Borgarráð 4. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. febrúar 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 17. febrúar 2021 á tillögu um friðlýsingu á Blikastaðakró, Grafarvogi og þangfjörusvæði í austanverðum Skerjafirði:

Fulltrúi Flokks fólksins telur tími til kominn að friðlýsa öll þessi svæði. Fulltrúi Flokks fólksins er talsmaður friðlýsingar á sem flestum stöðum í borgarlandinu þar sem þarf að draga úr álagi á náttúru og lífríki svæða. Allt of mikið er gengið á grænu svæði borgarinnar, náttúru fórnað fyrir steypu. Gengið er á náttúrulegar fjörur á nokkrum stöðum í borginni með landfyllingum til að þétta byggð enn meira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur mótmælt þessu harðlega.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals:

Það er afar mikilvægt að íbúar og aðrir í hverfinu, þ.m.t. íþróttafélögin, fái góða og ítarlega upplýsingagjöf og fræðslu um þau úrræði sem koma á upp í hverfinu. Fundir eru best fallnir til þess því á þeim er hægt að ræða saman maður við mann, skiptast á skoðunum og umfram allt útskýra í hverju úrræðið felst, hvernig það kemur til með að líta út, hver verður umgjörðin og eftirfylgnin með því eins og í tilfelli þessa úrræðis sem hér um ræðir. Ef litið er yfir athugasemdir í þessu máli má sjá að þær kjarnast nokkuð í því að fólki finnst úrræðið enn nokkuð óljóst.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021 á tillögu um endurskoðaðar reglur um bílastæðagjald byggingaraðila í Reykjavík:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst í fyrsta lagi undarlegt að það hafi þurft að útvista því verkefni að kanna hvað sambærilega er gert er í bílastæðamálum í nokkrum erlendum borgum . Hér er aðeins um að ræða að lesa opinberar upplýsingar sem ekki þarf sérfræðiþekkingu til að gera. Embættismannakerfi borgarinnar ætti að ráða við það, er það ekki? En í Reykjavík þarf að gera ráð fyrir bílastæðum fyrir alla sem vilja og þurfa og það er vissulega kostur að gefa þeim sem eru að byggja, á þegar fullbyggðum svæðum, kost á að greiða fyrir bílastæði í stað þess að gera þau sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins styður aukinn sveigjanleika í þessum efnum að þeir eigendur bíla sem óska að leggja í bílastæðahúsum frekar en við heimili sín, sem dæmi í miðbænum þar sem búið er að byggja þröngt, verði gert það auðveldara og aðgengilegra. Nóg pláss er í bílahúsum og mörg vannýtt á ákveðnum tímum. Ástæður eru ýmsar fyrir því, erfitt aðgengi og óþarflega há gjaldtaka.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf umhverfis- og skipulagssvið, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á umsögn skipulagsfulltrúa vegna greiningar á staðarvali fyrir skólabyggingu í Öskjuhlíð og bréfs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti vilyrði um lóð ásamt byggingarrétti undir skólahúsnæði í Öskjuhlíð:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja á skóla fyrir Hjallastefnuna. Leysa þarf málið sem fyrst til að draga úr óvissu foreldra, barna og starfsfólks. Valinn hefur verið einn fallegasti staðurinn í borginni fyrir skólann. Þarna er fallegi duftgarðurinn Sólland og einu áhyggjur fulltrúa Flokks fólksins er að byggt verði of nálægt honum þrátt fyrir að vilyrði sé gefið fyrir lóð B en duftgarðurinn er á lóð A. Mikilvægt er að duftgarðurinn geti þróast og stækkað í framtíðinni. Reyndar er annar ókostur við að byggja skóla á þessu svæði. Börnin munu ekki geta gengið í skólann, heldur þarf að aka þeim. :

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 2. mars 2021 um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykkt var á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar sl. Breytingin felur í sér kostnaðarauka við fjárhagsaðstoð að fjárhæð 67,1 m.kr. á ársgrundvelli sem tekur mið af fjölda þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð í september 2020:

Öllum góðum breytingum er fagnað. Upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu er of lág og hana þarf að hækka. Fjölmargar ábendingar komu en ekki þær veigamestu komust gegnum nálaraugað. Króna á móti krónu skerðing heldur áfram. Við gerð reglna um fjárhagsaðstoð er vel hægt að víkja frá þessari skerðingu enda ávinningur af því fyrir alla. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að Reykjavík auki við fjárhagsaðstoð eða breyti reglunum þannig að fjárhagsaðstoð skerðist ekki krónu móti krónu. Lög um félagsþjónustu hafa að geyma ákvæði um lágmarksskyldur sveitarfélaga en takmarka ekki hve mikið þau mega gera umfram þær lágmarksskyldur. Greinin um framfærsluskyldu sýnir að áfram á að skerða fjárhagsaðstoð vegna tekna maka og vísað er í dóm sem borgin vann. Sá sigur er ekki til að hreykja sér af hvað þá styðja sig við. Ekkert kemur fram í þessu dómsmáli sem gefur til kynna að það myndi brjóta gegn ákvæðum hjúskaparlaga eða laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að afnema tekjutengingu við maka. Þetta er allt spurning um hvernig við viljum búa að okkar viðkvæmustu einstaklingum. Markmið hjálparkerfis á að vera að valdefla einstaklinga. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur og eftirlit með styrkjum og samstarfs- og þjónustusamningum, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar ítarlegt svar en spurt var um um reglur og eftirlit með styrkjum og samstarfs- og þjónustusamningum. Sjá má að margt horfir til bóta enda hefur verið óreiða í þessum málum. Nokkrar vangaveltur skjóta upp kollinum við lestur svarsins og þá er fyrst að nefna tengsl fagsviðanna við fjármála- og áhættusviðið t.d. hvort tengslin séu næg og hvort fjármála- og áhættusvið fylgi eftir málum inn á fagsviðin. Skila á inn greinargerð um hvernig styrkféi hefur verið varið en ekki er vitað hversu margar greinargerðir skila sér. Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að rifta samningum, afturkalla styrkloforð og/eða krefjast endurgreiðslu ef sannarlega er um forsendubrest eða vanefndir að ræða af hálfu styrkþega en hversu mörgum samningum hefur verið rift fylgir ekki sögunni. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja inn frekari fyrirspurnir um þetta en fagnar að greinilega er verið að taka til í þessum málum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. mars 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp og reiknilíkan vegna skýrslu innri endurskoðunar um grunnskóla frá 2019, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020:

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp og reiknilíkan vegna skýrslu innri endurskoðunar um grunnskóla frá 2019. Gott er að þetta verk, endurskoðun á reiknilíkani potast áfram en það hefur gengið allt of hægt. Eins og fram kemur í svari var, árið 2019, settur á laggirnar starfshópur sem hafði það að markmiði að endurskoða reiknilíkan til úthlutunar fjárheimilda fyrir grunnskóla. Nú hefur annar starfshópurinn verið myndaður sem á að útfæra og meta forsendur líkansins. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort fyrri hópurinn sem myndaður var hefði ekki getað gert þetta líka. Nú þremur árum seinna er enn ekki komið nýtt líkan og verður ekki fyrr en 2022. Minnt er á að ansi mörg og alvarleg vandamál fylgdu því að vera með “plástrað” reiknilíkan. Árum saman stýrði úrelt og margplástrað reiknilíkan, sem var farið að lifa sjálfstæðu lífi, fjármagni til skólanna.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 18. febrúar 2021 undir 4. lið:

Bókun við lið 4 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 18. febrúar 2021: Lagt er fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. desember 2020, við fyrirspurn Öryrkjabandalags Íslands um merkingar við göngugötur. Segir í svari að núverandi fyrirkomulag merkinga á göngugötum í Reykjavík sé sú útfærsla sem þykir árétta með hvað skýrustum hætti að um sé að ræða göngugötur. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi útfærsla geti varla talist mjög skýr, alla vega ekki nógu skýr. Ef hún væri það þá myndi fólk sem hefur leyfi til að aka göngugötur á P merktum bílum sínum ekki verða fyrir aðkasti. Segir einnig að beðið sé eftir að sérstakt umferðarmerki fyrir göngugötur verði tekið upp í reglugerð um umferðarmerki. Hvenær það verður um það bil fylgir ekki sögunni.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 17. febrúar 2021  undir 3. lið:

Kynning á Velkomin í hverfið: Komið er inn á íþróttavirkni barna af erlendum uppruna í kynningunni. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þá staðreynd að rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum, en í þeim hópi er stór hluti innflytjendur, stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Allt of mörg dæmi eru um að efnaminni foreldrar eiga engra annarra kosta völ en að nota frístundakortið til að greiða fyrir vistun á frístundaheimilum. Það leiðir til þess að barnið getur ekki nýtt frístundakortið í sérvalda tómstund. Hér verða velferðaryfirvöld að koma inn með sértækan stuðning og sértækar aðgerðir. Frístundakortið er réttur barnsins sem á ekki að nota sem gjaldmiðil í þeim tilfellum sem velferðaryfirvöld styðja ekki fátæka foreldra með viðunandi hætti, svo sem að hjálpa þeim að greiða gjald frístundaheimilis. Tekjutenging gjalda fyrir vistun á frístundaheimilum er ein leið til að stuðla að auknum jöfnuði fyrir þann hóp barna sem býr við viðkvæma fjárhagslega stöðu.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 15. febrúar 2021 undir 1. lið:

Bókun Flokks fólksins við lið 1 í fundargerð ofbeldisvarnarnefndar: Ég tel að engum dyljist það mikilvæga starf sem starfsfólk Kvennaathvarfsins hefur sinnt frá opnun þess 1982. Kvennaathvarfið stendur opið öllum þeim konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu maka eða annarra heimilismanna. Kvennaathvarfið beinir sjónum að þörfum og réttindum barnanna sem búa í athvarfinu hverju sinni. Áherslan er á börnin sem gerir allt starf Kvennaathvarfsins svo frábært. Komið hefur verið upp sérstökum verklagsreglum um vinnu með börnunum í athvarfinu. Þarna er unnið stórkostlegt starf og vill fulltrúi Flokks fólksins færa starfsfólki og öllum þeim sem koma að starfi Kvennaathvarfsins hinar bestu þakkir.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021 undir 27. lið:

Tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta að svörun erinda sem berast sviðinu var vísað frá. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið þurfi að skoða hvort þurfi að bæta verkferla þegar kemur að svörun og afgreiðslu utanaðkomandi erinda. Ástæða fyrir að fulltrúi Flokks fólksins lagði þessa tillögu fram er að á RÚV var fyrir stuttu rætt við konu á Kjalarnesi sem sagði frá því að erindi hennar var ekki svarað eða sinnt með neinum hætti þótt hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við sviðið. Þetta er miður að heyra og gefur tilefni til að sviðið skoði markvisst og kerfisbundið hvort hjá því liggi fleiri ósvöruð erindi. Það er vel vitað að bæta þarf viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma og svörun skeyta víða í borgarkerfinu. Þrátt fyrir það var tillögunni vísað frá.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði undir 15. lið:

Fulltrúi Flokks fólksins telur afar brýnt að fullnægjandi stoð sé í lögum um leik–, grunn- og framhaldsskóla hvað varðar einelti. Mest um vert er að málin séu unnin af fagmennsku og að þeim sinni aðeins þeir sem hlotið hafa sérfræðimenntun í úrvinnslu eineltismála og hafa langa reynslu við vinnslu þeirra á vettvangi. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það þurfi að vera hægt að vísa málum fyrr til fagráðsins. Stundum hefur verið reynt of lengi áður en máli er vísað og hefur þá málið undið upp á sig svo mikið að enn erfiðar reynist að leysa það svo viðunandi sé. Þessi mál þarf að vinna hratt. Gagnvart aðilum (foreldrum) þarf að ríkja gegnsæi þannig að aðilar hafi jafnan aðgang að framlögðum gögnum. Ganga þarf úr skugga um að allir leik- og grunnskólar sinni forvörnum með fullnægjandi hætti og hafi viðhlítandi verkferla tiltæka komi kvörtun um einelti. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu. Í ljósi ofangreinds væntir fulltrúi Flokks fólksins þess að hlutverk fagráðsins verði endurskilgreint.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili og taki sú aðgerð gildi 1. janúar 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili og taki sú aðgerð gildi 1. janúar 2022. Kostnaðaráætlun: Niðurgreiðsla vegna gjalda á frístundaheimilum yrði um 13.000.000 kr. á ári. Ábyrgðaraðili: skóla- og frístundasvið. Tímarammi: 2022. Jöfnuður er ein mikilvægasta forsenda þess að öll börn nái að vaxa og dafna í samfélaginu. Rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Innflytjendur eru stór hópur tekjulágra í reykvísku samfélagi. Foreldrar hafa þurft að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða frístundaheimili og þar með nýtist kortið ekki fyrir barnið til að velja sér tómstund eða íþrótt. Hér er brotið á rétti barnsins. Útbúa þarf tekjuviðmið um niðurgreiðslu til að hægt verði að styðja við tekjulágar fjölskyldur með viðbótarniðurgreiðslu á gjöldum frístundaheimila. Þetta er eina leiðin til að barnið fái að halda rétti sínum til frístundakortsins.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að skoðað verði að opna aðstöðu fyrir sjósund á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukins áhuga almennings:

Tillaga Flokks fólksins um að skoðað verði að opna aðstöðu fyrir sjósund á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukins áhuga almennings. Þetta má gera án þess að raska fjörum. Það sem þarf er sturtu- og búningsaðstaða og heitur pottur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að íþrótta- og tómstundaráð skoði með að opna aðstöðu fyrir sjósund á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukins áhuga almennings. Talað hefur verið um aðstöðu við Laugarnestangann og við Geldinganes. En meðan verið er að skoða fleiri möguleika á staðsetningu fyrir sjóböð er tilvalið að lengja opnunartímann í Nauthólsvík, þar sem þegar er til staðar frábær aðstaða fyrir sjósundsfólk. Þar þarf að vera opið alla daga vikunnar. R21030043

Vísað til meðferðar menningar,- íþrótta- og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að opnunartími sjóbaðanna í Nauthólsvík verði lengdur

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opnunartími sjóbaðanna í Nauthólsvík verði lengdur þannig að þau verði opin alla daga vikunnar. Það eru margir sem nú losna fyrr úr vinnu vegna styttingu vinnuvikunnar og myndu gjarnan vilja komast í sjóböð t.d. um hádegi á föstudögum og sama má segja um sunnudaga. Sjálfsagt er að hafa sjóböðin opin alla daga vikunnar. Margir upplifa aukin lífsgæði við það að stunda sjósund og eru mörg dæmi um fólk sem telur sig hafa náð betri andlegri og líkamlegri heilsu við sjóböð. R21030044

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að sett verði nauðsynlegt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki enda ljóst að gera þarf breytingar á vaktkerfi, vaktaplönum og launaforritum:

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði nauðsynlegt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki enda ljóst að gera þarf breytingar á vaktkerfi, vaktaplönum og launaforritum. Mikill fjöldi félagsmanna vinnur vaktavinnu m.a. fjöldi starfsmanna innan heilbrigðisgeirans og í stofnunum velferðarþjónustunnar. Með styttingu vinnuvikunnar verða miklar breytingar á vaktakerfinu. Vaktaplönum þarf að breyta og einnig forritum sem halda utan um t.d. launamál. Kannski var þetta ekki alveg hugsað til enda þegar sett var sem skilyrði að þetta mætti ekki kosta neitt. Þessu fylgir eðlilega kostnaður ef taka á verkefnið um styttingu vinnuvikunnar alla leið. Streðað var við að stytta vinnuviku dagvinnufólks án þess að setja í það krónu. Hætta er á að það komi niður á þjónustuþegum, starfsfólki og jafnvel starfsemi á þeim stöðum þar sem mesta álagið er. Ef allir taka vinnutímastyttingu yrði mönnunargat of stórt til að ráða við það og til að fylla það gat þarf fjármagn. Einhverjir í hlutastörfum munu án efa auka starfshlutfall sitt, vinna sömu tíma en fá hærri laun sem er vel en ekki er raunhæft að ætla að skref sem þetta muni ekki kosta sitt. Eitt er víst að þeim peningum er vel varið. R14050127

Frestað.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvenær er áætlað að sérstakt merki sem tilgreinir að P-merktum bílum er heimilt að aka göngugötur verði tilbúið og það komið upp við göngugötur í Reykjavík:

Í bréfi við fyrirspurnum Öryrkjabandalags Íslands við merkingum á göngugötum í Reykjavík vantar upplýsingar um hvenær áætlað er að viðeigandi merkingar verði settar upp við göngugötur: Fulltrúi Flokks fólksins spyr: hvenær er áætlað að sérstakt merki sem tilgreinir að P-merktum bílum er heimilt að aka göngugötur verði tilbúið og það komið upp við göngugötur í Reykjavík? R19070069

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hversu mörgum samningum hefur verið rift sl. 3 ár vegna forsendubrestar eða vanefnda af hálfu styrkþega:

Í reglum um styrki og styrkveitingar segir að Reykjavíkurborg áskilji sér rétt til að rifta samningum, afturkalla styrkloforð og/eða krefjast endurgreiðslu ef sannarlega er um forsendubrest eða vanefndir að ræða af hálfu styrkþega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr, hversu mörgum samningum hefur verið rift sl. 3 ár vegna forsendubrestar eða vanefnda af hálfu styrkþega? R21030045

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.