Umhverfis- og skipulagsráð 13. mars 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á breytingum á fyrirkomulagi Vinnuskólans í Reykjavík.

Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti launalega sem og öðrum málum sem tengjast vinnuskólanum. Laun ungmenna sem starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur hafa verið langt undir því sem unglingar fá í öðrum sveitarfélögum fyrir sambærileg störf. Það er forkastanlegt að unglingum sé mismunað eftir því hvar þeir búa. Það þarf að tryggja jafnræði í launum og að laun í Vinnuskólanum fylgi launaþróun í landinu. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Þótt verðbólga sé eitthvað að lækka má ætla að langur tími sé í einhvern viðvarandi stöðugleika í efnahagslífinu. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á þekktum sprungusvæðum innan Reykjavíkur. Páll Einarsson frá Háskóla Íslands og Þórólfur Jónsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24010169

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi fyrir áhugavert erindi. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið að heyra og lesa um hversu mikið hefur verið byggt á sprungum, á sprungum sem vel er vitað um. Svo virðist sem enn sé verið að byggja á hættusvæðum eftir því sem næst er komist. Fram hefur komið í fréttum að verið sé að byggja á þekktum sprungusvæðum í nýjum hverfum. Ber þar að nefna við Urriðakotsvatn, Elliðavatn, Norðlingaholt og við Rauðavatn. Þetta er sérkennilegt því halda mætti að eftir allt sem á undan hefur gengið í eldgosamálum á Íslandi að búið sé að læra lexíuna. Það þarf að huga vel að hvar öruggt er að setja niður hús á okkar góða landi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni endurauglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Plúsarkitekta að breytingu á hverfisskipulagi í Árbæ, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut. Í breytingunni sem lögð er til felst að lóð er stækkuð til norðurs.

Í tveimur auglýsingarumferðum berast sambærilegar athugasemdir frá fólki og lúta þær að fjölda íbúða, byggingarmagn og aukna umferð. Lóðin þolir ekki þennan íbúðafjölda sem lagt er upp með (25 íbúðir) og er þrengt að nágrönnum. Lýst er áhyggjum af því að Selásbraut þoli illa aukna umferð vegna íbúðafjölgunar á lóðinni. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það. Skipulagsfulltrúi hefur svör á reiðum höndum við öllum athugasemdum. Ein innkeyrsla er færð til að koma á móts við athugasemd/ábendingu en annað stendur óhaggað þar með uppbyggingu á lóð og fjölda bílastæða. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem þetta samráðsferli geti varla verið alvöru því nánast allt sem fólk bendir á að þurfi að laga nær ekki fram að ganga. Þannig er það í flestum sambærilegum málum.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lagfæringu á gangstéttum í Norðurhólum, Hólabergi og Hraunbergi, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 17. janúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 21. febrúar 2024.

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24010167

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framkvæmdir við Arnarnesveg, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. nóvember 2023. Einnig er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 6. mars 2024. USK23110178

Flokkur fólksins lagði inn fyrirspurn í nóvember sl. um slysahættu í kringum framkvæmdir á Arnarnesveg og hvaða mótvægisaðgerðir eru til að tryggja öryggi í kringum svæðið. Auðvelt er að komast inn á svæðið. Í svari segir að Vegagerðin beri ábyrgð en verktakinn hefur fengið úthlutað afnotaleyfi frá borginni en í því segir að leyfishafi ber ábyrgð á að tryggja öryggi á svæðinu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst enn ósvarað hver hefur eftirlit með að öryggisvörnum sé fylgt í hvívetna? Hver fer á staðinn reglulega og kannar öryggismál? Borgin veitir afnotaleyfið og getur því varla fríað sig ábyrgð eða varpað henni alfarið á Vegagerðina.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins setji viðgerðir leikskóla í forgang.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld, umhverfis- og skipulagssvið setji viðgerðir og framkvæmdir á leikskólum í forgang.

Greinargerð

Ekki þarf að fara mörgum orðum í að lýsa því neyðarástandi sem ríki í borginni vegna skorts á leikskólaplássum. Ástæður fyrir þessum mikla skortir eru auk þess að mistekist hefur að fullklára verkefnið Brúum bilið. Mannekla er annar stór vandi sem er orðinn rótgróinn í Reykjavík og sem meirihlutinn hefur ekki tekist að vinna bug á. Það sjá flestir sem vilja að umhverfis- og skipulagssvið getur gert betur, gengið röskar í þetta stóra verkefni enda neyðin mikil. Annað minna áríðandi getur beðið betri tíma. Í desember 2023 kom í samantekt sem birt var í fjölmiðlum að frá  árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum. Í fyrra voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við tugi barna. Mygla í leikskólum borgarinnar hefur gert vonda stöðu enn verri. Skortur á leikskólaplássum er í sögulegu hámarki. Mörg hundruð börn bíða eftir plássi. Viðhald og viðgerðir ganga allt of hægt og bera skipulagsyfirvöld ábyrgð á því. Leggja má til hliðar um stund önnur verkefni s.s.  Grófarhús, Hlemm og önnur sambærileg verkefni/byggingar sem meira eru til skrauts eða til að hýsa afþreyingu

Frestað. USK24030171

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna hávaða við framkvæmda Arnarnesvegar:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagssvið beini því til verktakar sem standa að framkvæmd 3ja áfanga Arnarnesvegar að þeir fylgi reglum í hvívetna um vinnutíma ekki síst um helgar.

Greinargerð

Það eru ákveðnar reglur um mörk þegar framkvæmdir standa yfir. Sem dæmi má ekki hefja vinnu fyrir kl. 10 um helgar. Séu þessar reglur brotnar geta íbúar fátt annað gert en að hringja á lögreglu. Framkvæmdirnar eru að  valda nærstöddum íbúum miklu ónæði. Hávaðinn er ærandi og nær yfir stórt svæði Seljahverfis. Unnið er langan vinnudag og stundum um helgar. Dæmi eru um að skarkið hafi byrjað snemma á laugardagsmorgni. Um þetta eru reglur sem fylgja þarf í hvívetna um vinnutíma ekki síst um helgar. Það má nefna hér að umhverfismatið sem er notað til að réttlæta þessa framkvæmd er meira en 20 ára gamalt og því varla í nokkrum takti við núverandi áherslur á umhverfisvernd og lýðheilsu. Einnig hefur Vegagerðin ítrekað brotið upplýsingalög með því að hunsa fyrirspurnir og kvartanir íbúa vegna framkvæmdanna. Skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar geta ekki fríað sig ábyrgð hér enda hefði  meirihlutinn vel geta óskað eftir nýju umhverfismati eins og fulltrúi Flokks fólksins lagði margsinnis til. Þessi framkvæmd er í raun skólabókardæmi um ofríki og kúgun stofnana, sveitarfélaga og ríkis gagnvart íbúum.

Frestað USK24030173