Borgarráð 24. janúar 2019

Tillaga frá Flokki fólksins um að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að setja mörg svör/mál minnihlutans í eina og sama skjalið í dagskrá og í fundargerðir

Lagt er til og þess krafist að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að  setja mörg svör/mál, jafnvel frá fleiri en einum flokki minnihlutans í eitt skjal hvort heldur í dagskrá eða í fundargerð. Í titli skjalsins kemur ekki fram hvaða svör eru í skjalinu sem getur verið tugir blaðsíðna.  Sé ætlunin að leita að einu svari eða máli þarf viðkomandi í fyrsta lagi að vita að það er í skjalinu og síðan leita að því í margra blaðsíðna skjali. Þetta er ekki vinnandi vegur. Sé  það ætlun meirihlutans að þvinga þessa breytingu fram er verið að draga úr sýnileik þeirra mála sem minnihlutinn leggur fram í borginni með markvissum og kerfisbundnum hætti og er það gert ekki einungis í óþökk heldur einnig án samþykkis minnihlutans. Hér er einnig verið að brjóta á rétti borgarbúa hvað varðar aðgengi og gegnsæi. Fyrir þá borgarbúa sem fylgjast með afgreiðslu mála í fundargerðum er nánast ókleyft að finna í fljótu bragði eitthvað ákveðið svar í stóru skjali.  Á það skal minnt að nýr flokkur, Viðreisn í borgarstjórn hefur lofað borgarbúum auknum sýnileika og auðveldara aðgengi að málefnum borgarinnar en með þessari einhliða breytingu í óþökk minnihlutans er verið að brjóta það loforð.

Svar: Meirihlutinn taldi hér um misskilning að ræða og var því ákveðið að draga þessa tillögu til baka

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Flokks fólksins um breytingu á reglum um afslátt af fasteignagjöldum eldri borgara

Ekki er alltaf bein tenging við skuldastöðu og þess að geta lifað með reisn.  Margir ellilífeyrisþegar skulda lítið og fá því ekki vaxtabætur  en eru samt með afar lítið fé milli handa. Eignin sem þeir búa í er yfirleitt heimili sem þeir hafa búið í í áraraðir. Það á ekki að þvinga þetta fólk til að flytja í annað  húsnæði. Flutningur og sala/kaup húsnæðis  kosta, sem slíkt mikið og kemur óþarfa róti á aldraða. Það er engra hagur.

Tillagan felld

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Flokks fólksins um reglulega fundi oddvita með þingmönnum, ráðherrum og nefndum Alþingis

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um reglulega fundi oddvita í borginni með þingmönnum hefur verið felld. Fram hefur komið að venjan er sú að borgarfulltrúar hitti þingmenn í kjördæminu tvisvar á ári og er það gott. Í þessu tilfelli er verið að tala um oddivita flokkanna í borginni en ekki alla borgarfulltrúa. Nú er það þannig að borgarstjóri einn sækir fjölmarga fundi með þingmönnum og ráðherrum vegna ýmissa sameiginlegra mála ríkis og borgar. Þar sem borgarstjóri er fulltrúi meirihlutans finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki óeðlilegt að oddvitar minnihlutans eftir atvikum sæki einstaka fundi með borgarstjóra þegar hann hittir þingnefndir/aðrar nefndir eða hópa þingsins eða ráðherra. Borgarstjóri er ekki fulltrúi borgarstjórnarflokks Flokks fólksins í neinum málum og getur ekki verið talsmaður minnihlutaflokkanna að mati borgarfulltrúa.

Tillagan felld

Bókun Flokks fólksins undir liðum: Göngugötur,  kynning á samráði

Borgarfulltrúi hefur ekkert á móti göngugötum svo það komi skýrt fram en taka þarf alvöru tillit til allra þegar verið er að skipuleggja þær og útfæra. Þetta samráðsferli sem kynnt var í borgarráði var ekki nógu skýrt að mati borgarfulltrúa. Flokkur fólksins veit t.d. að margir í Öryrkjabandalaginu eru ekki nægjanlega sáttir við fjölmargt sem tengist fjölda og þróun göngugatna í miðborginni. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að tekið hafi verið fullt tillit til hagsmunafélags eins og Öryrkjabandalagsins. Sumum finnst kannski boðið upp á visst „samráð“ en þegar upp er staðið sé ekki hlustað. Í frumvarpi til umferðarlaga er gert ráð fyrir aðgangi hreyfihamlaðs fólks að göngugötum, sem takmarkast við akstursþjónustu fatlaðra. Komið hefur fram hjá Öryrkabandalaginu að þeim finnst það ekki nóg. Fólk sem fer um göngugötur sækir ýmist þangað þjónustu eða vinnu, eru íbúar eða gestir. Það er óviðunandi að ætlast til að sumt hreyfihamlað fólk þurfi að panta sér akstursþjónustu sem aðgangsheimild að ákveðnum stað í miðbænum sem aðeins er fært að með því að fara göngugötur.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari skýrslu. Í henni eru margar hugmyndir, gamlar og nýjar. Borgarfulltrúi vill þó nefna þátt sem ekki er fjallað sérstaklega um í skýrslunni m.a. staðsetningu skóla í hverfum. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar sbr. Fellahverfið. Þar hefur fólks einangrast félagsleg og menningarlega. Mikilvægt er að spyrna fótum við stéttaskiptingu og það má gera með fjölmörgum hætti. Í einu hverfi á að vera margar gerðir húsnæðis og stærðir. Verð íbúða ræðst mest af stærð þeirra en einnig tegund húsnæðis. Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Hafa má í huga að oft eru fleiri en einn skóli í skilgreindu hverfi. Skólinn ætti að vera staðsettur þannig að hann sækja nemendur frá margskonar heimilum, sum búa í einbýlishúsum, önnur í blokkaríbúðum o.s.frv. Mikilvægt börnum að fá staðfestingu þess að allri séu jafnir og líði aldrei fyrir efnahag foreldra sinna. Liður í því er að gera alla þjónustu grunnskóla ókeypis, frístund og mat.  Einfalt ætti að vera að skipuleggja byggð út frá skóla þar sem horft er á hann sem  félaglega grunneiningu. Í kringum skólann á að vera fjölbreytt  húsnæði á ólíku verðbili hvort heldur um sé að ræða eign eða leigu. Staðsetningu skóla ráða skipulagsvöld í borginni.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga að stækkun friðlýsingarsvæðis Víkurgarðs.

Þetta mál  með Víkurgarð og sú ákvörðun Minjastofnunar að skyndifriða þann hluta hans sem er innan byggingarreits félagsins á Landsímareitnum sýnir hvað þetta mál allt er mikið klúður af hálfu borgaryfirvalda. Staðan væri ekki þessi nema af því að fjöldi manns er illilega misboðið. Hér hefur borgin farið offari án þess að huga að fjölmörgum atriðum sem eru mikilvæg sögu okkar og snerta tilfinningastrengi margra. Engu virðist eirt í látunum að koma upp hótelum á öllum mögulegum stöðum í borginni. Það eru margir þakklátir Minjastofnun fyrir þeirra viðbrögð og leiðir þeirra til að stöðva aðgerð sem er í óþökk margra borgarbúa eins og ljóst er nú orðið.

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurnuframvinduna? Hver gaf leyfi til m um Nauthólsveg

Flokkur fólksins mótmælir harðlega að öllum fyrirspurnum flokka minnihlutans um braggamálið sé steypt saman í eitt skjal og vísar í því sambandi einnig í bókun og tillögu sem lögð er fram á sama fundi (sjá neðar). Varðandi þessar fyrirspurnir sem hér um ræður eru svörin ófullnægjandi þar sem þau eru að mestu tómar tilvitnanir í skýrslu Innri endurskoðunar. Þessar fyrirspurnir eru sérstaklega lagðar fram fyrir hóp eldri borgara og þess vegna þurfa svörin að vera skýr. Koma skal svar eftir hverri fyrirspurn en ekki í belg og biðu eftir fyrirspurnirnar. Það er ítrekað að svörin verða að koma fullbúin. Margt fólk sem óskar svara við þessum fyrirspurnum er eins og áður segir eldri borgarar sem treysta sér ekki allir til að lesa skýrsluna í smáatriðum.

Fyrirspurnir vegna braggamálsins, lagðar fyrir aftur þar sem svör voru ófullnægjandi

Fyrirspurnir frá hópi fólks í borginni sem borgarfulltrúi óskar að verði svarað þannig að hvert svar komi í kjölfar sérhverrar fyrirspurnar og að ekki verði vísað í skýrsluna um braggann heldur að svörin komi fullbúin. Margt fólk sem óskar svara eru eldri borgarar og treysta sér ekki til að lesa skýrsluna:

Hverjir höfðu umsjón með endurbyggingu braggans?
Var verkefnið boðið út að hluta til eða öllu leyti?
Hvaða verktakar unnu verkið?
Samþykkti borgarstjóri reikningana áður en greitt var?
Óskað er eftir að fá afrit af samstarfssamningi borgarinnar við HR um endurbyggingu braggans
Óskað er eftir að fá afrit af öllum samþykktum þeirra ábyrgðaraðila innan borgarkerfisins sem samþykktu útgjaldaliði af hálfu borgarinnar umfram kostnaðaráætlun.
Óskað er eftir að lagðar séu fram hönnunarfundargerðir og verkfundargerðir.
Hverjar voru hönnunarforsendur fyrir endurbyggingu braggans?
Hverjar voru forsendurnar að vali ráðgjafa, voru þeir valdir vegna sérþekkingar sinnar á endurbyggingu bragga af þessu tagi eða vegna sérþekkingar þeirra á eldri húsum almennt?
Á hvaða grundvelli var samið við þessa ráðgjafa?
Hver ber ábyrgð á þessari framúrkeyrslu?
Fyrir hönd verkkaupa og skattgreiðenda. Hver breytti forsendum þannig að kostnaðaráætlunin fór úr böndum?
Hver hafði yfirsýn yfir framvinduna?Hver gaf leyfi til að halda áfram þegar ljóst var að áætlunin stóðst ekki?
Er sama fastanúmer á öllum þremur húsum?

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Stjórnarráðsreiturinn, uppbygging

Flokkur fólksins hefur áhyggjur af því að þetta skipulag sem er að mörgu leyti fallegt, skyggi á Hörpuna. Það er þétt byggð þarna í kring og mikið af lágreistum húsum þaðan sem má sjá Hörpuna núna. Þetta þarf að kanna frekar áður en frekari ákvarðanir eru teknar og gefa öllum þeim sem kunna að missa sýn á Hörpuna með þessu skipulagi frá sínu heimili tækifæri til að tjá sig. Harpan er mikil prýði og stolt okkar allra. Nú þegar er farið að þrengja verulega að henni og heldur sem horfi mun hún hverfa sýn vegna gríðarlegra þéttingar allt um kring á þessu svæði

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Athugasemdir við dagskrá

Flokkur fólksins gerir þá kröfu að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að  setja mörg svör/mál frá flokkum minnihlutans í eitt skjal hvort heldur í dagskrá eða í fundargerð. Í titli skjalsins kemur ekki fram hvaða svör eru í skjalinu sem getur verið tugir blaðsíðna.  Sé ætlunin að leita að einu svari eða máli þarf viðkomandi í fyrsta lagi að vita að það er í skjalinu og síðan leita að því í margra blaðsíðna skjali. Þetta er ekki vinnandi vegur. Sé  það ætlun meirihlutans að þvinga þessa breytingu fram er verið að draga úr sýnileik þeirra mála sem minnihlutinn leggur fram í borginni með markvissum og kerfisbundnum hætti og er það gert ekki einungis í óþökk heldur einnig án samþykkis minnihlutans. Hér er einnig verið að brjóta á rétti borgarbúa hvað varðar aðgengi og gegnsæi. Fyrir þá borgarbúa sem fylgjast með afgreiðslu mála í fundargerðum er nánast ókleyft að finna í fljótu bragði eitthvað ákveðið svar í stóru skjali.  Á það skal minnt að nýr flokkur í borgarstjórn hefur lofað borgarbúum auknum sýnileika og auðveldara aðgengi að málefnum borgarinnar en með þessari einhliða breytingu í óþökk minnihlutans er verið að brjóta það loforð.