Umhverfis- og skipulagsráð 18. október 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Fram fer kynning á vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar fyrir veturinn 2023 – 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á að snjóhreinsun í húsagötum verði stórbætt og að ekki sé rutt upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga híbýla. Ljóst er að aukin og betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Búið er að kostnaðarmeta tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stórefld. Ráða á starfsmenn í eftirlit með vetrarþjónustu til að tryggja framkvæmd hennar, fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að hún skili fullnægjandi þjónustu. Kostnaður við þennan þátt er vissulega hár en vera kann að svo mikið eftirlit sé ekki nauðsynlegt til frambúðar. Þess er vænst að eftir ákveðinn reynslutíma á framkvæmd tillagna vetrarþjónustuhóps megi draga verulega úr eftirliti enda á ekki að þurfa að vera eitthvað sérstakt “eftirlit” með þeim sem er treyst fyrir að hreins og moka snjó í Reykjavíkurborg. Klárt er að þessi mál verða að vera í lagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Flókagata 24. Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju erindi frá afgreiðslufundi byggingarfulltrúa frá 30. maí 2023 þar sem sótt er um leyfi til að setja niður djúpgámasett:

Það er að mörgu að hyggja þegar finna þarf lóð fyrir grenndargáma. Það hlýtur að vera mikilvægt í því sambandi að huga að foki á pappír og drasli sem mun þá dreifa sér á nærliggjandi lóðir ef gámarnir eru ekki nægjanlega hentugir. Það þarf að vera auðvelt að henda í þá og auðvelt að losa þá að sama skapi. Umgengni hefur því miður ekki verið nógu góð við sumar grenndarstöðvar borgarinnar. Af gögnum að dæma er viðvarandi ástand sé um að ræða við þessa tilteknu grenndargáma. Hverju þarf að breyta og hvað þarf að koma til, til að halda góðri umhirðu við gáma svo sómi sé að? Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að settar hafa verið upp eftirlitsmyndavélar til þess að fylgjast með mögulegum eignaspjöllum og umgengni á svæðinu. Enda þótt eftirlitsmyndavélar leysi ekki allan vanda eru þær hjálpleg tæki til að koma í veg fyrir eignaspjöll því þær hafa fælingarmátt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis og Bústaða um örugga tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir Suðurlandsbraut, sbr. 16. dagskrárliður fundar umhverfis- og skipulagsráðs þann 31. maí 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 4. október 2023:

Hér leggur íbúaráðið til að gerð verði örugg tenging fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir Suðurlandsbraut frá Háaleitishverfinu. Í svari segir að það standi ekki til fyrr en framkvæmdir vegna borgarlínu hefjist. Samskonar svar birtist æ oftar hjá skipulagsyfirvöldum. Allt er beinlínis sett á bið eða á ekki að gera fyrr en framkvæmdir vegna borgarlínu hefjist. Fulltrúi Flokks fólksins fyllist óöryggi við svona svar því það er augljóst að það er langt í land að borgarlína komist til framkvæmda alla vega eftir því sem fram kom hjá fyrrverandi fjármálaráðherra. Hans orð voru að ekki væri til fjármagn. Það mat Flokks fólksins að ekki er hægt að setja mikilvæga hluti á langa bið sérstaklega þegar um er að ræða öryggismál.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um borgarlínu, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. október 2023.

Frestað.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gangstéttir, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 4. október 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Ný mál

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um eftirlitsþáttinn í vetrarþjónustuna:

Til stendur að stórbæta vetrarþjónustuna með áherslu á m.a. snjóhreinsun í húsagötum. Þessu ber að fagna. Einnig ber að stórauka eftirlit með að vinnan verði unnin vel og með viðeigandi hætti. Í ljósi þessa mun kostnaður, eðli málsins samkvæmt stóraukast. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stórefld. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvað reiknað er með að eftirlitið standi í marga vetur? Er kannski ekki reiknað með að eftirlitið verði aðeins mjög tímabundið svona á meðan verið er að ná nýjum skilvirkari takti eftir að nýjar tillögur stýrihóps um vetrarþjónustu voru samþykktar? USK23100226

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um loftlagsmálin:

Nú er orðið ljóst að loftlagsmálin eru þegar farin að hafa umtalsverð áhrif á náttúru og breyta lífsskilyrðum fólks. Loftslagsvandinn mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fólks. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig standa á að mótvægisaðgerðum eða öðru inngripi til að spyrna fótum við alvarlegum afleiðingum loftlagsvandans. Þótt ríkisvaldið sé sannarlega fyrirferðarmest í þessum málum skiptir máli að sveitarfélög séu upplýst og upplýsi íbúa sína eftir atvikum og að fjármunum sé forgangsraða samhliða eftir því sem þörf og nauðsyn kallar. Fólk verður auðvitað að hafa sem bestar upplýsingar um hvað stjórnmálamenn eru að gera og af hverju þau eru að gera það þegar kemur að þessum alvarlegu málum.

Bensínstöðvalóðirnar, máli frestað

Bókun í geymslu

Í þessu máli má segja að áhyggjur okkar margra í minnihlutanum  hafi raungerst. Eigendur þessara lóða, lóðarhafarnir fengu frítt spil, opinn tékka með hvað þeir vildu gera með þessar lóðir. Viðmiðin sem þeir fengu voru vel víðtæk allavega. Sumir lóðarhafar hafa selt þessar lóðir og aðrir vilja byggja þarna háar og miklar byggingar sem ekki falla inn í umhverfið eða er of mikið byggingarmagn á litlum bletti. Áður en farið var af stað átti að setja lóðarhöfunum stífari skilyrði, setja þeim ramma til að spila innan. Nú stendur það til, hins vegar, breyta á notkun lóðarinnar. Þegar slíkt er gert eftir á má ætla að allar viðræður verði erfiðari. Eins og menn muna voru þetta afar umdeildir samningar, lóðarhafar fengu þessar lóðir á afslætti.