Skipulags- og samgönguráð 4. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hringbraut 116, Bykoreitur, breyting á deiliskipulagi:

Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á Byko reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugar að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um Óðinstorg:

Í svari við fyrirspurn um Óðinstorg eru nokkur atriði sem fulltrúi Flokks fólksins rekur augun í. Það er kannski erfitt að gagnrýna verkferilinn og vel kann að vera að allt sé í góðu samræmi við samþykktir. Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir er gríðarmikill, hér er verið að tala um alla vega 331 milljón, upphæð sem nær hátt í kostnað við endurgerð braggans. Flokkur fólksins vill setja stórt spurningarmerki við forgangsröðun hér og finnst hún mjög röng. Varla er það vel ígrundað að setja slíka upphæð í að snyrta eitt torg í bænum þegar hefði verð hægt að nota þetta fjármagn til að fjölga stöðugildum sálfræðinga sem dæmi en um 700 börn bíða eftir ýmis konar þjónustu sérfræðinga skóla. Vissulega eru þau mál ekki á borði skipulags- og samgönguráðs en hér finnst fulltrúa Flokks fólksins að meirihlutinn í borginni raði fólkinu sjálfu og börnunum ekki mjög ofarlega á forgagnslista heldur setja skreytingar gatna og torga í efstu sætin. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr: Af hverju var svo nauðsynlegt að endurnýja þetta svæði umfram annað?

 

Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu tillögu um frí bílastæði í bílastæðahúsum á næturnar:

Flokkur fólksins lagði til að gjaldfrjálst verði að leggja í bílastæðahús á næturnar þar sem bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur en tillagan hefur verið felld í skipulags- og samgönguráði. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Í svari er það staðfest að nýting á nóttinni er lítil og önnur rök eru að ef tillagan verði að veruleika þá muni bílastæðasjóður verða fyrir tekjutapi. Þetta eru sérkennileg rök, „nýting er lítil og óttast er að bílastæðasjóður verði fyrir tekjutapi“. Flokkur fólksins spyr hvernig þetta tvennt fari saman? Spyrja má í framhaldinu, hvað græðir bílastæðasjóður á að hafa nánast tóm bílastæðishús að nóttu til?
Hér er verið að tala um að hafa frítt yfir nóttu og koma þannig á móts við bílastæðavanda. Mörgum íbúðum sem verið er að selja í borginni fylgja ekki bílastæði. Það hefur ákveðinn fælingarmátt. Að bjóða upp á gjaldfrjáls stæði að nóttu er hagur íbúa á svæðinu, það myndi einnig laða fólk frekar að skoða að fjárfesta í íbúðum á svæðinu og breyttir sennilega mjög litlu fyrir bílastæðasjóð. Í svari er tala um vaktþjónustu. Vaktþjónusta er óþarfi, bílastæðahúsunum þarf ekki að læsa yfir nóttu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf um Laugavegur sem göngugötur

Í sáttmála sínum ákvað meirihlutinn sem er með minnihlutaatkvæði að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið. Þessi ákvörðun hefur komið verulega illa við fjölda rekstraraðila og rekstur þeirra á Laugavegi og Skólavörðustíg. Að viðskipti svo fjölmargar ólíkra verslana skyldi hrynja eins og raun bar vitni þegar götum var lokað fyrir umferð var kannski ekki hægt að vita að gerðist með svo afgerandi hætti. Þegar í ljós kom hvert stefndi hefði meirihlutinn átt að staldra við, hlusta á þennan hóp og endurskoða ákvörðun sína í kjölfarið. En í stað þess að staldra við er haldið áfram nánast af þvermóðsku. Það hefði ekki sakað að fara hægar í sakirnar hér þegar í ljós koma hvaða áhrif þessar lokanir höfðu. Að fara á móti straumnum veitir ekki á gott. Það er engin ákvörðun svo heilög að ekki megi endurskoða hana, aðlaga eða breyta tímasetningu hennar. Þetta er spurning um tillitssemi og skilning. Það er barnalegt af meirihlutanum að sveifla rökum eins og „já en þetta stendur í sáttmálanum“ og loka þar með á alla möguleika á að ræða málið með það í huga að mæta betur þörfum og væntingum rekstraraðila.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, í tengslum við endurnýjun Óðinstorgs, Mál nr. US200064

Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju var svo nauðsynlegt að endurnýja þetta Óðinstorg umfram annað torg/svæði í Reykjavík en rúmlega 300 milljónum hefur verið varið í að endurgera Óðinstorg?
Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir svæði sem þarf að endurnýja á næstu árum.
Frestað.