Velferðarrá 20. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á niðurstöðum þjónustu- og aðgengiskönnunar velferðarsviðs 2023:

Margt hefur lagast en annað hefur versnað. Það sem hefur versnað er að fólk þarf að leita til margra aðila áður en það fær svör við erindum sínum og margir upplifa tungumálaörðugleika. Sami vandi t.d. ef horft er til aðgengis að sækja þjónustu fyrir fötluð börn og foreldra þeirra. Hér má sannarlega gera betur. Það virðist sem okkar allra viðkvæmustu hópar mæti ávallt afgangi. Aðgengi er langt í frá að vera ásættanlegt og biðlistar óviðunandi. Reglur eru sumar ósveigjanlegar og aðgengi að ráðgjafa þarf að bæta. Kvartað hefur verið yfir flækjustigi og erfiðleikum með að fá upplýsingar. Til að svona könnun skili árangri þarf að taka niðurstöður hennar alvarlega.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram til kynningar drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum sem koma beint og óbeint við pyngju þeirra sem minnst mega sín. Nú stefnir meirihlutinn á að hækka gjaldskrár um 3,6% frá og með 1. október 2023. Hækkun gjaldskráa mun þess utan fara beint út í verðlagið og hafa áhrif á verðbólguhorfur. Hér er verið að kynna fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra og hækkun á margs konar stuðningsþjónustu við eldri borgara.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á tölfræði Barnaverndar Reykjavíkur í janúar – júní 2023:

Tilkynningum hefur fjölgað. Ekki kemur fram hverjir tilkynna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um það og fengið svör. Tilfelli um að foreldrar tilkynni sig sjálfa voru árið 2017 279 en árið 2022 eru tilkynningar foreldra 337. Ástæðuna má án efa rekja til þess að nú bíða 2.500 börn á biðlista skólaþjónustunnar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun fljótt. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests. Foreldrar í neyð sinni hafa ekki annan kost en að tilkynna sig sjálf og barn þeirra til barnaverndarkerfisins sem er margfalt skilvirkara en skólaþjónustukerfið. Farið hefur fækkandi þeim málum þar sem barn og ungmenni fá að hitta fagaðila/sálfræðing þrátt fyrir ítrekað ákall þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstaklega alvarlegt að sjá hvað tilkynningar um áhættuhegðun barna hafa aukist mikið. Það er greinilegt að afbrot og ofbeldi meðal barna hefur aukist. Það er líka áhyggjuefni að sjá að tilkynningar um skólasókn hafa meira en tvöfaldast milli áranna 2022 og 2023. Það væri athyglisvert að skoða hvað veldur. Hér er um börn að ræða. Finna þarf ástæður þessarar aukningar og bregðast við.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagður fram að nýju 16. liður fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023, kynning á leiguverðslíkani Félagsbústaða, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs:VEL23050027.

Verið er að breyta leiguverðslíkani félagsbústaða því að núgildandi verðlíkan byggir á fasteignamati frá árinu 2017 og mismikil hækkun hefur verið á fasteignamati á milli borgarhluta. Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Breytingin mun hafa áhrif á 2.649 leigjendur, og hækkar leiga hjá  1.538 leigjendum um fjárhæð á bilinu 0-36.000 kr. og alls lækka 1.111 leigjendur um sömu fjárhæðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5.5% leigjenda þar sem leigan mun hækka meira en 12.000 kr. á mánuði.  Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða er viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk. Þessu er mótmælt. Verið er að hækka leigu hjá Félagsbústöðum, um er að ræða leigjendur í erfiðri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Félagsbústaðir og Reykjavíkurborg verða að finna aðra leið til að styrkja tekjugrunn félagsins. Það gengur ekki að það sé gert með því að rukka leigjendur í félagslegu leiguhúsnæði um hærri leigu. Mikilvægt er að enginn greiði of háa leigu fyrir húsnæði.

 

Tröð og Stígur

Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 12. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 19. september 2023:

Lagt er til að fallið verði frá því að skerða fjármögnun unglingasmiðjanna Traðar og Stígs um 12,7 milljónir sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. september. Í staðinn sé færður peningur úr styrkjapotti velferðarráðs upp á 12,7 milljónir yfir í rekstur Traðar og Stígs, þannig að ekki þurfi að skerða þjónustu við ungmenni sem eiga í félagslegum erfiðleikum og í leiðinni auka vinnuálag á starfsmenn. Með því er verið að færa hagræðingu á milli liða innan sviðsins en ekki falla frá hagræðingu. MSS23090119.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um milligöngu um leigusamninga

Flokkur fólksins spyr hvort það sé algengt að velferðarsvið hafi milligöngu um leigusamninga á almennum markaði, velji leigjendur og gangist í ábyrgð fyrir leigjendur? Ef svo er, ber þá velferðarsvið ekki ábyrgð á því að samningar standi? Fulltrúi Flokks fólksins óskar þessara upplýsinga vegna fréttar þar sem sagt er frá vandræðum einstaklings með að endurheimta húsnæði sitt. Eigandi íbúðar hafði sett sig í samband við velferðarsvið og boðið íbúðina sína til leigu þar sem viðkomandi yrði fjarverandi um tíma. Gerður var leigusamningur með aðstoð velferðarsviðs. Velferðarsvið valdi leigjendur og gekkst að auki í fjárhagslega ábyrgð fyrir þá. Þegar eigandi íbúðarinnar þurfti að fá íbúðina til baka þá var það ekki hægt þar sem velferðarsviði tókst ekki að finna leigjendunum nýtt húsnæði. Enginn virðist bera ábyrgð og eigandi íbúðarinnar húsnæðislaus. Fulltrúi Flokks fólksins óskar einnig upplýsinga um hvort þetta mál sé leyst.