Borgarráð 30. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki eigi að afgreiða tæplega ársgamla kvörtun um framkomu borgarritara við borgarfulltrúa minnihlutans þegar hann kallaði þá tudda á skólalóð?:

Borgaritari er að kveðja Ráðhúsið. Í skúffu borgarstjóra liggur óafgreidd kvörtun frá borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna meiðandi umæla borgarritara um borgarfulltrúa minnihlutans. Borgarfulltrúi spyr hvort ekki eigi að hnýta lausa enda áður en borgarritari hverfur á braut frá borginni og afgreiða kvörtunina? Kvörtunin er dags. tíunda apríl 2019 og móttekin af mannauðsdeild tólfta apríl 2019. Eftir þó nokkrar vangaveltur mannauðsdeildar sem einkenndust að mestu af spurningum hvað gera ætti við kvörtun af þessu tagi stóð til boða að vísa henni til borgarstjóra með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna hana samkvæmt þeim verkferlum, ekki heldur bráðbirgðaverkferil sem meirihlutinn hefur samþykkt. Skrif borgarritara var fyrst sett inn á sameiginlegt vinnusvæði starfsmanna. Um 80 starfsmenn þ.m.t. yfirmenn tóku þátt í illu umtali um borgarfulltrúa minnihlutans. Spurt er hvort ekki eigi að ljúka að afgreiða kvörtunina sem hér um ræðir með formlegum hætti áður en sá sem kvartað er yfir, borgarritari, hverfur til annarra starfa? Ekki er vænlegt að skilja eftir ókláruð mál af þessu tagi. Hér er laus endi sem þarf að hnýta. R20010392

Bókun Flokks fólksins við svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2020, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hundahald og hundaeftirlit, sbr. 75., 76., 77. og 78. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:

Borist hafa svör við fyrirspurnum  sem tengjast hundaeftirlitinu. Svörin vekja furðu og kalla á fleiri spurningar. Fyrstu viðbrögð Flokks fólksins snúa að svari Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að innstimplanir starfsmanna í Vinnustund séu persónugreinanleg gögn og að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi ekki heimild til að birta þær. Um þetta er efast. Spurt var um rafræn samskipti og áhrif þeirra á umfang verkefna eftirlitsins. Segir í svari Heilbrigðiseftirlitsins að  „kröfur um svörun og vandaða stjórnsýslu hafi aukist mikið gegnum árin og að fullyrðing  um að almenningur hafi tekið við mörgum verkefnum hundaeftirlits sé óskiljanleg og i besta falli misskilningur.“ Hér skal  áréttað af Flokki fólksins að Hundasamfélagið og Félag ábyrgra hundaeigenda hafa gert samanburð á tölfræði verkefna sem færst hafa frá hundaeftirlitinu til almennings. Á 4 árum fækkaði kvörtunum úr 273 í 79 á ári. Á 6 árum fækkaði lausum hundum úr 209 í 62 á ári. Á 8 árum fækkaði hundum í geymslu úr 89 í 8 á ári. Þegar þessi tölfræði er skoðuð má því spyrja hvernig getur það verið að rekstrarkostnaður hundaeftirlits eykst með hverju árinu? Síðan Hundasamfélagið var sett á laggirnar birtast að jafnaði 1200 færslur á ári, þar sem verið er að auglýsa týndan eða fundinn hund. Það er því alveg borðliggjandi að  almenningur hefur að mestu tekið við verkefnum hundaeftirlits.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að stjórn SORPU segi af sér vegna framkvæmdakostnaðar byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Lagt var til að stjórnarmaður Reykjavíkur í SORPU víki úr stjórn og að stjórn SORPU segði af sér vegna framúrkeyrslu framkvæmdakostnaðar byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Sú tillaga hugnast ekki meirihlutanum enda telur hann að sú staða sem nú er komin upp í SORPU komi stjórn lítið við og alls ekki stjórnarmanni borgarinnar í SORPU heldur sé vandinn öðrum að kenna og sá hefur verið sendur í leyfi.  Það er ótrúlegt að stjórn, sem fengið hefur greiðslur fyrir að sinna stjórnastörfum telur sig hafin yfir þennan skandal og að hún sé fullfær að vinna áfram. Hún telur sig hafa traust borgarbúa og bæjarfélaganna. Skýrsla innri endurskoðunar er afgerandi. Í skýrslunni koma fram  ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar SORPU hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára.  Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði jafnframt úttekt á stjórnarháttum félagsins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Það sem er ekki síst sláandi er að framkvæmdastjóri segir að hvorki  höfðu stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upp¬lýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Engu að síður á að þráast við. Völdin skipta máli.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á skýrslu innri endurskoðunar á framkvæmdum við gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. á Álfsnesi:

Enn ein skýrslan hefur verið birt sem sýnir að víða er pottur brotinn í borgarkerfinu. Nú eru það málefni SORPU og þá staðreynd að 1,4 milljarð vantar inn í fjárfestingaráætlun fyrirtækisins, en kostnaður  vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar og tækjakaup fór sem því nemur fram yfir kostnaðaráætlanir. Þetta er ekki fyrsta skýrslan sem sýnir vandamál af þessu tagi í borginni. Búið er að senda framkvæmdarstjórann heim en það er eins og stjórn ætli að hvítþvo sig af því að hún bað um skýrsluna. Það er mat Flokks fólksins að stjórnin öll eigi að axla ábyrgð en ekki setja alla sök á einn aðila, en um hann vill stjórn að umræðan snúist aðallega. Þegar svona stór skandall kemur upp á stjórn einfaldlega að víkja og gildir einu hvort akkúrat þessi stjórn var við völd þegar skandallinn átti sér stað. Borgarfulltrúa finnst eins og þessi meirihluti í borgarstjórn eigi erfitt með að lesa umhverfið með siðferðisgleraugum. Það er eins og ekkert bíti á sama hversu alvarlegir hlutirnir eru. Skýrsla innri endurskoðunar er kýrskýr og er stjórn og hennar vinnubrögð ekki síður gagnrýnd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins ítrekar mikilvægi þess að stjórnin öll stígi til hliðar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að sálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundarsvið.

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar í skólum og sálfræðiþjónustan færist undir skóla- og frístundasvið. Í dag er hún undir velferðarsviði. Það er mat borgarfulltrúa að með því að færa sálfræðinga skóla undir skóla- og frístundasvið komist þeir í betri tengingu við skólana, börnin og kennara. Skólasálfræðingar heyra undir þjónustumiðstöðvar borgarinnar þar sem þeir hafa aðsetur. Í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019, kom fram skýrt ákall skólastjórnenda að sálfræðingar kæmu meira inn í skólanna. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Það hefur lengi legið fyrir að of mikil fjarlægð er milli barna/kennara og fagfólks. Þessi tillaga miðar af því að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að minnka biðlista. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna. Með þessari breytingu aukast líkur á meiri skilvirkni, skipulagi og framkvæmd á stuðningi við börn og ungmenni í skólastarfi enda allt utanumhald þá undir sama þaki ef svo má segja. Með því að sálfræðingar heyri undir skóla- og frístundasvið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt. R20010379
Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar rýmri reglur fyrir gæludýr í strætisvögnum:

Fyrirspurn um afgreiðslu á tillögu Flokks fólksins um rýmri reglur fyrir gæludýr í strætisvögnum, einnig um tillögu um aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda sem og tillögu um að innheimta hundagjald fari í uppbyggingu á hundasvæði á Geirsnefi. Afgreiðsla þessara þriggja tillagna er óljós eða öllu heldur skorti haldbær rök. Flokkur fólksins spyr: Af hverju tillaga um rýmri reglur var ekki send til umsagnar hjá stjórn Strætó bs? Spurt er af hverju tillögunum um a) aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda sem og b) tillögu um að eftirlitsgjald sé notað í uppbyggingu á hundasvæði á Geirsnefi var ekki vísað til skoðunar hjá starfshópi um endurskoðun þjónustu við gæludýraeigendur eins og Heilbrigðiseftirlitið leggur til í sinni umsögn? Hver eru rökin fyrir því að umhverfis- og heilbrigðisráð leyfir sér að hundsa tillögu Heilbrigðiseftirlits um að þessar þrjár tillögur fari til skoðunar hjá umræddum stýrihópi? R20010132.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi svar:

Borgarráð vísaði tillögum Flokks fólksins til fullnaðarafgreiðslu umhverfis- og heilbrigðisráðs sem hefur nú afgreitt þær á fundi sínum. Ekki er fallist á að afgreiðslurnar hafi verið óljósar né að rök hafi skort fyrir afgreiðslu ráðsins. Málunum er því lokið og fyrirspurnin verður ekki send til frekari vinnslu.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að íbúaráðin hlutist til um að stofnanir í hverfinu tengist meira en nú er raunin og að íbúar hverfisins eigi þá mögulega ríkari samskipti:

Tillaga Flokks fólksins að íbúaráðin hlutist til um að stofnanir í hverfinu tengist meira en nú er raunin og að íbúar hverfisins eigi þá mögulega ríkari samskipti. Flokkur fólksins leggur til að eitt af hlutverkum íbúaráða sé að finna leiðir til að auka og dýpka bæði fagleg og persónuleg tengsl íbúa hverfa í gegnum stofnanir borgarinnar í hverfinu. Sjá má íbúaráðin sem eins konar lím milli skóla, leikskóla, félagsmiðstöðva og menningarstaða hverfisins. Með aukinni samvinnu tengjast einstaklingar meira og börn og fullorðnir hverfisins geta sameinast í auknum mæli í leik og starfi. Flokkur fólksins leggur til að þessi tillaga verði send til íbúaráðanna til skoðunar. Hér er sett fram hugmynd sem gæti verið hluti af hugmyndafræði íbúaráða sem borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að mætti útfæra nánar í íbúaráðunum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti. Grenndarstöð sem er núna á stór bílastæði við Arnarbakka til móts við Maríubakka verður færð til og verður framvegis staðsett á núverandi snúningshaus við Leirubakka:

Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti. Grenndarstöð sem er núna á stór bílastæði við Arnarbakka til móts við Maríubakka verður færð til og verður framvegis staðsett á núverandi snúningshaus við Leirubakka. Flokkur fólksins óskar að vita hvers vegna er verið að flytja gámana? Þar sem fyrirhugað er að setja gámana fýkur ruslið yfir blokkirnar í sunnan og suðaustan átt. Þarna er mikill strengur. Þeir sem leggja þetta til þekkja ekki til veðurs á þessu svæði. Skárri kostur væri að setja gámana í suðausturhorn bílastæðis við Leikskólann Arnarborg. Þar er skjól og það er miðsvæðis. Flokkur fólksins telur að þessi stæði séu ekki nýtt.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hundagjald og hvort rétt sé að aðeins hundaeigendur greiði það ef það eigi að þjónusta alla:

Í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu segir að hundeigendum beri að sinna skyldu sinni að finna sinn hund hafi hann týnst skv ákvæðum dýraverndunarlöggjafar og samþykkt um hundahald á hverjum stað. Þá er spurt ef sveitarfélögum er skylt að hafa athvarf, hvers vegna borga ekki allir útsvarsgreiðendur fyrir það eins og aðrar skyldur sveitarfélaga? Eins og staðan er núna, borga hundaeigendur sem skrá hundana sína, fyrir athvarf sem geymir óskráða hunda. Því það eru jú langoftast óskráðir hundar sem þurfa að gista yfir nótt, hinir skráðu komast til síns heima samdægurs. Flokkur fólksins vill að innri endurskoðun gerir úttekt á fjármálum hundaeftirlits enda velta margir því fyrir sér í hvað hundagjöld eru notuð þegar staðfest hefur verið að öllum verkefnum hundaeftirlitsins hefur snarfækkað. Hundaeftirlitið sér ekki ástæðu til þess að innri endurskoðun taki út reksturinn og segir að allt standist skoðun. Um þetta eru hundaeigendur einfaldlega ekki sammála. Á heimasíðu Reykjavíkur um opin fjármál kemur fram að laun og launatengd gjöld árið 2018 hafi verið 15.762.638 kr. Inni á heimasíðu Hundaeftirlits Reykjavíkur kemur fram að laun árið 2018 hafi verið 27.774.463 kr. Hver er ástæðan fyrir þessum mismun upp á 12.011.825 kr.? Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leigumál hundaeftirlitsins:

Fram kemur í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu að öll starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er staðsett í Borgartúni 12 eins og fram kemur á heimasíðu, á bréfsefnum og í undirskriftum starfsmanna. Þá er spurt: Er Hundaeftirlitið að borga leigu fyrir aðstöðu fyrir hundageymslur? Ef svo er, hver er sú upphæð á ári? Í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu segir að „innri leiga er greidd til eignasjóðs Reykjavíkurborgar sem er reiknuð eftir sömu reglum og aðrar einingar Heilbrigðiseftirlitsins hjá umhverfis- og skipulagssviði greiða og miðast við fjölda starfsmanna hverrar einingar. Tveir starfsmenn gera 1% af starfsmönnum sviðsins í húsinu og er leigan um 3,7 milljónir á ári.“ Spurt er þá hvort þetta þýði þá að umhverfis- og skipulagssvið sé að greiða 30 milljónir á mánuði í húsaleigu, fyrir 200 starfsmenn? Kvartað hefur verið undan að hundaleyfisgjald sé jafnvel talið hærra en nemi kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi, spurt er í hvað hundagjöldin fara. Heilbrigðiseftirlitið kannast ekki við slíkar kvartanir enda sé „reksturinn gagnsær. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins spyrja hvort kvörtun Hundarræktarfélag Íslands til Umboðsmanns Alþingis árið 1994 sé gleymd? https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/180/skoda/reifun Því miður krafðist Umboðsmaður Alþingis ekki rannsóknar á fjármálum eftirlitsins á þeim tíma. R20010132
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki eigi að afgreiða tæplega ársgamla kvörtun um framkomu borgarritara við borgarfulltrúa minnihlutans þegar hann kallaði þá tudda á skólalóð?:

Borgaritari er að kveðja Ráðhúsið. Í skúffu borgarstjóra liggur óafgreidd kvörtun frá borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna meiðandi umæla borgarritara um borgarfulltrúa minnihlutans. Borgarfulltrúi spyr hvort ekki eigi að hnýta lausa enda áður en borgarritari hverfur á braut frá borginni og afgreiða kvörtunina? Kvörtunin er dags. tíunda apríl 2019 og móttekin af mannauðsdeild tólfta apríl 2019. Eftir þó nokkrar vangaveltur mannauðsdeildar sem einkenndust að mestu af spurningum hvað gera ætti við kvörtun af þessu tagi stóð til boða að vísa henni til borgarstjóra með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna hana samkvæmt þeim verkferlum, ekki heldur bráðbirgðaverkferil sem meirihlutinn hefur samþykkt. Skrif borgarritara var fyrst sett inn á sameiginlegt vinnusvæði starfsmanna. Um 80 starfsmenn þ.m.t. yfirmenn tóku þátt í illu umtali um borgarfulltrúa minnihlutans. Spurt er hvort ekki eigi að ljúka að afgreiða kvörtunina sem hér um ræðir með formlegum hætti áður en sá sem kvartað er yfir, borgarritari, hverfur til annarra starfa? Ekki er vænlegt að skilja eftir ókláruð mál af þessu tagi. Hér er laus endi sem þarf að hnýta. R20010392.

Flokkur fólksins bókar við framlagðar íbúaráða:

Íbúaráðin eru komin í fulla virkni með sitt skilgreinda hlutverk. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort víkka megi út skilgreiningu ráðanna. Sjá má fyrir sér að íbúaráðin hafi það hlutverk að tengja saman íbúa hverfisins og stofnanir þess. Með aukinni samvinnu og samstarfi kynnast íbúar hverfisins, mynda nánari tengsl og geta börn og fullorðnir þá sameinast í auknum mæli í leik og starfi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Nýr lýðræðisvettvangur hverfanna, íbúaráðin, fara vel af stað, sem er gleðiefni. Meðal verkefna íbúaráða sem samþykkt voru af borgarstjórn vorið 2019 eru ,,a. Samtal milli íbúa og stjórnsýslunnar“ sem felur í sér að ,,styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa og styrkja möguleika íbúa til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hvað varðar pólitíska ákvarðanatöku“ og ,,b. Samvinna innan hverfanna“ sem felur í sér að íbúaráðin skuli ,,leggja sig fram við að vera lifandi samstarfsvettvangur innan svæðisins í samstarfi við bakhóp sem skipaður er af fjölbreyttum hagsmunaaðilum hverfisins“. Ekki er því talin þörf á að útvíkka skilgreiningu ráðanna til að koma til móts við þessi atriði þar sem að núverandi fyrirkomulag tekur vel á þeim.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Sorpu 2. lið:

Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað. Í skýrslunni koma fram ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína að skipta um fólk í brúnni þar sem engum þeirra hefur dottið til hugar að fylgjast nógu grant með málum SORPU sem leitt hefur til þessarar stöðu sem nú er uppi. Engin í stjórn virðist heldur hafa haft nægjanlega þekkingu á rekstri fyrirtækis sem SORPA er, né hefur stjórn sýnt sjálfstæð vinnubrögð, t.d. frumkvæðið að kalla eftir gögnum með reglubundnum hætti. Það er einnig með ólíkindum að stjórnarformaðurinn sé að koma núna fram og spyrja um hluti og að hann sé að biðja um skýrslu nú fyrst.  Af hverju hefur stjórnin ekki fylgst betur með? Fyrir hvað eru stjórnarmenn að fá laun? Hvernig og hvenær komst stjórn að því að eitthvað var í ólagi? Hinn vandinn er sá að byggðasamlagskerfi er óhentugt borginni bæði fjárhagslega og ekki síður stjórnunarlega. Minnihlutinn í borginni hefur engan aðgang þarna að og fær aldrei tækifæri til að hafa nein áhrif.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 20. janúar 2020  6. lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar skýrslu um heimilisofbeldi og aldraða og vill í því sambandi nota tækifærið og nefna vandamál sem oft er ekki í umræðunni og það er einelti meðal eldri borgara. Borgarfulltrúa hafa borist fregnir frá fólki sem segja að þegar þeir heimsóttu félagsmiðstöðvar í fyrsta skipti, hafi þeir misst löngun til að koma þangað aftur vegna reynslu sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir tala um að þeim sé ekki alltaf vel tekið af öllum og eiga þeir þá við aðra gesti en ekki starfsfólk. Því miður er þetta nokkuð víða. Nauðsynlegt er að ákveðnar siðareglur gildi fyrir notendur félagsmiðstöðva, um framkomu, og að þær siðareglur gildi án undantekninga. Á þetta við um framkomu, og að baktal og rógur sé ekki liðinn. Siðareglur og viðeigandi viðbrögð í samræmi við stefnu og verklag borgarinnar sem samþykkt var í mars í fyrra þarf að vera á öllum stöðum þar sem fólk kemur saman. Þeir sem vinna með eldri borgurum eða umgangast þá frá degi til dags þurfa að vera meðvitaðir um að einelti er vandi sem getur skotið upp kollinum hvar sem er og hvenær sem er án tillits til t.d. aldurs. Verði vart við eineltishegðun þarf að grípa inn í fljótt og markvisst.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun við bókun Flokks fólksins:

Stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustöðum er undirstefna mannauðsstefnu Reykjavíkurborgar og gildir um allt starfsfólk Reykjavíkurborgar en ekki almenna borgara. Almennar samskiptareglur gilda á félagsmiðstöðvum fyrir fullorðið fólk á velferðarsviði eins og annars staðar í samfélaginu og hingað til hefur ekki verið talin ástæða til að búa til sérstakar samræmdar reglur fyrir allar 17 félagsmiðstöðvar velferðarsviðs. Notendur á hverri félagsmiðstöð setja sér sínar samskiptareglur og nefna má að í Borgum, sem er stærsta félagsmiðstöðin með mesta virkni, er reglan „Öllum á að líða vel og að það sé gaman“. Þegar upp koma einstök ágreiningsmál er tekið á málinu með einstaklingsmiðaðri nálgun eða samtali.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins vill bregðast við þessari bókun meirihlutans. Borgarfulltrúi er ekki að nefna þessa hluti til að karpa um stefnur og verkferla heldur mikilvægi þess að á öllum stöðum sem fólk kemur saman á séu siða- og samskiptareglur og að þær séu lifandi reglur. Þá er átt við að rætt sé um góða samskiptahætti við þá sem koma til að njóta þjónustunnar og að rætt sé um að neikvæð hegðun og framkoma sé ekki liðin. Ekki á að gera lítið úr kvörtunum fólks og á hver og einn rétt á sinni upplifun. Engin ákveður upplifun annarra. Finnist einhverjum að hann hafi orðið fyrir ónotum eða dónaskap eða hvað eina þá þarf að vera farvegur fyrir það og slíkur farvegur þarf ekki aðeins að vera skilgreindur heldur einnig gagnsær. Ef fólk veit ekki um slíkan farveg/ferli gagnast hann vissulega ekki mikið.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir skipulags- og umhverfisráðs 29. janúar  21. lið:

Það sætir ekki undrun að áhyggjur séu af því risa glermannvirki sem ætlað er að rísi við Stekkjarbakka. Nú hafa borist kærur þar sem kærð er samþykkt borgarstjórnar frá 19. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka. Flokkur fólksins vill að unnið sé með borgarbúum en ekki gegn þeim í þessu máli sem og öðrum. Íbúakosning stendur fyrir dyrum en hún er aðeins leiðbeinandi. Sú bygging sem hér um ræðir er engin smásmíði. Hún er 9 metra há og 4.500 fm. að flatarmáli. Ekki er komin lausn á mögulegri ljósmengun sem varað hefur verið við af mannvirki sem þessu. Jafnframt kallar staðsetningin á aukin umferðarþunga sem gatnakerfið að svæðinu getur ekki tekið við.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Embættisafgreiðslur

Sjá má afgreiðslu tillagna Flokks fólksins í embættisafgreiðslum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits og umhverfisráðs á tillögum Flokks fólksins um gæludýr/hundamál í Reykjavík en allar hafa verið felldar eða vísað frá. Í a.m.k. tveimur málum hefur Heilbrigðiseftirlitið þó lagt til að þeim verði vísað til stýrihópsins sem skoða á þessi mál en það hefur umhverfis- og heilbrigðisráð látið sem vind um eyru þjóta og ýmist vísar þeim frá eða fellir þær. Hér er allt að því fornaldarhugsunarháttur þegar kemur að því að færa dýrahald borgarinnar til nútímans. Ýmist er vísað í að þurfi lagabreytingu, eða reglubreytingar, sem þó eiga að vera aðeins leiðbeinandi, og síðast en ekki síst er afsökunin að nú sé stýrihópur að störfum sem skoðar þessi mál. Það er alvarlegt að engin úr hagsmunasamtökum dýra og dýraeigenda sitja í hópnum. Enn og aftur eru samráð við borgarbúa og notendur þjónustu hundsað. Hér má einfaldlega helst engu breyta og reynt er að vinna þessi mál bak við tjöldin. Hvaða skýringar eru á því að Reykjavíkurborg getur ekki haft þessi mál eins og tíðkast í borgum sem við berum okkur saman við? Afturhaldssemi og þröngsýni gætir hjá þeim sem fara með völdin. Það hlýtur að vera skýringin.