Umhverfis- og skipulagsráð 20. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir Sorpu bs. nr. 483 og 484:

Fundargerð 27. júní liður 1. Stefnumótun SORPU Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp í þessari bókun hvort eina leiðin til að vinna stefnumótunarvinnu sé að kaupa þjónustu frá ráðgjafafyrirtæki en aðkeypt þjónusta af slíkum toga útheimtir mikinn kostnað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á niðurstöðum loftslagsuppgjörs.

Lagt er fram minnisblað/skýrsla Eflu um loftslagsbókhald Reykjavíkur. Ekki kemur fram kostnaður við skýrsluna og ekki er sýnt fram á af hverju þessari vinnu þurfti að útvista. Skýrslan eða minnisblaðið er samantekt á ýmsum mælingum. Nákvæmni niðurstaðna ræðst af mæligögnum og svo virðist sem þau séu brotakennd enda tengjast þau skiptingu milli svæða, hvað er gert innan einstakra sveitarfélagamarka.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 10. júní 2023 þar sem óskað er eftir umsögn um frumgreiningu á mögulegri legu græna stígsins í græna trefli höfuðborgarsvæðisins, ásamt bréfi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu:

Græni stígurinn tengir saman útivistarsvæðin í Græna treflinum með samfelldum göngu- og hjólastíg. Markmiðið með honum eru að auka útivist, bæta lýðheilsu og bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi. Frumgreining á mögulegri legu stígsins liggur nú fyrir. Gagn þetta er gagnlegt í komandi umræðu og skipulagsmálum. Ábendingar og kortayfirlit sýna þá kosti sem liggja fyrir. En hvers konar stígur? Það skiptir höfuð máli. Víða í borginni eru stígar sem ekki hafa verið gerðir með besta efniviði og þarfnast þeir mikils viðhalds. Bent er á að ekki má nota malbik á vatnsverndarsvæðum. Huga þarf ekki aðeins að vatnsvernd og náttúruvernd heldur einnig að halda árekstrum við reiðleiðir í lágmarki. Gera þarf malarstíga en þá með hvernig möl? Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur lesið um þessi mál þá eru malarstígar ekki góður kostur til lengdar. Spurning er hvaða valkostir eru í stöðunni. Ekki þarf að gera eins miklar kröfur til burðar á göngu- og hjólastígum og þar sem ökutæki fara um. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að sérfræðingar borgarinnar í þessum efnum rati á góðar niðurstöður. Græni stígurinn er fyrir alla og má reikna með að hann verði fjölsóttur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram og kynntar niðurstöður ferðavenjukönnunar Gallup, Ferðir íbúa Reykjavíkur október – nóvember 2022:

Samkvæmt ferðakönnun haustið 2022 kemur fram að einkabíllinn er yfirgnæfandi mest notaði samgöngumátinn. Það á eftir að vinna mikla vinnu til að aðrir samgöngumátar geti tekið við af einkabílnum. Sem betur fer má ætla að rafbílum sé að fjölga gríðarlega. Til stendur að hækka álagningu á rafbíla en ekkert liggur fyrir um ívilnanir. Engu að síður eru orkuskiptin í fullum gangi og vonandi verður ekki bakslag í þeim efnum. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um aðra alvöru valkosti að ræða. Hjólandi vegfarendum hefur vissulega fjölgað en eru engu að síður aðeins 5%. Ekki allir treysta sér til að hjóla um hávetur í vondu veðri. Ferðum almennt séð hefur fækkað sem rekja má e.t.v. til þess að í Covid kenndi fólki á fjarfundakerfi í stórum stíl og hefur fólk nýtt það síðan. Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar. Borgarlína verður ekki raunveruleiki í Reykjavík á komandi árum eftir því sem heyrst hefur í máli forsætisráðherra. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem til eru hér.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um snjallljós við gönguþverun á Miklabraut, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23090129

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort endurskoða eigi samgöngusáttmálann, borgarlínu og 3ja áfanga Arnarnesvegar, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 6. september 2023:

Svar meirihlutans: Verið er að endurskoða samgöngusáttmálann. USK23090042

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um hvort skipulagsyfirvöld hyggjast fara í grundvallar endurskoðun á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins vegna breyttra fjárhagslegra forsendna. Fyrirspurninni er svarað á fundinum að hluta til og sagt að verið sé að endurskoða samgöngusáttmálann. Því er fagnað og þá má reikna með að skipulagsyfirvöld og meirihlutinn hafi skipt um skoðun frá því í fyrra þar sem því var alfarið hafnað að endurskoða samgöngusáttmálann. Óskað var einnig upplýsinga í þessu samhengi hvort, að við endurskoðun ekki eigi að fá nýtt umhverfismat fyrir 3ja áfanga Arnarnesvegar? Þeirri spurningu er ekki svarað.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Laugarásveg og öryggismál götunnar, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 6. september 2023:

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK23090041

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins kostnað við minnisblað Valcon ráðgjafafyrirtækis:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver var kostnaður Sorpu til Valcon ráðgjafafyrirtækisins við aðstoð við stefnumótunarvinnu? Fram kemur í lið 1 í fundargerð 27.6 að stefnumótunarvinnan hafi verið leidd af ofangreindu ráðgjafafyrirtækinu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr vegna áhyggna af kostnaði við mikla aðkeypta ráðgjafarþjónustu Reykjavíkurborgar ekki síst í ljósi fjárhagserfiðleika sem Reykjavíkurborg glímir nú við. Aðkeypt þjónusta við stefnumótunarvinnu kostar iðulega allt að tug milljóna ef ekki meira.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýja endurvinnslustöð:

Nú er SORPA að fara að opna nýja endurvinnslustöð að Lambhagavegi og er það af hinu góða. Flokkur fólksins spyr, er komin kostnaðaráætlun fyrir þessa nýju stöð? Nú virðist þessi stöð mun veglegri en aðrar stöðvar sem SORPA starfrækir. Hversu miklu munar á því að byggja nýja stöð með þessu nýja lagi samanborið við þær sem eru með eldri hönnun eins og í Breiðhellu? USK23090217

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins ferð til Svíþjóðar að skoða endurvinnslustöð:

Nú hefur það frést að allmargir á vegum Sorpu hafi farið til Svíþjóðar að heimsækja sambærilega stöð og þá sem byggja á á Lambhagavegi. Hver var heildarkostnaður Sorpu af ferðalagi allra þeirra sem hafa farið erlendis til að skoða þessa stöð, hversu margir fóru og hvernig var valið í þessa ferð?