímabilið 1. jan. 2022 – 31. des. 2023. Áhersla verði lögð að grunnskólar Reykjavíkur sem fá úthlutað fjármagni með hliðsjón af forsendum reiknilíkansins hagi rekstri innan fjárheimilda og í jafnvægi á tímabilinu. Takist það er lagt til að litið verði framhjá útgjöldum ársins 2021 sem eru umfram fjárheimildir og ekki hægt að rekja til óhagstæðra ytri skilyrða sbr. reglur Reykjavíkurborgar um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar. Að öðrum kosti taki stofnanir með sér halla sem er utan óhagstæðra ytri skilyrða árið 2021 yfir á árið 2024.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Edda, nýtt úthlutunarlíkan grunnskóla er stórt framfaraskref og mikið fagnaðarefni. Það snýst um að auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og jafnræði milli skóla og hverfa. Dregið er úr aðstöðumun á milli skóla og verður úthlutun á hvert barn því réttlátari og eykur jöfnuð. Líkanið mun einnig efla faglegt frelsi og ábyrgð skólastjórnenda. Lagt er til að vísa til fjárhagsáætlunar að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2022 hækki um 1.546 m.kr. sem felur í sér fulla fjármögnun á áætluðum rekstri grunnskóla borgarinnar skv. líkaninu. Áhersla verður lögð á að grunnskólar Reykjavíkur sem fá úthlutað fjármagni með hliðsjón af líkaninu, hagi rekstri innan fjárheimilda á næstu tveim árum, sem verður reynslutímabil líkansins.

 

Edda. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Kostnaður við rekstur grunnskóla hefur ítrekað farið fram úr fjárheimildum. Núverandi áætlanagerð hefur engan veginn gengið sem skyldi. Það er því ljóst að breyta þarf áætlanagerð og valdefla skólastjórnendur. Það er því jákvætt að nú hefur verið farið í ítarlega vinnu við að stokka upp núverandi kerfi. Gæta þarf að því að skólahúsnæði sé heilsusamlegt og viðhaldi sé sinnt. Þá er mikilvægt að grípa snemma inn í og reglulega svo sem vegna ÍSAT nemenda. Ef rétt er á innleiðingu haldið á áætlanagerð að vera áreiðanlegri og með því ætti að vera hægt að vinna að raunverulegri hagræðingu í rekstri og bættri meðferð fjármuna sem nýtast þá betur í þjónustu við nemendur. Rétt er að fara yfir forsendur að nýju áður en fjárhagsáætlun er lögð fram.

 

Edda Bókun Flokks fólksins við reglur um rekstur Grunnskólalíkansins Eddu, merktar FASSTE-021:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nú sé að koma nýtt og betrumbætt reiknilíkan skólanna. Hið gamla var löngu orðið úrelt og plástrað eins og fram kom í skýrslu innri endurskoðunar um rekstur grunnskólanna. Einn starfsmaður kunni á líkanið sem notað var til að úthluta tæpum 35 milljörðum til skólanna. Úthlutun fjármagns var í sumum tilfellum byggð á kolröngum forsendum. Það sætir furðu að gamalt, úrelt excel-vinnuskjal hafi lifað svo lengi og fengið að valda svo miklum usla. Gera má ráð fyrir að hafi ekki skýrsla innri endurskoðunar verið með svo afgerandi álit þá væri hið plástraða skjal enn aðalleiðarljós skóla- og frístundasviðs við útdeilingu fjármuna til skóla. Fram hefur komið að við úthlutun fjármagns í framtíðinni á að draga enn meira úr greiningum. Síðustu ár hafa mörg börn með röskun, jafnvel með hamlandi einkenni röskunar útskrifast úr grunnskóla án þess að fá þjónustu fagaðila en á biðlista eru nú tæp 1.500 börn. Ef barn með hamlandi einkenni ADHD fær ekki greiningu með tilheyrandi eftirfylgni er það að glíma við afleiðingar kannski alla ævi. Sjálfsmat brotnar enda barnið sífellt að rekast á veggi. Nú er margra ára bið hjá ADHD teymi Landspítala, einstaklingar sem fengu ekki greiningu í grunnskóla.

 

Flokkur fólksins bókaði ekki hér:
Jafnlaunastofa
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. september 2021, ásamt fylgiskjölum:

Lagt er til að borgarráð samþykki að setja á fót sjálfstæða starfseiningu á sviði jafnlaunamála, Jafnlaunastofu, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnlaunastofa verði sameignarfélag í eigu Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafi m.a. það hlutverk að styðja stjórnendur sveitarfélaga við að uppfylla jafnlaunaákvæði jafnréttislaga með ráðgjöf og fræðslu á sviði jafnlaunamála. Samhliða flyst verkefnastofa starfsmats yfir á Jafnlaunastofu með samningi þar að lútandi. Starfseiningin verði fjármögnuð af Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Um er að ræða tilfærslu fjárheimilda af mannauðs- og starfsumhverfissviði og því ekki þörf auknum fjárheimildum vegna þessa

 

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 22. september 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu, í samstarfi við skóla- og frístundasvið, að ráðstafa áætluðu fjármagni að upphæð 260 m.kr. í innleiðingu og stuðningi við UT umbreytingu í skóla- og frístundastarfi, ásamt fylgiskjölum:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála öllum uppfærslum á tölvubúnaði í grunnskólum borgarinnar sem auka aðgengi nemenda að nýjustu tækni í skólastarfi. Fram kemur að 260 milljónum verði varið í þessar búnaðaruppfærslur. Það er gott og vel. En eins og svo oft áður í umsýslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á fjármunum sem ætlaðir eru í þágu barna og annarra þjónustuþega hjá Reykjavíkurborg, virðist alltaf stór hluti af því fjármagni sem sviðið meðhöndlar, fara beint í ráðgjafarkaup, nýráðningar starfsfólks til sviðsins sjálfs sem og alls kyns notendatilrauna sem engan endi ætlar að taka. Það gefur auga leið að með þessum starfsháttum skilar fjármagnið sér ekki allt þangað sem það á að fara. Af þeim 260 milljónum sem úthlutað er til uppfærslu tölvubúnaðar í grunnskólum Reykjavíkurborgar fara 160 milljónir í það að ráða inn aukalega 10 sérfræðinga sem eiga að vera tveir saman í hverjum borgarhluta sem og auknum ráðgjafarkaupum, til þess að útvíkka enn frekar vegferð tilraunasmiðja, hugmyndavinnu hvers lags og notendarannsókna sem af einhverjum ástæðum virðist vera orðin þungamiðja í í allri starfsemi þessa sviðs. Einnig er sviðið búið að vera á fullri ferð að útvista allri grunntölvuþjónustu en innvista hugbúnaðarframleiðslu sem virðist oft vera algjörlega á skjön við það sem fagaðilar hérlendis eru að mæla með.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að samþykkja samstarfssamning Bloomberg Philanthropic við Reykjavíkurborg um stafræna vegferð Reykjavíkurborgar til þriggja ára.

Verði þjónustu- og nýsköpunarsviði falin framkvæmd samningsins, að andvirði 2,3 milljónir bandaríkjadala, en hann felur meðal annars í sér ráðningu fimm starfsmanna á tímabilinu. Vísað er til minnisblaðs þess efnis, dagsett þann 1. júlí 2021:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka það fram að auðvitað á Reykjavíkurborg að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Um það er ekki deilt. Þetta nýjasta „stafræna útrásarævintýri“ Reykjavíkurborgar með þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) við stjórnvölinn þarf ekki að koma á óvart. Reykjavíkurborg/ÞON hefur af einhverjum ástæðum verið að sækjast eftir þessu og er nú komin í samflot með borgum eins og Bógóta í Kólumbíu og Mexico City sem eru borgir sem Reykjavíkurborg er nú ansi fjarri á flestum sviðum. Þarna kemur fram að „Reykjavíkurborg muni njóta ráðgjafar færustu sérfræðinga víða um heim í þessari vegferð í gegnum Bloomberg Philanthropies“. Þjónustu og nýsköpunarsvið er búið að eyða hundruðum milljóna undanfarin ár í allskyns ráðgjafarkaup innlendra sem erlendra fyrirtækja og m.a. keypt ráðgjöf af Gartner Group á Írlandi í heilan áratug fyrir háar fjárhæðir. Það er því alveg farið að verða spurning hvenær borgin með ÞON í fararbroddi klári að kaupa sér alla þá þekkingu og ráðgjöf sem hana greinilega vantar. Það hlýtur að vera komið að því að öll þessi gríðarlegu ráðgjafarkaup fari að skarast. Hætta er á því að þessi fjöldi erlendra ráðgjafa hverjir með sínar áherslur fari að flækja málin frekar en hitt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  Samtaka sveitarfélaga, dags. 9. ágúst 2021, þar er óskað er samþykktar borgarráðs á starfsreglum svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins og á drögum að nýju samkomulagi sveitarfélaganna um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins:

Borgarbúar hafa orðið varir við að samkrull er með byggðasamlögum. Er ekki æskilegt að enda ólýðræðislegt fyrirkomulag? Hér er á ferðinni byggðasamlag þar sem Reykvíkingar borga mest en hafa lítil áhrif. Þetta hefur oft verið rætt og unnið hefur verið að breytingum sem ekki láta frekar á sér kræla. Að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal hvert sveitarfélag skipa tvo fulltrúa og tvo til vara í svæðisskipulagsnefnd en árlegur kostnaður vegna starfa nefndarinnar skiptist milli sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember næstliðins árs. Leitast skal við að ná samkomulagi um sem flestar ákvarðanir en takist það ekki ræður afl atkvæða. En í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gengið út frá því að höfuðborgarsvæðið sé eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður, með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir, útmörk, landslag og náttúru. Væri ekki miklu lýðræðislegra að sameinast í eitt sveitarfélag. Svona samkrull hindrar það í rauninni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. júní 2021, þar sem óskað er samþykktar borgarráðs á viðaukum við stofnsamninga SORPU bs. og Strætó bs. Einnig er óskað eftir því að borgarráð tilnefni fulltrúa í stefnuráð byggðasamlaganna:

Engar lagalegar hindranir eru fyrir „stefnuráðinu“ eins og fram kemur í gögnum en verið er að undirbúa upphaf „stefnuráðs í byggðasamlögum Strætó bs. og Sorpu bs. í samræmi við tillögur starfshóps kjörinna fulltrúa um stjórnsýslu byggðasamlaga. Gera má ráð fyrir að tilkoma stefnuráðs eins og það er skilgreint verði til bóta til að vinna í því að sníða af bs kerfum helstu galla. Engar grundvallar breytingar eru í farvatninu. Áfram verður aðkoma minnihlutafulltrúa ábótavant þótt rætt sé um að hún verði meiri þannig að þeim sé haldið betur upplýstum. Halli milli kjósenda eftir því hvar þeir búa er mikill. Ef horft er til kjósenda þá eru tengslin lítil. Þetta er eðli kerfisins frekar en vilji stjórnarmanna. Kjósendur og minnihlutaflokkar þurfa að geta haft alvöru áhrif. Í stað bs. kerfis gætu komið samningar um einstök verkefni, ef það er hagkvæmt. Auðvitað geta sveitarfélögin sjálf ákveðið baklandið. Ef ef sveitarfélög eiga sjálf að ráða hvernig baklandið er, þá getur bakland orðið mismunandi eftir sveitarfélagi? Kannski er ekki skynsamlegt að setja þetta í hendur sveitarfélagsins sjálfs? Meirihlutinn hverju sinni vill sennilega aldrei sjá að minnihlutinn komist til neinna áhrifa. Ef þörf er á byggðasamlögum er miklu einfaldara að sameina sveitarfélögin. Byggðasamlög tefja iðulega alla þróun.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um flækjustig í útboðsmálum, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. ágúst 2021:

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um flækjustig í útboðsmálum er lagt fram. Fram kemur að símenntun og skipuleg fræðsla er í gangi. Eitthvað virðist vanta upp á gæði fræðslunnar því að mislukkuð útboð er tíð og verulegur kostnaður fellur á borgina af þeim sökum. Flokkur fólksins hvetur til að úr því verði bætt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. september 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um riftingu á samningum vegna forsendubrests eða vanefnda styrkþega, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021:

 

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu mörgum samningum hefur verið rift sl. 3 ár vegna forsendubrests eða vanefnda af hálfu styrkþega? Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjórnar kemur fram að ekki hafi komið til riftunar á samningum vegna styrkja sem veittir eru af borgarráði. Þá hefur engum samningum verið rift vegna styrkja hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu né á velferðarsviði. Hjá íþrótta- og tómstundasviði hefur greiðslum verið haldið eftir í nokkrum tilvikum þar sem gögn bárust ekki frá styrkþegum samkvæmt samningi eða voru ekki fullnægjandi og eru 5 aðilar nafngreindir í svarinu. Hins vegar kemur fram að hjá skóla- og frístundasviði eru það 53 aðilar sem fengu styrk en sem ekki skiluðu skýrslu. Engar lokaupplýsingar liggja sem sagt fyrir um hvernig þessi 53 aðilar nýttu styrkina. Má því ekki segja að um sé að ræða tapað fé? Fulltrúi Flokks fólksins telur að bæta þurfi reglur um styrkveitingar enn frekar þannig að meirihluti styrksins sé ekki greiddur fyrr en lokaskýrslu hefur verið skilað.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um störf aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. október 2020. Einnig lögð fram umsögn aðgengis- og samráðsnefndar, dags. 21. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan. Einnig hvernig mál eru afgreidd í nefndinni og hvaða áhrif þau hafi á áætlanir í borgarkerfinu. Tillagan er lögð fram í ljósi þess að stundum finnst fulltrúa Flokks fólksins sem nefndin hafi mátt berjast af meiri krafti fyrir réttindum þess hóps sem henni er gert að standa vörð um. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir að nefndin sem fær tillöguna til umsagnar geti ekki tekið afstöðu til þess hvort gera skuli úttekt á starfi nefndarinnar. Ekki er hægt að gera úttekt á „sjálfri“ sér. Meirihlutinn í Reykjavík á meirihluta í nefndinni og stýrir þar að leiðandi ferð, beint eða óbeint, leynt og ljóst. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá skipulag nefndarinnar öðruvísi, að hún sé einungis skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sem sjálfir hafa fjölbreyttar aðgengisþarfir. Nefndin þyrfti að vera frjáls og óháð pólitískum hræringum og fengi álit hennar, bókanir og tillögur þá fullt vægi. Borgarstjórn ætti svo að fylgja tillögum nefndarinnar eftir fremsta megni.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 7 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 16. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar og hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem og í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er skýrt kveðið á um samráð við fatlað fólk. Reykjavíkurborg hefur sett á laggirnar sérstaka aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík sem einblína á einmitt á samráðsþáttinn. Þrátt fyrir belti og axlabönd í þessum efnum kvarta notendur yfir samráðsleysi og ekki síst upplýsingaskorti. Taka má sem dæmi að enn er hópur fólks sem ekki notar tölvur, er ekki með net og nýtir sér því ekki rafrænar lausnir sem reyndar eru ekki margar í Reykjavík enn sem komið er. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að nefndir og ráð sem standa eiga vörð um minnihlutahópa þurfi að stíga enn sterkar fram fyrir réttlæti þeim til handa. Til þess þurfa þær ákveðið sjálfstæði og geta tekið ákvarðanir út frá hagsmunum þess hóps sem standa á vörð um án þess að þurfa að lúta pólitísku meirihlutavaldi hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 5 í fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 20. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði lagði fram tvö mál sem tengjast Úlfarsárdal á fundi ráðsins þann 29. september 2021 Hið fyrra: Tillaga Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld gerir skurk með öllum ráðum og dáðum að tekið verði til í Úlfarsárdal. Í kringum Úlfarsársbraut má finna byggingarefni liggja eins og hráviði. Enn berast borgarfulltrúum myndir af óreiðu og drasli, mest byggingarefni við Úlfarsárbraut. Þetta er ekki fallegt og hætta stafar af sumum efnum og aðstæðum. Reykjavíkurborg/skipulagssvið getur varla verið að sinna skyldum sínum í skilmálaeftirliti og eftirfylgni þar sem ástandið er eins slæmt þarna sem raun ber vitni. Hið síðara: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir því með ákveðnari hætti að gera Úlfarsárdal sjálfbært hverfi eins og til stóð að það yrði og lofað var. Í hverfinu eru engar verslanir og hverfið engan vegin sjálfbært. Íbúar verða að aka í Grafarholt eftir allri þjónustu og vistum, nema þá vanti byggingarefni sem hægt er að sækja í Bauhaus. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér í þessum efnum. Í hverfinu er ekki einu sinni að finna bakarí, ísbúð, kaffihús eða hvað þá veitingastað.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 6 við fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 13. september 2021:

Svo virðist sem framkvæmd vegna lausra kennslustofa við Laugalækjaskóla ætli að dragast von úr viti, jafnvel fram yfir áramót. Þessi töf hefur mikil áhrif á skólastarf og hefur sem dæmi þurft að fækka um einn bekk hjá elsta árganginum. Hvað veldur þessari töf er ekki skýrt.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 20. september 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að til sé úrræði fyrir gerendur kynferðisbrota. Margir gerendur hafa í síðustu Metoo-bylgju stigið fram og viljað axla ábyrgð á hegðun sinni og samhliða óskað eftir sérfræðiaðstoð. Úrræðið „taktu skrefið“ er þarft og mikilvægt að það fari af stað. Til þess þarf fjármagn til að hægt sé að kynna úrræðið vel og að þróa áfram leiðir til að aðstoða gerendur ofbeldis. Taktu skrefið er hópur sálfræðinga með sérþekkingu á þessu sviði. Þar geta börn, ungmenni og fullorðnir fengið aðstoð. Það sem veldur fulltrúa Flokks fólksins áhyggjum er að þjónustan er ekki gjaldfrjáls. Flest stéttarfélög niðurgreiða þó sálfræðiþjónustu en þó aðeins upp að vissu marki. Strax er því fyrirsjáanlegt að þeir sem berjast í bökkum fjárhagslega munu síður sækja sér aðstoð í þessu úrræði. Ekki allir eru heldur í stéttarfélagi. Margir gerendur upplifa skömm vegna hegðunar sinnar og líður því kannski illa með að sækja um styrki t.d. hjá félagsþjónustu eða þjónustumiðstöðvum þar sem fylla þarf út eyðublöð með ýmsum persónulegum upplýsingum.

 

Bókun Flokks fólksins við lið um battavöll:

Til stendur að byggja battavöll á Landakotstúni og það var góð hugmynd. Nú er ekki lengur rætt um battavöll heldur almenningsskrúðgarð. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir hvað hugmyndin um byggingu battavallar hefur blásið út með tilheyrandi kostnaði. Fulltrúi Flokks fólksins vill allt gera fyrir börnin en mestu skiptir að þau hafi fæði, klæði og húsnæði og fái nauðsynlega þjónustu. Á meðan langt er í land með að mæta grunnþörfum þúsunda barna og fjölskyldna þeirra hefði kannski góður battavöllur dugað í þessu tilfelli. Á biðlista eftir m.a. sálfræðiþjónustu og talmeinafræðingum bíða nú 1474 börn. Nú hefur bæst við allt mögulegt annað, allskonar skraut sem kostar sitt þegar allt er talið. Heildarkostnaður er 88 milljónir. Skraut er ekki það sem börn sækja sérstaklega í þegar þau velja sér stað til að leika sér á. Horfa má á torgið, nýgerða í Mjódd, með fínum túlípanasætum. Þar situr aldrei neinn en vissulega gleðja litir og skraut augað.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. ágúst 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að verið sé að skoða samninga um sjúkraflutninga og ræða þörfina á endurskoðun á mönnun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna aukins álags í sjúkraflutningum. Kannski þarf að gjörbreyta fyrirkomulaginu þannig að sveitarfélögin losi sig við sjúkraflutningana. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður spurt hvort ekki væri tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum til þess að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Reynt var að rökstyðja þetta fyrirkomulag með því að hægt sé að kalla út marga slökkviliðsmenn. Er það ekki rétt að sumir starfsmenn eru sérhæfðir sjúkraflutningamenn? Sérhæfing þarf að vera og taka þarf mið af því. Viðbragð í slökkviþættinum getur verið takmarkað á sama tíma og álag er á sjúkraflutningum, sem getur kostað mannslíf. Þetta eru tvö aðskilin mikilvæg störf og sjúkraflutningamenn eru heilbrigðisstarfsmenn sem þurfa að getað viðhaldið þekkingu sinni. Undir liðnum önnur mál er ítrekað mikilvægi þess að klára ákvörðunartöku um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í stað Tunguhálsstöðvarinnar í tengslum við uppbyggingu á Arnarnesveginum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta þýði að loka eigi stöðinni á Tunguhálsi? Lengir það ekki útkallstíma á því svæði sem hún hefur sinnt?

 

Bókun Flokks fólksins við lið 16 í  yfirliti um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá svið og ráð vinna betur og meira saman í borginni. Eiginlega heyrir það til undantekninga ef innbyrðis samvinna eigi sér stað í borgarkerfinu. Með þetta í huga lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að ráð borgarinnar, bæði í borgarráði, sem er regnhlífarráð og einnig í mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráði sem fulltrúi Flokks fólksins á sæti í myndu vinna saman að úttekt á fátækt í Reykjavík. Tillögunni er vísað frá í mannréttindaráði með þeim rökum að ekki mætti setja sambærilega tillögu fram í fleiri en einu ráði. Frávísun er byggð á rökum að „tölvan segir nei“. Tillögunni er ætlað að skoða stöðu fátækra sem er stækkandi hópur á viðkvæmum tímum í kjölfar COVID. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af mannréttindaþætti hinna fátæku og þær bágbornu aðstæður sem fátækt fólk býr við. Meirihlutinn þarf að viðurkenna þetta og gera nú nákvæma úttekt sambærilegri og þeirri sem gerð var 2008 en þá skipaði Reykjavík starfshóp um fátækt.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvar kostnaðargreining þriggja möguleika á framtíðarskipulagi skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi er stödd og hvenær er að vænta niðurstöðu hennar?:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvar kostnaðargreining þriggja möguleika á framtíðarskipulagi skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi er stödd og hvenær er að vænta niðurstöðu hennar? Um nokkurra ára skeið hefur verið ljóst að vegna fjölgunar nemenda að farið að þrengja að í skóla- og frístundahúsnæði Laugarnesskóla, Laugarlækjarskóla og Langholtsskóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi í ljósi þessa. Svar við fyrirspurninni barst á fundi skóla- og frístundaráðs 28. september. Í svari kemur fram að í janúar 2021 var samþykkt að setja af stað starfshóp sem hefði það hlutverk að rýna stöðuna í Laugarnes- og Langholtshverfi með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla og frístundastarfs og koma með tillögur um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í hverfinu. Skóla og frístundasvið stýrði hópnum en umhverfis- og skipulagssvið kom líka að vinnunni. Kostnaðargreining þeirra möguleika sem þóttu vænlegastir átti að hefjast á sumarmánuðum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar kostnaðargreiningin er stödd og hvenær er að vænta niðurstöðu. R21090284

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvert sé hlutfall barna í 1.-4. bekk í Reykjavík þar sem notaður er frístundastyrkur þeirra upp í greiðslu fyrir dvöl á frístundaheimili?:  

Hvert er hlutfall barna í 1.-4. bekk í Reykjavík þar sem notaður er frístundastyrkur þeirra upp í greiðslu fyrir dvöl á frístundaheimili? Hversu mörg af þeim börnum eru börn foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð af einhverju tagi. Hversu mörg af þeim börnum eru af erlendu bergi brotin? Til samanburðar, þá var árið 2018 staðan svona: Haustið 2018 voru 6.298 börn í 1.-4. bekk. Frístundastyrkur var nýttur upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra. Þar af eru 82 börn sem eiga foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð af einhverju tagi og 12 börn foreldra með erlent ríkisfang, en upplýsingar um fjölda barna sem eru af erlendu bergi brotin eru ekki til staðar nema í formi ríkisfangs. Spurt er um hver sé staðan núna þ.e. í september 2021? R21090286

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um erlenda ráðgjöf og ráðningu fjölda starfsmanna:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig standi á því að þjónustu og nýsköpunarsvið þurfi á svona gríðarlega mikilli erlendri ráðgjöf að halda við að uppfæra nokkra vefi og tölvubúnað og annað því tengdu í borg sem er jafn lítil og Reykjavík, í erlendum samanburði, er? Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr einnig af hverju þarf sviðið að ráða inn fleiri og fleiri verkefnastjóra og sérfræðinga í hvert sinn sem ný verkefni verða til? Hversu margir verkefnastjórar, forritarar, sérfræðingar, notendarannsóknar aðilar og aðrir aðilar sem koma beint að hugmyndavinnu og hönnun, hefur sviðið verið að ráða inn undanfarin 2 ár? R21090289

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um Hlöðuna:

Ekki hefur enn tekist að innleiða nýja skjalavistunarkerfi Reykjavíkurborgar Hlöðuna. Nú eru orðin meira en 2 ár síðan þetta stóra og dýra kerfi var keypt. Í hinum og þessum kynningum þjónustu- og nýsköpunarsviðs þennan tíma hefur Hlöðunni verið lýst með stóryrðum. Í vor réði sviðið inn enn fleiri sérfræðinga sem m.a. áttu sérstaklega að koma að innleiðingunni á þessu kerfi. Þrátt fyrir það virðist

ekkert bóla á því að kerfið verði tekið í notkun á næstunni. Spurt er hvort skipulagðar prófanir á þessu kerfi og öðrum kerfum sem komu til greina eftir útboð, hafi átt sér stað innan þjónustu- og nýsköpunarsviðs áður en ákveðið var að kaupa þetta kerfi? Var kerfið e.t.v. ekki fullprófað fyrr en eftir að það var keypt? Hvað kostaði þetta kerfi og hvernig er kaupum á þjónustu við kerfið háttað frá söluaðila ef um slíkt er að ræða? Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins vita hversu miklir fjármunir hafa tapast undanfarin tvö ár vegna tafa á innleiðingu? Óskað er eftir að allt sé til tekið t.d. afleiddur kostnaður við vinnu og ráðningar nýs starfsfólks og annarra sérfræðinga sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið að ráða inn eða kaupa vegna þessarar innleiðingar sem og annars kostnaðar sem af þessu hefur leitt. R21090291

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Tillaga Flokks fólksins að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verður lagaður hið fyrsta. Tillagan var ekki tekin nn í borgarráð en mun þess í stað vera lögð fram í skipulags- og samgönguráði

Í mörg ár hefur verið ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins, þar sem umferð upp og niður var stýrt með rauðu og grænu ljósi, þar sem innkeyrslan er einbreið.  Til viðbótar var ljós fyrir ofan með textanum „Fullt“ sem gaf til kynna að engin stæði væru laus og þá var rauða ljósið jafnframt logandi þótt enginn bíll væri að koma á móti.  Nú hefur þetta verið tekið niður og einungis rautt og grænt ljós gefur til kynna hvort umferð sé að koma upp innkeyrsluna.  Þetta er ekki lengur tengt teljara aðgangskerfisins.  Afleiðingin er sú, að bílum er hleypt niður innkeyrsluna, en lokunarsláin opnast ekki ef stæðin eru öll upptekin.  Það gerist einnig þótt einhver stæði séu laus, frátekin fyrir þá sem eru með sérstök kort frá Ráðhúsinu.  Ófremdarástand hefur skapast við þessa breytingu þegar röð af 3-4 bílum eru á leið ofan í kjallarann en sláin lyftist þar sem kjallarinn er fullur. Allir meta það svo að græna ljósið þýði laus pláss og vandræði myndast þegar allir bílar þurfa að bakka aftur upp innkeyrsluna.  Þessu þarf að breyta og setja aftur upp skiltið „Fullt“ ásamt rauða ljósinu sem áður var, þannig að ekki sé ekið niður í bílakjallarann við þessar aðstæður.