Borgarráð 11. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi stefnu um íbúðabyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar borgarlínu:

Af mörgu er að taka í þessum gögnum enda málið viðamikið. Fulltrúi Flokks fólksins vill fókusera á fyrirhugaðan 3. áfanga Arnarnesvegar. Erindi Vegagerðarinnar um að fá framkvæmdaleyfi strax var ákveðið áfall því þegar framkvæmdir eru hafnar er ekki aftur snúið. Fara á í verkútboð áður en heildarmyndin er skoðuð og áhrifin sem framkvæmdin veldur ekki fullljós. Margsinnis hefur verið beðið um nýtt umhverfismat á Vatnsendahvarfinu. Greinilega er mikill þrýstingur frá Kópavogi að fá þennan veg. Ef úrskurður skipulagsnefndar er sá að ekki sé þörf á nýju umhverfismati bíða kærur, enda 18 ár liðin frá síðasta mati. Í aðalskipulagi er stefna um einstök ný gatnamót oft sett fram með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats. Það gæti átt við um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Ef niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fara þurfi fram nýtt umhverfismat, þýðir það að setja þarf fram skýran fyrirvara við umrædda hönnun. Ef hins vegar niðurstaðan verður að ekki þurfi nýtt umhverfismat er hægt að setja umrædda tillögu um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar fram án fyrirvara (samkvæmt upplýsingum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað). Í bréfi Vegagerðarinnar er ekki minnst á neina fyrirvara, greinilega í trausti þess að eldra umhverfismatið gildi. Greinilega er ekki reiknað með nýju umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi sértæk búsetuúrræði og landnotkun:

Ein af aðaláherslum Flokks fólksins er að berjast fyrir því að allir hafi öruggt húsaskjól. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. Heimili er ekki einungis skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið eru líka háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn í hverfið. Reynslan sýnir að oft getur reynst erfitt að skapa sátt um staðsetningu mismunandi búsetuúrræða innan gróinna hverfa, einkum vegna andmæla íbúasamfélagsins en einnig vegna þess að land eða hentugt húsnæði liggur ekki á lausu. Þörf er á að skilgreina svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæði og skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna (sértæk búsetuúrræði) innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Sveigjanleiki þarf að vera til að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur. Við staðarval húsnæðis af þessu tagi þarf að hafa í huga sérþarfir þeirra sem þar eiga að búa en markmiðið er þeir geti notið sömu umhverfisgæða og nærþjónustu og þeir sem búa í hefðbundnu íbúðarhúsnæði innan hefðbundinnar íbúðarbyggðar. Fyrsti kostur í staðsetningu þessara úrræða hlýtur að verða að vera innan íbúðarhverfa eða blandaðrar byggðar til að geta verið nálægt þjónustu og almenningssamgöngum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framlengingu lóðarvilyrðis vegna Veðurstofuhæðar:

Fulltrúi Flokks fólksins er ávallt skeptískur þegar meirihlutinn ræðir um „hagkvæmt húsnæði“. Sennilega hefur aldrei verið eins mikið til af litlum íbúðum á óhagkvæmu verði en á góðum og eftirsóttum stöðum í borginni. Þessar litlu íbúðir eru á uppsprengdu verði, sennilega aðeins vegna staðsetningu þeirra. Vissulega er markaður fyrir litlar íbúðir og hefur hann farið vaxandi sem er vel. Vandinn er að þær eru hlutfallslega dýrar eignir og því ekki á færi efnalítils fólks að kaupa. Mörgum fylgir auk þess ekki bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins styður fjölbreytni m.a. í hverfum og vill að þörfum allra verði mætt sem best. Ef allt er eðlilegt eru smærri íbúðir ódýrari en stærri íbúðir. Hér er verið að tala um að minnstu íbúðirnar eru ekki mikið stærri en 35 fermetrar sem geta kostað allt að 30 milljónir á dýrustu stöðunum. Hér er því varla verið að höfða til fólks sem hefur lítið fé milli handanna. Nú eru um 900 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð samþykki að hefja samstarf við Betri samgöngur ohf. um þróun skipulags á Keldnalandi, sbr. hjálagt erindi frá Betri samgöngum ohf., dags. 29. janúar 2021, ásamt svarbréfi borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021.

Keldnalandið er sennilega það óbyggða svæði í borginni þar sem mestir möguleikar eru á að búa til gott hverfi. Samningur við ríkið um að öll sala byggingarreita renni í samgöngur er gott veganesti. Flokkur fólksins telur að svæðið eigi að mestu að vera íbúðarsvæði og að atvinnuhúsnæði verði ætlað litlum fyrirtækjum sem þó geta verið mannmörg. Það er tímabært, þótt fyrr hefði verið, að huga nú þegar að uppbyggingunni, með tilliti til samgangna og hvernig íbúasamsetning á að vera. Flokkur fólksins mælir með því að sérstaklega verið reynt að skipuleggja svæðið þannig að aldurshópar blandist saman, stærð íbúða verði mismunandi, allt frá litlum íbúðum til einbýlishúsa, að uppbygging stuðli að félagslegri blöndun og að góður hluti af húsnæði sem þarna verði byggt verði hagkvæmt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, um framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar:

Í þessum viðauka er m.a. verið að leggja til kjarabætur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla vegna áhrifa kjarasamningshækkana á greiðslur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla. Fulltrúi Flokks fólksins styður það vissulega en vill að sama skapi koma því að að tónlistarskólar eru aðeins fyrir börn efnameiri foreldra vegna þess að tónlistarnám í einkareknum tónlistarskólum er dýrt. Börnin eiga að hafa sömu tækifæri til að stunda tónlistarnám og á borgin að reyna að gera allt til að svo megi verða. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram. Ef horft er til skólahljómsveita þá gætu þær, væru þær í öllum hverfum, verið mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Í skólahljómsveit fengju börnin tækifæri til að læra á hin ýmsu hljóðfæri. Með því er dregið úr mismunun á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifærum til að velja sér hljóðfæri til að læra á. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram slíka tillögu um skólahljómsveitir í öll hverfi fyrir einu og hálfu ári en hefur ekki fengið nein viðbrögð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að borgarráð samþykki hjálagða beiðni Félagsbústaða um einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021, dags. 29. janúar 2021:

Enn á ný biður stjórn Félagsbústaða um einfalda ábyrgð borgarinnar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021. Þetta er endurtekið efni hvert ár og stundum tvisvar á ári. Endurfjármögnun félagsins er frekar ruglingsleg. Skuldir eru komnar yfir 50 ma.kr. Félagsbústaðir og rekstrarform þeirra er vissulega ekki hafið yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand sumra íbúða sem fólki er boðið að leigja er slæmt og enn berast þær fréttir að erfitt sé að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandanum frá yfirstjórn Félagsbústaða. Spurning er hvort hægt er að setja meira fé í viðhald þar sem verið er að taka stór lán til að tryggja að öllum líði vel í leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum. Í kuldatímanum sem nú hefur staðið yfir hefur ekki verið nægjanlegur hiti hjá öllum leigjendum og skortur hefur verið á heitu vatni. Víða eru ofnar allt of litlir.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Um er að ræða endurfjármögnun upp á 4,1 ma.kr. og lántöku vegna fjárfestinga fyrir 3,9 ma.kr. Hlutverk Félagsbústaða er að kaupa og reka íbúðir fyrir tekjulágt fólk í Reykjavík. Uppbygging íbúða og kaup Félagsbústaða á félagslegum íbúðum hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og kallað á auknar lántökur líkt og venja er við fasteignakaup. Á árunum 2014-2020 fjölgaði íbúðum í eignasafni Félagsbústaða um 637. Athygli vekur að fulltrúar minnihlutans virðast bæði gagnrýna lántökur til kaupa á félagslegum íbúðum en á sama tíma vilja lækka leigu á íbúðunum, stórauka viðhald á þeim, útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði og hækka húsnæðisbætur til muna.

 

Gagnbókun Flokks fólksins við bókun meirihlutans um ábyrgð á láni Félagsbústaða:

Ef Félagsbústaðir ætla að leiga íbúðir til fólks hljóta þær að þurfa að vera í lagi. Það er ekkert vit í að kaupa og kaupa íbúðir, rukka háa leigu en bjóða síðan fólki upp á íbúðir sem leka, eru myglaðar eða næst ekki að kynda á vetrardögum.

Bókun Flokks fólksins við tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum er varðar húsnæðisstuðning:

Lagt er til að borgarráð staðfesti samþykkt velferðarráðs frá 20. janúar um hækkun tekju- og eignaviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningum félags- og barnamálaráðherra til sveitarfélaga 21. desember 2020 en í tillögunni felst að tekjumörk hækka um 3,6% og eignamörk um 7,23%. Jafnframt er lagt til að borgarráð hækki fyrrgreind tekjumörk um 8% umfram tekjumörk í leiðbeiningum til sveitarfélaga vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til jafns við hækkun ríkisins á frítekjumarki vegna almennra húsnæðisbóta til að ekki komi til skerðinga hjá þeim sem jafnframt eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Heildarhækkun tekjumarka verður 11,9% eftir breytingu eða frá og með 1. janúar 2021. Kostnaður vegna umframhækkunar tekju- og eignaviðmiða er áætlaður um 50 m.kr. og er fjármála- og áhættustýringarsviði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2021 vegna þessa.

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Sérstakar húsnæðisbætur skipta sköpum fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna og búa í leiguhúsnæði. Reglur Reykjavíkurborgar um viðmið fjárhæða fyrir sérstakan húsnæðisstuðning hafa almennt tekið mið af leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög. Í ljósi aðstæðna er hér tekin ákvörðun um að rýmka þau viðmið sem stuðst er við þannig að fleiri tekjulágir Reykvíkingar fái sérstakan húsnæðisstuðning á þessu ári. Þær 50 milljónir sem ráðstafað er hér eru því að fara beint til þess hóps sem minnst hefur á milli handanna og því mikilvæg jöfnunaraðgerð.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Að hækka sérstakan húsnæðisstuðning upp að því marki að grunnlífeyrir öryrkja hjá TR verði ekki skertur myndi kosta aðeins um 40-50 m.kr. á ári. Það var gerður samanburður á því að hækka samkvæmt tillögu velferðasviðs og svo að hækka enn frekar. Á árinu 2021 var framfærsluviðmið lífeyrisþega almannatrygginga hjá einstaklingi sem býr einn og er með fullar bætur hækkað úr 345.732 kr. á mánuði í 366.178 kr. Hækkunin felur í sér að tekjur af útsvari hækka um 2.850 kr. á mánuði. Til að koma í veg fyrir skerðingu sérstaks húsnæðisstuðnings hjá þessum hópi þarf að hækka tekjuviðmið sérstaks húsnæðisstuðnings um 9,3% að lágmarki eða 5,5% umfram leiðbeiningar félagsmálaráðuneytis. Niðurstaðan var: Kostnaðarmat vegna hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings um 3,6% og eignamarka um 7,23% (hópur A) er áætlaður 49,6 m.kr. og rúmast innan fjárhagsáætlunar. En samkvæmt fjárhagsmati myndi viðbótarkostnaður vegna hækkunar tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings í hópi B verða 45-50 m.kr. á ári umfram hóp A en hærri tekjuviðmið húsnæðisbóta hafa lítil sem engin áhrif á kostnað Reykjavíkurborgar en öryrkjar og tekjulægri hópar njóta góðs af. Miðað við niðurstöðu greiningarinnar þá eru allir kostir fyrir því að auka frekar tekjumörkin til að draga úr skerðingum gagnvart öryrkjum.

 

Bókun Flokks fólksins við greinargerð starfshóps um Sundabraut, dags. í janúar 2021:

Kynnt hefur verið skýrsla starfshóps Vegagerðarinnar um kosti Sundabrautar. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að Sundabraut þarf að vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar og að gangandi og hjólandi geti notað hana. Ef vel tekst til með hönnun brúa sem byggja þarf getur Sundabraut með glæsilegum brúarmannvirkjum orðið prýði í borginni.


Bókun Flokks fólksins við fundarger aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. febrúar 2021 undir 6. lið fundargerðarinnar:

Í lið 6 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Öryrkjabandalags Íslands um merkingar við göngugötur. Málinu er frestað á fundinum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað kallað eftir að gengið verði í að merkja göngugötur þannig að skýrt sé öllum að heimilt er í lögum að fatlaður einstaklingur hefur rétt til að aka á göngugötu og leggja í sérmerkt stæði. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur hefur orðið fyrir aðkasti þegar hann ekur þessar götur sem hann hefur fulla heimild til þar sem fólk hefur ekki verið upplýst um lagaheimildina og merkingar skortir. Í þeim svörum sem hafa borist við fyrirspurnum Flokks fólksins um þessi mál má finna ýmsar afsakanir. Skipulagsyfirvöld hafa jafnvel borið fyrir sig að svona umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins, aðeins fyrirsláttur. Ekki liggur fyrir hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta. Ef eitthvað er að í skipulagi sem skapar hættur eða óþægindi fyrir vegfarendur þarf að laga það.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. febrúar 2021 undir 2. lið fundargerðarinnar:

Bókun við 2. lið í fundargerð íbúaráðs Breiðholts, kynning á tómstundastarfi í Breiðholti og samtal forsvarsmanna tómstundastarfs við íbúaráð Breiðholts. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessari bókun nefna að ekki stendur öllum börnum í Breiðholti til boða að læra á það hljóðfæri sem þau óska. Tónlistarnám barna í tónlistarskólum er háð efnahag foreldra þeirra því námið er dýrt. Fulltrúa Flokks fólksins er annt um að börn hafi jöfn tækifæri til tónlistarnáms. Í tvígang hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar sem eru 10, en hljómsveitir eru aðeins í 4 hverfum, til að geta boðið börnum að læra að spila á þau hljóðfæri sem þau óska. Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær að einhverju leyti mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á kennslu nema á einstaka hljóðfæri þá mun áfram ríkja ójöfnuður á þessu sviði nema eitthvað annað og meira komi til. Tónlistarnám í einkareknum skólum er aðeins fyrir börn efnameiri foreldra. Finna þarf leiðir til að auka jöfnuð og er það á ábyrgð borgarinnar að gera allt sem hægt er til að börn geta setið við sama borð í þessu sem öðru.


Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. febrúar 2021 undir 1. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins leggur til að hætt verði alfarið við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli: „Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi.“ „Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík. Ef markmið um þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður.“ „Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.“ Umhverfisskýrslan: Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða „grænum trefli“ hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna.

 

Bókun Flokks fólksins við yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði undir 3. lið yfirlitsins:

Varðandi tillögu fulltrúa Félags eldri borgara um heilsueflingu aldraðra. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og tengist tillaga Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja þessari umræðu beint. Tillögunni var vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Staðan í dag er sú að ekkert sálfélagslegt úrræði er fyrir íbúa á reykvískum hjúkrunarheimilum og þeim sem búa heima stendur ekki slíkt til boða heldur. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst, oft án þess að greining liggi fyrir. Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur þess utan bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kanni hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kanni hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Það skiptir miklu máli að tryggja gæði jafnréttisfræðslu og að börn sitji við sama borð þegar kemur að jafnréttisfræðslu, þ.e. að það sé ekki mikið misræmi á slíkri fræðslu milli skóla/hverfa. Undanfarið hefur komið fram sú skoðun hjá börnum og ungmennum að þau vilja meiri jafnréttisfræðslu. Þess vegna er brýnt að kortleggja fræðsluna og hvernig hún er lögð upp í skólunum. Einnig er þörf á að athuga stöðu jafnréttisfræðslu með tilliti til óska nemenda um frekari jafnréttisfræðslu og hvort tilefni sé til að gera breytingar til úrbóta almennt eða í einstökum skólum.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni um að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kannað hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd hefur verið vísað frá og sagt að sambærileg tillaga Flokks fólksins liggi fyrir í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði. Það sem þessi tillaga hefur umfram þá tillögu er að lagt er til að kannað verði hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Fulltrúi Flokks fólksins mun því leggja fram aftur þessa tillögu enda mikilvægt að skoða samræmingu á jafnréttisfræðslu í skólum.