Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 2. apríl:
Flokki fólksins finnst sérkennilegt að umsagnarbeiðni mannréttindaskrifstofu til aðgengis- og samráðsnefndar um fyrirspurn Flokks fólksins hafi verið afturkölluð. Fyrirspurnin var um hvort borgin ætli ekki að virða ákvæði nýrra umferðarlaga um að P-merktir bílar megi aka og leggja í stæði á göngugötum. Afturköllunin er sögð vera vegna þess verkefnið snúi að verksviði umhverfis- og skipulagssviðs. Það liggur í augum uppi að stundum eiga mál heima á fleiri en einum stað í borgarkerfinu. Í þessu máli ætti mannréttindaráð og aðgengisnefndin að vinna saman. Sjái mannréttindaráð að annað ráð/svið fer mögulega á svig við mannréttindi í verkum sínum á ráðið að grípa inn í en ekki verða meðvirkt í mistökunum. Flokkur fólksins hefur áður orðið var við að mannréttindaráð losar sig við mál yfir til annars ráðs án þess að skoða hvort mögulegt brot á reglum eigi sér stað. Skemmst er að minnast máls Flokks fólksins um mögulegt jafnréttisbrot vegna fyrirkomulags búningsklefa í Sundhöllinni. Það er skylda mannréttindaráðs að vera vakin og sofin yfir að reglur um mannréttindi og jafnrétti kynjanna séu virtar. Að öðrum kosti er ráðið varla að sinna því hlutverki sem því er ætlað.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl:
Stækkun Hlemmtorgs og nýtt umferðarskipulag hefur verið auglýst. Talsvert hefur verið um athugasemdir bæði frá íbúum og hagsmunaaðilum. Meðal þeirra sem hafa gert athugasemdir er lögreglan. Athugasemdir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er á þá leið að deiliskipulagstillagan skapi vandkvæði fyrir þjónustu lögreglunnar og neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Aðkoma að stöðinni sé verulega torvelduð og mikil slysahætta geti skapast því að sérrein fyrir hjólandi á að liggja næst útaksturhliði lögreglustöðvarinnar. Flokkur fólksins hefur ekki getað séð að þær lausnir sem skipulagsyfirvöld bjóða í þessu efni dugi til en reyna á að rýma sjónása til og frá porthliðinu með flutningi þess sem og að koma fyrir blikkljósum sem virkja á við neyðarútköll. Flokkur fólksins vill að viðbrögð lögreglu við þessum lausnartillögum skipulagsyfirvalda liggi fyrir með formlegum hætti áður en lengra er haldið.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð velferðarráðs frá 1. apríl:
Meirihlutinn vísar frá tillögu en samþykkir hana samt. Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð fyrir barn, en á sama tíma taka ákvörðun að gera einmitt það sem lagt er til í tillögunni eru undarleg vinnubrögð. 1. október 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að frístundakortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang og að þar með verði afnumið skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð í tengslum við barn. Tillögunni var vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og þaðan til velferðarráðs þar sem henni var vísað frá á fundi 1. apríl. Á þeim fundi voru breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð á dagskrá þar sem samþykkt var nákvæmlega það sem Flokkur fólksins leggur til í tillögu sinni, þ.e. að fella burt í 16. gr A. og B. ákvæði um að skilyrði fyrir aðstoð sé að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti. Tvískinningurinn er algjör, að vísa frá tillögu sem samþykkt er að nota engu að síður. Þegar færi gefst á samstöðu, eðlilegri og faglegri meðferð, taka pólitískir fimleikar sviðið yfir. Er tilgangurinn að ala á sundrungu?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Ekki er þörf á að taka fyrir tillögur um það sem þegar hefur verið lagt til og margrætt. Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð hafa ekki verið samþykktar en hafa verið í vinnslu mánuðum saman og hefur marg oft komið fram að í þeirri vinnu væri meðal annars verið að skoða hvernig styðja megi betur við börn sem búa við fátækt og þ.m.t samspil við frístundakortið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er óskiljanlegt af hverju velferðarráð leggur þunga sinn í að sjá til þess að minnihlutafulltrúi fái að njóta sín eða geta mögulega sagt að hann hafi náð nokkuð af sínum málum í gegn. Hér var beinlínis rangt að vísa þessari tillögu frá sem er síðan samþykkt engu að síður að taka inn í reglur um fjárhagsaðstoð. Allt gerist þetta á sama fundi. Af tugum tillagna Flokks fólksins, má virkilega segja að þessi hafi verið samþykkt en samt er henni vísað frá. Hvernig á að skilja þetta? Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn 2019 og hefur reynt að halda henni á lofti æ síðan sem og fleirum sem varða frístundakortið. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði og spotti þegar tillaga var flutt í borgarstjórn, spurt var af meirihlutanum „hvað borgarfulltrúi ætti við með henni, og þarna væri nú einhver misskilningur“ og eins kom athugasemd um að tillaga væri óljós. Flokki fólksins finnst það beinlínis sársaukafullt að horfa upp á varnir velferðarráðsfulltrúa meirihlutans að geta virkilega ekki samþykkt tillöguna og þakkað fyrir hana, enda er hún komin inn í drög af reglum um fjárhagsaðstoð. Þetta er góð tillaga og tímabært að byrja á því að laga afbökun sem orðið hefur á frístundakortinu í gegnum árin.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Embættisafgreiðslur:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ályktun Landssamband eldri borgara, LEB. Það er áberandi hvað eldri borgarar hafa orðið út undan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Hvar eru aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins? Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættri þjónustu við eldri borgara bæði á Alþingi og í Reykjavík en ekki haft árangur sem erfiði. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek og í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað. Flokkur fólksins tekur undir áskorun stjórnar Landsambands eldri borgara að sveitarfélögin taki upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín og lækki fasteignagjöld. Það er margt fleira sem velferðaryfirvöld borgarinnar geta gert til að létta undir með þessum hópi. Margir eldri borgarar hafa þurft að loka sig af og þar með einangra sig vegna hættu á smiti. Fjárhagsáhyggjum er ekki á slíkt bætandi.
Bókun Flokks fólksins liðnum Grænt bókhald Reykjavíkurborgar:
Sjá má í græna bókhaldi Reykjavíkur að notkun metans fer, ef eitthvað er, minnkandi, en framleiðsla mun stóraukast með nýju gas- og jarðgerðarstöðinni. Enn og aftur vekur það furðu að metan sé ekki nýtt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtæki borgarinnar, SORPA bs. og Strætó bs., virðast ekki ráða við að nýta það metan sem er safnað á urðunarstöð í Álfsnesi og seinna í komandi gas- og jarðgerðarstöð. Ef það metan yrði t.d. notað til að knýja strætisvagna minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er metaninu brennt á báli og á sama tíma keypt jarðefnaeldsneyti frá útlöndum. Hvað þetta atriði varðar er því voða lítið „grænt“.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Fyrstu aðgerðir Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna Covid-19:
Fram kemur undir þessum lið að hópur fólks hefur skyndilega þurft á húsnæði að halda. Eins og ekkert sé hefur borgin getað útvegað fólki þak yfir höfuðið. Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni. Ekki hefur verið hægt að leysa húsnæðismálin fyrir fjöldann allan af fólki í mörg ár eins og biðlistatölur hafa sýnt. Nú hefur Reykjavíkurborg tekið að sér það hlutverk að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Flokkur fólksins fagnar mjög þessu samstarfi við ríkið sem er því miður aðeins tímabundið og aðeins fyrir þröngt skilgreindan hóp. Flokki fólksins finnst hins vegar vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn næði saman við félagsmálaráðherra um að koma fólki sem þess þurfa undir þak. Á öllum tímum hefði þessi og síðasti meirihluti getað haft frumkvæði að því að gera sambærilegt samkomulag við ríkið um lausn eins og þessa fyrir þá sem þurfa.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Tryggvagata endurgerð:
Sú endurgerð sem hér um ræðir mun þýða það að út þurrkast fjölda bílastæða. Tryggvagata verður einstefna til vestur og engin almenn bílastæði verða eftir framkvæmdirnar en stæði. Með því að fjarlægja öll bílastæði er aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum við götuna, þá sérstaklega eldri borgara skert. Aðeins er gert ráð fyrir örfáum bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er talað um að bílastæðakjallarar leysi öll bílastæðamál. Bílastæðakjallarar eru vissulega nauðsynlegir en staðreyndin er sú að ekki allir vilja fara með bíl sinn í bílastæðakjallara. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur sem lúta að því að hvetja fólk til að nota bílastæðahús t.d. með því að hafa frítt í þau um helgar og jafnvel að nóttu enda er nýting þeirra slæm. Þeim tillögum hefur öllum verið vísað frá eða felldar. Flokki fólksins finnst að oft gleymist þegar kemur að skipulagsmálum í Reykjavík að hafa samráð við borgarbúa og gæta að því að aðgengi á svæðið sem um ræðir sé auðvelt öllum.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á sviðsmyndagreinngu vegna fyrstu aðgerða Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna Covid-19:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram nokkrar viðspyrnutillögur og ekki er alveg ljóst hvernig afgreiðslu sumar þeirra muni fá. Ein af þessum tillögum var að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar hafa starfað sem framlínustarfsfólk og hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kæmi mögulega smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Fram kemur að ákveðin vinna sé í gang hvað varðar dagforeldra og muni sveitarfélög verða samferða í þessum aðgerðum. Ekki er vitað meira um hvað verður um málefni dagforeldra. Dagforeldrar geta ekki beðið mikið lengur eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið. Aðrar áhyggjur Flokks fólksins eru hversu út undan leigjendur hjá Félagsbústöðum hafa orðið í öllu þessu ástandi. Ekki hafa borist svör við tillögu Flokks fólksins um niðurfellingu leigu í 2-3 mánuði eins og Flokkur fólksins lagði til strax í upphafi COVID-faraldursins. Boð Félagsbústaða um greiðsludreifingu nær allt of skammt. Ganga þarf lengra og fyrir því er nú þegar fordæmi hjá öðru leigufélagi.
Fyrirspurn Flokks fólksins um hvað meirihlutinn hyggist gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra áhrifa af Covid-19
Flokkur fólksins spyr hvað hyggst borgarmeirihlutinn gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið. Hvað af þeim aðgerðum sem borgin hyggst grípa til snerta hagsmuni eldri borgara Reykjavíkur nákvæmlega? Mun borgin koma á móts við eldri borgara er varðar þjónustu vegna mötuneyta, verslana, apóteka og leigubíla? Mun borgin taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín? Hvað annað ætlar borgin að gera til að hjálpa eldri borgurum í þessum aðstæðum. Miklar áhyggjur eru af mörgum eldri borgurum núna. Sumir hafa einangrast. Hafa skal í huga að 10 þúsund eldri borgarar búa einir. R20040100
Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð endurskoðunarnefndar við ummælum Einars S Hálfdánarsonar að skýrsla um braggan hafi verið stungið undir stól
Haft er eftir Einari S. Hálfdánarsyni í Fréttablaðinu 14. apríl að braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að „það sé ekki nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“ (haft eftir Einari í Fréttablaðinu). Flokkur fólksins óskar eftir að fá viðbrögð hinna tveggja nefndarmannanna við orðum Einars. Flokkur fólksins óskar jafnframt eftir að fá upplýsingar um hvað hefur verið rætt um í nefndinni er varðar braggaskýrsluna og að sum brotin sem þar er lýst hafi mögulega varðað við ákvæði hegningarlaga um umboðssvik. Hér er kallað eftir gegnsæi og hreinskilni og að allt sem endurskoðunarnefndin hefur rætt um í þessu sambandi komi fram í dagsljósið. Endurskoðendur bera mikla ábyrgð og á þá er treyst. Það má lesa úr orðum Einars að nefndin var ekki sammála um hvort rannsaka ætti braggamálið af þar til bærum yfirvöldum. Nefndin kom fyrir borgarráð þegar braggamálið var í algleymingi. Nefndin var spurð um þetta atriði ítrekað m.a. af fulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins og var svarið ávallt það sama að ekki væri talið að misferli ætti sér stað og þar að leiðandi ekki þörf á frekari rannsókn.
Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort endurskoðunarnefnd leggi til að breyting verði gerði á reikningsskilaaðferðum Félagsbústaða í kjöfar þess að Einar Hálfdánason hefur sagt sig úr nefndinni vegna þeirra:
Einar S. Hálfdánarson endurskoðandi hefur sagt sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar m.a. vegna þeirrar reikningsskilaaðferða sem notaðar er hjá Félagsbústöðum. Félagsbústaðir eru gerðir upp samkvæmt IFRS-staðli. En þar sem félagið er óhagnaðardrifið ætti ekki að nota þennan staðal samkvæmt Einari og vísar hann í minnisblað KPMG frá árinu 2012 þar sem hann segist efast um að fyrirkomulagið standist íslensk lög. Félagið á nú tæpar 2000 íbúðir. Þær eru gerðar upp á gangverði en ekki afskrifuðu kostnaðarverði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort endurskoðunarnefndin, það sem eftir er af henni, hyggist leggja til breytingar á reikningsskilaaferðum sem notaðar eru þannig að íbúðirnar verði afskrifaðar á kostnaðarverði en ekki gerðar upp á gangvirði? Borgarfulltrúi Flokks fólksins kom inn á þetta í tillögu sinni um að gerð yrði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum í borgarstjórn árið 2018 m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Í greinargerð með tillögunni var óskað eftir svörum um hvernig hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi félagsins.
Fyrirspurn Flokks fólksins um af hverju borgaryfirvöld hafa ekki gripið til sömu ráða og nú við að koma öllum þeim sem ekki eiga heimili undir þak
Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni, gistandi hér og þar og fengið að halla höfði hjá vinum og ættingjum nótt og nótt. Af hverju hefur þessu fólki ekki verið útvegað þak yfir höfuðið í öll þessi ár? Nú ætlar Reykjavíkurborg að taka það hlutverk að sér að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að allir þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn ætti samtal við félagsmálaráðherra um að koma öllum undir þak. Á öllum tímum hefði borgarstjóri getað haft frumkvæði að því að gera samkomulag við ríkið um lausn sem þessa en gerði ekki. Flokkur fólksins óskar svars við spurningunni, af hverju var ekki gripið til þessa ráðs fyrir löngu á sama tíma og andvara- og sinnuleysi borgaryfirvalda gagnvart heimilislausum og fátæku fólki er gagnrýnt þegar kemur að húsnæðismálum. Ljóst er að vel hefði verið hægt að hjálpa öllum heimilislausum á landsvísu óháð lögheimili hefði áhugi verið fyrir hendi.
Tillaga Flokks fólksins að oddvitar og formenn ræði formlega saman um með hvaða hætti meiri- og minnihluti geti lagt drög að breyttu vinnulagi sem stuðlar að samvinnu frekar en sundrungu
Flokkur fólksins leggur til að oddvitar flokkanna og formenn fagráða ræði formlega saman um með hvaða hætti meiri- og minnihluti geti lagt drög að breyttu vinnulagi til að stuðla að samvinnu frekar en sundrung. Þessi tillaga er lögð fram í kjölfar reynslu borgarfulltrúa Flokks fólksins í velferðarráði, að hafa lagt fram tillögu sem ákveðið er að framfylgja á sama fundi og tillögunni sjálfri er vísað frá. Borgarfulltrúi kom í borgarstjórn til að láta gott af sér leiða og finna leiðir og lausnir til að bæta þjónustu við borgarbúa. Það eru því vonbrigði að horfa á fjölda mála, hugmynda í formi tillagna ýmist vísað frá eða felld án þess að fá nokkra skoðun. Steininn tók úr þegar tillaga Flokks fólksins um að „afnema skilyrðið að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð“ var vísað frá en á sama fundi ákvað meirihlutinn að gera breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð í samræmi við tillöguna. Hér hefði farið vel á því að samþykkja tillögu Flokks fólksins enda varð ákveðið að framfylgja henni. Að horfa á vinnubrögð sem þessi vekur upp spurningu um hvað liggi að baki, hvort hér sé verið að leika leiki eða skjóta pólitískar keilur. eða hvort það sé meginmarkmið þessa meirihluta að gæta þess umfram allt að enginn minnihlutafulltrúi fái nokkurn tímann að njóta sín í borgarstjórn eða geta sagt að hann hafi náð nokkur í gegn?
Tillaga Flokks fólksins að umsækjendur um starf borgarritara komi inn á fund borgarráðs til þess að fulltrúar geti kynnst þeim og spurt spurninga
Tillaga um þeir umsækjendur sem koma til greina í starf borgarritara komi inn á fund borgarráðs. Flokkur fólksins ítrekar beiðni um samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritari. Lagt er til að þeir sem komi til greina komi á fund borgarráðs og gefi fulltrúum tækifæri til að eiga samtal og spyrja umsækjendur spurningar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka einhvern þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri með beinum hætti til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. Athuga skal að borgarfulltrúar minnihlutans höfðu enga aðkomu að gerð reglna um ráðningarferil sem fylgt er í þessu sambandi. Þær reglur voru samdar og ákveðnar einhliða í það minnsta án aðkomu minnihlutafulltrúa. R20030119
Tillaga Flokks fólksins um að velferðaryfirvöld stofnsetju stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda í svipaðri mynd og rekin hefur verið hjá SÁÁ
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera aðra tilraun að leggja fram tillögu um að velferðaryfirvöld stofni stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista í svipaðri mynd og rekin hefur verið á vegum SÁÁ. Tillagan er lögð fram aftur vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ sem m.a. sinntu þjónustu við börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Tillagan var áður lögð fram 16. nóvember en vísað frá. Börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda hefur aðallega verið sinnt af sálfræðingum SÁÁ og hefur ávallt verið langur biðlisti eftir þjónustunni. Nú er engin sértæk þjónusta lengur í boði fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ. Úrræði af þessu tagi þarf að vera til og standa öllum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það, einnig án tillits til þess hvort þau eru sjálf metin í áhættuhópi eða ekki. Ekki ætti að vera þörf á tilvísun í úrræðið. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum. R19110180