Borgarráð 19. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins undir umræðunni og yfirskriftinni; Göngum í takt – samtal við atvinnulífið.

Gestum er þakkað fyrir komuna. Það slær fulltrúa Flokks fólksins að eitt af því sem bent er á í samtölum við forsvarsfólk atvinnulífsins er hversu flókið og óþjált ferli borgarkerfisins er þegar kemur að leyfisveitingum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í tvígang lagt fram tillögu um að farið verði með markvissum hætti í að einfalda umsóknir um leyfisveitingar og allt regluverk í sambandi við það hvort sem það er byggingaregluverk eða annað til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik. Þetta ætti ekki að flækjast mikið fyrir borgarmeirihlutanum, hvað þá taka tíma. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins rifja upp aðgerðir í efnahagsmálum sem allir borgarfulltrúar samþykktu á fundi 26. mars. Þar á meðal var frestun gjalda og niðurfelling gjalda og að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að fresta gjalddögum. Þessar aðgerðir mætti útvíkka enn meira þannig að fleiri geti notið þeirra. Vinna þarf hraðar nú og framkvæma strax það sem hægt er að framkvæma, t.d. það sem krefst ekki mikils tilkostnaðar. Borgarmeirihlutinn þarf spark. Orð eru til alls fyrst en ekki dugir að eiga aðeins samtöl ef engar eða litlar eru framkvæmdirnar.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr.

Bjóða á út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála. Það er löngu tímabært. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum bæði hvað varðar aðgengi og yfirborð. Eiginlega er, samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, aðgengi hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað. Aðgengi og yfirborðsvandi stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki, sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma sem það tekur að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.

 

Bókun Flokks fólksins  við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2020 á samstarfs- og styrktarsamningi sviðsins við Ríkisútvarpið:

Fulltrúi Flokks fólksins er afar ánægður með að raddir barna og ungmenna heyrast sem víðast enda hafa börn mikið að segja og mörgu af því getum við fullorðna fólkið lært af. En hvað með aðrar stöðvar? Hefði ekki verið eðlilegt að tala við þær líka, t.d. Sýn, Hringbraut eða aðra fjölmiðla? Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. RÚV ber að gera ákveðna hluti samkvæmt þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins, þ.m.t. að sinna fræðsluhlutverki og auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn. Hér hefði verið eðlilegt að fara í útboð eða gera verðfyrirspurn til að kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva á verkefni sem þessu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um mótun á virkniaðgerðum í samræmi við græna planið vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 

Borgarstjóri fjallar almennt um ástandið á vinnumarkaði og að borgin flýti nokkrum verkefnum til að minnka atvinnuleysi. Lagt er fram erindisbréf, að starfshópur um mótun á vinnu- og virkniaðgerðum verði settur á laggirnar. Hópurinn er skipaður embættismönnum einungis. Er það rétt stefna? Eftir því er tekið í bréfi borgarstjóra að hann segir að „ein helsta áhersla græna plans Reykjavíkurborgar í samfélagslegu víddinni er að enginn verði skilinn eftir“. Hvað er átt við? Að enginn verði skilinn eftir vinnulega séð? Fjölmargir hafa verið skildir eftir árum saman í samfélagslegri vídd. Það þarf ekki að horfa lengra en til allra þeirra sem treysta á hjálparsamtök til að fá að borða, er það ekki samfélagleg vídd?. Má ekki segja að það fólk hafi verið skilið eftir? Reykjavíkurborg sjálf hefur verið að segja upp fólki. Fjórum tæknimönnum var sagt upp störfum fyrir fáeinum dögum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði og verkefnum þeirra útvistað. Er þetta í anda græna plansins?

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs endurskoðunarnefndar til borgarstjórnar um starfsárið 2019-2020, ásamt starfsskýrslu endurskoðunarnefndar 2019-2020, dags. 2. nóvember 2020:

Eitt mikilvægasta verkefni endurskoðunarnefndar snýr að eftirlitshlutverkinu að mati fulltrúa Flokks fólksins, fylgjast með vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar og afla sér upplýsinga um mikilvægar forsendur til grundvallar áætluninni. Stundum er eins og endurskoðunarnefndin horfi að mestu til hvort rétt sé lagt saman eða dregið frá en minni áhersla sé á hvað liggi að baki, þ.e. eftirlitshlutann. Endurskoðendur árita jú alltaf reikninga með ákveðnum fyrirvara. Þeir afla nægjanlegrar vissu um að reikningur sé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka. Ekki er um neina fullvissu. Það er því ekki tryggt að endurskoðun sem framkvæmd er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla hafi uppgötvað allar verulegar skekkjur séu þær til staðar, hvort sem þær eru vegna mistaka eða sviksemi eins og segir í stöðluðum texta með áritun endurskoðenda. Hvað með áhættumat Reykjavíkurborgar? Hvað með þegar hugsanlega eitthvað ólögmætt er í gangi sem eftirlitsaðilar segjast ekki sjá ástæðu að skoða þrátt fyrir háværar raddir borgarbúa? Svo er það spurning um að vera nægjanlega óháður og óvilhallur svo hægt sé að sporna við meðvirkni. Um leið og auka á samskipti við stjórnendur t.d. með fjölda funda getur það haft áhrif á hversu vel eða illa tekst að halda nauðsynlegri persónulegri fjarlægð.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, dags. 7. október 2020, varðandi beiðni um niðurfellingu á fasteignagjöldum:

Erindi Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu um niðurfellingu á fasteignagjöldum er lagt fram í borgarráði. Óskað er niðurfellingar fasteignagjalda. Fulltrúi Flokks fólksins telur að niðurfelling sé of kostnaðarsöm enda ekki hægt samkvæmt núgildandi lögum. Sanngjarnt og eðlilegt er hins vegar að fresta greiðslu fasteignagjalda í ljósi þess ástands sem ríkt hefur og mun ríkja um nokkurn tíma enn. Vonandi sér fyrir endann á COVID nú þegar glittir í bóluefni og samfélagið kemst í sitt eðlilega horf.

Bókun Flokks fólksins við minnisblað borgarlögmanns, dags. 18. nóvember 2020, varðandi lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts:

Minnisblað um lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts er lagt fyrir borgarráð. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að í ljósi frétta af illri meðferð á fólki á Arnarholti sé nauðsynlegt að koma á laggirnar nefnd til að gera úttekt á starfsemi vistheimilisins Arnarholts. Úttektin ætti fyrst og fremst að beinast að því hvernig meðferð einstaklingar fengu, hvernig henni var háttað, hvernig starfsemin var og hvert hið opinbera eftirlit með henni var. Mikilvægt er að skoða hvort ekki sé ástæða til að skoða aðbúnað á fleiri vistheimilum sem rekin voru á sama tíma.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um átak til að hvetja öll börn til að nýta frístundakortið, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020.

Tillagan er felld.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gert yrði átak til að hvetja öll börn til að nota rétt sinn til frístundakorts. Áhrifaríkast yrði að nota aðferðina „maður á mann samtal“ og ekki hætta fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum. Slök nýting frístundakortsins í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Það er borgaryfirvalda að gera eitthvað til að auka nýtingu. Það er ekki gert með því að nota frístundakortið sem gjaldmiðil í nauðsynjar. Það er beinlínis staðfest í skýrslu stýrihóps sem endurskoðaði reglur kortsins að ástæðan fyrir að borgarmeirihlutinn vill að foreldrar geti nýtt kortið í frístundaheimili er að þá þurfa ekki að koma til aðrir sérstakir styrkir. Í það minnsta verða aðrir styrkir lægri þegar rétturinn til nýtingar kortsins er tekinn upp í. En þar með er barnið ekki að nota frístundakortið til að stunda tómstund að eigin vali. Eins og segir í skýrslu stýrihópsins: “kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og því ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.” Það er rangt að skerða möguleika barns að nota kortið með þessum hætti að mati Flokks fólksins.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs:

Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerðri náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar. Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, hann er frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En þar voru líf-fæðuauðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir. Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Það kemur fulltrúa Flokks fólksins nokkuð á óvart að senda á tillögu Flokks fólksins um að kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd í grunnskólum til skóla- og frístundasviðs til meðferðar. Talið hefði verið eðlilegra að hún yrði send til menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur. Hugsunin er að myndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg. Útfærslan og framkvæmd hlýtur því að vera í höndum menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur og Kvikmyndasafnsins. Gera þarf samkomulag við Kvikmyndasafnið sem á sýningarréttinn.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um hvort einhver hækkun verði á niðurgreiðslu til „foreldra“ vegna barna hjá dagforeldrum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður spurt um málefni dagmæðra m.a. í gegnum COVID. Hjá þeim hefur ekki orðið breyting. Eitthvað hefur verið um brottfall úr stéttinni. Einhverjir náðu að fylla pláss sín í haust en aðrir hafa átt erfitt með það og það vegna þess að leikskólar eru að taka inn á öllum tímum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort einhver hækkun verði á niðurgreiðslu til „foreldra“ vegna barna hjá dagforeldrum.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort vinna við Þjóðarleikvang í fótbolta verði ekki samtvinnuð vinnu við Þóðarleikvang í frjálsum íþróttum:

Lögð er fram í borgarráði tillaga meirihlutans um tilnefning í starfshóp vegna Þjóðarleikvangs fyrir frjálsar íþróttir. Hér er um að ræða ósk frá menntamálaráðuneyti um að borgin tilnefni í nefnd sem á að fjalla um fyrirhugaðan Þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að spyrja hvort þetta verður ekki samtvinnað knattspyrnuvelli sem einnig á að byggja.

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort við framkvæmd á siglilngarstöðu í Fossvogi verði áfram gengið á náttúrulegar fjörur:

Á fundi borgarráðs 19. nóvember er lagt til að teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaraðstöðu í Fossvogi og nýrri byggð í Skerjafirði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér og spyr hvort það þýði landfyllingar og þá hversu mikið. Á enn að ganga á náttúrulegar fjörur?
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort biðlisti sé í sérskólaúrræði á vegum borgarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita um hver sé biðlisti nú í sérskólaúrræði á vegum borgarinnar.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.