Borgarráð 12. mars 2020

Í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverð vöknuðu nokkrar spurningar sem Flokkur fólksins vill fá svör við.

Í bókun meirihlutans segir að tillaga Flokks fólksins hafi verið vanhugsuð og að með henni hafi borgarfulltrúi Flokks fólksins verið að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Segir í bókun „að það sé engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni“.

Vegna ofangreindar bókunar vill Flokkur fólksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir.
1.Hver er kostnaður við að ,,framleiða metan og geyma“ og leiða það að brennslustað?
2. Hver er kostnaður við ,,viðeigandi yfirbyggingu“ við að safna metani á urðunarstað, geyma og brenna síðan á báli?
3. Hve mörgum kg af metani er brennt árlega á báli? (nota má aðrar einingar svo sem lítra undir ákveðnum þrýstingi, eða rúmmetra undir ákveðnum þrýstingi) 4. Hefur stjórn Sorpu kannað hvort það brjóti í bága við samkeppnislög að selja metan fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að koma því til neytenda? R20030116

Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.

 

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsum bílaflota Reykjavíkurborgar að borgin eigi alls 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000.:

Reykjavíkurborg á 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hverjir nota þessa bíla og í hvaða tilgangi. Leigubílar eru einnig nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest á velferðarsviði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna velferðarsviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Svör hafa ekki borist enn við þessum fyrirspurnum. R20030117
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavík fari að fyrirmynd Kópavogs og breyti reglum um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að allir þeir sem fái greiddar húsnæðisbætur á grundvelli laga um um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, fái einnig greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.:

Greinargerð

Nýlega fjallaði sjónvarpsþátturinn Kveikur um fátækt á Íslandi. Þar kom fram hve alvarlegur vandinn er og hve mikilvægt það er að kjörnir fulltrúar bregðist við strax til að hjálpa þeim sem lifa við fátækt. Einnig kom þar fram að í Reykjavík væru strangari skilyrði fyrir úthlutun húsnæðisstuðnings en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Kópavogi. Í Reykjavík þarf einstaklingur ekki aðeins að vera undir ákveðnum tekjuviðmiðum til að eiga rétt á húsnæðisstuðning heldur þarf hann einnig að skora að minnsta kosti sex stig í matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning, þar af tvö vegna félagslegra aðstæðna. Reykjavík veitir því ekki húsnæðisstuðning til þeirra sem hafa lágar tekjur nema að þeir glími einnig við önnur vandamál. Í þætti Kveiks var rætt við konu sem nýlega komst í stöðugt leiguhúsnæði en missti um leið rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Þarna er verið að kippa undan fótum þeirra sem reyna að stíga upp úr fátæktargildrunni. Þessu þurfum við að breyta strax og getum í því fylgt fyrirmynd nágranna okkar í Kópavogi.
Frestað.

 

Lögð fram  tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsað kjörnir fulltrúar, þeir sem vilja, fái að eiga viðtal/samtal við alla þá sem koma til greina í starf borgarritara

Tillaga Flokks fólksins að kjörnir fulltrúar, þeir sem vilja, fái að eiga viðtal/samtal við alla þá sem koma til greina í starf borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka virkan þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti heldur fái jafnframt aðgang að viðkomandi umsækjendum til að ræða við þá einslega óski þeir þess. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. R20030119

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Við byrjun árs 2019 voru nýjar reglur staðfestar um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði eru höfð að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum. Reglurnar gera ráð fyrir formlegu ráðningaferli sem skal samþykkt af borgarráði við upphaf þess, sem hér er verið að gera. Hæfnisnefnd skal halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Í tillögu áheyrnarfulltrúans er gert ráð fyrir því að borgarráð stígi inn í þetta nýsamþykkta ferli og taki umsækjendur í viðtal sem væri á skjön við áðurnefndar reglur. Reglurnar tryggja að gagnsæi og jafnræði ríki um ráðningar æðstu stjórnenda borgarinnar enda gríðarmikilvægt mál að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Tillögu Flokks fólksins að borgarfulltrúar, þeir sem vilja fái tækifæri til að eiga samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritara hefur verið vísað frá með vísan í nýjar reglur um ráðningar í æðstu stöður borgarinnar frá 2019. Ekki er séð að þessar reglur útiloki þennan möguleika og telur Flokkur fólksins það eigi ekki að vera í höndum meirihlutans að hindra aðgengi borgarfulltrúa að umsækjendum. Hér er um hagsmuni okkar allra að ræða og mikilvægt í ljósi reynslu að vel takist til við ráðninguna og að allir geti upplifað traust gagnvart verðandi borgarritara.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki sé rétt að kaupa fleiri metanvagna og þá að undangengnu útboði :

Í fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21. mars er rætt um útboð á rafmagnsvögnunum. Flokkur fólksins spyr: Er ekki rétt að stefna að því að kaupa fleiri metanvagna og þá að undangengnu útboði að sjálfsögðu? R20030120
Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins heimildar til að nota fjármagn til að ráða sérfræðinga í hugbúnaðarteymi:

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir vegna heimildar til að nota fjármagn til að ráða sérfræðinga í hugbúnaðarteymi. Talað er um að útboðið hafi verið sniðið að fyrirtækinu Kolibri ehf. og að fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun. Flokkur fólksins spyr hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun?

Lagt fram svohljóðandi svar borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Fullyrt er að útboðið hafi á sínum tíma verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki sem er alrangt. Útboðið var unnið með innkaupadeild og braut blað hvað varðar framkvæmd með nýrri innkaupaleið. Í gögnum máls koma fram þáverandi kröfur til bjóðanda og ekki fæst séð hvað af þeim kröfum ættu að hafa verið sniðnar að einu fyrirtæki enda augljóst að innkaupadeild myndi aldrei samþykkja slíkt. Spurt er um hver hafi lofað fyrirtækið og hvaða verðlaun það hafi fengið. Í gögnum máls kemur hvergi fram að fyrirtækið eða verkefnið um rafvæðingu fjárhagsaðstoðar hafi fengið verðlaun, né heldur neitt um lof fyrirtækisins þó svo að fyrirtækið sem vann að rafvæðingu fjárhagsaðstoðar sé vissulega mjög þekkt fyrirtæki bæði hér og erlendis. Það kemur hinsvegar fram í gögnum máls að verkefnið sjálft hafi fengið lof og verið tilnefnt til nokkurra verðlauna sem er rétt. Verkefnið er t.d. tilnefnt til tveggja verðlauna á Íslensku vefverðlaununum. Einnig má nefna að það hefur vakið athygli aðila á borð við Harvard háskóla í Bandaríkjunum sem í samstarfi við Bloomberg Philantropies hefur óskað hefur eftir að borgin kynni verkefnið á vettvangi 21 borga sem eru í fararbroddi í stafrænni umbreytingu. R20030071

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ástand Fossvogsskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar 2020. R20020201:

Flokkur fólksins hefur fengið svar við fyrirspurn um ástand Fossvogsskóla og heilsu skólabarna en dæmi eru um að börn hafi veikst aftur vegna myglu í byggingu þrátt fyrir að mikið viðhald liggi að baki. Í svarinu kemur fram að ný mygla hafi orsakast af leka í þakglugga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig þetta má vera og hvort hér sé um handvömm að ræða eða mistök í útboði? Í það minnsta hlýtur það að þykja sérstakt að hús leki áfram eftir viðgerð.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundaráðs við fyrirspurn um kerfisbundna upplýsingamiðlun milli heilsugæslu og skóla í málum barna sem greinast með lesskilningsvanda: 

Lagt er fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingamiðlun frá heilsugæslu til skólanna vegna barna sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi þeirra sem glíma munu við erfiðleika í lestri og lesskilningi. Í svari segir að ekkert slíkt samstarf sé formgert að vitað sé og að þær upplýsingar sem berist skóla komi þá frá foreldrum. Flokki fólksins finnst þetta afar sérkennilegt þar sem skóla- og velferðaryfirvöld státa sig af „snemmtækri íhlutun” en getur hins vegar ekki haft frumkvæði að því að nálgast þessar upplýsingar, með samþykki foreldra að sjálfsögðu, til að geta einmitt gripið til snemmtækra íhlutunar? Þarna liggja miklar og gagnlegar upplýsingar sér í lagi ef barn mælist með vísbendingar um vanda. Íhlutun í máli þess barns gæti byrjað á 1. skóladegi Eina sem þarf að gera er að kalla þessar upplýsingar markvisst yfir til skólans. Hvernig á að túlka það þegar skólayfirvöld sýna slíkt andvara- og frumkvæðaleysi þegar börn eru annars vegar? Flokki fólksins finnst þetta skýrt dæmi um að helsti vandi þessa meirihluta er tengsla- og frumkvæðaleysi. Áður hafði Flokkur fólksins spurt um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Sama svar var gefið „ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert”.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 26. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar segir að Samband íslenskra sveitarfélaga fari með samningsumboð borgarinnar gagnvart stéttarfélögum innan Kennarasambands Íslands, þar með talið Félagi leikskólakennara. Segir jafnframt að ljóst sé að niðurstöður annarra samninga hafa áhrif á kjaraviðræður við Félag leikskólakennara. Stytting vinnuviku er eitt af þeim meginatriðum sem rætt hefur verið við þá viðsemjendur Reykjavíkurborgar sem hafa verið með lausa kjarasamninga frá 1. apríl 2019. Þá má reikna með að viðræður við Félag leikskólakennara munu m.a. fjalla um vinnutímaskipulag leikskólakennara og undirbúningstíma fyrir fagleg störf þeirra eins og segir í svari. Flokkur fólksins vonar að nú þegar verkföllum er lokið þá verði settur fullur kraftur í viðræðurnar. Félagsmenn Kennarasambands Íslands eru eðlilega farnir verulega að ókyrrast.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020. R20020060:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og veltir upp spurningunni hvort skipulags- og velferðaryfirvöld borgarinnar átti sig nægjanlega vel á að bak við hvern einstakling standa margir? Erfiðast af öllu er þetta fyrir einstaklinginn sjálfan að fá ekki tækifæri til að vera sjálfstæður þegar hann getur það og vill. Spyrja má hversu margir fjölskyldumeðlimir séu yfirkomnir af álagi og þreytu, sumir jafnvel komnir á bætur og búnir að tapa heilsunni. Foreldrar fatlaðra sem komnir eru á fullorðins ár fá ekki tækifæri til að búa einir ættu að vera á launum hjá borginni. Þær biðlistatölur sem koma fram í svarinu eru geigvænlegar og sýna svart á hvítu að þessi málaflokkur hefur lengi verið í ruslflokki. Það bíða 142 einstaklingar eftir sérstöku húsnæði og 43 hafa beðið lengur en 5 ár. Ekki kemur fram hvað þeir sem beðið hafa lengst hafa beðið í mörg ár. Flestir búa heima hjá foreldrum. Það tekur tíma fyrir fatlað fólk að aðlagast því að flytja að heiman. Dragist í mörg ár að fá húsnæði nær viðkomandi e.t.v. ekki að koma sér fyrir, búa sér til eigið heimili með góðu tengslaneti áður en foreldrar eldast. Foreldrar kvarta yfir að fá engin svör, gögn né upplýsingar um stöðu mála.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu stýrihóps vegna frístundakorts, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. febrúar 2020. R20020124

Flokkur fólksins spurði um vinnu stýrihóps vegna frístundarkorts og hvort vænta megi áfangaskýrslu. Segir í svari að engin áfangaskýrsla verði gerð en vinnu muni ljúka fyrir sumarið. Flokkur fólksins gerir þá ráð fyrir að fá skýrslu þegar vinnu lýkur og að fá hana fyrir sumarið. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að stýrihópurinn haldi í heiðri og sjái til þess að aðeins börnin geti notað kortið að eigin vali til að velja sér íþrótt eða tómstund eins og upphaflegt markmið kortsins kvað á um og að kortunum verði ekki ætlað til annarra hluta eins og að greiða frístundaheimili sem barnið er á af nauðsyn eða tungumálaskóla. Með því að tengja frístundarkortið við fjárhagsstöðu foreldra er verið að brjóta á rétti barnsins til að nota það. Rjúfa þarf tengsl kortsins við 16. grein um sérstaka fjárhagsaðstoð þannig að án tillits til efnahags foreldra fái barnið alltaf tækifæri til að nota kortið til þess að velja sér íþrótt eða tómstund og foreldrar fái þann styrk/fjárhagsaðstoð sem þau þurfa hvort heldur fyrir frístundaheimili, tungumálaskóla eða annað.

 

Bókun Flokks fólksins kynningu á stefnu í íþróttamálum til ársins 2030:

Margt er gott í þessari íþróttastefnu og trúir Flokkur fólksins að hópurinn hafi lagt sig fram. Flokki fólksins finnst þó að nokkuð skorti á að jafnréttissjónarmið séu virt. Það er eins með íþróttir og annað í lífinu að þær eiga að standa öllum til boða. Einstaklingar velja svo hvað þeim hentar. Ekki allar íþróttir standa fötluðum börnum til boða og er það ekki vegna þess að þau geti ekki stundað þær. Íþróttir sem standa fötluðum börnum til boða eru auk þess ekki nógu sýnilegar í Reykjavík. Fram kemur að Reykjavíkurborg styrkir börn til þátttöku í íþróttum með frístundakortinu. Reglur kortsins mismuna börnum, þau fátæku fá ekki sömu tækifæri að nota það og börn efnaðri foreldra. Margir efnaminni foreldrar átta sig kannski ekki á hvernig þetta virkar og eru jafnvel þakklátir fyrir að geta nota kortið til að greiða með t.d. frístundaheimili. En á meðan er barnið ekki að nota það að eigin vali. Það er mikilvægt að ekki sé reynt að slá ryki í augu foreldra og ef kanna á viðhorf þeirra um kortið að ekki séu spurðar leiðandi spurningar. Styrkja á efnaminni foreldra sem þurfa aðstoð með frístundarheimili og tungumálaskóla með öðrum hætti en að nota frístundarkort barnsins til að greiða gjöldin.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra þar sem erindisbréf starfshóps um sérstök húsnæðisúrræði er sent borgarráði til kynningar:

Fram kemur að verið sé að setja á laggirnar starfshóp vegna sérstaks húsnæðisúrræða. Hlutverk starfshópsins er að hafa yfirumsjón með uppbyggingaráætlun sérstakra húsnæðisúrræða í Reykjavík og gera tillögur að aðgerðum borgarinnar til að mæta markmiðum hennar um fjölgun sérstakra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk. Enda þótt þessi hópur sé ekki pólitískur væri ekki úr vegi að hafa einn kjörinn fulltrúa með í hópinum. Þessi mál eru i miklum ólestri. Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk kemur fram að á biðlista eru 142 fatlaðir einstaklingar og 45 þeirra hafa beðið í meira en 5 ár. 11 einstaklingar eru 50 ára og eldri og flestir búa hjá foreldrum sínum. Foreldrar fatlaðra einstaklinga kvarta yfir að fá engin svör, fá engin gögn og fá ekki upplýsingar. Hér verður að fara að taka til hendi. Í það minnsta sýna fólki tilhlýðilega virðingu og svara því. Spurning Flokks fólksins er hvernig ætlar þessi starfshópur að taka á þessum málum. Vandinn er rótgróinn og uppsafnaður.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Félagsbústaða vegna óskar um að Reykjavík gangi í ábyrgð fyrir útgáfu skulabréfa að upphæð 9. m.kr.:

Enn á ný óskar stjórn Félagsbústaða eftir að ný skuldabréf verða gefin út og er óskað eftir einfaldri ábyrg Reykjavíkurborgar vegna útgáfu bréfanna. Nú er upphæðin 9. 000 m.kr. sem um ræðir að þessu sinni. Þessu mælir fjármála- og áhættustýringasvið með að borgarráð samþykki. Félagsbústaðir skulda fyrir 45 ma.kr og faraskuldir vaxandi. Hér er verið að biðja um lán til að endurfjármagna óhagstæð eldri lán en einnig til að gera eitthvað meira, „mæta fjárfestingarþörf” segir í umsögn fjármála- og áhættustýringarsvið. Spurningar vakna um rekstrarform Félagsbústaða sem er hlutafélag í eigu borgarinnar. Er þetta sem bíður, að óskað sé eftir að borgin gangi í einfalda ábyrgð fyrir lán Félagsbústaða jafnvel árlega ef ekki tvisvar á ári, næstu árin? Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand íbúða fjölmargrar sem fólki er boðið að leiga er í slæmu ástandi og enn berast fréttir að erfitt er að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandann frá yfirstjórn Félagsbústaða.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þjónustu- og nýsköpunarsviðs til ráðningar á sérfræðingum í hugbúnaðarteymi:

Flokkur fólksins hefur nokkrar athugasemdir við rökstuðning í þessu máli enda þótt hægt sé að vera sammála um að betra sé að ráða starfsmann i verkið frekar en að fá fyrirtæki til að vinna verkið. Hins vegar í forsögunni kemur fram að útboðið hafi verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki. Sagt er að vinna þess fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun og þá má spyrja hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun. Sagt er í greinargerðinni að val á aðila í gegnum opinber innkaup séu ekki heppileg. Er hér verið að tala um að betra sé að hafa samband við vin?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu samþykktar að auglýsa tillögu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar vegna loðar nr. 54 við Hofsvallagötu. Hundagerði:

Það er með eindæmum sorglegt af hverju skipulagsyfirvöld skulu sí og æ þverskallast við að hlusta á raddir hagsmunaaðila og sérfræðinga en þess í stað keyra málin áfram nánast eins og af þrjósku og stífni. Þetta má sjá í hnotskurn við hönnun og gerð hundagerðis við Vesturbæjarlaug. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað athugasemdir og hvað það er sem þarf að breyta til að gerðið verði fullnægjandi. Málið er framlagt í borgarráði og sjá má að allar athugasemdir hafa verið hunsaðar. Lögð er á borðið sama teikning og stendur 400m2 undir teikningunni. Ef gerðið rís í þeirri stærð, þá er það ónothæft og aðeins verið að sóa peningum. Þetta er leiðinlegt því hugmyndin var samþykkt í kosningu um Mitt hverfi en skipulagsyfirvöld vilja eyðileggja hana með því að gera gerðið ónothæft. Í upphaflegri hugmynd átti gerðið að vera ca. 2000 m2 samkvæmt mynd. Ekki aðeins er mikil seinkun á verkinu. Hundagerðið sem teiknað var inn í nóvember i fyrr var 700 fm. að stærð. 26. feb. var hins vegar samþykkt á fundi skipulagsráðs að minnka það í 400 fm. sem er allt of lítið. Fleiri annmarkar eru. Eins er girðing ekki fullnægjandi þar sem hún nær ekki niður á jörð og geta litlir hundar smeygt sér undir.

 

Bókun Flokks fólksins vegna deiliskipulags BYKÓ reitar vegna lóðanna nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut:

Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á BYKÓ reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugt að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbraut mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs  sbr. samþykkt á breytingu deiliskipulags Skefina-Fenin vegna lóðar nr. 1:

Samkvæmt breyttu deiliskipulagi við Grensásveg 1 stendur til að byggja umtalsvert upp af íbúðar og verslunarhúsnæði. Nokkrir aðilar eru eigendur lóða og þess húsnæðis sem þar standa nú. Þessir aðilar kvarta undan engu samráði sem kemur ekki á óvart miðað við fyrri áætlanir og framkvæmdir hjá borgarmeirhlutanum. Þó virðist að nú hafi verið hlustað á þá með einhverjum hætti. Ef af verður má vænta málaferla af hálfu lóðareigenda sem gæti kostað borgina umtalsvert fé. Vonandi verður ekki úr því þar sem gerðar hafa verið breytingar á fyrri áætlun. Það stingur í augu að ekki kemur fram að gert sé ráð fyrir skóla eða skólasókn þeirra barna sem væntanlega munu búa á þessu húsnæði. Hvernig eiga börnin að sækja sinn skóla yfir stórar umferðaræðar í borginni, Grensásveg og Suðurlandsbraut? Kannski með gönguljósum sem þá stöðva umferð enn frekar með tilheyrandi mengun á svæðinu. Eða að foreldrar aki börnum sínum í skólann. Varla dugar einn deilibíll fyrir allan þann fjölda eins og mælt er með í nýja skipulaginu. Flokkur fólksins leggur til að haft verði samráð við hagsmunaaðila til að koma í veg fyrir deilur og hugsanleg málaferli.

 

Fundargerð Sorpu: Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerð:

Flokkur fólksins hefur ítrekað kvartað yfir rýrum fundagerðum SORPU. Halda mætti að það sé markmið stjórnar að sem fæstir fái innsýn í verkefni og vinnubrögð fyrirtækisins. Í þessum fundargerðum kemur hreinlega ekkert fram sem hald er í. Um er að ræða allt að því stikkorðastíl. Til dæmis má nefna lið 7, um niðurstöður húsasorpsrannsóknar. Hverjar eru niðurstöðurnar og hvar er þær að finna? Í hvaða niðurstöður er verið að vísa? Fulltrúi Flokks fólksins fletti upp upplýsingum um hússorpsrannsóknirnar og fann aðeins 6 ára gamla rannsókn þar sem fram kemur að 192 milljónum er hent í ruslatunnur. Er verið að vísa í þessa athugun eða aðra? Hvað varðar SORPU að öðru leyti er löngu tímabært að SORPA nútímavæðist og taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Reykjavík er að verða eftirbátur í sorpmálum ef tekið er mið af öðrum sveitarfélögum.

 

Fundargerð Strætó bs. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Í þessum lið í fundargerð Strætó bs er verið að tala um orkugjafa og reynsluna af nýju metanvögnum. Flokki fólksins finnst sérkennilegt að tala um reynslu af nýjum vögnum, varla er komin mikil reynsla á eitthvað sem er nýtt. Hversu lengi skyldu vagnar teljast nýjir og hvað þarf að aka þeim lengi til að hægt geti verið að tala um að komin sé reynsla á „nýju“ vagnana? Svona upplýsingar vantar í fundargerð. Í lið 4 er rætt um útboð á rafmagnsvögnum. Flokkur fólksins veltir fyrir sér í þessu sambandi hvort til standi að fjölga metanvögnum enn meira og minnir á að offramboð er af metani og mun það aukast við nýju jarðgerðarstöðina. Hvernig væri nú að Strætó talaði við SORPU eða SORPA við Strætó og fengi metanið hjá þeim á kostnaðarverði. Það yrði hagur allra.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hlemmur, nýtt deiliskipulag:

Vegna nýs deiliskipulags fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi lýsir Flokkur fólksins yfir áhyggjum þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúa þekkja, því er ánægjulegt að það hafi verið skoðað í heild sinni. Það vekur athygli að gengið er út frá drauminum um borgarlínu, þannig að nýja skipulagið gerir aðeins ráð fyrir að borgalínan fari um svæði. Ekki er fullljóst með stoppistöðvar Strætó, en bent á Snorrabraut. Það er varhugavert því stöðvar við þá götu hefðu veruleg áhrif á umferð sem þegar verður illa teppt vegna lokunnar Rauðarárstígs. Aldar gamalli hefð leigubílastands á Hlemmi verður fórnað og óljóst hvar verður, frekar á að flytja til baka Norðurpólinn. Sumt úr sögunni á að undirstrika, en annað sem enn lifir þarf að hverfa eins og leigubílastaurinn, sem þjónar þó fólkinu í nánasta umhverfi. Útiloka á öll ökutæki af svæðinu og þar með aðgengi fatlaðra og eldri borgara. Engin aðkoma bíla leyfð, ekki einu sinni P merkt stæði? Ljóst að borgarbúar munu hafa lítið um skipulagið að segja. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum skipulags. Forðumst vondar endurtekningar.

 

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu bréfs um tilnefningu tveggja fulltrúa í starfshóp vegna rannsókna á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því hversu miklu fé á að verja í að rannsaka möguleika á flugvelli í Hvassahrauni. Hversu marga starfshópa á eftir að stofna? Vissulega er þetta ekki einungis málefni borgarinnar. Flokkur fólks vill nota tækifærið og nefna nokkur atriði hér í sambandi við Hvassahraunið. Verðurskilyrði þar voru mæld fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Í skýrslu frá 1970 eftir Leif Magnússon er strax komin vísbending um að þessi staðsetning verði líklega ekki vænleg fyrir flugvöll. Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir nýjan innanlandsflugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá er málið á núllreit. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir og þá sennilega milljónir ef ekki milljarðar farnir út um gluggann. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.