Borgarráð 1. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram ráðningarbréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 31. janúar 2024:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst merkilegt að sjá þetta ráðningarbréf. Borgarstjóri er með vegleg laun, meira en helmingi hærri en laun borgarfulltrúa, þeirra sem eru með hæstu álagsgreiðslurnar. Borgarstjóri hefur afnot af embættisbifreið og sennilega einnig einkabílstjóra eins og fyrrverandi borgarstjóri. Ekki kemur fram hvort borgarstjóri greiðir skatt af afnotum af embættisbifreið, s.s. vegna einkanota. Hvað sem þessu líður er efst í huga Flokks fólksins við þessi tímamót að með þessum breytingum verði lögð áhersla á að eiga betra samstarf og samvinnu við minnihlutafulltrúa, vinna með þeim en ekki hunsa þeirra vinnu eða gera lítið úr henni. Leggja ætti áherslu á breytt og betri vinnubrögð og betri framkomu en ríktu í tíð fyrrverandi borgarstjóra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt til að stofnaður verði sérstakur átakshópur í húsnæðismálum með erindisbréfi.

Átak í húsnæðismálum í Reykjavík er löngu tímabært. Enda þótt byggt hafi verið allnokkuð í Reykjavík síðustu misseri hefur ekki verið byggt nándar nóg. Um þetta hefur Flokkur fólksins talað lengi og bent á að of mikil stífni hafi ríkt í úthlutun lóða hjá þessum og síðasta meirihluta. Sjálfsagt hefur verið að þétta byggð víða í Reykjavík þar sem byggð er dreifð en það þarf meira til. Það þarf að brjóta nýtt land undir byggð og hafa meiri sveigjanleika við úthlutun lóða. Reykjavík verður að finna leiðir til að bjóða þeim sem vilja og geta byggt hús, fleiri lóðir og skipuleggja fleiri svæði til að byggja á. Það veltur á Reykjavík hvernig til tekst á húsnæðismarkaði. Þá þarf að stækka uppbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Haldið er of fast um tauminn og þétting byggðar er orðin meira en eitthvað sem gagnast fólkinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. janúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um eignarhald íþróttamannvirkja á starfssvæði Knattspyrnufélagsins Vals á Hlíðarenda er sent borgarráði til kynningar:

Um er að ræða erindisbréf frá borgarstjóra og sem venjulega þurfa embættismenn ekki að taka ábyrgð eða frumkvæði, og fara vel með fé, því ávallt kemur fram í þessum erindisbréfum að „starfshópurinn leiti einnig ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á“. Að leita alltaf ráða hjá verkfræðistofum og/eða auglýsingastofum gerir embættismenn ósjálfstæða og jafnvel ábyrgðarlausa. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi klausa sé tekin út úr svona erindisbréfum því hún er nánast hvatning til að eyða peningum sem mest. Það þarf ekki að minna sífellt á að „kaupa ráðgjöf“. Ef sú staða kæmi upp að hópurinn þyrfti mögulega að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf þá hlýtur hann að geta gert það upp að einhverju marki án þess að honum sé sagt að gera það í erindisbréfi. Það er ekki eðlilegt að hópur geti ekki starfað án þess að ráða þurfi sérhæfð ráðgjafafyrirtæki til að halda utan um hópinn og skrifa fundargerðir. Svona var þetta ekki á árum áður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. janúar 2024, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps vegna hönnunar aðaluppdrátta og gerð kostnaðarmats fyrir fjölnota íþróttahús að Hlíðarenda er sent borgarráði til kynningar:

Um er að ræða erindisbréf frá borgarstjóra og sem venjulega þurfa embættismenn ekki að taka ábyrgð eða frumkvæði, og fara vel með fé, því ávallt kemur fram í þessum erindisbréfum að „starfshópurinn leiti einnig ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á“. Að leita alltaf ráða hjá verkfræðistofum og/eða auglýsingastofum gerir embættismenn ósjálfstæða og jafnvel ábyrgðarlausa. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi klausa sé tekin út úr svona erindisbréfum því hún er nánast hvatning til að eyða peningum sem mest. Það þarf ekki að minna sífellt á að „kaupa ráðgjöf“. Ef sú staða kæmi upp að hópurinn þyrfti mögulega að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf þá hlýtur hann að geta gert það upp að einhverju marki án þess að honum sé sagt að gera það í erindisbréfi. Það er ekki eðlilegt að hópur geti ekki starfað án þess að ráða þurfi sérhæfð ráðgjafafyrirtæki til að halda utan um hópinn og skrifa fundargerðir. Svona var þetta ekki á árum áður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi Seljahlíðar, heimili aldraðra, og Sjúkratrygginga Íslands um frestun uppsagnar á samningi um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimilis að Hjallaseli 55.

Flokkur fólksins fagnar því að fresta eigi uppsögn og þar með verklokum um 12 mánuði. Flokkur fólksins mótmælti því á sínum tíma að rekstur 20 hjúkrunarrýma í Seljahlíð yrði lagður niður á meðan ekki liggur fyrir nánari útfærsla. Nú þegar eru alltof fá hjúkrunarheimili. Á meðan ekki er tryggt að jafnmörg ef ekki fleiri hjúkrunarrými komi í staðinn þá fannst fulltrúa Flokks fólksins ekki hægt að styðja þessa tillögu um uppsögn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dags. 18. desember 2023, varðandi gjaldskrá slökkviliðsins:

Hækka á gjaldskrá slökkviliðsins. Hækkun milli ára er því um 10%. Flokkur fólksins minnir á að gjaldskrárhækkun þessi fer beint út í verðlagið sem hefur áhrif á verðbólgu sem nú fyrst er farin að lækka. Ef Slökkviliðið og Reykjavíkurborg vilja leggja sitt af mörkum til að ná niður verðbólgu er gjaldskrárhækkun ekki aðferðin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til við borgarráð að samþykkt verði að Reykjavíkurborg styðji umsókn Handknattleikssambands Íslands til Alþjóðahandknattleikssambandsins um að halda heimsmeistaramót í handbolta í nýrri þjóðarhöll í Laugardal 2029 eða 2031 með sérstakri viljayfirlýsingu.

HM í handbolta var haldið hér á landi 1995. Í aðdragandanum var Laugardalshöllin stækkuð. Lítill ávinningur var af því að halda keppnina þá. Talsverð útgjöld og fáir áhorfendur á flestum leikjum. Hér er þó sá munur á að nú á að vera í samfloti með handknattleikssamböndum í Danmörku og Noregi. Það er gott, en verður þjóðarhöllin komin 2029? Það er út af fyrir sig ekki á það bætandi að fara að lofa því úti í heimi að þetta hús verði klárt til notkunar á þessum tíma. Þegar sótt er um svona verkefni þarf að hafa í huga áhrifin á nærsamfélagið. Fyrir íþróttafélögin í hverfinu myndi þetta væntanlega þýða að þeim yrði úthýst í minnst 4 vikur og mögulega allt upp í 8 vikur bæði út úr þjóðarhöllinni og Laugardalshöllinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. janúar 2024, varðandi sex mánaða skýrslu Betri samgangna ohf. um stöðu og framgang verkefna samgöngusáttmálans, ásamt fylgiskjölum. MSS23070018

Miklar verðhækkanir hafa orðið, einkum í verklegum framkvæmdum, auk þess sem ljóst er að kostnaðaráætlanir Borgarlínu voru vanáætlaðar. Tímalína er enn óljós af ýmsum ástæðum. Í raun má segja að þetta verkefni hafi tekið á sig allt aðra mynd en upphaflega var farið af stað með. Engin af þessum stærstu breytum halda, t.d. kostnaðaráætlun eða tímalína. Flokkur fólksins setti strax í upphafi spurningarmerki við hina miklu óvissu sem fylgir svo stóru verkefni. Flokkur fólksins hefur viljað að áhersla sé lögð á almenningssamgöngur, þær einu sem til eru sem er Strætó bs. Öllum hlýtur nú að vera ljóst að langt er í að Borgarlína sem slík virki. Mikið vatn hefur runnið til sjávar eftir að farið var af stað í þessa bjartsýnisferð. Þjóðin hefur þurft að takast á við áföll, COVID og eldgos svo það helsta sé nefnt. Þessir þættir hafa áhrif á fjármálastöðugleika sem hlýtur síðan að hafa áhrif á framvindu samgöngusáttmála. Fulltrúa Flokks fólksins finnst stundum sem Betri samgöngur séu ekki alveg í tengslum við þann raunveruleika þegar félagið ræðir og kynnir stöðu Borgarlínu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. febrúar 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við skýrslu um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember 2023. MSS23020131

Flokkur fólksins óskaði eftir svari við fyrirspurn um kostnað við skýrslu um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa og var áhugi á að vita hvað þessi skýrsla kostaði með tilheyrandi vinnu sem hún krafðist. Fram kemur að samantekinn kostnaður Reykjavíkurborgar vegna skýrslu um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs er 7.036.937 krónur. Tveir reikningar bárust vegna skýrslunnar, annars vegar fyrir ráðgjöf í tengslum við bílastæðahús að upphæð 789.437 krónur og hins vegar ráðgjöf við starfshóp um betri rekstur og afkomu bílahúsa Bílastæðasjóðs að upphæð 6.247.500 krónur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það sem skipti máli með svona skýrslur sé hvort eitthvað kom út úr þessu sem leiðir til betri rekstrar Bílastæðasjóðs. Ef að skýrslan sparar t.d. 15 milljónir og kostar 7 þá ætti það að skila einhverju. Hvergi kemur fram í þessu máli hvaða ávinningi þessi skýrsla skilaði. Stundum er nauðsynlegt að taka út rekstur ýmissa hluta Reykjavíkurborgar til að reyna að ná fram hagræðingu en var þessi skýrsla ein af þeim sem skilaði hagræðingu?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 18. desember 2023. MSS23010018:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi fundargerð sérkennileg. Gögnin gefa ekki færi á að hafa skoðun á neinu sem þarna fer fram, það er ekkert efnislegt í þessari fundargerð.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. og 31. janúar 2024.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar frá 31. janúar:

 

Liður 1 í fundargerð USK
Göngustígur hefði átt að vera vestan megin og hjólaleiðin austan megin. Gangandi eru settir skuggamegin og sitji þeir á bekk á áningastöðum brúarinnar að degi til þegar sól er hæst á lofti er sólin í bakið. Hér er verið að hygla hjólreiðamönnum. Upplifun gangandi vegfarenda af sjávarsýn tapast þegar horft er yfir brú, handrið og strætisvagn. Fullyrt er að þessi tilhögun sé til að minnka þveranir sem stenst ekki því þegar þær eru taldar sést að þær eru jafn margar hvort sem hjólreiðamenn fara vestan eða austan megin.

Liður 4 í fundargerðUSK
Bókun undir 2. lið afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 25. janúar. Ábending hefur borist frá borgarbúa. Um er að ræða umsókn um leyfi fyrir svalaskýli við vesturgafl á svölum á Rafstöðvarvegi 31. Leyfið var veitt en þegar fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 11. janúar er birt sést hvorki tangur né tetur af málinu í henni, eins og það hafi aldrei verið lagt fyrir fundinn. Umsækjendur höfðu meira að segja fengið tölvupóst eftir fundinn frá starfsmanni þar sem staðfest var samþykki, þ.e. að leyfið hafi verið veitt. Nú er málið afgreitt neikvætt því það samræmist ekki hverfisskipulagi. Fulltrúi Flokks fólksins telur sig knúinn til að draga þessa óeðlilegu afgreiðslu fram í bókun. Einnig hefur verið lögð fram formleg fyrirspurn.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir samantekt á fyrirspurnum og tillögum sem enn er ósvarað/óafgreiddar sem lagðar hafa verið fram af Flokki fólksins á þessu og/eða síðasta kjörtímabili í borgarráði.

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar. MSS24020003

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mannekluvanda í leikskólum:

Hvað er skóla- og frístundasvið/-ráð að gera um þessar mundir til að leysa mannekluvanda leikskóla? Hefur verið kannað hvað veldur því að mannekla er meira vandamál í sumum leikskólum en öðrum? Er verið að umbuna þeim leikskólum þar sem lítil eða engin starfsmannavelta er? Nýlega var ráðinn mannauðsstjóri til viðbótar við þá átta sem fyrir voru. Hefur þessi nýja staða haft áhrif á mannekluvanda leikskóla? Hvað hefur Afleysingastofu tekist að ráða marga starfsmenn í leikskóla síðasta ár?

Greinargerð:

Mannekluvandinn er í sumum leikskólum hrikalegur og eru foreldrar ýmist sendir heim með börnin sín þegar þau koma með þau eða  þeir beðnir að sækja þau vegna þess að ekki hefur tekist að manna daginn. Þessi vandi er misjafn eftir leikskólum. Í sumum leikskólum er hann einfaldlega ekki til staðar.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólabókasöfn:

Skólabókasöfn vinna ómetanlegt starf. Mikilvægt er að bókasafn skóla vaxi með börnunum og geti á hverjum tíma rétt hverjum einstaklingi bók og bækur sem henta viðkomandi á hverjum tíma. Hvað er skóla- og frístundasvið að gera til að styrkja skólabókasöfn í borginni svo þau geti vaxið og dafnað enn frekar?

Greinagerð:

Sum skólabókasöfn eru með alls konar lestrarklúbba þar sem börn fá hvatningu til að ná ákveðnum markmiðum. Ýmsar tegundir af hvetjandi verkefnum eru í gangi til að hvetja börn til lestrar og hjálpa þeim að auka við lestraráhuga. Það skiptir máli að sá kennari sem annast umsjón skólabókasafnsins sé aðgengilegur og fái að sinna starfi sínu af hugsjón, ástríðu og natni. Til að svo megi vera þarf að hlúa vel að starfsfólki skólabókasafna og safnanna sjálfra. Lesáhugi vex í  skólum sem sinna  skólabókasafni sínu vel og þeim sem þau annast.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð vegna PISA, hvað er verið að gera núna?:

Nýlega fengum við sláandi niðurstöður úr alþjóðlega mælitækinu PISA. Hvað er skóla- og frístundasvið að gera um þessar mundir til að bregðast við þessum niðurstöðum? Hvaða breytingar eru í farvatninu til að snúa þessari neikvæðu þróun í átt til jákvæðari vegar? Hverja aðra á að kalla að þessu borði? Á að taka mið af alþjóðlegum vísindum? Hvaða raunhæfu markmið á að setja sem ekki hafa áður verið sett? Hvaða mælitæki á að nota sem ekki hafa verið notuð áður? Á að skoða aftur að bjóða skólum borgarinnar að kynnast verkefninu Kveikjum neistann? Hvaða nýjar nálganir á að skoða til að bæta ekki aðeins árangur nemenda heldur einnig líðan?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020001

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rannsóknir sem snúa að hreyfingu ungmenna:

Samkvæmt rannsóknum er hreyfing lykilatriði í námsástundun til að ná góðum árangri. Er skóla- og frístundasvið að leita leiða til að auka hreyfingu barna eða skapa fleiri tækifæri fyrir nemendur að stunda hreyfingu eða markvissa þjálfun? Hvað nýju nálganir á að skoða til að bæta ekki aðeins árangur nemenda heldur einnig líðan? Er í kortunum að skóla- og frístundasvið beiti sér fyrir að fylgst sé með líðan barna í grunnskólum borgarinnar með einföldum matstækjum?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020002