Umhverfis- og skipulagsráð 18. janúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. janúar 2023 þar sem lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki þá aðferðarfærði við forgangsröðun borgargatna í Reykjavík sem lýst er í meðfylgjandi skjali. Tillögunni fylgir greinargerð:

Af gögnum má sjá að óhemju vinna er eftir ef bæta á götur í borginni. Ástandið er svona slæmt vegna áralangra og jafnvel áratuga viðhaldsleysis. Vissulega verður að forgangsraða eftir ástandi gatna en það er erfitt því tugi gatna eru í forgangi 1 ef horft er út frá umferðaröryggi. Kostnaður við endurbætur og að gera sumar götur að borgargötum mun hlaupa á milljörðum. Taka má dæmi um Norðan Laugarásvegar eins og lýst er í gögnum. Þar er gangstéttar beggja megin orðnar slitnar, sprungur, bætur og frekar mjóar (<2,5m). Þar eru samsíða bílastæði austan megin. Málaðir hjólavísar í götu. Akreinar í góðu ástandi en heldur of breiðar > 3,5m. Við Sunnutorg og gatnamót Laugarásvegar eru miðeyjar við gönguþverun (ekki merktar gangbrautir). Sunnan Laugarásvegar breikkar gatan, akreinar 4-5 m hvor auk samsíða bílastæða beggja megin götu (um 14 m milli gangstéttabrúna). Gangstéttar almennt 3 m en víða orðnar lélegar. Þetta eru dæmigerðar lýsingar um fjölmargar aðrar götur. Á þessari götu er stór slysahætta. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að öryggisþáttum er víða ábótavant í borginni þar á meðal í Laugardal og Úlfarsárdal. Úrbætur ganga allt of hægt, sá hluti borgarkerfisins sem annast þessi mál virkar bæði svifaseint og óskilvirkt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram til samþykktar umsögn umhverfis- og skipulagssviðs um loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins, dagsett september 2022:

Hvernig er hægt að leggja að jöfnu blágrænar lausnir- gróður á þökum ,götutré og skógrækt. Skógrækt er mörgum sinnum ódýrari aðgerð en blágrænar lausnir. Blágræna lausnir munu ekki virka nema með mikilli umhirðu og kostnaðarsömu upphafi svo sem dýrari þökum, bæði vegna aukins þunga og lekahættu. Ekki er hægt að rækta á þökum nema að þeim sé haldið blautum. En tillögum um aukna skógrækt hefur verið hafnað af meirihlutanum. Flokkur fólksins telur að bíða eigi með að samþykkja þessa stefnu enda þarf að skoða ýmislegt nánar sbr. það sem fram kemur að hefja þarf fyrst vinnu við endurskoðun stefnu höfuðborgarsvæðisins og viðbótaraðgerða og meta þarf hvernig hægt væri að samþætta loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins og markmið um kolefnishlutleysi við endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. T.d. með því að jafnvægi myndist milli íbúafjölda og atvinnutækifæra í einstökum hverfum. Hafa þarf í huga að þekktar mótvægisaðferðir blasa við, einkum aukin ræktun og rafvæðing samgangna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn ASK Arkitekta ehf. dags. 10. maí 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis vegna lóðarinnar nr. 2 við Köllunarklettsveg:

Athugasemdir eru einkum þær að skertir verði möguleikar á að leggja bílum. Það kemur Flokki fólksins ekki á óvart enda er það stefna borgarinnar að fækka bílastæðum. Meirihluti athugasemda yfir höfuð hvort sem er frá íbúum eða fyrirtækjum snúa að skerðingu bílastæða og er orðið verulega erfitt fyrir fólk að komast leiðar sinnar á einkabíl og ekki er bitastæðum almennings samgöngum heldur fyrir að fara. Eðli málsins samkvæmt þá fjölgar bílum á sama tíma. Að komast um borgina án stórkostlegra vandkvæða og að finna bílastæði er orðinn mikill höfuðverkur enda þótt þetta sé eitthvað misjafnt eftir hverfum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðstöðu strætisvagnafarþega við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli, sbr. 19. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. október 2022:

Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar í vinnu um umferðaröryggisáætlun:

Í þessari tillögu er lagt til „að aðstaða strætisvagnafarþega verði bætt við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli en sú aðstaða er nú óviðunandi.“ Flokkur fólksins styður þessa tillögu í ljósi þess að margir sem nota flugstöðina eru erlendir ferðamenn. Það yrði til bóta að hafa vel merkta gangbraut frá farþegaafgreiðslu flugstöðvarinnar að strætisvagnabiðstöðinni, sem er í um 150 metra fjarlægð. Fyrir liggur að flugvöllurinn er ekki á förum næstu árin og með þessu er verið að gæta hagsmuna ferðamanna sem og annarra sem nota þurfa flugsamgöngur frá flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að öryrkjum sé heimilt að kaupa afsláttarkort á farmiðasölustöðum í borginni:

Í þessari tillögu er lagt er til „að öryrkjar megi kaupa afsláttarkort á þeim farmiðasölustöðum sem aðrir farþegar geta og mega kaupa á.“ Þessi tillaga er svo sjálfsagt mál að hún hlýtur að vera samþykkt á staðnum. Undrun sætir að þetta sé ekki nú þegar hægt og það fyrir löngu. Eins og staðan er núna mega öryrkjar einungis kaupa afsláttarkort sín í gegnum Klapp „appið“ eða með því að fara í móttöku Strætó á Hesthálsi 14. Það er ekki boðleg framkoma við öryrkja að einungis einn sölustaður sé í boði til þess að kaupa slík kort. Þeir ættu að geta keypt afsláttarkortin sín á sömu sölustöðum og aðrir farþegar. Ekki allir eiga kost á eða hafa þekkingu á snjallsímanotkun, og því nauðsynlegt að gott aðgengi sé að miðakaupum með öðrum leiðum eins og segir í greinargerð með tillögunni. Þetta er með öllu óásættanlegt að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgerðaráætlun með aðgengisstefnu 2022-2024, sbr. 13. gr. fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK22090116