Borgarráð 16. febrúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. febrúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. febrúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand:

Í athugasemdum er kvartað yfir ófullnægjandi kynningu. Einnig er kvartað yfir of miklu skuggavarpi. Enda þótt allar byggingar varpi vissulega einhverjum skugga er hér um að ræða vandamál sem tengist of mikilli þéttingu byggðar og þá er það þéttingarstefnan sem er vandamálið. Nefndir eru mögulegir vindstrengir og það er atriði sem á að kanna áður en form bygginga er ákvarðað. Skipulagsyfirvöld sinna þessu atriði lítið sem ekkert með þeim afleiðingum að allt of oft myndast hættulegir vindstrengir nálægt háum byggingum. Um það eru þekkt dæmi í Reykjavík. Í gögnum er ekkert fjallað um þennan þátt sem ætti að vera eitt af aðalatriðunum. Bent er á að leikskóla- og skólamál séu í ólestri í hverfinu. Taka þarf strax á þeim málum. Vonandi verður tekið tillit til þessara athugasemda. Endurskoða þarf samráð og kynningarmál frá grunni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 16. febrúar 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023:

Margt í viðaukum að þessu sinni er gott, s.s. kjarabætur skóla- og frístundasviðs og tillaga um að fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækki um 8.724 þ.kr til að standa undir uppgjörskostnaði til Farfugla vegna afnota langtímagesta af tjaldsvæðinu. Hækka á greiðslur til Jafnlaunastofu vegna orlofsskuldbindinga. Jafnlaunastofa var ein af þeim einingum  sem spratt upp á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði. Flokki fólksins finnst og hefur nefnt það áður að ekki sé þörf á að hafa Jafnlaunastofu sem sjálfstæða einingu. Vegna afar lítilla rekstrar- og efnahagsumsvifa er vandséð af hverju Jafnlaunastofa er ekki felld undir rekstur félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Slík breyting yrði hagræðing í ljósi fjármálavanda borgarinnar. Einn liður í viðauka er hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er lagt til að fjárheimildir skrifstofu miðlægrar stjórnsýslu verði hækkaðar um 2.913 þ.kr. vegna hækkunar á árgjaldi. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur ekki hlynntur hækkun á árgjaldi hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru um að ræða 2.913 þ.kr.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga borgarstjóra að leggja niður borgarskjalasafn:

Leggja á niður Borgarskjalasafn. Þetta er einmitt eina stofnunin sem var ekki meðvirk með bragga skandalnum og fékk þá sennilega sinn dauðadóm. Skýrsla KPMG er hlutdræg og því ótrúverðug. Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi, heldur safnið úti öflugri starfsemi, tekur við eldri skjölum, varðveitir þau og svarar fyrirspurnum. Heildarsafnkostur Borgarskjalasafns er yfir 10 km Birt hafa verið á þriðja hundrað þúsunda síðna af skjölum á vefsíðu safnsins sem verið er að endurgera. Stafræn umbreyting er komin vel af stað og mun samfara aukinni móttöku gagnasafna til langtímavarðveislu minnka húsnæðisþörf safnsins og verða minni en kemur fram í skýrslu KPMG. Á Þjóðskjalasafni er  hvorki pláss né mannafli til að sinna verkefnum Borgarskjalasafns. Gæði, þjónusta og eftirlit  með skjalavörslu borgarstofnanna myndi minnka. Safnið hefur undirbúið að fara í sameiginlegt húsnæði með Þjóðskjalasafni en söfnin yrðu áfram sjálfstæð. Með því yrðu mikil samlegðaráhrif. Unnar hafa verið húsnæðisgreiningar og mannaflaþörf fyrir næstu 30 árin til að dreifa kostnaði. KPMG stillir þessum tölum upp þannig að allt komi til framkvæmda næstu 3-4 ár með tilheyrandi kostnaði, sem er óraunhæft. Það sýnir metnaðarleysi meirihlutans að treysta sér ekki til að halda úti vönduðu héraðsskjalasafni en allar höfuðborgir landa í Evrópu eru með borgarskjalasöfn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. febrúar 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar 2023 á tillögu um breytingar á reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar:

Hér er um að ræða reglur um skilyrði fyrir dvöl barna á frístundaheimilum. Flokki fólksins er umhugað um þá sem eru í vanskilum en samkvæmt reglum þá mega foreldrar ekki vera í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna dvalar barns/barna þeirra á frístundaheimili. Flokki fólksins finnst orðalagið í reglunum ekki endurspegla það.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt fram minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 12. febrúar 2023, varðandi niðurstöður í könnunni Stofnun ársins:

Könnunin er byggð upp af níu þáttum sem eru; stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnrétti. Hér er að finna hafsjó af upplýsingum. Athygli vekur hversu miklu færri eru nú ánægðir með styttingu vinnuvikunnar en árið 2022 en þá voru 72,4% mjög eða frekar ánægð en nú aðeins 44,1%. Þetta gefur sterkar vísbendingar um að stytting vinnuvikunnar hafi ekki skilað þeim jákvæðu áhrifum sem áætlað var og það eru mikil vonbrigði. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem að það var ekki raunhæft að ekki króna fylgdi verkefninu. Það eru í raun sömu sviðin sem eru að koma illa út í könnuninni. Lægst er svarhlutfall hjá skóla- og frístundasviði en hæst hjá mannauðssviði sem kemur ekki á óvart. Heildareinkunn er lægst hjá fjármálasviði og umhverfis- og skipulagssviði. Þátturinn jafnrétti kemur best út. Einelti er alltaf óásættanlega mikið, 55.7% svöruðu að gerandi hefði verið vinnufélagi og 36,5% sögðu gerandann vera stjórnandann. 2,6% hafa orðið fyrir kynferðisáreiti sl. 12 mánuði. Flokkur fólksins spyr hvað á að gera með þessar niðurstöður. Á ekki að nota upplýsingarnar til að laga hlutina?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Hjálagt erindisbréf stýrihóps um heildstæða matarstefnu er lagt fram til samþykktar. Óskað er eftir að borgarráð staðfesti tilnefningar fulltrúa meirihlutans í hópinn og tilefni fulltrúa minnihluta:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að setja eigi á laggirnar þennan hóp og væntir þess að hann skili einhverju bitastæðu af sér. Umfram allt þarf að leggja áherslu á stefnu sem felur í sér að fæða sé framleidd í sátt við umhverfi og náttúru og með dýraverndarsjónarmið að leiðarljósi. Einnig verður að draga úr sóun matar sem er alltof mikil. Reykjavík er í lykilstöðu enda eru þar framleiddar milljónir máltíða á ári hverju og ber borgin mikla ábyrgð á næringarástandi þeirra sem reiða sig að hluta eða nær eingöngu á máltíðir frá borginni eins og segir í erindisbréfinu. Reykjavíkurborg er í því áhrifastöðu á þróun matvælaframboðs. Það hlýtur að þurfa að draga úr framboði af mikið unnum mat (ruslfæði) og ávallt að bjóða upp á val og að fólk skammti sér sjálft, þar með talið börnin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag vegna innheimtu hjá B-hluta fyrirtækjum borgarinnar, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. janúar 2023:

Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt harkalegar innheimtuaðgerðir gagnvart fólki sem má sín minna í samfélaginu. Það kallast harkalegt að senda smáar, jafnvel tilfallandi skuldir leigjenda Félagsbústaða til innheimtufyrirtækja sem taka ekki á málum með neinum vettlingatökum. Hér er spurt um hvernig innheimtuviðvörunum er háttað hjá öðrum B-hluta fyrirtækjum. Athygli vekur hvað þær eru mismunandi. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru innheimtuviðvaranir sendar út 20 dögum eftir eindaga. Hjá Félagsbústöðum fer skuldin strax til Motus sem sendir út innheimtuviðvörun 14 dögum eftir eindaga. Faxaflóahafnir senda sjálf út lögbundna innheimtuviðvörun en sé reikningur ekki greiddur innan 70 daga er hann sendur í innheimtu til lögmanns Faxaflóahafna.  Motus sér um að senda lögbundnar innheimtuviðvaranir í nafni SORPU eftir fimm daga frá eindaga. Strætó metur hvort kröfur eru sendar áfram til Motus út frá því hvort viðskiptavinur stendur yfirleitt í skilum. Almennt sendir Strætó ekki kröfur í löginnheimtu. Af þessu má sjá að ein mesta harkan er gagnvart leigjendum Félagsbústaða. Þeirra skuldir, smáar sem stórar, fara strax til Motus og viðvörun er aðeins 14 dagar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um samningsmarkið Reykjavíkurborgar, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. febrúar 2023:

Reykjavíkurborg hefur sett fram samningsmarkmið vegna uppbyggingarsvæða í Reykjavík. Í nýjum byggingarreitum er oft samið um kauprétt Félagsbústaða á 5% íbúða og að 20% íbúða verði skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur í þessu sem eru að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Gott er að heyra að samningsmarkmiðin hafi náð fram að ganga. Fram kemur í svari að fjöldi íbúða til félagsbústaða frá 2018-2022 er 177. Það er ekki nærri nóg enda þótt talning sé sögð ekki vera tæmandi. Sama má segja um 698 íbúðir Félagsbústaða. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. febrúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um stýrihóp vegna innleiðingar matarstefnu, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar 2023.

Innleiðing matarstefnu er mikilvæg og ekki síður að fylgja eftir slíkri stefnu sé hún á annað borð góð stefna. Fram kemur í fyrirspurninni að ekki hafi tekist að ljúka endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar sem er því miður kannski of algengt í borginni. Settar eru fram fínustu stefnur en annað mál er með eftirfylgni þeirra. Í matarstefnu þarf að takast á við matarsóunarvandamálið í Reykjavík. Miklum, þó mismiklum, mat er hent í t.d. skólum borgarinnar. Krakkar fá ekki í öllum skólum að skammta sér sjálf eða vigta leifar sem er lykilatriði til að börn upplifi á eigin skinni hvað felst í sóun matar. Fram kemur í svari að undirbúa eigi þátttöku Reykjavíkurborgar í Milan Urban Food Policy Pact. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki upplýsingar um út á hvað þessi þátttaka gengur og hvað borgarbúar fá út úr slíkri þátttöku.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum :Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 9. febrúar 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins skilur vonbrigði íbúaráðsins með ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa út enn og aftur nýtt starfsleyfi fyrir skotvöll í Álfsnesi nú til Skotfélags Reykjavíkur. Segir í bókun ráðsins að það þyki sérstaklega einkennilegt að tekin hafi verið ákvörðun um að afgreiða umsóknina þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða samstarfshóps sem nýlega hefur verið settur saman til þess að finna endanlega lausn á þessu stóra deilumáli (áliti skal skila 1. apríl næstkomandi samkvæmt bréfi borgarstjóra). Þá skal einnig bent á að úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur nýlega fellt úr gildi starfsleyfið sem í gildi var fyrir annað skotfélag á sama stað. Einnig hefur verið fellt úr gildi starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur (úrskurðir ÚUA 51 og 56/ 2021) vegna þess að útgáfa fyrri leyfa stangast á við aðalskipulag.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins:

Flokkur fólksins lýsir yfir ánægju með að afla eigi gagna um farsæld barna. Tekið er undir ýmislegt í umsögn Reykjavíkurborgar, s.s. að skortur hefur verið á aðgengilegum, samræmdum og þar með samanburðarhæfum upplýsingum um farsæld barna og þjónustu við börn allavega í Reykjavík. Við lestur umsagnarinnar fær fulltrúi Flokks fólksins það á tilfinninguna að Reykjavíkurborg vilji ritskoða könnunina sem eru lög fyrir börnin. Flokkur fólksins fagnar því að loksins á að tala við fólkið sjálft og börnin. Allt of lítið hefur verið hlustað á og tekið mark á börnum í Reykjavík. Það er kannski hlustað en þau fá litlu fram í borgarkerfinu eins og fundir borgarstjórnar með ungmennaráðum hafa sýnt í gegnum árin. Fáar tillögur þeirra ef nokkrar hafa orðið að veruleika. Flokkur fólksins treystir því að hér sé um vandaða könnun að ræða enda engir amatörar hér á fer. Halda mætti að Reykjavíkurborg óttist að svör barnanna verði neikvæð og vilja stýra því hvernig spurninga verði spurt. Það gengur auðvitað ekki. Börnin verða að vera spurð þannig að þau finni að þau geti svarað út frá eigin sannfæringu og upplifun.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn:

Flokkur fólksins leggur til að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn. Með því er allri skjala- og gagnavinnslu Reykjavíkurborgar ásamt innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa, komið á einn stað sem auðveldar heildaryfirsýn allra skjalamála borgarinnar. Borgarskjalasafn er kjölfestan í skjalamálum borgarinnar og starfar samkvæmt lögum nr. 77/2014 og heldur safnið úti öflugri starfsemi. Borgarskjalasafni er best treyst til að vera yfirstofnun annarra skjalavörslusafna í borginni. Borgarskjalasafn er komið á fulla ferð í stafrænni umbreytingu, til að uppfylla breyttar áherslur í rafrænni skjalastjórn. Safnið hefur staðið sig með þeim bestu innan borgarinnar að ganga inn í stafræna umbreytingu. Eðlilegt er því að Borgarskjalasafn hafi umsjón með skjalavörslu borgarinnar.

Greinargerð

Borgarskjalasafni starfa sérfræðingar á sínu sviði, svo sem lögfræði, skjalfræði, safnfræði, sagnfræðingar, kerfisfræði og miðlun. Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi, heldur safnið úti öflugri starfsemi og er leiðandi hjá héraðsskjalasöfnum. Það hefur birt á þriðja hundrað síðna af skjölum á vefsíðu sinni, sem nú er unnið að því að endurgera. Unnið hefur verið að undirbúningi að sameiginlegt húsnæði með Þjóðskjalasafni en bæði söfnin yrðu áfram sjálfstæð. Unnar hafa verið húsnæðisgreiningar og mannaflaþörf fyrir næstu 30 árin til að dreifa kostnaði.

 

Tillaga Flokks fólksins að  borgarráð samþykki að boða borgarskjalavörð á fund sinn þegar tillaga um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns verður tekin fyrir að nýju eftir frestun.

Það er mikilvægt að fá umsagnir fagaðila og hagsmunaaðila vegna tillögu um framtíðarhögun starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Fyrirliggjandi tillaga kallar á umfangsmiklar breytingar. Lagt er til að óskað verði umsagna aðila á borð við Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Þjóðskjalasafn, héraðsskjalasöfnin.

 

Fyrri útgáfa:

Tillaga Flokks fólksins um að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn.

Flokkur fólksins leggur til að allar skjalaeiningar Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu verði færðar undir Borgarskjalasafn. Með því er allri skjala- og gagnavinnslu Reykjavíkurborgar ásamt innleiðingu upplýsingastjórnunarkerfa, komið á einn stað sem auðveldar heildaryfirsýn allra skjalamála borgarinnar. Borgarskjalasafn er kjölfestan í skjalamálum borgarinnar og starfar samkv. lögum  nr. 77/2014. Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi, heldur safnið úti öflugri starfsemi.

Borgarskjalasafn hefur sýnt það með afburðagóðum athugunum sínum og eftirliti að yfirstjórn safnsins sinnir eftirliti með fullnægjandi hætti og þorir að stíga fram með afgerandi hætti þegar skjalavörslu er alvarlega ábótavant.

Með frumkvæðisathugun sinni árið 2020 kom í ljós kom að skjalavörslumál borgarinnar voru öll í rugli og að lög höfðu verið brotin. Sem dæmi, til upprifjunar var það faglegt mat Borgarskjalasafns í braggamálinu að skjalavarsla og skjalastjórn vegna framkvæmda við braggann samræmdust ekki lögum um opinber skjalasöfn í veigamiklum atriðum.  Borgarskjalasafni er best treyst til að vera yfirstofnun annarra skjalavörslusafna í borginni. Borgarskjalasafn er komið á fulla ferð í stafrænni umbreytingu, til að uppfylla breyttar áherslur í rafrænni skjalastjórn. Safnið hefur staðið sig með þeim bestu innan borgarinnar að ganga inn í stafræna umbreytingu. Eðlilegt er því að Borgarskjalasafn hafi umsjón með skjalavörslu borgarinnar.

Greinargerð

Á Borgarskjalasafni starfa sérfræðingar á sínu sviði, svo sem lögfræði, skjalfræði, safnfræði, sagnfræðingar, kerfisfræði og miðlun. Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi, heldur safnið úti öflugri starfsemi og er leiðandi hjá héraðsskjalasöfnum. Það hefur birt á þriðja hundrað síðna af skjölum á vefsíðu sinni, sem nú er unnið að því að endurgera.

Meirihlutinn vill nú leggja niður Borgarskjalasafn og hefur keypt KPMG til að finna  rök fyrir niðurlagningunni. Hér er verið að gera mistök því þetta er einmitt eina stofnunin sem ekki er meðvirk  svo sem í  braggamálinu og kannski fékk þá  Borgarskjalasafn sinn dauðadóm. Skýrsla KPMG er hlutdræg og því ótrúverðug að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt lengi, heldur safnið úti öflugri starfsemi.

Allar höfuðborgir í Evrópu eru með borgarskjalasöfn. Á Þjóðskjalasafni Íslands, er hvorki pláss né mannafli til að sinna verkefnum Borgarskjalasafns. Það yrði mikill skaði ef skjalavarsla höfuðborgar Íslands verði flutt undir umsjón Þjóðskjalasafns Íslands.

Unnið hefur verið að undirbúningi að sameiginlegt húsnæði með Þjóðskjalasafni en bæði söfnin yrðu áfram sjálfstæð. Unnar hafa verið húsnæðisgreiningar og mannaflaþörf fyrir næstu 30 árin til að dreifa kostnaði. KPMG stillir þessum tölum upp þannig að allt komi til framkvæmda næstu 3-4 ár með tilheyrandi kostnaði, sem er óraunhæft.

Þess vegna ætti þvert á móti að koma öllum skjalaeiningum Reykjavíkurborgar ásamt gagnaþjónustu sem nú er undir þjónustu og nýsköpunarsviði, beint inn inn í Borgarskjalasafn og þannig nútímavæða og styrkja alla stafræna sem og hliðræna gagnaþjónustu Reykjavíkurborgar.