Borgarráð 31. júlí 2018

Tillaga Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að útvega lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.
Afgreiðsla: Vísað til fjármálaskrifstofu

Greinargerð:
Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrisjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innansem utanlandssvo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.

Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til umsagnar fjármálaskrifstofu.

Borgarafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum yfir að borgarráð hafi ákveðið að fresta tillögunni um að borgin leiti eftir samvinnu við lífeyrissjóði um að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk, í því skyni að fá umsögn fjármálaskrifstofu. Hér er einungis verið að leggja til að borgin eigi frumkvæði að samtali við lífeyrissjóðina og ætti því að vera borgarráði að meinalausu að samþykkja þessa tillögu án aðkomu fjármálaskrifstofu fyrst. Hér er um að ræða tillögu að málefni sem hefur komið til tals í samfélaginu og var eitt af megin kosningamálum Flokks fólksins. Það er vissulega verið að feta ótroðnar slóðir, skoða nýja möguleika, þar sem lífeyrissjóðir hafa ekki áður komið að uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis. Upphaf alls nýs hlýtur ávallt að byrja á samtali aðila og í þessu tilfelli er lagt til að borgin eigi frumkvæði að því að ræða við lífeyrissjóði með eða án aðkomu ríkisins.

Umsögn fjármálaskrifstofu má sjá í fundargerð á vef borgarinnar.

Tillaga Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:
Það er brýnt að Reykjavíkurborg skapi þessum hópi fullnægjandi aðstæður til að vera með sín hjólhýsi eða húsbíla á stað þar sem þau geta verið örugg til framtíðar. Eins og staðan er núna er mikill húsnæðisvandi í borginni sem er tilkominn vegna langvarandi skorts á hagkvæmu húsnæði hvort heldur er til kaups eða leigu. Með því að vanda til verka við val og umgjörð hjólhýsagarðs þar sem slík byggð getur risið er komið varanlegt og öruggt heimilisúrræði fyrir þá sem kjósa að búa í aðstæðum sem þessum. Í löndum sem við berum okkur saman við eru tjaldstæði fyrir húsbíla og hjólhýsi þar sem fólk býr árið um kring og lætur vel að því. Nútíma hjólhýsi eru ódýr og húsnæði með öllum þægindum. Ný hjólhýsi fyrir t.d. tvær manneskjur kosta um 3 milljónir á Íslandi og 10 ára gamalt hjólhýsi í góðu standi um 1,.5 milljónir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fyrir einhverja kann þetta að vera raunhæfur kostur fáist framtíðarstaðsetning sem hentar hjólhýsi sem hugsað er sem heimili í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur sem upplifir meira frelsi við að búa í hjólhýsi en að búa í fjölbýlishúsi. Sumum hentar það vel og segjast njóta þess að geta einungis opnað einar dyr hurð og stigið út. Þeir sem hafa reynslu af þessu búsetuformi og líkar það hafa sagt þetta sé ekkert öðruvísi en að búa í litlu einbýlishúsi. Mikilvægt er að leiga sé lág fyrir hjólhýsi eða húsbíl í hjólhýsagarðinum enda eru margir þeir sem kjósa að búa í hjólhýsi efnaminna fólk. Leiga verður að vera í takt við greiðslugetu. Þjónusta Í hjólhýsagarði þarf að vera aðgangur fyrir hjólhýsi/húsbíl að tengjast heitu og köldu vatni og rafmagni. Fullnægjandi hreinlætisaðstaða þarf að vera til staður og möguleiki á aðgangi að eldhúsi og matsal. Í hjólhýsagarði þurfaarf að gilda fastmótaðar umgengnisreglur og eftirlit. Gæta þarf þess að þar ríki friður og ró og að enginn setjist þar að sem gerir öðrum ónæði, skapi óróa eða ógn af neinu tagi hvort heldur með hegðun, framkomu eða neikvæðum lífsstíl. Á meðan verið er finna staðsetningu og undirbúa hjólhýsagarð er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring eða allt þar til staðsetning hjólhýsagarðs hefur verið ákveðin í Reykjavík og hjólhýsabyggð geti byrjað að rísa. Staðan í dag Staðan í þessum málum er óviðunandi eins og hún er í dag.

Hjólhýsabúendur hafa margir verið í Laugardalnum í óþökk rekstraraðila og borgarinnar. Leiga þar hefur verið hækkuð óheyrilega sem hefur hrakið suma á brott. Sumir hafa sagt þá sögu að þeim hafi verið ráðlagt að fara á tjaldstæði á Laugarvatni. En hængur á því er að þetta fólk er sumt hvert í vinnu í Reykjavík. Öðrum segist hafa verið ráðlagt að leigja rándýrt rúmpláss á gistiheimili sem er með öllu óraunhæft. Enn aðrir segja að þeim hafi verið bent á að búa í tjaldi og þeim jafnvel sagt að sækja síðan um rúmpláss í Víðinesi. Í Víðinesi býr hópur með fjölbreytt vandamál sem kemur og fer auk þess sem þar eru engar almenningssamgöngur. Ekkert af þessum ráðum hentar hópnum sem hér um ræðir, fólki sem vill stöðugleika og næði til að lifa sínu lífi. Þessi hópur vill búa í sínum eigin húsbíl /eða hjólhýsi sem sjálfstæðir einstaklingar. Grunnatriðið í þessu sambandi er að vera á Reykjavíkursvæðinu eða mjög nálægt því og það verður að vera hægt að komast þangað með almenningssamgöngum.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú hafa allar tillögur Flokks fólksins verið lagðar fyrir og ýmist verið frestað, vísað í ráð og ein felld. Væntingar Flokks fólksins fyrir þennan neyðarfund sem stjórnarandstaðan óskaði eftir voru þær að meirihlutinn myndi taka tillögum stjórnarandstöðunnar með mun opnari huga en raun bar vitni. Vonir stóðu til að teknar yrðu ákvarðanir um að framkvæma. Ganga til aðgerða! Hvað varðar tillögur meirihlutans voru flestar þeirra með einhvers konar fyrirvara eða skuldbindingum um sameiginlega ábyrgð sveitarfélaga eða háðar viðræðum við ríkið. Flokkur fólksins vill benda á að þeir sem eru húsnæðislausir hafa ekki endalausan tíma til að bíða eftir úrræðum. Vandinn er núna og við honum þarf að bregðast hratt og örugglega. Upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins er að borgarmeirihlutinn hafi verið ansi mikið á bremsunni á þessum fundi og frekar fátt bendir til þess að bretta eigi upp ermarnar af krafti fyrir veturinn til að laga stöðu þessa viðkvæma hóps.

Tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotuðu húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.
Afgreiðsla: Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:
Í borginni er víða ónotað húsnæði sem er til sölu. Til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir á húsnæðismarkaði vegna langvarandi skorts á húsnæði er áhersla lögð á að innrétta íbúðir í húsnæði sem stendur autt og hefur e.t.v. gert lengi en er til sölu. Í einhverjum tilfellum kann að vera ódýrara og betra að rífa húsnæðið og byggja nýjar íbúðir og þarf að meta slíkt í hverju tilfelli fyrir sig. Þessi tillaga er ein af fleiri tillögum sem Flokkur fólksins vill leggja fram til að bregðast við neyðarvanda í húsnæðismálum sem bitnað hefur oft mest á þeim sem minnst mega sín, ekki hvað síst börnum fjölskyldna sem hafa verið á vergangi og fólki sem glímir við veikindi af ýmsum toga. Fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem jafnvel ná ekki 300.000 krónum í tekjur á mánuði er útilokað að leigja á almennum markaði þar sem leiga er iðulega mun meira en helmingur af þessari upphæð. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að gera hinn neikvæða húsnæðismarkað heilbrigðari sem allra fyrst.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar má sjá hér

Tillaga Flokks fólksins um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks sem er í húsnæðisvanda

Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðraBreiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið.
Tillagan felld

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum að þessi tillaga um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks í húsnæðisvanda hefi verið felld af meirihlutanum. Hér hefur verið varið gríðarlegu fjármagni í þessa tvo reiti en ekkert er um það að þarna verði húsnæði fyrir þá sem eiga litla möguleika á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag eða festa kaup á fasteign á verði sem samræmist greiðslugetu þeirra efnaminni. Ljóst er að nægt fjármagn er til hjá borginni og ætti því enginn að þurfa að vera heimilislaus. Hér var um að ræða tillögu Flokks fólksins, ein af fleirum sem lögð var fram með það markmiði að mæta þörfum fólks í heimilisvanda en sá hópur er mjög fjölbreyttur