Borgarstjórn 16. nóvember 2021

Borgarstjórn Reykjavíkur

  1. nóvember 2021.

 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á þjónustu- og nýsköpunarsviði.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera svohljóðandi breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu og nýsköpunarsviðs Reykjavíkur:

Nafni sviðsins verði breytt í Upplýsinga- og þjónustusvið Reykjavíkur sem skiptist í eftirfarandi starfseiningar:

  1. Skrifstofa sviðsstjóra: Ber ábyrgð á fjármálum, áætlanagerð og því að markmiðum sviðsins sé náð.
  2. Þjónustuskrifstofa: Þjónustuver Reykjavíkurborgar ásamt einni rafrænni þjónustumiðstöð sem heldur utan um allar rafrænar umsóknir fyrir öll svið og skrifstofur borgarinnar.
    C. Upplýsingatækniskrifstofa: Öll grunntölvuþjónusta, kerfisrekstur (umsjón með verktökum ofl.). Umsjón með stafrænni umbreytingu, vefstjórn og öll innri rafræn þróunarvinna og forritun verða undir þessari skrifstofu og unnir í nánu samstarfi við rafræna þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar.
  3. Gagnaþjónusta: Borgarskjalasafn og öll rafræn gagnavinnsla.

 

Leitað verði eftir auknu samstarfi við Stafrænt Ísland og  island.is um stafræna þróun borgarinnar, innskráningu notenda í gegnum island.is og sameiginleg innkaup á tækjabúnaði og hugbúnaðarleyfum.

Með þessum breytingum verði lögð enn meiri áhersla á  að stafræn umbreyting auðveldi aðgengi borgarbúa að rafrænni þjónustu á vefjum borgarinnar í stað þess að stór hluti fjármagnsins fari í innri umbreytingar á sviðinu sjálfu.

Greinargerð:

 

Í þessum breytingartillögum mun felast sparnaður þar sem Reykjavíkurborg, ríki og sveitarfélög  leggjast á eitt við að veita almenningi sambærilega rafræna þjónustu. Sparnaður felst í því  að fækka skrifstofum og yfirbyggingu sviðsins með því að sameina skrifstofur sem hafa með samþætta upplýsingatækniferla að gera.

Rafræn þjónusta Reykjavíkurborgar er í grunninn ekkert öðruvísi en sú rafræna þjónusta sem aðrir opinberir aðilar eru að veita. Reykjavíkurborg er ekki hugbúnaðarfyrirtæki heldur á að leita samninga við reynslumikil hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði um tilbúnar lausnir og þróun ásamt því að leita formlegs samstarfs við island.is.  með því markmiði að koma eins miklu undir island.is og hægt er.

Þegar farið er yfir verkefnastöðu þjónustu- og nýsköpunarsviðs má glöggt sjá að ekki liggja fyrir skýr verkefnatengd markmið með nákvæmri tíma- og framkvæmdaráætlun. Flest verkefni hafa verið og eru enn í einhvers konar tilrauna- og þróunarfasa eins og verið sé að finna upp hjólið. Samtök iðnaðarins og aðrir fagaðilar hafa bent á að Reykjavíkurborg hefur verið að ráða til sín tugi sérfræðinga með það að markmiði að hefja hugbúnaðarframleiðslu í beinni samkeppni við fyrirtæki á einkamarkaði.

Þær tillögur sem hér eru lagðar fram fela í sér að „notendarannsóknum“ í þeim mæli sem þær hafa verið, verði hætt og Gróðurhúsið og aðrar tilraunasmiðjur með tilheyrandi kostnaði verði lagðar niður. Leitað verður þess í stað til fagaðila sem tækju að sér stutt verkefni um greiningarferla þegar á þarf að halda.

Áralöng hugmynda- og tilraunastarfsemi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið með í gangi undir merkjum Gróðurhússins og annarra verkefnastofa, hefur hvorki skilað afurðum né raunverulegum lausnum til borgarbúa að heitið geti.  Tilraunastarf þarf ekki að vinna þegar lausnir eru til.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að áfram eigi að  nýta þjónustu verktaka á álagspunktum eins og áður en samhliða föstum þjónustukjarna fastra starfsmanna.

Fulltrúa Flokks fólksins hefur þótt ólíðandi að horfa upp á hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar (ÞON) hefur farið með fjármagn borgarbúa í þessa uppgötvunar og tilraunastarfsemi þegar þess hefur ekki þurft.

Stafrænar lausnir eru framtíðin og munu létta mjög á ferlum og flýta fyrir þjónustu. Staðan í Reykjavík er slæm. Það líður varla sú vika að þjónustuþegar kvarta ekki yfir seinagangi í afgreiðslu umsókna hjá borginni. Hvort sem það eru umsóknir tengdar byggingarferli eða útboðsferli þá er umsóknarkerfið hjá borginni þannig að ekki er hægt að senda inn möppur með rafrænum skjölum heldur verður að tína skrárnar inn hverja fyrir sig. Kerfið er því hægt og stirt sem veldur ómældum áhyggjum og álagi hjá umsækjendum og þjónustuþegum.

Svona er staðan þrátt fyrir að að minnsta kosti 3 ár ef ekki meira eru síðan ferlið hófst til að bæta aðgengi að þjónustunni og einfalda ferla.

Það virðist vera sem stór hluti þeirra fjármuna sem úthlutað hefur verið í stafræna umbreytingu, hafi endað inn á sviðinu sjálfu í margvíslegar innri breytingar sem margar hverjar munu í þokkabót þýða enn meiri útgjöld þegar fram líða stundir. Það er hlutverk innri endurskoðunar að fara gaumgæfilega yfir kostnað með framangreinda kostnaðaraukningu í huga.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að sviðið sem er ábyrgt fyrir því hvernig fjármagnið er notað hafi leikið sér með peninga útsvarsgreiðenda. Strax í byrjun hefði átt að leita að lausnum sem þá þegar voru til og farin að virka. Dæmi um það eru „rafrænar undirskriftir“ sem þjónustu- og nýsköpunarsvið er enn með í uppgötvunarfasa og er að fara með í þróunarfasa á meðan lausnin hefur í langan tíma verið til. Hagkvæmast hefði verið að eiga samvinnu við Stafrænt Ísland í upphafi þessarar vegferðar.

Sveitarfélagið Reykjavík hefur enga sérstöðu nema fyrir það helst að vera stærst sveitarfélaga. Það eru sömu þarfir sem þarf að uppfylla hjá notendum og því mikilvægt að koma sér saman um stafrænar lausnir.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta í bráðum eitt ár, með bókunum, blaðaskrifum og fyrirspurnum og lifir enn í þeirri von að dropinn holi steininn. Því miður eru tugir eða hundruðum milljóna flognar út um gluggann í óskilgreinda ráðgjöf frá erlendum og innlendum fyrirtækjum og tilraunaverkefni án skilgreindra markmiða.

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar:

Þegar milljarðarnir (10 á þremur árum) voru samþykktir var ætt af stað í ótal verkefni án þess að ítarlegar framkvæmda- og tímaáætlanir lægju fyrir hvað þá skýr forgangsröðun um hvaða verkefni voru mikilvæg. Um 33 verkefnalausnir liggja fyrir, flestar enn í tilraunafasa. Þriðjungur eru hrein gæluverkefni en mikilvægar lausnir sem starfsmenn og þjónustuþegar bíða eftir eru föst í verkefnahrúgunni. Sviðið hefur í kjölfarið þanist út, ráðið tugi sérfræðinga, sumum nappað beint úr einkageiranum með tilheyrandi yfirboðum á launum. Ómælt fé hefur farið í að „brainstorma“ og í tilraunir í stað þess að leita strax samstarfs við Stafrænt Ísland (SÍ). SÍ hefur það hlutverk að þróa og reka miðlægar lausnir sem gagnast öllum þvert á ríkið og styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum. Búið er að kroppa eitthvað í öll þessi verkefni, þriðjungur þeirra eru ónauðsynleg og hefðu mátt bíða. Kannski tvö eru komin í endanlega virkni. Þjónustu- og nýsköpunarsvið birtir metnaðarfulla mynd af þessu en fátt liggur að baki annað en eyðsla nokkurra milljarða sem farið hafa í tilraunasmiðjur og þenslu. Dæmi um sýndarmennsku er umsókn þjónustu- og nýsköpunarsviðs um að komast í stafræna tilraunasmiðju með Mexíkóborg og Bógóta í Kólumbíu undir forystu Bloomberg í Bandaríkjunum.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar hefur þegar ákveðið að ráðstafa um 10 milljörðum í þágu stafrænnar umbreytingar. Þjónustu- og nýsköpunarsviði hefur verið falið að forgangsraða þeim fjármunum í þágu brýnustu verkefna. Þau verkefni sem sviðið hefur sett af stað og eru í undirbúningi eru framúrskarandi. Þá hefur borgin þegið styrk frá Bloomberg Philantropies sem gefur verkefninu byr undir báða vængi. Stafræn umbreyting snýst ekki bara um tölvur og tölvunarfræðinga heldur einkum að hugsa verkefni og þjónustu upp á nýtt. Ef borgin myndi einfaldlega hverfa frá þeim áherslum líkt og borgarfulltrúinn leggur til, værum við komin aftur á byrjunarreit og þjónusta borgarinnar myndi líða fyrir það.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Enginn er að tala um að hverfa frá stafrænni vegferð. Fulltrúi Flokks fólksins vill að horfið sé frá tilraunum á lausnum sem þegar eru til og útsvarsfé borgarbúa þar með sýnd meiri virðing. Leitað verði eftir auknu samstarfi við Stafrænt Ísland sem hefur það hlutverk að þróa og reka miðlægar lausnir sem gagnast öllum þvert á ríkið og styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga til að tryggja að ekki sé unnið að sambærilegum lausnum á mörgum stöðum

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Kerfið hefur bólgnað mikið út á síðustu árum og ekkert lát er á því. Skipulagsbreytingar hafa snúist um að breyta starfsheitum yfirmanna fremur en stytta boðleiðir og bæta aðgengi fólks að málum.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Æsingurinn í borgarstjóra undir þessum dagskrárlið var eftirtektarverður. Hjólaði hann í tillöguflytjanda persónulega í stað þess að vera á málefnalegum nótum. Bloomberg þarf greinilega sitt. Minnt er á að skrifstofa borgarstjóra hefur ekki enn svarað fyrirspurn frá mér síðan í ágúst á hvaða lagagrunni móttaka 300 milljóna íslenskra króna byggi. Þær eiga að renna í rekstur borgarinnar. Mótframlag útsvarsgreiðenda í Reykjavík er 10.000 milljónir/10 milljarðar í hina svokölluðu „stafrænu umbreytingu Reykjavíkur“. Hvað liggur hér að baki? Hér er ferð án fyrirheits og markmiða.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um almennar aðgerðir menntastefnu Reykjavíkurborgar 2022-2024:

Til að börn geti einbeitt sér að menntun, nýtt greind og styrkleika þarf að fullnægja grunnþörfum. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá borgina hlúa betur að þeim verst settu svo þau börn geti líka látið draumana rætast. Börn frá tekjulægstu heimilunum eiga að fá fríar skólamáltíðir. Einstæðir foreldrar eru oft þeir verst settu. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251 undir 18 ára (2021). Gera má ráð fyrir að allir þeir sem eru með tekjur undir 440.000 kr. á mánuði þurfi að fá sértæka aðstoð til að falla ekki í fátækt. Komið er inn á málþroska og lestrarfærni en ekkert er um hvort verið sé að mæla þetta. Nú er búið að ákveða að einfalda stoðkerfi við börn með sérstakar þarfir og að veita börnum þjónustu í nærumhverfi þeirra. Fagfólk skólaþjónustu er enn staðsett á þjónustumiðstöðvum. Fjölga á fagmenntuðu fólki en vandinn er að erfitt getur reynst að fá fagfólk. Finna þarf leiðir til að laða fólk til starfa hjá Reykjavíkurborg. Talað er um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og við aðrar stofnanir ríkisins og að það skuli eflt. Óljóst er hvort kerfisbundið samstarf er fyrir hendi og ekki kemur fram hvernig það skuli eflt.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um nýtt neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur sem starfrækt yrði samkvæmt skaðaminnkandi nálgun og verði í formi herbergjagistingar:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu og þá helst að setja á stofn neyðarathvarf að fyrirmynd þess sem var í Skipholtinu, en það var opið allan sólarhringinn og með sérherbergjum og baðherbergjum fyrir konurnar sem þangað leituðu. Þar var einnig starfsfólk á vakt allan sólarhringinn konunum til stuðnings. Þetta var gott fyrirkomulag að mati kvennanna sjálfra og starfsfólks.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021:

Stefnan er ágætlega metnaðarfull. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að menning og listir séu í öllum hverfum. Því miður vantar mikið upp á að hægt sé að segja að öll hverfi státi af slíku. Áherslan er að mestu á miðbæinn og nágrenni. Til dæmis ef horft er til hátíða Reykjavíkurborgar, fastra liða svo sem 17. júní, Menningarnætur, aðventunnar og Barnamenningarhátíðar. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir marga í menningargeiranum. Sumum finnst þeir ekki hafa aðgang að tækifærum, þeir útilokaðir eða jaðarsettir. Hvernig á að komast hjá þessu? Allir verða að hafa rödd. Í þessum geira þarf að vera sveigjanleiki og rammar verða að geta færst til án þess að gliðna. Samfélagið er að breytast ört. Þarfir breytast, áhugi fólks breytist, sýn þeirra og upplifun samhliða. Það sem var gamaldags er það kannski ekki í dag. Kannski er of þröngur hópur sem leggur línurnar. Nýjar hugmyndir flæða um heim allan. Í og með tilkomu COVID-19 þarf kannski að færa út kvíarnar, búa til stærri og fjölbreyttari vettvang þar sem fólk upplifir og nýtur menningar án þess að vera of nálægt öðrum. Rekstur margra menningarsmiðja er þungur nú. Hvernig tryggjum við jafnræði? Á því tekur stefnan ekki nógu vel að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um erindi ESA til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um reikningsskil Reykjavíkurborgar:

Reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða eru vel reifaðar í ársskýrslunni. Félagsbústaðir eru til fyrir þá sem þurfa aðstoð við húsnæði. Borgin er ekki fasteignafélag, en seld er ein og ein íbúð og aðrar keyptar. Félagsbústaðir eiga yfir 2000 íbúðir, markmiðið er ekki að græða, en matsbreyting sem þarna er, þar sem verið er að tekjufæra endurmat á verðmæti íbúða, sem þýðir hærra fasteignamat, er fært sem tekjur. Ef þetta væri ekki gert væri hallarekstur 300 milljónir. Hvað ef fasteignamat lækkaði? Yrðu þá Félagsbústaðir reknir með halla þótt ekkert breyttist í rekstrinum (þetta má sjá í rekstrarreikning og yfirlit um heildarafkomu ársins 2020). Enda kemur fram að borgin hefur bókfært hagnað af félagslegu húsnæði með þessum reikningsskilum árum saman. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem dropinn hafi holað þennan stein, allavega smávegis. Farið er að kveða við aðeins annan tón, málið kallar ekki á eins neikvæð viðbrögð og áður í það minnsta. Því er fagnað að málið sé í ferli hjá ráðuneytinu.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um félagslega blöndun í húsnæðisuppbyggingu borgarinnar:

Því var lofað að félagsleg blöndun og fjölbreytni yrði höfð að leiðarljósi við skipulagningu nýrra hverfa í Reykjavík og framboð húsnæðis verði með þeim hætti að sem flestir geti flutt innan hverfis, þegar stækka eða minnka þarf við sig. Við hönnun íbúðabyggðar þarf að horfa til stærðar og gerðar íbúða fyrir mismunandi fjölskyldugerðir og mismunandi efnahag fólks. Þetta hefur ekki gengið eftir. Íbúðir eru ekki nógu hagkvæmar á þéttingarreitum því þar er dýrt að byggja. Meira en 90% allrar uppbyggingar í Reykjavík á síðustu árum hefur því verið á þéttingarsvæðum og þannig verður það áfram ef haldið er áfram með þéttingarstefnu meirihlutans í þeirri mynd sem hún er nú. Næstu ár mun 80% íbúðauppbyggingar í Reykjavík vera meðfram hinni nýju borgarlínu. Reykjavíkurborg þarf kerfisbundið að hækka það hlutfall þannig að þeir sem fái lóð geri ráð fyrir fleiri íbúðum ætluðum efnalitlum fjölskyldum. Kaupa þarf fleiri íbúðir á reitum sem verða framseldar til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða til að ná fram markmiðum um félagslega blöndun. Borgarstjórn Reykjavíkur ræður ekki yfir öðrum sveitarfélögum. Sjálfsagt er að ræða þessi mál við önnur sveitarfélög og sjá hvort þau sem sinna þessu minnst taki við sér.

 

Bókun Flokks fólksins undir  6. lið fundargerðar Borgarráð frá 11. nóvember:

Borin er upp til atkvæðagreiðslu gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS). Fulltrúi Flokks fólksins er með spurningar enda margt óljóst sem tengist gjaldskránni. Í gr. 11, 2. málsgrein kemur fram ,,að þar sem um sérstakan viðbúnað er að ræða, sbr. 12.-14. gr., er að lágmarki innheimt fyrir fjóra starfsmenn í tvær klukkustundir, eða 190.836 kr.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur að þarna sé verið að misnota sérstöðu slökkviliðsins þar sem annað er ekki í boði. Í 12. gr., 2 málsgrein er sagt „Slökkvistörf […] s.s. eldur í vinnuvélum og bifreiðum […] falla ekki undir lögin“. Getur slökkviliðið þá rukkað eftir geðþótta? Í 13. gr. segir að upphreinsun sem fellur ekki undir 3. gr. sé sinnt enda þótt ekki sé mælt fyrir um það og á það að vera matskennt. Allt sem er matskennt er viðsjárvert í svona löguðu. Og hvers konar upphreinsun er hér átt við? Í 14. gr. kemur fram að SHS sinni útköllum vegna vatnsleka og að tryggingafélög hafi borgað SHS fyrir þetta hingað til. Hvernig er þetta í dag? Er þetta greitt af tryggingafélögunum? Of margt er óljóst í þessari gjaldskrá og greinum hennar og það á við um fleira í starfi SHS og situr fulltrúi Flokks fólksins því hjá.

 

Bókun Flokks fólksins undir 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. október og 14. og 15. lið í sömu fundargerð:

Spurt var m.a. um aðgerðir sem snúa að fækkun sjálfsvíga. Aðgerðir borgarinnar eru háðar aðgerðum ríkisins sem er slæmt. Um þessar mundir er áherslan á að gefa út leiðbeiningar í samvinnu við aðstandendur þeirra sem svipt hafa sig lífi. Notast er við norskar leiðbeiningar. Fulltrúi Flokks fólksins vill einnig benda á að margt er til á íslensku sem hægt væri að nýta. Oft þarf ekki að leita langt yfir skammt. Þátttaka aðstandenda við gerð leiðbeininga af þessu tagi skiptir öllu máli. Hjálp og stuðningur frá öðrum aðstandendum sem lengra eru komnir í sorgarferli sínu er ómetanleg. Þátttaka aðstandenda er auk þess mikilvæg í allri stefnumótun og aðgerðaráætlunum í tengslum við innleiðingu geðræktarstarfs og forvarna til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Liður 14 og 15 í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 9. október. Spurt var af hverju foreldrar barna sem eru að hefja leikskólagöngu geti ekki fengið dagsetningu uppgefna þegar líður að haust. Þetta veldur álagi á foreldra sem hafa engin önnur ráð og í sumum tilfellum ekki annan kost en að segja upp samningi hjá dagforeldri. Helsta ástæðan er mannekla. Tímabært er að laga þessa hluti að mati fulltrúa Flokks fólksins.