Umhverfis- og skipulagsráð 16. nóvember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Stækkun lóðarinnar nr. 3 við Sogaveg, samkvæmt uppdrætti K.J.ARK ehf. dags. 22. mars 2022:

Skipulagsyfirvöld leggja fram að lokinni grenndarkynningu umsókn Djúpadals ehf. dags. 30. mars 2022 um stækkun lóðarinnar nr. 3 við Sogaveg, samkvæmt uppdrætti K.J.ARK ehf. dags. 22. mars 2022. Nágrannar mótmæla. Nágranni spyr hvort Fiskikóngurinn hafi leyfi til að verka fisk fyrir verslunina sem er á lóðinni Sogavegur 3 og ef til vill einnig þá sem er rekin undir sama nafni við Höfðabakka? Einnig hvort það hafi verið athugað hvort fiskvinnslan á Sogavegi 3 þjónustar fleiri fiskbúðir og mötuneyti? Þessum spurningum þarf að svara áður en haldið er áfram. Bílastæði þarf fyrir bíla fyrirtækisins og plastgeyma undir rusl og stafla þar jafnvel upp vörubrettum? Hér er að mati Flokks fólksins ekki verið að taka tillit til íbúanna í nágrenninu. Fiskvinnsla er e.t.v. farin að þjóna fleiri fyrirtækjum, er sem sagt komin með “verksmiðjuívaf” ? og á þá kannski ekki heima í miðju íbúðahverfi. Allavega orkar það tvímælis. Sagt er í gögnum að breytingar séu til að minnka lykt og annað áreiti. Þar sem vinnslan er þegar á lóðinni er kannski erfitt að breyta því? En skoða þarf þetta mál og eiga samráð við íbúa í nágrenninu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Sóltún nr. 2-4:

Flokki fólksins bregður við að sjá hvað margar athugasemdir eru í þessu máli og hversu breiðar þær eru, allt frá öryggismálum og skólamálum til skuggavarps. Fólki þykir stærð húss og fjöldi íbúða að Sóltúni 4, samkvæmt þessu breytta skipulag of mikið og hefur áhyggjur af breytingunni fylgi aukin bílaumferð, sem sérstaklega mun valda ónæði hjá íbúum. Óttast er hvort Sóltún anni þessari miklu umferð. Ástandið er tæpt í dag og viðbótin mun ekki bæta ástandið. Húsið við Sóltún 4, upp á 6 hæðir mun svo varpa skugga á einhverjar neðri hæðir hússins við Mánatún 1. Svona mikil breyting á umhverfi hefur eðlilega áhrif á nágranna. Í hverfinu er eins og gengur skóli sem vissulega er ekki skilgreindur sem hverfisskóli, enda ekki rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin þarf engu að síður að tryggja öryggi í nágrenni skólans með gönguljósum, gangbrautum, gangstéttum og góðri götulýsingu. Auðvitað ætti Borgin að reka skóla í hverfinu enda íbúafjöldi komin vel yfir 2000 og með fyrirhugaðri uppbyggingu í Hátúni muni íbúum fjölga nokkuð. Sá skóli sem skilgreindur er sem hverfisskóli er í um 1200-1400 metra fjarlægð frá miðju hverfisins og Sólstafir, sem er einkaskóli, er því notaður af sumum íbúum þess

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Ægisíða 62, breyting á deiliskipulagi:

Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Alternance slf. dags. 1. júlí 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Ægisíðu frá Hofsvallagötu að Lynghaga vegna lóðarinnar nr. 62 við Ægisíðu. Í breytingunni felst byggja á lóðinni viðbyggingu á einni hæð. Þetta kann að vera hið besta mál en fulltrúi Flokks fólksins viðurkennir að betra væri að sjá teikningu af þessari breytingu, viðbótinni til að átta sig á hvernig viðbyggingin kemur út fyrir næsta nágranna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um snjallgangbrautir:

Varðandi umferðaröryggismál í Norðlingaholti vill fulltrúi Flokks fólksins dusta rykið af bókun Flokksins frá 2021 og varðar hún strætóferð/leið. Vel kann að vera að búið sé að laga þetta en 2021 bókaði Flokkur fólksins að strætó æki ekki að skólanum en tillaga í nýju leiðaneti átti að breyta því. Er það frágengið? Ítrekaðar ábendingar og kvartanir hafa verið lagðar fram sem Strætó bs. hafði hundsað. Margar snúa að öryggismálum í kringum skólann. Sagt er að þau mál séu komin inn á borð hjá borginni. Einnig stóð til að strætó hætti að aka hringinn í Norðlingaholti og þar verði aðeins ein stoppistöð. Þá verður ansi langt fyrir þá sem búa fjærst stoppustöðinni að taka strætó. Loks má nefna vanda með tengingar milli Árbæjar og Breiðholts eftir kl. 9 á morgnana. Leið 51 stoppar í Norðlingaholti og keyrir Breiðholtsbraut í Mjódd en hún er ekki á mikilli tíðni. Bókað var um að krakkar sem eru á ferð eftir 9 missa af tengivagni yfir í Breiðholtið og munar nokkrum mínútum. Þetta væri hægt að laga með betri tímastillingu. Almennt er tenging milli þessara stóru hverfa, Árbæjar, Grafarholts og Breiðholts slæm. Ekki er nægilegt að vera með góða tengingu að miðbænum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um hljóðvarnaraðgerðir:

í svari/umsögn við tillögu um hljóðvarnaraðgerðir vegna umferðarhávaða frá Sæbraut kemur glöggt fram að í þetta á ekki að eyða pening heldur reyna að stoppa upp í göt. Manir virki ekki nema fyrir þá sem er lágt liggja. Mjög háar manir þarf ef þær eiga að hafa áhrif á búa í háum byggingu. Þá verður kostnaður mikill og mikil breyting verður á umhverfi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að vissulega hlýtur að þurfa að vega og meta þetta í hverju tilfelli fyrir sig.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga fulltrúa Vinstri grænna, um samkomulag við Vegagerðina varðandi framkvæmdi:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi tillaga Vinstri Grænna ekki raunhæf en hugur að baki hennar er góður. Kjarni hennar er sá að endurhanna stofngötur og gatnamót í Reykjavík sem borgargötur með fleiri þverunum þar sem fjölbreyttir og vistvænir ferðamátar fá enn meira rými. Götur sem kæmu til greina að mati VG eru engar smá götur heldur einar helstu stofnæðar borgarinnar s.s. Kringlumýrarbraut, Sæbraut og Breiðholtsbraut. Flokki fólksins finnst að þetta muni ekki ganga upp alveg sama hvernig á það er litið og hversu mjög við þráum að ganga lengra kolefnishlutleysi borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um göngubrú fyrir Vogabyggð, umsögn og afgreiðsla:

Flokkur fólksins lagði til að til að strax verði hafist handa við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg, sem eru ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Tillögunni er framvísað til frekari umsagnar en tillögunni er vísað frá af meirihlutanum. Í umsögn segir að farið hafi verið í athugun á því hvort byggja skyldi göngubrú eða undirgöng fyrir Vogabyggð en erfiðlega gekk að finna lausn sem félli vel að landi. Þetta finnst Flokki fólksins mjög einkennilegt. Þetta er ekki spurning um að göngubrú falli vel að landi heldur er þarna um gríðarlegt öryggisatriði að ræða. Fjöldi barna þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla og aðrar tómstundir. Þarna á vel við máltækið að byrgja á brunnin áður en barnið dettur í hann. Foreldrar í hverfinu búa við stöðugan ótta um að börn þeirra verði fyrir bíl á leið í skóla. Flokkur fólksins telur gríðarlega mikilvægt að hlustað verði á neyðarkall íbúanna. Krafa íbúa í Vogabyggð er skýr og afdráttarlaus: Göngubrú yfir Sæbraut strax! Fyrir liggja undirskriftir fjölda íbúa. Flokkur fólksins hvetur borgaryfirvöld að drífa í að koma þessari mikilvægu göngubrú upp og í gagnið.

Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Vegagerðin er veghaldari Sæbrautar og allar aðgerðir þar þurfa að vera í samstarfi við Vegagerðina og í samhengi við fyrirhugaðar breytingar þegar Sæbraut er sett í stokk. Nú þegar eru ýmsar mótvægisaðgerðir í framkvæmd eða undirbúningi, þar á meðal standa vonir til að hægt verði að koma upp tímabundinni göngubrú, en einnig er vilji til að koma upp hraðamyndavél á vegkaflanum

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um svar við sorphirðukostnaði, svar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun á hvert heimili á Reykjavík í framhaldi af svari við fyrirspurn um sorpkostnað. Svarið sem barst var ekki í samræmi við spurninguna þar sem svarið tekur aðeins til þess sem sveitarfélagið rukkar íbúa sína beint með gjöldum. Sorphirðugjald sem sveitarfélög leggja á íbúa sína er alls ekki það sama og kostnaður við sorphirðu. Óskað var því eftir að fá sundurliðaðan kostnað við losun, leigu og förgun á hvert heimili í Reykjavík. Í svari kemur fram að ,,Meðaltalskostnaður vegna söfnunar úrgangs við heimili árið 2021 á íbúð var 16.033 krónur á íbúð. Greiðslur vegna förgunar og endurvinnslu úrgangs frá sorphirðu við heimili á árinu 2021 var samtals 520.146 þús.kr. eða sem nemur um 9.641 kr. á íbúð”. Er raunkostnaður því rúm 26 þúsund á heimili? Hvert er innheimtugjaldið? Meirihluti hefur í ljósi bágrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar óskað eftir hugmyndum minnihlutans til að bæta rekstur borgarinnar. Flokkur fólksins hefur t.d. lagt til að boðið verði út eitt póstnúmer til að kanna það hvort að sorphirðukostnaður lækki samanber reynslu annarra norðurlanda við slík útboð. En ekki var áhugi á að ræða það frekar af hálfu meirihlutans

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um rafskútur á göngugötum, svar og afgreiðsla:

Í ljósi ábendinga sem borist hafa fulltrúa Flokks fólksins um að á göngugötum sem nú hefur verið fjölgað í miðbænum sé mikið um rafmagnshlaupahjól og af þeim stafar oft mikil hætta. Því spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort ekki þurfi að skoða þessi mál nánar, beita sér fyrir reglum sem eru t.d. meira í takt við reglur um sambærileg mál í löndum sem við berum okkur saman við? Flokkur fólksins bendir á að rafhlaupahjól er t.d. bönnuð á Strikinu í Kaupmannahöfn. Í umsögn segir að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leyti sífellt leiða til að bæta þá vankanta sem upp hafa komið í tengslum við rafhlaupahjól, m.a í tengslum við umferðaröryggi. Í apríl s.l. gaf verkefnishópur um smáfarartæki út skýrslu um stöðu smáfarartækja og hverjar helstu áskoranirnar væru þegar kemur að slíkum farartækjum. Áform eru um breytingar á umferðarlögum í ljósi þeirra tillagna frá verkefnahópnum. Þegar hefur verið óskað eftir því að leigurnar takmarki hámarkshraða á skilgreindum leiðum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi vinna gangi of hægt. Of mikið er af hugleiðingum og of lítið af framkvæmdum. Hér er líf og heilsa í húfi. Setja þarf skýrar reglur og umfram allt þarf að fylgja þeim eftir með virkum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi umferð í Ármúla, svar og afgreiðsla:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hvaða áhrif breytingar á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31 muni hafa á umferð og rými vegfarenda? Eftir lokun miðbæjarins hefur umferð aukist mjög á þessu svæði, Ármúla og einnig Hallarmúla. Fram kemur í svari að engar breytingar eru fyrirhugaðar á Ármúlanum ofar í götunni að svo stöddu. Með uppbyggingu á Orkureitnum er þó fyrirhugað að færa Ármúlann í betra horf m.t.t. öryggis og aðgengis gangandi vegfarenda. Meðal kynningargagna er að finna samgöngumat sem unnið var af VSÓ Ráðgjöf. Samkvæmt niðurstöðum samgöngumatsins er áætluð heildarferðamyndun vegna uppbyggingarinnar 7.437 ferðir á sólarhring og eru bílar þar í margföldum meirihluta. Gæta þarf að öryggi gangandi og hjólandi. Þarna eru talsverð þrengsl og hefur þrenging Bústaðarvegar ekki hjálpað að mati fulltrúa Flokks fólksins. Því meira sem þrengt er að bílum því erfiðara verður að komast um því bílum er að fjölga ef eitthvað er. Hægt er að þrengja enn meira og setja hraðahindranir en þá þyngist sennilega umferðin og umferðaröryggi skerðist bæði fyrir hjólandi og gangandi. Af 7.400 ferðum eru 744 hjólandi og helmingi fleiri gangandi. Almenningssamgöngur eru jafnt og hjólandi. Þær þyrftu að bæta til að jafna þetta hlutfall við bílferðir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um fyrirkomulag meðan á framkvæmdum stendur, svar:

Flokkur fólksins spurði um hvort það hafi verið kannað hvaða áhrif framkvæmdir við Sæbraut og Miklubraut hefðu á umferð og hvort skipulagðar hafi verið einhverjar mótvægisaðgerðir til að greiða fyrir umferð á framkvæmdatíma? Spurt er um þetta því samkvæmt skipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið stendur til að setja Sæbraut og Miklubraut í stokk á tímabilinu 2023 – 2026. Á Sæbraut verður á framkvæmdatíma gert ráð fyrir því að umferð um Sæbraut verði breytt í 1 plús 1 í stað 2 plús 2. Reyndar er óljóst hvort það sama gildi um Miklubraut en þó er ljóst að umferð mun þrengjast mjög á þessum tíma og a.m.k. á einhverjum tímapunkti í 1 plús 1. Í svari er ljóst að ekki er farið að hugsa út í þetta en sagt að unnið sé að undirbúningi verkefnanna með Vegagerðinni. Hluti þar af er að ákvarða fyrirkomulag á framkvæmdatíma. Nú liggur fyrir að mikil frestur er á borgarlínu og þá sennilega þeim framkvæmdum sem hér eru nefnd auk þess sem vel kann að vera að draga þurfi úr framkvæmd svo stórra verkefna vegna efnahagsástandsins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hljóðmön í Blesugróf, svar og afgreiðsla:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvernig gangi með hljóðmön við Blesugróf? Það er búið að vera á dagskrá frá 2014 og varðar lýðheilsu þessa hverfis. Vísað er í fyrirspurn frá 2020 um fyrirhugaða hljóðmön við Reykjanesbraut. Íbúar í nágrenninu eru orðnir óþolinmóðir. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði um málið 2021 í kjölfar svars frá skipulagsyfirvöldum og þá var svarið að forhönnun væri lokið en kostnaðaráætlun liggi ekki fyrir eða hvenær hægt er að hefja framkvæmdir. Spurt var frétta. Nú hafa fréttir af málinu borist í lok árs 2022 og þær fréttir eru að það er ekkert að frétta. Endanlegri hönnun er ENN ekki lokið og er verkið ekki komið á framkvæmdaáætlun.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um flugelda (USK22110060)
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um flugelda, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu þjónustu og samskipta.

 

Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um kostnað vegna byggingar Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (USK22110063)

Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna byggingar Gaju, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar SORPU bs.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar (USK22100083):

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bíla- og hjólreiðastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 19. október 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um endurnýjun á endurvinnslustöðvum (USK22110065):

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurnýjun á endurvinnslustöðvum, sbr. 17. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um nagladekk (USK22110069):

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nagladekk, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Nýtt mál:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um umferðaröryggismál í Laugardal og Vogabyggð:

Umferðaöryggi nemenda í Laugardal er ótryggt og samgöngur yfir mikilvægar umferðargötur eru börnum erfiðar. Í morgun var keyrt á nemenda í 3. bekk í Laugarnesskóla á gangbraut yfir Reykjaveg, til allrar hamingju virðist barnið hafa sloppið við teljandi meiðsli. Íbúar hafa lengi kallað eftir að betur verði búið að þessari gangbraut til skólans, sett gönguljós, lýsing bætt og gangbrautin færð suður-fyrir Kirkjuteig. Til upprifjunar þá var einnig ekið á nemanda skólans á þessum sama stað þann 18. maí síðastliðinn og í lengri forsögu hafa orðið mörg misstór umferðarslys á þessum stað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á þetta. Það er skylda og ábyrgð Reykjavíkurborgar að búa börnum öruggar samgöngur til og frá skólum sínum. Enn á ný spyr fulltrúi Flokks fólksins: Hvernig og hvenær verður ráðist í að breyta og laga þessa gangbraut yfir Reykjaveg? Eru borgaryfirvöld reiðubúin að setja gangbrautarvörð við þessa gangbraut yfir háanna tíma þar til úrbætur hafa verið gerðar? Flokkur fólksins hefur einnig ítrekað farið fram á að hlustað verði á foreldra barna í Vogabyggð. Umferðaröryggi gangandi nemenda í nýju Vogabyggðinni er ábótavant.