Skipulags- og samgönguráð

Bókun Flokks fólksins við Breiðholt I, Bakkar, breyting á deiliskipulagi vegna Arnarbakka:

Óraunhæf bjartsýni er í gögnum – skýrslunni, sérstaklega um umferð og bílastæði. Sagt er að aðkoma að Arnarbakka 2-4 sé góð og áfram verði hægt að keyra snúningssvæðið við Breiðholtsskóla. Þetta er hæpin fullyrðing því að við uppbyggingu íbúða mun umferð vaxa, (65 stúdentaíbúðir, + 25 venjulegar íbúðir + athafnasvæði í neðstu hæðum) meðfram Breiðholtsskóla. Í gögnum er áætlað að bílferðum fækki um 15% sem er ekki raunhæft? Alls endis óvíst er hvort deilibílanotkun nái flugi hér eins og í erlendum borgum. Einnig er sagt að árið 2019 var hlutfall bílferða 74%, hjólreiða 5%, gangandi 14%, almenningssamgöngur 5% og annað 2%. Með því að fækka bílferðum um 15% fyrir 2040 er áætlað að hlutfall gangandi og hjólandi verði 25%. Er ekki verið að ofáætla hér? Byrja þarf á réttum enda t.d. byrja á að gera göngu- og hjólastíga þannig að þeir beri umferð fleiri farartækja og sjá hvort það dragi úr bílanotkun. Ef það gengur vel er alltaf hægt að fækka bílastæðum eftir á. Taka má undir að Arnarbakki 2 og 4 hafi lítið varðveislugildi. Nýta má svæðið mun betur en nú er gert. Almenningssvæði á jarðhæðum og íbúðir á efri hæðum er ágæt stefna en framtíðarspár um umferð verða að vera raunhæfar.

 

Bókun Flokks fólksins við Breiðholt III, Fell, breyting á deiliskipulagi vegna Völvufells, Drafnarfells og Eddufells:

Hér er um að ræða að endurbæta hluta af Fellahverfinu, Völvufell. Byggingar hafa ekki mikið varðveislugildi og þess vegna er hægt að byggja allt upp að nýju. En hér er, sem og við Arnarbakka gert ráð fyrir samgönguþróun sem ekki er víst að gangi eftir. Veruleg íbúafjölgun verður í Völvufelli ef áætlanir ganga eftir. Í gögnum segir segir “Vinna skal samgöngumat ef tækifæri eru til að fækka bílastæðum, á – stærri byggingarreitum eða hverfum. – byggingarreitum með blandaðri landnotkun. – , í nágrenni við góðar almenningssamgöngur” ,,Kortið sýnir einnig 20 mínútna svæði fyrir hjólandi en miðað er við 16,3 km/klst hjólahraða sem er meðalhraði í Kaupmannahöfn“. Hér er gert ráð fyrir að hröð umferð verði á göngustígunum, en það er algjörlega óraunhæft nema stígar verði teknir algerlega í gegn. Rangt er að hjólastígar séu góðir og talsvert er í að þeir verði viðunandi. Samanburður við hjólastígakerfið í Kaupmannahöfn á ekki við hér enda það allt annað og betra. Kallað hefur eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og var það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki á íbúafundi í hverfinu. Varasamt er að fækka bílastæðum verulega áður en önnur góð samgöngutækifæri verða til að mati fulltrúa Flokks fólksins. Byrja þarf á réttum enda.


Bókun Flokks fólksins við Laugavegur 168-176, nýtt deiliskipulag

Um er að ræða nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar við Laugaveg 168-176, þar sem gert er ráð fyrir að lóðin Laugavegur 176 verði nýtt undir gististarfsemi og verslun en aðrar lóðir á skipulagssvæðinu eru skilgreindar sem lóðir án heimilda. Íbúaráð og fleiri eru á móti 8-hæða byggingu og var fallið frá því og fara á niður í 7. Hvað sem því líður verður útsýnisskerðing og mjög skiljanlegt að íbúar séu svekktir yfir því. Það skiptir vissulega máli hvernig húsin ,,mjókka upp” þegar hugað er að skuggamyndum og áhrifum á vind. Inndregnar efri hæðir minnka t.d. slík áhrif. Útsýni er takmörkuð auðlind og afstöðu þarf að taka til hverjir eiga að njóta þess. Kvartanir vegna útsýnisskerðingar eru margar, en eflaust fá einhverjir aðrir betra útsýni. Nokkur vandræðagangur virðist vera í samgöngumálunum, og örðugt að búa til stæði fyrir rútur en nefnd er í gögnum ein lausn á því. Fram kemur í niðurstöðum samgöngumats að 63 bílastæði ættu að vera á lóðinni, þar af 4 fyrir hreyfihamlaða. Hjólastæði skulu vera á bilinu 62-93. Fleiri hjólastæði eru en bílastæði sem er athyglisvert.


Bókun Flokks fólksins við Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2021, skipan fulltrúa í vinnuhóp:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um „fegrunarviðurkenningar“ og fyrirkomulag í því sambandi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að leggja eigi áherslu á að dreifa vali á viðurkenningarhöfum meira en lenska hefur verið að einblína helst á ákveðinn miðsvæðishring. Vel má horfa til t.d. Skerjafjarðar, Breiðholts, Árbæ og Grafarvogs ekki síst þegar kemur að vali fyrir fallegar og vel skipulagðar lóðir þjónustu, og stofnana og fjölbýlishúsa, auk sumargatna. Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er einnig verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu vel getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar. Einnig mætti vel fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því nema kannski að kaupa blómavönd. Að veita viðurkenningu af þessu tagi er hvatning fyrir fólk og ekki ætti endilega að leggja áherslu á að húsin hafi einhverja sérstaka sögu eða flokkist undir einhvern frægan byggingarstíl. Hugmynd Flokks fólksins sem hér er lögð fram í bókun er að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu.


Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hljóðvist, umsögn:

Lagður er fram listi yfir styrkveitingar til að bæta hljóðvist með glerskiptum. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki viss um að fólk sem býr við hávaða vegna umferðar á götu sem það býr við viti almennt um að samfélagið tekur þátt í kostnaði við að bæta hljóðvist. Að búa í gömlum grónum hverfum hefur bæði galla og kosti. Þeir sem kaupa gömul hús vita að þau eru ekki eins vel einangruð og ný hús. Augljóst er hvaða hús eru við umferðargötur. Ekkert á að koma á óvart. Í hverfum í uppbyggingu er hins vegar erfiðara að sjá allt fyrir. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að styrkur sem þessi renni til margra en ekki fárra þótt um lægri upphæðir verði þá að ræða. Það er auk þess mat fulltrúa Flokks fólksins að svona styrki eigi að tekjutengja. Þeir sem hafa efni á glerskiptum eiga að fjármagna það sjálfir en hjálpa á frekar hinum efnaminni sem hafa engin önnur ráð en að leita eftir styrkjum með vandamál af þessu tagi. Miðað við 65 desibela jafngildishávaðastig yfir sólarhringinn má búast við að við fjöld húsa víðsvegar í borginni sé hávaði.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi innkaupamál

Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa verið ein samfelld hneisa. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á það að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk.

Útboð eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnvöld og leiða gjarnan til sparnaðar fyrir borgina. Engu að síður hefur sitjandi meirihluti ítrekað farið á svig við lög um opinber innkaup og gengið beint til samninga við einkaaðila. Þetta sáum við þegar borgin keypti ljósastýringu án undangengins útboðs og orka er keypt án útboðs.

Við munum vel hversu lítið eftirlit var með endurgerð Braggans í Nauthólsvík. Verkið fór langt umfram kostnaðaráætlanir. Þar voru meira og minna öll verk og öll þjónusta keypt án undangengins útboðs. Sitjandi meirihluti virðist ekki nýta útboð við að leita að hagstæðu verði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvers vegna?

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurnir eru mikilvæg tæki fyrir kjörna fulltrúa til að kalla eftir upplýsingum úr stjórnkerfinu. Fyrirspurnin sem um ræðir inniheldur hins vegaer yrst og fremst fullyrðingar um illan ásetning sem ekki fást staðist en engar beinar óskir um upplýsingar sem stjórnsýsla Reykjavíkurborgar gæti brugðist við. Eðlilegt er ræða árangur, sýn og ábyrgð í innkaupa og útboðsmálum réttast er að gera það á vettvangi borgarstjórnar þar sem kjörnir fulltrúar geta skipst á skoðunum á opnum vettvangi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram spurningu um hvernig stæði á því að endrum og sinnum kæmu mál upp á yfirborðið þar sem borgin hefur ekki virt lög og reglur um opinber innkaup. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta með ólíkindum vegna sögunnar og er skemmst að minnast braggamálsins og fleiri mál. Fyrirspurninni er svarað með bókun sem felur í sér snuprur til fulltrúa Flokks fólksins fyrir að spyrja með þessum hætti. Haldi þetta áfram að endurtaka sig hvað þá? Eiga fulltrúar minnihlutans bara að láta það eiga sig, minnast ekki á neitt eða láta sem ekkert sé? Fátt virðist hafa dugað, oft er búið að ræða þessi mál og sagt er að skerpt hafi verið á reglum en engu að síður eru reglur brotnar. Aftur er minnt á að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Káratorg

Óskað er svara við spurningunum um áætlaðan kostnað við Káratorg og af hverju er þetta verkef nú í forgangi nú í stað þess að bíða betri tíma.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Mjódd og hraðahindranir

Fyrirspurn um hraðahindrun í Mjódd. Nú á að malbika í Mjóddinni. Búið að fjarlægja kodda sem eru til að hægja á umferð. Í staðinn fyrir að setja þá aftur niður spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort ekki er hægt að setja upp hraðamyndavélar?

Hvað kostar að setja koddana aftur niður?

Það skal tekið fram að koddarnir eru að skemma hjólabúnaðinn að framan á bílum, veldur óvenjulegu sliti.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina og óski eftir viðræðum hið fyrsta um að breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina og óski eftir viðræðum hið fyrsta um að breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni. Þessi bútur brautarinnar er á annatímum löngu sprunginn, ekki síst síðla fimmtudags og föstudags þegar fólk streymir út úr bænum. Umferðarteppur eru af þeirri stærðargráðu að umferðarteppan nær niður alla Breiðholtsbrautina og situr fólk fast á brautinni í óratíma. Ástandið mun ekki batna þegar að Arnarnesvegurinn mun tengjast Breiðholtsbrautinni. Eðlilegt hefði verið að tvöföldun Breiðholtsbrautar væri gerð á undan tengingu við Arnarnesveg. Þetta ætti að vera algert forgangsmál.

Frestað