Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum
Tillögu Flokks fólksins um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum hefur verið vísað frá. Borgarfulltrúa finnst það miður og telur að það hefði verið lag að vísa tillögunni inn í hóp um sárafátækt sem er að störfum. Það hljómar illa þegar tillaga eins og þessari er fleygt út af borðinu eins og hún sé ekki þess verð að fá nánari skoðun. Betur hefði farið á því að leyfa henni að fljóta með í vinnu um málefnið sem nú þegar er í gangi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið aftur til að höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum þar með tekjutengingaraðferðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. Borgarafulltrúi vill benda á skýrsluna Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem unnin var fyrir Velferðarvaktina í þessu sambandi.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu flokksins um greiningu á stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna.
Tillögu Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn til að varpa ljósi á stöðu þeirra í íslensku samfélagi hefur verið vísað frá á fundi velferðarráðs 5. júní. Engu að síður lýsir velferðarráð stuðningi við tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra:
- Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða.
Bókun Flokks fólksins við liðnum: Minnisblað sviðsstjóra um notendasamráð, sbr. bókun velferðarráðs.
Minnisblað sviðsstjóra er gott og gagnlegt yfirlit en hvernig eru þessi mál í reynd? Það er alveg sama hvað er skrifað mikið og fallega um notendasamráð og hversu mikill og góður vilji og hvati er þar að baki þá virkar það ekki sannfærandi ef notendunum sjálfum finnst að ekki sé verið að hafa samráð við þá um málefni þeirra. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Aðeins notendur þjónustu geta staðfest hvort haft sé fullnægjandi notendasamráð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá að gerð yrði könnun hjá notendum, einstaklingum og hópum þar sem spurt er um upplifun þeirra á notendasamráði og notendamiðaðri hönnun. Ef tala á um raunverulegt notendasamráð sem dæmi þurfa notendur helst sjálfir að vera með í að stýra verkefninu. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins hvetja til ríkra tengsla milli hugmyndasviðs og framkvæmdarsviðs til að tryggja að þjónustan verði útfærð með þeim hætti að notandinn upplifi að hann sé hafður með í ráðum frá hugmynd á fyrstu stigum til framkvæmdar. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera helst greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu.
Bókun Flokks fólksins um greiningu á stöðu barna með fötlun sem eru af erlendum uppruna
Velferðarráð lýsir stuðningi við eftirfarandi tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra:
- Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða.