Skipulags- og samgönguráð 15. desember 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Breytingar á gjaldsvæði bílastæða í Reykjavík, tillaga:

Skipulagsyfirvöld leggja til að stækka gjaldsvæði 1 sem er dýrasta gjaldskyldusvæðið. Verið er að þrengja sífellt meira að þeim sem þurfa nota bíl til að fara ferða sinna og eiginlega þykir fulltrúa Flokks fólksins nóg komið af álögum á borgarbúa sem í þessu tilfelli koma verst niður á þeim sem búa fjarri miðbænum og langar að heimsækja miðbæinn endrum og sinnum. Tekið er undir að gott er að koma bílum sem mest af götum en fram kemur í gögnum að bílastæðahúsin eru lítið nýtt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á að margt má gera til að auka nýtingu bílastæðahúsa t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu, aðlaðandi umhverfi og lækka gjaldið. Eldra fólk forðast bílastæðahús.Óttast er að með þessari aðgerð fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólk sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.


Bókun Flokks fólksins við liðnum: Nýtt leiðarnet strætó, kynning

Borgarlína er ekki að koma næstu misseri og þess vegna þarf að leysa brýnustu vandamál á leiðum strætó. Nefna má Norðlingaholtið. Strætó keyrir ekki inn að skólanum en tillaga í Nýju leiðaneti er að breyta því. Ítrekaðar ábendingar og kvartanir hafa verið lagðar fram sem Strætó bs hefur hunsað. Margar snúa að öryggismálum í kringum skólann. Sagt er að þau mál séu komin inn á borð hjá borginni. En er lausn í sjónmáli?
Einnig stendur til að strætó hætti að aka hringinn í Norðlingaholti og að þar verði aðeins ein stoppistöð. Þá verður ansi langt að fyrir þá sem búa fjærst stoppistöðinni að taka strætó. Loks má nefna vanda með tengingar milli Árbæjar og Breiðholts eftir kl. 9 á morgnana. Leið 51 stoppar í Norðlingaholti og keyrir Breiðholtsbraut í Mjódd en hún er ekki á mikilli tíðni. Krakkar sem eru á ferð eftir 9 missa af tengivagni yfir í Breiðholtið og munar nokkrum mínútum. Þetta væri hægt að laga með betri tímastillingu. Almennt er tenging milli þessara stóru hverfa, Árbæ, Grafarholts og Breiðholts slæm en tenging austur, vestur er betri. Ekki er nægilegt að vera með góða tengingu að miðbænum.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga:

Fjallað er um athugasemdir sem komið hafa fram og er þær flestar athugasemdir vegna byggingarmagns, hæð húsa, blandaða byggð svæði fyrir bílastæði.
Skipulagsstofnun telur að skerpa þurfi betur á viðmiðum og reiknireglum um hámarksþéttleika eftir svæðum. En þetta er aðalskipulag, í deiliskipulagi er tekin endanleg ákvörðun um byggingarmagn, hæðir húsa og þéttleika að undangengnu samráðsferli. Þá er aftur komið að samráðsferlisumræðunni sem Flokkur fólksins telur að hefjist of seint í ferlinu. Skipulagsyfirvöld ganga fram án viðhlítandi samráðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um skotveiðisvæðið á Kjalarnesi. Hagsmunum hverra er verið að berjast fyrir í því sambandi? Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst vantar skýr svör. Í 16 ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun sem svæðinu fylgir auk þess sem blý hefur safnast á ströndina og í sjóinn. Aðalskipulaginu var breytt á síðustu stundu, íbúar höfðu ekkert tækifæri til athugasemda og samráð var ekkert. Ýmsum brögðum er beitt, allt til að skotvellirnir geti opnað að nýju. Fjöldi kvartana hafa borist til lögreglu og HER sl. 16 ár. Tveir hópar kærðu útgáfu starfsleyfanna í vor. Nú hafa íbúar og íbúasamtök Kjalarness sent erindin til Skipulagsstofnunar og niðurstaða er: Það er ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að skera hér úr um. Borgin ræður.

Bókun Flokks fólksins við tillögu verkfræðistofunnar Eflu f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga:

Arnarnesvegurinn er afleit framkvæmd og eingöngu gerð til að þjónusta Kópavogsbúa. Eina eðlilega framkvæmdin á þessu svæði er að tvöfalda Breiðholtsbrautina frá Jafnaseli að Rauðavatni. Athyglisvert er að sjá að nú eigi nýr trjágróður að falla að þeirri plöntusamsetningu sem er fyrir í Elliðaárdalnum og val á tegundum skal unnið í samráði við deild Náttúru og garða á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Það stefnir í, samkvæmt fyrri reynslu, að þessi framkvæmd verði sögð auka líffræðilega fjölbreytni. Svo er enn bent á að ekki á að gera nýtt umhverfismat. Útskýrt með því að framkvæmdir við Arnarnesveg hafi í raun byrjað árið 2004 og ákvæði 12. gr. laganna því ekki við í þessu máli og “þar með þurfi ekki að gera nýtt umhverfismat vegna framkvæmdarinnar”. Það er mjög sérkennilegt. Sérstaklega þar sem núverandi borgarstjórn vísar sífellt í mikilvægi verndunar umhverfis og grænna áherslna. Eiga svona glufur í lögunum virkilega að ráða skipulagsstefnu borgarinnar?Umferðarspá um Arnarnesveg er augljóslega röng. Núverandi umferð um Vatnsendaveg er 18.000 bifreiðar, en eingöngu er gert ráð fyrir 13.500 bifreiðum um Arnarnesveg sem verður fjögurra akreina stofnbraut. Getur verið að spáin sé viljandi röng til að komast hjá nýju umhverfismati?

 

Bókun Flokks fólksins við Elliðaárdalur, breyting á deiliskipulagi

Lögð er fram tillaga meirihlutans að breytingu á deiliskipulagi sem er tilkomin vegna vegna fyrirhugaðrar gatnamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar sem verða utan skipulagssvæðis. Arnarnesvegurinn verður til þess að minnka þarf skipulagssvæði Elliðaárdalsins. Með öðrum orðum. Það er verið að ganga á Elliðaárdalinn. Arnarnesvegurinn skiptir ekki aðeins máli fyrir þróunarmöguleika fyrirhugaðs Vetragarðs, umhverfi og þróunarmöguleikum Vatnsendahvarfs heldur líka á efri hluta Elliðaárdals. Samt sem áður má ekki gera nýtt umhverfismat. Hverjir eru hagsmunir borgarinnar?

Bókun Flokks fólksins við Umræða um framlengingu á umsagnar-fresti vegna Hverfisskipulags Háaleitis- og Bústaðahverfis:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar að umsagnarfrestur vegna tillagna um hverfisbreytinga Bústaða- og Háaleitishverfis verði samþykktur og jafnvel að hann verði mun lengri en rætt er um sem er í byrjun janúar. Íbúar í þessu hverfi eru virkilega áhyggjufullir. Þær hugmyndir sem liggja fyrir gefa til kynna að þrengja eigi verulega að þessari gömlu grónu byggð og að Bústaðarvegi. Áður en þessi drög lágu fyrir eða vinnutillögur hefði þurft að hafa meira samráð og samtal við íbúanna. Svokallað samráð hefst of seint í ferlinu. Samráð og samtal þarf að vera frá byrjun. Það er mjög sennilegt að fólk vilji ekki að gengið sé svona langt í þéttingunni og þrengingu að Bústaðavegi. Vissulega má víða þétta en þetta er spurning um hóf og skynsemi og varar fulltrúi Flokks fólksins við að farið sé gegn vilja þorra íbúa í þessum málum. Þá er betra að fara sér hægar enda er hvorki himinn né jörð að farast þótt almennilegur frestur verði veittur til að senda athugasemdir. Spurning er hvort ekki sé eðlilegt og réttlátt gagnvart íbúum að lengja frestinn fram yfir kosningar?

Bókun Flokks fólksins við liðnum umsagnarbeiðni Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 29. nóvember 2021, þar sem óskað er umsagnar skipulags- og samgönguráðs um skýrslu um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur:

Skýrslan gefur mynd af stöðu undirganga undir umferðaræðar. Göng eru alls 51. Fram kemur að víða má bæta úr, svo sem merkingar, lýsingu, göngurampa. Bæta aðstæður þeirra sem eru með sérþarfir, t.d. þeir sem ekki sjá vel eða eiga erfitt um gang. Víða er skortur á almennu viðhaldi. Mörg dæmi eru um að bratti upp úr og ofan í undirgöng er alltof mikill og kemur það sér sérstaklega illa fyrir þá sem nota hjólastóla og auðvitað þá sem eru á hefðbundnu hjóli. Innkoma í göngin eru oft illa merkt, fólk sér ekki auðveldlega hvar á að fara inn. Undirgöng og viðhald þeirra eru kannski þess leg að auðvelt er að gleyma þeim. Fólk fer í gegn en gerir kannski ekki mikið úr því þótt allt sé útkrotað eða sóðalegt. Mikilvægt er að gera einnig úttekt af þessu tagi á vetrartímanum þegar farið er að rökkva því þá sjást aðrir hlutir betur. Fulltrúi Flokks fólksins vill láta skoða hvort setja ætti öryggismyndavélar í undirgöng. Margir eru hræddir við að nota þau en ef myndavélar væru gæti það skapað öryggiskennd. Myndavélar hafa líka fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengismál þriggja hjóla barnavagna, umsögn –

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær. Tillagan er felld og þykir efni hennar greinilega ekki mikilvægt. Hér er um að ræða hverfi sem er að mörgu leyti í miklum ólestri þrátt fyrir að vera orðið 15 ára. Úlfarsárdalur er langt því frá að vera sjálfbær eins og til stóð. Íbúar þurfa að sækja alla vinnu utan hverfis og ná í mjólkurpottinn einnig í næsta hverfi. Samt er þrýst á að þeir leggi bílum sínum og hjóli eða gangi helst allar leiðir. Nú er verið að steypa slóða sem eru gamaldags, oft lagðir í mikla brekkur og þurfa börn að bera hjól sína upp og niður stigana. Einnig eru brautir steyptar þannig að útilokað að fara um þær með þriggja hjóla kerru. Skipulagsyfirvöld borgarinnar verða að fylgjast með nýjungum en verk ganga svo seint að þegar verkin eru loks framkvæmd eru þau úrelt eða gamaldags.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lóðir á Kjalarnesi:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um lóðir á Kjalarnesi. Fulltrúa Flokks fólksins skilst að það hafi verið óskað eftir byggingarleyfum fyrir íbúðasvæði á Kjalarnesi en ekki verið leyft. Einhverjar lóðir eru þar lausar en ekki fengist leyfi. Óskað er eftir upplýsingum um hve mörgum umsóknum hefur verið hafnað um byggingu einbýlis og raðhúsa á Kjalarnesi síðustu misseri. Hafa skal í huga að það vilja ekki allir búa í blokk á þéttingarsvæðum auk þess sem blokkaríbúðir á þéttingarreitum, jafnvel þær minnstu eru dýrar og ekki fyrir námsmenn, fyrstu kaupendur hvað þá efnaminna fólk að fjárfesta í.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skipulagsstafir við Vonarstræti og Lækjargötu

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hverju það sæti að fæst að því sem lagt var upp með á þessu tímabili stenst tímaáætlun. Óskað er eftir að rýnt verði í hvað veldur og fulltrúi Flokks fólksins fái skrifleg svör. Nýlega bárust fregnir að því að Reykjavíkurborg hafi framlengt leyfi til að þrengja að umferð við Lækjargötu og Vonarstræti vegna framkvæmda við byggingu hótels við Lækjargötu 12 fram til 30. apríl 2022. Vestari akrein Lækjargötu var lokað í mars 2019 vegna framkvæmdanna. Þess vegna verða umferð/umferðarþrengingar þarna óbreyttar. Þær aðstæður sem þarna eru skapa slysahættu bæði fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Spurt er hvort ekki megi hagræða á þessu svæði með öðrum hætti þrátt fyrir framkvæmdirnar? Sem dæmi mætti minnka vinnusvæðið til muna. Það hótel sem þarna rís opnar tveimur árum síðar en áætlað var. Kórónuveirufaraldur er sagður ein af ástæðum tafa þrátt fyrir að meirihlutinn lagði mikla áherslu á að hraða skyldi framkvæmdum sem aldrei fyrr til að tryggja atvinnu í COVID.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.