Umhverfis- og skipulagsráð 10. ágúst 2022

Bókun Flokks fólksins við nýju hverfi á Kjalarnesi, Jörfi/Norðurgrund, breyting á deiliskipulagi:

Flokkur fólksins fagnar þessari uppbyggingu. Þarna eru innviðir til staðar. Ef til vill hefði mátt vera meiri fjölbreytni, allt frá litlum íbúðum í stærri eignir. Mikilvægt er að hafa góðar aðstæður fyrir bíla, bæði við eignir fyrir íbúana og gesti. Í hverfinu eru ekki atvinnutækifæri svo leiða má líkur að því að íbúar noti einkabíl í ríkum mæli enda ekki margir aðrir kostir sem virka nema fyrir lítinn hóp kannski.
Áfram þarf að bæta í innviði t.d. t.d. setja verslanir og aðra þjónustu til að gera hverfið sjálfbært. Vonandi heldur áfram uppbygging í hverfinu af miklum krafti og að tillögur í þeim efnum verði unnar í góðu samstarfi og sátt við íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hallsvegur, tvær gönguþveranir merktar sem gangbrautir, tillaga:

Lagfæringar á gönguleiðum yfir Hallsveg hafa lengi verið brýnar og Flokkur fólksins var með bókun í þessu máli 8.9. 21 og vísaði þá í erindi íbúaráðs Grafarvogs. Þá var kvartað yfir því að hægt gengi að klára einföld atriði svo sem að gera almennilegar aðstæður fyrir gangandi vegfarendur. Um eitt ár hefur tekið að bregðast við. Fólk hefur haft áhyggjur lengi og nokkuð er síðan að hraðamælingar bentu til þess að aksturshraði væri nokkuð hærri en hámarkshraði segir til um. Ástæða fyrir að ekki var gripið fyrr í taumana var að sérfræðingar á skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar töldu að umferð um Hallsveg væri of lítill til að þörf væri á að koma þar fyrir sérstökum gangbrautarljósum. Af þessu má sjá að málið á sér langa sögu.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðu sorphirðu:

Kynnt er staða sorphirðu í Reykjavík. Auka á flokkun sem er nauðsynlegt og löngu tímabært. Flokkur fólksins var með tillögu um þriggja tunnu flokkunarkerfi fyrir þremur árum sem var felld. Mikilvægt er að nota tvískiptar tunnur til að fækka tunnum, hafa t.d. plast og pappír í sömu tunnu, tvískiptri. Sveitarfélög eru ekki komin langt í að endurvinna gler þó að það eigi að fara að safna því núna. Samkvæmt skuldbindingum gagnvart ESB á að endurvinna gler en það er ekki gert enn. Eins er spurning um að bjóða út á almenna markaðnum t.d. í einu póstnúmeri til þess að bera saman verð og þjónustu SORPU og almenna markaðarins. Öll sveitarfélög nema Reykjavík bjóða út sína sorphirðu og ekki að sjá að það sé sérstök óánægja með slíkt. Nefna má að þegar ófærð var hér sem mest seinkaði þjónusta SORPU um vikur. Á sama tíma gekk nokkuð vel t.d. tæming hjá íslenska gámafélaginu. Nú er sorphirða að færast í djúpgáma og SORPA að kaupa bíla sem getur losað djúpgáma. SORPA ætlar að þjónusta þá sem er kannski ekki mjög hagkvæmt. Nær væri að skoða að bjóða slíkt út.

 

Bókun áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gerð nýs umhverfismats vegna 3ja áfanga Arnarnesvegar, sbr. 36. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. júní 2022

Flokkur fólksins hefur enn á ný og nú á nýju kjörtímabili lagt fram tillögu um gerð nýs umhverfismats vegna 3. áfanga Arnarnesvegar þar sem fyrra umhverfismat er frá 2003 og því úrelt. Tillagan var lögð fram í með von og trú að leiðarljósi þar sem frambjóðandi Framsóknarflokksins gaf út loforð, skömmu fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn, komist hann til valda myndi láta gera nýtt umhverfismat. Tillögunni er vísað frá. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærðar eru ákvarðanir Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um að samþykkja deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og Elliðaárdals 29.06.2022., sem og staðfesting borgarráðs frá 01.07.2022 á nefndum deiliskipulögum. Þess er krafist að deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og deiliskipulag Elliðaárdals frá 01.07.2022 verði felld úr gildi. Þess er einnig krafist að engin framkvæmdaleyfi fyrir 3. kafla Arnarnesvegar eða Elliðaárdals verði gefin út á meðan mál þetta er til meðferðar hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Flestir íbúar í nágrenni við framkvæmdina telja að framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, hljóðvist og útivist á svæðinu og koma í veg fyrir að svæðið verði miðstöð útivistar og afþreyingar.

 

Ný mál frá Flokki fólksins:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aukið aðgengi að vatni í borginni.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins umaukið aðgengi að vatni í borginni, sbr. 31. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 25. maí 2022.

Flokkur fólksins leggur til að lagt verði í stórátak í að auka framboð á drykkjarvatni með drykkjarbrunnum og horft verði ekki síst til aðgengi að vatni í skólum borgarinnar. Hjólreiðafólki og hlaupurum fer fjölgandi í borginni og samhliða hefur komið í ljós að mikill skortur er á  drykkjarbrunnum meðfram hjóla- og göngustígum borgarinnar. Þeir brunnar sem finna má eru sumir ónothæfir. Fjölga þarf brunnum og vanda til verka til að brunnarnir haldist nothæfir til lengri tíma.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal:

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal, sbr. 39. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. júní 2022.

Talan á óbyggðum sérbýlis lóðum í Úlfarsárdal er um 30. Þetta eru allt lóðir sem Reykjavíkurborg bauð út árið 2006 og seldi hæstbjóðendum og fékk greitt fyrir þær fyrir 15 – 16 árum. Á þessum lóðum má víða sjá rusl og drasl og oft byggingarefni sem legið hefur á víð og dreif um þessar lóðir og fokið um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær borgar- og skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við þessu ástandi í Úlfarsárdal og hvernig? Eiga þessar lóðir að vera óbyggðar áfram? Læra þarf að þessu. Þegar skipulagsyfirvöld veita byggingarleyfi eiga að fylgja því  tímamörk sem umsækjandi hefur til að fullklára bygginguna. Útgefið leyfi þarf að leiða til þess að bygging rísi á viðkomandi lóð innan ákveðins tíma. Um tímann má semja enda ýmislegt sem kemur til. Fram til þessa eru sum útgefin leyfi aðeins pappír um eitthvað sem kannski verður gert. Í einhverjum tilfellum eru engar sérstakar ástæður fyrir töfum nema kannski að það standi illa á hjá lóðarhafa, hann vilji jafnvel bíða og sjá hvert íbúðaverð sé að þróast. Það sárvantar húsnæði sem hefur leitt til þess að fasteignamarkaðurinn er ekki í jafnvægi.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, um kostnað vegna undirbúnings við nýja byggð í Skerjafirði:

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna undirbúnings við nýja byggð í Skerjafirði, sbr. 48. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022.

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um  hvað öll undirbúningsvinna við uppbyggingu nýrrar byggðar í Skerjafirði og innviða hefur kostað til þessa. Óskað er grófrar flokkunar/sundurliðunar á kostnaði.

Mikil vinna og fjármagn hefur verið veitt í skipulagningu á uppbyggingu í Skerjafirði sl. ár Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að þetta er ótímabær vinna vegna óvissu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nú eru ekki aðeins komin skil í málið heldur afgerandi niðurstaða því Innviðaráðuneytið telur með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir í Skerjafirði án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti sé búið að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta á áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefja engar framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flug fræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní. Ljóst er að síðasti meirihluti fór á undan sér í þessu máli þrátt fyrir ítrekuð varnarorð og tillögu um að fresta verkefninu um ókominn tíma. Flokkur fólksins óttast að ef miklar tafir verða á framkvæmdum muni sú vinna sem lögð hefur verið í hönnun og skipulag hins Nýja Skerjafjarðar ekki verða nothæft þegar grænt ljós kemur á framkvæmdir sem óvíst er hvenær verður.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, fjármáladeildar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um reglur um tíma sem hús mega standa óuppgerð:

Flokkur fólksins leggur til að settar verði reglur um þann tíma sem hús megi standa ónotuð og óuppgerð. Sérstaklega á þetta við um gömul hús sem mörg eru friðlýst vegna aldurs. Það að slík hús séu ekki í notkun skapar oft hættu og slík hús verða líka líti á hverfinu.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að bjóða út sorphirðu

Tillaga Flokks fólksins um að bjóða út sorphirðu í póstnúmeri og kanna hagkvæmni á að bjóða út þjónustu við djúpgáma Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Flokkur fólksins leggur til að SORPA kanni ávinning þess að bjóða út sorphirðu með því að bjóða út sorphirðu í einu af póstnúmerum Reykjavíkur.

Flokkur fólksins leggur til að gerð verði hagkvæmisúttekt á þjónustu við djúpgáma með þeim tækjum og tólum sem til þess þarf en SORPA hyggst sjálf þjónusta djúpgáma. Flokkur fólksins bendir í þessu sambandi á skýrslu norrænu samkeppniseftirlitanna frá 2016 „Competition in the Waste Managment Sector. Preparing for a Circular Economy“. Löngu er tímabært að auka flokkun á söfnunarstað en í þessu stóra verkefni þarf að huga að kostnaði. Það er skylda sveitarfélags að fara vel með fjármagn, útsvar borgarbúa og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar. Í þessu stóra verkefni er ekki að sjá að kannað hafi verið hvort hagkvæmara sé að bjóða út einstök verk og verkefni eins og flest önnur sveitarfélög hafa gert. Þetta gagnrýnir fulltrúi Flokks fólksins.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hreinsun í Breiðholti:

Í sumar hefur ástandið í Breiðholti verið slæmt þegar kemur að hreinsun. Ruslastampar hafa verið yfirfullir bæði í Seljahverfi og við leikvelli og við kartöflugarðana ábak við Fljótasel. Borgarfulltrúar hafa fengið ábendingar um þetta frá íbúum. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsinga um tíðni hreinsunar og ástæður fyrir af hverju hreinsun er ekki eins góð og hún ætti að vera.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um torg og kostnað við útipall:

Gera á „bráðabirgða útipall“ við Frakkastíg. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvað svona „bráðabirgða“ útipallur kostar? Er verið að velja hagkvæmustu lausnina? Flokkur fólksins óttast að hér sé á ferðinni sóun og bruðl. Flokkur fólksins óskar upplýsingar um kostnað Reykjavíkurborgar síðustu 5 árin við að fegra miðbæ Reykjavíkur (torg/stíga/upphitun stíga/jólaskraut/útihátíðir/aðrar uppákomur o.fl.) á móts við aðra bæjarhluta? Óskað er eftir því að fá samanburðartölur t.d. hvað kostaði Óðinstorg og hvað kostaði torgið í Mjódd? Hver er kostnaður síðustu 5 árin við að fegra miðbæ Reykjavíkur (torg/stíga/upphitun stíga/jólaskraut/útihátíðir/aðrar uppákomur o.fl.) til samanburðar við aðra bæjarhluta? Flokkur fólksins þreytist seint á að tala um forgangsröðun. Í Reykjavík er forgangsröðun kolröng. Allt púður er sett í að fegra og skreyta á meðan bíða 2012 börn eftir nauðsynlegri þjónustu hjá grunnskólum borgarinnar. Er það þetta sem nýr meirihlutinn vill standa fyrir?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um aðgengi að Hlemmi:

Nýlega hófust framkvæmdir við fyrsta áfanga að nýju Hlemmtorgi og þegar hefur Rauðarárstíg milli Laugavegar og Bríetartúns verið lokað. Gert er ráð fyrir að Rauðarárstígur verði lokaður til suðurs við gömlu Gasstöðina en þar verður snúningshringur fyrir fólksbíla. Spurning: Ef horft er til Rauðarárstígs spyr Flokkur fólksins hvort haft hafi verið samráð við íbúa áður en ákveðið var að hefja framkvæmdir. Næst Bríetartúni og sleppistæði fyrir leigubíla. Þá verða tvö stæði fyrir hreyfihamlaða við snúningshringinn, nær Hlemmi. Aðgengi verður stórlega skert. Íbúar sem búa í grennd við Hlemmtorg hafa áhyggjur af því að geta ekki lagt bíl við hús sín til að afferma. Flokkur fólksins hefur lagt til að fundin verði lausn á þessu þannig að íbúar við göngugötur, torg og önnur svæði sem meirihlutinn hefur lokað fyrir bílaumferð fái leyfi í samræmi við leyfi sem verslanir og veitingastaðir hafa þegar til að flytja inn vörur. Tillaga var felld. Á þessu svæði er blönduð byggð, margir með börn og einnig býr þarna fatlað fólk. Spurning: Hvernig á þetta fólk að bera inn matarpoka eða húsgögn ef því er að skipta, með barn á handlegg eða notast við hjálpartæki.