Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðu vinnu við gerð deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð; uppdrættir, skilmálar og tímalína:
Það eru nokkur atriði sem fanga hug fulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að málefnum Skerjafjarðar. Það alvarlegasta er hvernig áætlað er að ganga á fjörurnar til að búa til land, eins og það skorti land. Flokkur fólksins óskar eftir að skipulagsyfirvöld láti fjörur borgarlandsins í friði. Í þessu sambandi má minna á að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Meirihlutinn ætlar samt að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum. Af hverju hafa vísindamenn ekki verið spurðir en vitað er að margir eru uggandi. Mengun er einnig mikið áhyggjuefni. Annað atriði er hversu lítið samtal skipulagsyfirvöld hafa átt við íbúa Skerjafjarðar um uppbyggingu þar. Enn og aftur er samráð hunsað. Loks er það umferðarmálin en það er aðeins sé ein leið í Skerjafjörðinn. Fyrir Covid-19 var umferðarþunginn vestur í bæ þungur, Hringbrautin, Suðurgatan og götur í kring. Með uppbyggingu í Skerjafirði er einfaldlega ekki séð hvernig umferðin geti gengið með fjölgun bíla sem óhjákvæmilega verður. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af þessum umferðarþunga. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni og framtíð staðsetningu flugvallarins er með öllu óráðin.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Hádegismóar, skipulagslýsing – nýtt deiliskipulag:
Til stendur að Bandalag íslenskra skáta fái til afnota reit í Hádegismóum til að reisa sínar bækistöðvar. Um er að ræða lítt snortna náttúru sunnan við Morgunblaðshöllina. Skátar á Íslandi eru þekktir fyrir góða umgengni við náttúru landsins og eru víða með bækistöðvar sem eru bæði til prýði og hafa gefið mörgu ungmenninu tækifæri til að kynnast náttúru svæðanna betur, svo ekki sé minnst á þá jákvæðu starfsemi sem skátahreyfingin iðkar. Rísi bækistöðvar Skátahreyfingarinnar á Hádegismóum mælist Flokkur fólksins til að tekið verði sérstakt tillit til náttúrunnar. Húsakynni þurfa að falla vel að umhverfinu.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Landspítalinn, stöðubönn:
Hér er lagt til að bannað verði að stöðva og leggja næst sjúkrahóteli og barna- og kvennadeildar. Sjálfsagt er að banna það. Þessi tillaga hins vegar minnir fulltrúa Flokks fólksins á eldri tillögu flokksins frá 5.3 2019 er varðar bílastæði í kringum Landspítala fyrir þá sem heimsækja spítalann. Kannski er í lagi að rifja þá tillögu upp hér. Það eru ófá dæmin þar sem fólk lendir í stökustu vandræðum með að finna stæði þar í kring. Verst er þegar fólk er kallað til í neyðartilvikum og getur hvergi fundið bílnum sínum stæði. Lagt var til í þessari tillögu Flokks fólksins að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar. Hugmyndin var að borgin myndi leita eftir samstarfi við Landspítalann um innleiðingu bifreiðastæðaklukku í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Finni fólk stæði eru minni líkur á að lagt sé þar sem það er bannað.
Tillaga Flokks fólksins um aðgerðapakka til að endurlífga Laugaveginn
Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við rekstraraðila miðbæjarins til að ræða björgunaraðgerðir s.s. hvernig markaðsátak hægt er að fara í fyrir miðborgina. Fara þarf í almennar aðgerðir sem nýtast öllum. Almennar aðgerðir þurfa m.a. að fela í sér samvinnu við bílastæðasjóð og Strætó b sem gefa þurfa eftir í gjöldum til að laða að fólk. Breyta verður aksturstefnum á Laugavegi þannig að ekið verði í vesturátt niður alla götuna. Opna þarf hliðin enda er nú komið í lög að um þessar götur megi P merktir bílar aka og leggja. Það hefur komið fram í niðurstöðum m.a. Maskínu könnunar að miklar áhyggjur eru af fækkun fólks í miðbænum. Fyrir veirufaraldurinn var orðið fátt um annað fólk í bænum en ferðamenn. Götulokanir á svæðinu höfðu haft þau áhrif að verslun og viðskipti hrundi í miðbænum utan veitingahúsareksturs. Covid-19 áhrifin bættust síðan ofan á og mun sennilega líða talsverður tíma áður en sjá má stóra hópa ferðamanna í bænum. En orsök faraldursins engum að kenna. En flótti verslana af svæðinu er á ábyrgð meirihlutans. Þrátt fyrir hávær mótmæli og beiðni um samráð ákvað meirihlutinn að halda sig við einhliða ákvörðun sína um götulokanir eins og þau tilkynntu í meirihutasáttmálanum.
Greinargerð
Ef miðbærinn á að eiga líf þurfa aðilar að koma saman, valdhafar og hagsmunaaðilar og finna leiðir. Opna verður götur ef miðbærinn á að öðlast eitthvað líf aftur. Loka má götum á tyllidögum og ræða þarf fyrirkomulag göngugatna á sumrin við rekstrar- og hagsmunaaðila. Það er margt hægt að gera til að laga ástandið. Það myndi vera fólki mikil hvatning ef frítt yrði í bílastæði t.d. fyrstu tvo tímana á Laugavegi og Skólavörðustíg og jafnvel skoða frí stæði í bílastæðahúsum um helgar. Ef starfsmaður væri t.d. í einu bílastæðahúsi væri líklegt að eldri borgarar treystu sér frekar þangað. Samhliða myndi Kolaportið endurlífgast hraðar en aðkoma þar eins og staðan er nú er afleidd.
Þetta er spurning um líf eða dauða þessa svæðis núna þegar Covid- faraldrinum léttir. Fyrir Covid var ástandið þá þegar orðið alvarlegt. Sala hefur verið um 20% minni í allan vetur en veturinn á undan hjá mörgum verslunum. Helst er um að kenna lokunum, en einnig þrengingum og breytta akstursstefnu um Laugaveginn. Fyrirtæki og rekstur hefur skaðast. Íslendingar sýndu æ minni áhuga á að koma í bæinn. Í því ástandi hafa mörg fyrirtæki þurft að leggja upp laupana sem segir að gefa þarf sérstaklega mikið í til að ná upp einhverjum dampi í miðbæinn.. Við viljum Íslendinga í bæinn enda er engir ferðamenn hér neitt á næstunni. Nú verða allir að leggjast á eitt og bjarga því sem bjargað verður. Ef það tekst er hægt að fara að byggja upp verslun og þjónustu á ný.
Tillaga Flokks fólksins að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld nota ekki núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld nota ekki núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum. Lagt er til að borgarstjóri noti ekki hið viðkvæma ástand vegna COVID-19 veirunnar til að þrýsta málum í gegn sem eru jafnvel í óþökk fjölda borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það blasa við að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld ætli að nota tækifærið í þessu ástandi til koma áformum sínum um að loka fyrir bílaumferð í miðbænum hraðar í gegn. Sagt er að rekstraraðilar vilji stækka staði sína til að virða tveggja metra regluna og leggur borgarstjóri til frekari lokanir gatna í því sambandi. Inn í umræðuna reyndi borgarstjóri að draga þá Þórólf og Víði sem hafa nú sagst ekki hafa neina skoðun á hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu. Hverjir hafa viljað stækka staði sína? Eru það veitingastaðir? Hvað með aðrar verslanir, eiga þær að færa varning sinn út á götu? Þessar hugmyndir eru með öllu óraunhæfar og munu skaða miðbæinn. Með því að loka fleiri götum verður verra aðgengi fyrir bíla. Miðbærinn er nú mannlaus vegna veirufaraldurs. Borgarstjóri vill notfæra sér veirufaraldurinn til að loka fleiri götum fyrir umferð. Tveggja metra reglan er notuð sem yfirskyn og sagt að rekstraraðilar vilji þetta.
Greinargerð
Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilja nú sæta lagi og draga enn frekar úr ferðum bíla í miðbæinn. Ekki er verið að hugsa mikið um þá sem koma lengra frá, fólk sem býr í úthverfunum og landsbyggðafólk sem kemur akandi og langar e.t.v. að heimsækja miðbæinn. Bíllinn er öruggari ferðamáti en almenningssamgöngur ef horft er til tveggja metra reglunnar. Almenningssamgöngur eru nánast engar auk þess sem fólk er hrætt við að nota þær. Þær voru slakar fyrir og eru enn stopulli nú vegna COVID-19. Með því að loka fleiri götum munu enn færri koma í miðbæinn. Ekki verður ferðamönnunum fyrir að fara þetta árið. Sífellt er vísað til annarra borga, milljóna borga með þróað og öflugt almenningsamgöngukerfi og þar sem veðurfar er jafnvel ólíkt. Hvernig er hægt að bera Reykjavík saman við Osló eða Kaupmannahöfn í þessu sambandi? Hver vill sitja úti í vindinum á Laugavegi með kaffibolla en á þeirri götu er ekki oft sól og blíða. Einstaka sinnum þegar sólin gægist fram kemur fólk kannski í tvo tíma. Borgarstjóri og skipulagsyfirvöld hafa aldrei verið í góðu samstarfi við rekstraraðila, eiginlega bara engu. Í meirihlutasáttmálanum voru teknar einhliða ákvarðanir um að loka götum fyrir umferð og rekstraraðilar voru aldrei spurðir. Engu að síður var lofað að hafa samráð sem mest og best. Óskir verslunareigenda og skoðanir hafa verið hunsaðar. Skeytum/erindum ekki einu sinni svarað eins og fram kemur í viðtölum við verslunareigendur. Við eigum ekki að nota faraldur til að beyta skipulagi borgarinnar. Margir eiga um sárt að binda og væri nær að einblína frekar á aðgerðir til hjálpar en að einblína á að finna smugu til að hindra aðgengi bíla enn frekar í miðbæinn.