Umhverfis- og skipulagsráð 8. febrúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Elliðaárvogs-Ártúnshöfða – svæðis 7:

Flokkur fólksins finnst það spurning hvort þörf sé á að fá breskt fyrirtæki til að votta byggðina. ,,Til að hljóta vottun BREEAM Communities þarf skipulag að uppfylla ákveðnar skyldukröfur (fyrsta stigs vottun) en við fullnaðarvottun fær skipulagið lokaeinkunn í samræmi við fjölda krafna sem það uppfyllir.”, segir í gögnum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér kostnaðinum og hver sé líklegur ávinningur fyrir borgina. Vinna má gott skipulag án þess að fá vottun. Er stefna borgarinnar að, reglugerðir og vinna arkitekta sé ekki nægilega góðar við að skipuleggja byggð?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Auglýsing er lögð fram að nýju umsókn Kurt og Pí ehf. f.h. eiganda dags. 13. júní 2022, varðandi breytingu á deiliskipulagi Kirkjusands vegna lóðarinnar nr. 2 við Kirkjusand. Í breytingunni felst breytt landnotkun og byggingarmagn og breyting á byggingareitum, samkvæmt uppdr. Kurt og Pí ehf. dags. 13. júní 2022, síðast breytt 30. janúar 2023:

Í athugasemdum er kvartað yfir ófullnægjandi kynningu. Einnig er kvartað yfir of miklu skuggavarpi. Enda þótt allar byggingar varpi vissulega einhverjum skugga er hér um að ræða vandamál sem tengist of mikilli þéttingu byggðar og þá er það þéttingarstefnan sem er vandamálið. Nefndir eru mögulegir vindstrengir og það er atriði sem á að kanna áður en form bygginga er ákvarðað. Skipulagsyfirvöld sinna þessu atriði lítið sem ekkert með þeim afleiðingum að allt of oft myndast hættulegir vindstrengi nálægt háum byggingum. Um það eru þekkt dæmi í Reykjavík. Í gögnum er ekkert fjallað um þennan þátt sem ætti að vera eitt af aðalatriðunum. Bent er á að leikskóla og skólamál, séu í ólestri í hverfinu. Taka þarf strax á þeim málum. Vonandi verður tekið tillit til þessara athugasemda. Endurskoða þarf samráðs- og kynningarmál frá grunni.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umhverfismál, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillagan:

 Flokkur fólksins lagði til að gerð verði úttekt á hvað gert hefur verið í umhverfismálum á þessu og síðasta kjörtímabili. Nú hefur nokkurn veginn sami meirihluti verið við völd í tæp á 5 ár og spurning hvort að ekki sé rétt að fara yfir hvað gert hefur verið í umhverfismálum á þeim tíma. Það sárlega vantar einhverja heildarmynd á hvað gert hefur verið í umhverfismálum á þessu og síðasta kjörtímabili. Sumt af því sem hefur verið gert er bráðabirgðar framkvæmdir, plástrar og erfitt er að sjá hvaða verk eru hugsuð til framtíðar. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda tillagna í þessum málaflokki sem var öllum hafnað. Sem dæmi lagði flokkurinn til að allar nýjar bifreiðar sem borgin keypti og sem ekki krefðust þess af sérstökum ástæðum að þær gengju fyrir jarðeldsneyti væru metan eða rafbílar. Fulltrúi Flokks fólksins lagði einnig til að farið yrði í skógrækt í austur frá borginni og var þeirri tillögu einnig hafnað. Það væri gott að sjá svart á hvítu hvað situr eftir af umbótaverkefnum í umhverfismálum s.l. ár t.d. verkefni sem bæta lýðheilsu.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK23010119

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um göngu- og hjólastíga, sbr. 41. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023.

Flokkur fólksins vill koma því á framfæri að hjóla- og göngustígar eru jákvæð skref í umhverfismálum og nauðsynlegt í uppbyggingu hverfa. Hins vegar þarf að gæta aðhalds í þessu eins og öðru enda fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar ekki góð. Flokkur fólksins hefur því áhuga á að vita hvort að könnuð sé arðsemi framkvæmda sem farið er í. Hefur Reykjavíkurborg gert könnun á notkun á reiðhjólum á nýjum reiðhjólastígum og þ.m.t. á stígum gatna sem hafa verið þrengdar til að koma fyrir hjólastígum? Hefur verið könnuð notkun reiðhjóla eftir að búið er að þrengja götur til að koma fyrir hjólastígum? Heyrst hefur að slík könnun hafi verið gerð um notkun reiðhjóla á Grensásvegi.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. USK23010144

 

Ný mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um óafgreidd mál:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á öllum fyrirspurnum og tillögum sem enn er ósvarað/afgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og síðasta kjörtímabili á umhverfis- og skipulagsráði USK23020098

 

 Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju SORPA eru ekki búin að skipuleggja að flytja út sorp til brennslu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju SORPA eða einstök sveitarfélög eru ekki búin að skipuleggja/semja um að flytja út sorp til brennslu. Álfsnes er að verða fullnýtt sem urðunarstaður, en er áfram nýtt. Í Evrópu vantar orku og eftirspurn er töluverð eftir úrgangi til brennslu. Félög eins og ÍGF og Terra geta auðveldlega bætt á sig að flytja út sorp til brennslu og þar með létt á urðun á Álfsnesi. Á hverju stendur eiginlega? Nú þarf að að skipuleggja og framkvæma.