Svör Flokks fólksins við spurningum frá Einhverfusamtökunum vegna Alþingiskosninga

Svör frá Flokki fólksins við spurningum frá Einhverfusamtökunum

  1. Hvert yrði ykkar framlag í baráttu fyrir réttindum og þátttöku fólks á einhverfurófinu?

Flokkur fólksins mun, komist hann til áhrifa á Alþingi, standa að því að bæta réttindi og þátttöku fólks á einhverfurófi á sem flestum sviðum samfélagsins, til dæmis með því að greiða götu þeirra í skólakerfinu og efla aðstoð á vinnustað. Flokkur fólksins vill að fjölgun verði á NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) samningum. Margir eru á biðlista eftir NPA samningum hjá sveitarfélögum. Síðustu tvær ríkisstjórnir hafa ekki staðið sig nægilega vel í þessu að mati Flokks fólksins, hafa t.d. ekki staðið við eldri fyrirheit í tengslum við NPA samningana.

 

  1. Hvað ætlar þinn flokkur að gera til þess að bæta aðgengi að greiningu og eftirfylgni?

Flokkur fólksins mun gera allt sem í hans valdi stendur til þess að bæta aðgengi að greiningu og eftirfylgni. Fjölga þarf fagfólki því biðlistar í greiningu eru í sögulegu hámarki. Flokkur fólksins vill þess utan styrkja námsbrautir og nemendur til að mennta sig enn frekar í fræðum um einhverfu. Fjölga þarf stöðum þar sem greining og eftirfylgni fer fram.

Þess má geta að á  framboðslista Flokks fólksins er sálfræðingur með sérfræðiviðurkenningu Heilbrigðisráðuneytis í klínískri sálfræði og hefur sinnt greiningum þ.m.t. einhverfugreiningum í meira en 30 ár. Ekki hefur fengist fjármagn frá ríkinu til að leggja í  rannsóknir og uppfærslu staðlaðra greindarprófa og annarra þroskaprófa þ.m.t. einhverfuprófa/kvarða. Flokkur fólksins gerir sér því góða grein fyrir vandamálinu og harmar áhugaleysi stjórnvalda að hunsa mikilvægar rannsóknar í tengslum við greininga á einhverfu. Það er alvarlegt ef einstaklingur fær ranga greiningu og getur slíkt dregið langan dilk á eftir sér.  Komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi munu þingmenn hans beita sér af krafti fyrir að bæta aðgengi að greiningu og eftirfylgni.

 

  1. Hvað telur þinn flokkur að sé ásættanleg bið eftir greiningu?

 Biðlistar eftir greiningu og allri aðstoð eru í sögulegu hámarki sem er með öllu ólíðandi. Fjöldinn allur bíður í marga mánuði og jafnvel ár. Á meðan bíður viðkomandi og aðstandendur í óvissu og angist. Flokkur fólksins vill uppræta biðlista. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir að fá greiningu og að fenginni greiningu á að fylgja strax í kjölfarið markviss meðferð, þjálfun og eftirfylgni. Flokkur fólksins getur ekki sætt sig við að samfélag eins og okkar sem er gjöfult samfélag sé haldið þessu biðlistameini. Skýringar stjórnvalda hafa iðulega verið  „mannekla“. Til að hægt sé að ráða fleira fagfólk þarf aukið fjármagn. Fjármagni er ekki forgangsraðað í þágu fólksins. Börn með raskanir eða önnur vandamál sem þarfnast meðhöndlunar hafa ekki verið sett í forgang. Þetta kjörtímabil hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að eyða biðlistum. Spurt er um hvað flokkurinn telur vera ásættanlega bið eftir greiningu. Svar Flokks fólksins er að eftir að umsókn berst, verði biðin ekki lengur en  2-3 vikur í mesta lagi.

 

  1. Hvaða leiðir myndi þinn flokkur fara til að bæta aðgengi einhverfra að geðheilsuteymum? Eins og staðan er í dag þá er algengara en ekki að fólki á einhverfurófi sé vísað frá geðheilsuteymunum sökum þekkingarskorts starfsfólks.

Flokkur fólksins tekur undir að eins og staðan er í dag þá er algengara en ekki að fólk á einhverfurófi sé vísað frá geðheilsuteymum. Þetta er óásættanlegt. Flokkur fólksins vill að sett verði í þennan málaflokk það fjármagn sem þarf til að gera þjónustuna ekki aðeins viðunandi heldur fullnægjandi.

Flokkur fólksins vill að lagðir verði fjármuni til að styrkja fólk í geðheilsuteymum til að afla sér menntunar um einhverfu og skyldar fatlanir. Skoða þarf nám og starfsbrautir bæði í framhaldsskólum og háskólum varðandi sérstaka menntun um einhverfu. Aftur er þetta spurning um hvernig fjármagni er útdeilt og að mati Flokks fólksins hefur fólkið og þjónusta við það ekki verið sett í forgang. Flokkur fólksins vill útdeila fjármagni með öðrum hætti og þá þannig að Fólkið og þarfir þess séu  ávallt í fyrsta sæti. Fólkið fyrst – og svo allt hitt!!

  

  1. Hvaða tillögur hefur flokkurinn sem stuðla að aukinni fræðslu og þekkingu á einhverfu fyrir íslenskt samfélag?

Flokkur fólksins, komist hann til áhrifa á Alþingi, mun  standa að tillögum sem lúta að því að fá fagaðila á sviði einhverfu til að útbúa til dæmis vandaða sjónvarps- og útvarpsþætti fyrir almenning þar sem fjallað er um fötlunina einhverfu og hvernig er hægt að þjónusta einhverfa á þeirra forsendum. Gæta þarf þess að hafa ávallt fullt samráð við þjónustuþega en Flokki fólksins finnst sem fullnægjandi samráð  við þann sem á að þjónusta hafi engan vegin verið nógu gott.  Það er mikilvægt að þjóðin þekki vel til einhverfu-fötlunar enda getur hún birst í mörgum myndum. Einhverfurófið er langt róf ef svo má að orði komast. Fræða þarf nemendur um þessa fötlun sem aðra strax í grunnskóla. Foreldrar barna sem vísbendingar eru um að séu með einhverfu eða á einhverfurófi þurfa að fá miklu þéttar utan um hald, fræðslu og stuðning.

 

  1. Hver er ykkar afstaða til stofnunar þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar?

Afstaða Flokks fólksins til stofnunar þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar er jákvæð enda er hún nauðsynleg í samfélagi nútímans. Þekkingar- og nýsköpunarmiðstöð einhverfra hefur sárlega skort.  Það þarf að setja upp miðstöð sem getur aðstoðað einhverfa við að gera það sem þá langar, nýta krafta sína sem best og ná tilætluðum árangri. Sú miðstöð sem hér um ræðir gæti leiðbeint fjölskyldum, aðstandendum og einhverfum sjálfum um þau málefni er einhverfu snerta.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og frambjóðandi í 2. sæti fyrir Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.