Velferðarráð 22. apríl 2020

Bókun fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við liðnum: Upplýsingar um starfsemi velferðarsviðs vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af hópi erlendra einstaklinga sem hefur komið til landsins til að vinna á vegum fyrirtækja. Þetta fólk hefur nú fallið milli skips og bryggju. Þetta fólk kemst ekki, eðli málsins samkvæmt, heim núna í Covid aðstæðunum og þorir jafnvel ekki að láta yfirvöld hér á landi vita af sér. Hvernig ætlar velferðarsvið að fanga þennan hóp til að geta hjálpað þessu fólki? Þau fyrirtæki sem eru upphaflega ábyrg fyrir þessu fólki eru e.t.v. ekki öll að sinna sínu hlutverki sem skyldi. Svo margt er óljóst með þennan hóp og óttast er að margir hafi hvorki mat né húsaskjól. Þetta er fólk sem á ekki rétt á neinni aðstoð og getur aðeins leitað til hjálparstofnanna með nauðsynjar. Einhverjir hafa leitað til þjónustumiðstöðva en alls ekki allir.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Kynning á skjáheimsóknum:

Flokkur fólksins þakkar kynninguna. Þetta er virkilega þarft og gott og ekki síst nú þegar fólk hefur ekki getað hitt aðra vegna ótta við að smitast. Hins vegar er fulltrúi Flokks fólksins uggandi yfir að þetta eigi eftir að verða of mikið ríkjandi þegar fram í sækir þar sem þetta sparar starfsmönnum sannarlega sporin og gæti heimsóknum til einstaklinga því snarfækkað. Fyrir þá sem eru fastir heima vegna aldurs eða veikinda og eiga jafnvel fáa eða enga ættingja yrði það mjög slæmt. Fólk er félagsverur og við þrífumst á að vera í samfélagi við annað fólk. Tæknilausnir sem þessar, eins frábærar og þær eru, eru á sama tíma ógn við persónuleg tengsl og tengslamyndun. Engin snerting er í gegnum tæknilausnir, ekkert klapp á bak eða strok á kinn. Flokkur fólksins vill leggja varann við að gæta þess að skjáheimsóknir verði ekki til þess að horfið verði frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann. Skjáheimsóknir geta aldrei komið í staðin fyrir heimsókn manneskju. Ekkert kemur í staðinn fyrir samveru, nánd og nálægð.  Ef eðlilegt jafnvægi helst milli heimsókna og skjáheimsókna þá eru þjónustuþegar að fá það besta frá báðum möguleikum.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Kynning á verkefninu símavinir:

Þetta er glæsilegt verkefni. Það er merkilegt hvað þessi skelfilegi faraldur hefur leitt til nýrra hugmynda og blásið lífi í aðrar. Stundum þarf greinilega faraldur til. Flokkur fólksins lagði til í upphafi Covid aðstæðnanna að komið yrði á sérstakri símaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar af þeirri ástæðu að nokkrir höfðu haft samband og sagst ekki ná í starfsmann. Mestar áhyggjur voru af eldri borgurum sem hafa engar snjalllausnir aðrar en gamla góða símann. Þetta verkefni er umfram væntingar fulltrúa Flokks fólksins í þessu sambandi. Mikilvægt er að mati fulltrúa Flokks fólksins að þróa þetta verkefni áfram, víkka það út og gera þetta að föstu verkefni til framtíðar. Þeir sem ekki vildu símavin núna gætu t.d. viljað hann seinna. Hugsa má einnig um þá sem eru ekki á málaskrá borgarinnar og svo mætti lengi telja. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst mikill lærdómur.

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Kynning á aðgerðum Félagsbústaða:

Félagsbústaðir hafa verið lengi í umræðunni vegna ýmissa mála. Það var mörgum áfall þegar stjórn ákvað að senda allar skuldir fólks í innheimtu hjá Motus. Þótt leigjendur Félagsbústaða séu fjölbreyttur hópur þá eiga þeir það allir sameiginlegt að vera tekjulágir og með mjög viðkvæman fjárhag. Nú ríkir þetta ótrúlega ástand vegna Covid og hefur það komið verst niður á viðkvæmum hópum sem borgarmeirihlutinn hefur þó sagst vilja standa vörð um og hlúa að. Flokkur fólksins lagði fram, strax í upphafi ástandsins tillögu um að létta á þessum hópi með því að fella niður leigu t.d. í 1, 2 eða 3 mánuði þar sem strax kom fordæmi fyrir slíku hjá öðru leigufélagi. Niðurfelling leigu, þótt ekki væri nema í einn mánuð, myndi létta mjög á þessum hópi. Boðið er upp á greiðsludreifingu. Auðvitað hjálpar allt. Flokkur fólksins vill minna velferðaryfirvöld á að meðal leigjenda er án efa fólk sem hefur jafnvel misst vinnu sína og er því ekki að fá tekjur neitt á næstunni. Greiðsludreifing nær skammt fyrir þennan hóp ef engar eru tekjurnar kannski til langs tíma.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Lagðar fram leiðbeiningar til starfsfólks þjónustumiðstöðva um tilslakanir á fylgigögnum með umsóknum:

Flokkur fólksins fagnar því að einfalda eigi umsóknabeiðnakerfið. Það er okkar skylda að reyna að gera allt fyrir þjónustuþegann til að létta honum verkið. Til þess að svo megi vera þarf að ríkja sveigjanleiki og lipurð. Hvað varðar skriffinnsku í kringum umsóknarferlið eða upplýsingagjöf má sumt sannarlega bíða og eiga smáatriði aldrei að verða til þess að fólk fái ekki aðstoðina. Ef rafrænar leiðir henta betur fólki, sbr. að skrifa undir rafrænt eða senda umboð rafrænt þá á að opna fyrir þann möguleika að sjálfsögðu. Í raun ættu allar þessar tilslakanir að vera festar í sessi en ekki aðeins tímabundnar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi aðra tegund á tilslökunum sem þarf líka að gera. Auka þarf sveigjanleika til að geta hjálpað fólki sem fellur milli skips og bryggju. Sem dæmi um þetta eru einstaklingar, oft einstæðir foreldrar sem hafa e.t.v. þegið endurhæfingarlífeyri eða aðrar tímabundnar bætur og fá þar af leiðandi ekki fjárhagsaðstoð næsta mánuð á eftir þar sem tekjur voru umfram leyfilegt hámark mánuð á undan. Velferðarráð/svið verður að sammælast um að finna leiðir og lausnir til að mæta fólki sem er í þessum aðstæðum til þess að fólk lendi ekki á milli skips og bryggju í kerfinu.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Samningur félagsmálaráðuneytisins og Reykjavíkurbogar varðandandi tímabundinn stuðning ráðuneytisins við neyðarhúsnæði og þjónustuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir tiltekna hópa vegna Covid -19:

 

Flokkur fólksins fagnar þessum samningi en hefur áður tjáð undrun sína á hversu auðvelt þetta skref virðist hafa verið fyrir borgarmeirihlutann að taka. Ekki er hjá því komist að hugsa af hverju borgarstjóri og velferðaryfirvöld hafa ekki tekið skref sem þetta fyrir lifandis löngu því húsnæðisneyðin hefur oft verið mikil hjá fólki undanfarin ár, einstaklingum sem fjölskyldum. Þegar þarf að leysa mál þá er vel hægt að gera það, ef vilji er fyrir hendi.  Á öllum tímum hefði þessi og síðasti meirihluti getað haft frumkvæði og þrýst á um að gert yrði sambærilegt samkomulag við ríkið um lausn eins og þessa fyrir þá sem hafa þurft.  Flokkur fólksins vonast til að þessi hörmulega veirukrísa hafi þó kennt meirihlutanum í borgarstjórn að hugsa ívið meira út fyrir boxið en gert hefur verið þegar kemur að því að leysa mál af þessu tagi. Þarfir fólksins eiga alltaf að koma fyrst, á öllum tímum.

Bókun fulltrúi Flokks fólksins við liðnum: Lögð fram ályktun frá Landssambandi eldri borgara, dags. 25. mars 2020:

Flokkur fólksins hefur áður bókað við þessa ályktun og gerir það hér líka. Flokkur fólksins tekur undir hana vegna þess að eldri borgarar telja sig hafa orðið útundan þegar kemur að aðgerðum vegna Covid ástandsins. Á þetta ber að hlusta.  Eldri borgarar spyrja  hvar eru aðgerðir sem snerta þá? Það væri e.t.v. gott að fá því svarað skriflega.  Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda, mun meiri þjónustu en þau þurfa alla jafna. Landssambandið hefur sem dæmi nefnt aukin útgjöld vegna matarsendinga heim og fleira. Þetta er hópur sem er afar misvel settur. Sumir eiga ekki fjölskyldu og hafa því verið algerlega einir í þessum aðstæðum.  Fjárhagsáhyggjum eða áhyggjur vegna óvissu af einhverju tagi er ekki á bætandi.

Bókun Flokks fólksins við liðnum lykiltölur janúar- febrúar árið 2020:

Það er alltaf erfitt að sjá birtingu lykiltalna velferðarrsviðs því manni finnst í sumum málum sem hægt þokist í að lækka tölur þeirra sem bíða eftir þjónustu. Breytingar milli ára eru oft ansi litlar. Ef horft er til liðveislu þá var biðlisti umsækjenda árið 2019,  233 umsóknir en eru í dag 211.  Vandinn er sennilega sá að ekki hefur fengist í þetta fólk. Kannski rætist úr núna þar sem margir eru atvinnulausir vegna Covid-19 og að hægt verði að manna störf sem ekki hafa verið mönnuð lengi. Nú ætti einnig að vera tækifæri til að spýta í lófana og byggja húsnæði fyrir fatlað fólk. Talað hefur verið um að flýta eigi verkefnum og bæta í þau til að bæta atvinnuástandið sem nú ríkir. Mikil þörf er á að byggja íverustaði fyrir aldraða svo sem hjúkrunarrými. Eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða bíða nú um 140 manns. Velferðarráð getur þrýst þarna á svo um munar enda hefur Reykjavíkurborg skipulagsvaldið og getur haft mun meira  frumkvæði í að byggja upp hjúkrunarrými í samvinnu við ríkið. Góð rök eru fyrir því að hefja framkvæmdir þegar framboð er á vinnuafli og atvinnuleysi með mesta móti.

 

Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á málum (tilvísunum) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Óskað er sundurliðun mála í þrjá flokka:

Í fyrsta flokki væru þyngri mál sem krefjast yfirgripsmikillar greiningar á vitsmunaþroska WISC (Wechsler vitsmunaþroskapróf) ADHD greiningar, skimunar á  Asperger-heilkenni, einhverfu og kvíða- og þunglyndiseinkennum. Hér er um að ræða mál sem fagfólk og foreldrar eru sammála um að nauðsynleg sé að framkvæma til að aðstoða barnið. Þetta er sá hópur sem séð er fyrir að þurfi jafnvel enn ítarlegri greiningu og meðferð á  Þroska- og hegðunarstöð, Greiningarstöð ríkisins eða Barna og unglingageðdeild.

Í öðrum flokki væri um að ræða mál sem eru þess eðlis að hægt er að leysa þau innan skólans með fagfólki. Hluti þeirra gætu þó þurft aðkomu barnalæknis til að hægt sé að setja þau í viðeigandi farveg. Gera þarf skimun með því að leggja fyrir kvarða og próf ( Kiddie-Sads, ADIS kvíðagreiningarviðtalið, ADHD skimunarlista).

Í þriðja flokki væru tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf sálfræðinga (PMT) og stuðningi við kennara. Hér er um að ræða sálfræðivinnu sem unnin er í samráði við kennara og foreldra. Í þessum flokki er einnig beiðni um námskeið, hópavinnu og fræðslu