Velferðarráð 2. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ásamt minnisblaði og fylgigögnum:

Í drögum er ýmsar ágætar breytingar. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að komið verði á móts við bágstadda foreldra með sértækum aðgerðum til að aðstoða með greiðslur á frístundaheimili, gjöld skólamáltíða eða dvöl á leikskóla án þess að grípa til frístundakortsins. Til stendur að mæta þessu með ákveðnum þjónustugjöldum fyrir börn notenda fjárhagsaðstoðar. Þegar fulltrúi Flokks fólksins lagði til að afnema skilyrðið um að nýta frístundakort barnsins til að fá  fjárhagsaðstoð vegna barns  brást meirihlutinn ekkert vel við. Í kjölfar þess að fulltrúi sagði frá tillögu sinni á Bylgjunni var starfsmaður sendur út af örkinni til að snúa út úr orðum fulltrúa Ff með því að segja að frístundakortið tengist ekki fjárhagsaðstoð. Rétt er að  það tengist ekki  almennri fjárhagsaðstoð heldur fjárhagsaðstoð vegna barna. Sumt í drögunum er frekar harkalegt sbr. lokamálsgrein 8. gr. Benda má einnig á 19. gr. Styrkur vegna húsbúnaðar. Hér má athuga samvinnu við Góða hirðinn. Flokkur fólksins lagði til 2019 að borgin  kæmi upp aðstöðu þar sem húsgögn/húsbúnaður fengist gefins. Tillagan var felld, sögð ógna þeim dreifiaðilum sem fyrir eru. Svona vettvangur er ekki til. Til er aðstaða sem  selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Tillagan gekk út á að fá húsgögn gefins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar:

Sú hækkun sem hér er lögð til er lág. Þótt muni um hverja krónu hjá þeim bágstöddu þá er þetta varla fyrir einni máltíð handa meðalstórri fjölskyldu. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækka t.d. vegna barna í 16 gr. a úr  16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Nú eru þess utan allar gjaldskrár að hækka, gjöld á frístundaheimili, gjöld fyrir skólamat, ýmis gjöld fyrir þjónustu á velferðarsviði. Segja má því að þessi hækkun hafi þá þegar verið þurrkuð út.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra – til samþykktar:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að enn meira hefði mátt gera í þessari aðgerðaráætlun gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Útrýma á allri fátækt og hefur borgin alla burði til þess ef vel er haldið á spilunum.  Það er ekki nóg að ætla bara að kortleggja og greina. Það verður enginn saddur af því. Það er ánægjulegt að tillaga Flokks fólksins um  að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16.a sé nú orðin að veruleika. Einnig ber að fagna að reyna á að ná fram sjónarmiðum barna sem eiga foreldra sem hafa þurft á fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fátækt meðal barna á Íslandi er staðreynd. Þeir sem búa við sárafátækt eru oft börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra.  Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti tekna fátækra og láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80% . Til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum hefur Flokkur fólksins ítrekað lagt fram tillögu um að börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir en þær eru felldar jafnharðan.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um þjónustusamning við Útlendingastofnun vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd

Á þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíðar var stofnað teymi starfsmanna sem koma að vinnslu mála Umsækjenda um alþjóðlega vernd (UAV teymi). UAV teymið er þverfaglegt teymi og segir í gögnum að það samanstandi af  starfsmönnum með fjölþætta menntun og mismunandi bakgrunn og reynslu.  Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort í teyminu sé fulltrúi notenda (umsækjenda) sjálfra?
Það er mjög mikilvægt að hafa fulltrúa þeirra hópa sem teymið sinnir með í hópnum bæði þegar verið er að skipuleggja aðstoðina og veita hana. Það er erfiðara fyrir teymi að skynja og skilja þá fjölbreyttu flóru sem umlykur notendur þjónustunnar ef fulltrúi hennar er ekki í skipulaginu sama hversu þverfaglegt teymið er og fjölþætta menntun starfsmenn hafa eða eru með mismunandi bakgrunn og reynslu.

 

Bókun Flokks fólksins við  kynning á drögum að samningi um heimahjúkrun og viðauka við samningsdrög um heimahjúkrun.

Samningur um heimahjúkrun, drög eru kynnt. Hér er um vel skilgreint og afmarkað verkefni sem heilbrigðisstarfsfólk hefur með höndum. Allt spilar þetta saman, heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta til að gefa fólki kost á að vera sem lengst heima. Sennilega er heimahjúkrunin í góðu lagi en ýmislegt vantar upp á félagslegu heimaþjónustuna til að fólk geti verið heima sem allra lengst.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um biðlista í námskeið og til talmeinafræðings:

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um biðlista í úrræði og þjónustu á vegum borgarinnar kemur fram að 210 börn bíða eftir talmeinafræðingi. Það er einnig bið í námskeið sem dæmi bíða 41 barn eftir að komast í námskeiðið Klókir litlir krakkar.
Af hverju eru þessir biðlistar eftir þjónustu svo langir? Af hverju hafa þeir nánast fengið að festa sig í sessi sem væru þeir eitthvað lögmál?
Biðlistar koma fyrst og fremst til vegna þess að ekki er nægt fjármagn og ekki tekst að ráða fólk vegna lágrar launa. Biðin er slæm fyrir öll börn og sérstaklega geta verið alvarlegar afleiðingar ef börn með málþroskaröskun fá ekki nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir nánum félagslegum samskiptum við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína. Tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalegar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að brúa bilið milli kynslóða:

Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að brúa bilið milli kynslóða, eldri borgara og barna. Við getum lært svo mikið hvert af öðru,  fullorðnir af börnum og börn af fullorðnum. Hægt er að finna alls konar flöt á samskiptum og samveru eldri og yngri kynslóðarinnar. Tala saman, fara eitthvað saman eða gera eitthvað saman. Lagt er til að leitað verði leiða til að auka samskipti yngri og eldri, barna og eldri borgara til að efla gagnkvæman skilning og virðingu og umfram allt eiga ánægjulegar stundir. Nota má leik- og grunnskólana og félagsmiðstöðvarnar í þessum tilgangi.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um leigu og viðhald Félagsbústaða:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar fyrirspurnir um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum. Nokkrir leigjendur hafa verið að koma með ábendingar sem ekki hefur verið brugðist við af Félagsbústöðum t.d. að loftræstitúður spúi ryki og að ekki hafi verið brugðist við glugga sem ekki var hægt að loka vegna myglu og raka. Eins er leiga að hækka jafnt og þétt og er spurt hvort eitthvað annað en leigan sé að hækka. Í fyrirspurn Flokks fólksins fyrir skemmstu um hækkun leigu kom fram að aðeins sé um að ræða vísitölubundna hækkun og ekkert annað.

Ef reikningar eru skoðaðir þá má sjá að verið er að rukka um húsgjald, eitthvað þjónustugjald og eitthvað greiðslugjald.
Hvað er þetta eiginlega? Og eru þessar upphæðir að hækka jafnt og þétt?

Nú í COVID aðstæðunum er enginn að koma frá Félagsbústöðum til að sinna viðhaldi að sögn nokkurra leigjenda. Benda má á í því sambandi að vel er hægt er að sinna viðhaldi í þessum aðstæðum sé gætt að reglum um sóttvarnir.