Borgarstjórn 14. maí 2024. Seinni umræða ársreikning 2023. Bókanir

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Seinni umræða Ársreiknings 2024:

Afkoma hefur skánað en er enn afspyrnu slæm. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var 13 milljörðum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrarhalli borgarsjóðs nam fimm milljörðum króna. Veltufjárhlutfall lækkar milli ára og lausaskuldir hækka. Veltufé frá rekstri dugar ekki til að standa undir afborgunum lána og leiguskulda. Reksturinn skilar aðeins broti upp í heildarfjárfestingar ársins. Taka á erlent lán til að geta farið í viðhaldsframkvæmdir á mygluðu skólahúsnæði. Af B-hlutanum eru það matsbreytingar Félagsbústaða sem fara fyrir brjóstið á mörgum, þar er verið að slá ryki í augu borgarbúa. Áhyggjur eru af Strætó bs. sem mun þurfa ríkuleg framlög eigendanna ef Strætó á að vera starfhæfur. Flokkur fólksins skrifar undir ársreikning með fyrirvara m.a. vegna reikningsskilaðferðar Félagsbústaða en einnig vegna óánægju með fjármálastjórn þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Flokkur fólksins hefur lagt til að gerð verði óháð heildarúttekt á fjármálasýsli sviðsins. Talið var að innri endurskoðun færi í það verkefni 2023 en svo reyndist ekki vera. Það er mat Flokks fólksins að innri endurskoðun sé heldur ekki rétti aðilinn í það verk heldur þurfi nýja og ferska aðila að borðinu sem ekki hafa verið hluti af borgarkerfinu. Í úttektarteymi þurfa að sitja fagmenn, sérfræðingar sem þekkja hinn stafræna heim í þaula.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar á skýrslu innri endurskoðunar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur sbr. 6. lið fundargerð borgarstjórnar dags. 23. apríl 2024:

Um er að ræða tillögu um tafarlausa afléttingu trúnaðar yfir skýrslu innri endurskoðunar um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Það ríkir allt of mikil leynd og leyndarhyggja hjá þessum og síðasta meirihluta. Verið er að halda gögnum frá borgarfulltrúum minnihlutans og borgarbúum í of miklum mæli. Trúnaður er settur á hin ólíklegustu mál. Þetta á sjálfsagt oftast við þegar meirihlutinn vill fela óheppileg og óvönduð vinnubrögð sín eða ef gerð hafa verið mistök. Sjálfsagt er að hafa trúnað á málum sem fela í sér persónugreinanlegar upplýsingar eða snerta fjármál á viðkvæmum tímapunktum. Annað ætti að vera að mestu upp á borði. Viðreisn boðaði gegnsæi og Píratar einnig ef borgarfulltrúi Flokks fólksins man rétt. Þessir tveir flokkar  hafa einmitt viljað fela óþægileg mál  síðustu fimm ár í borgarstjórn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður tillöguna um tafarlausa afléttingu trúnaðar yfir skýrslu innri endurskoðunar um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Skýrslan á að verða gerð opinber í heild sinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. maí 2024. Fundargerð stafræns ráðs frá 8. maí 2024.

Liður 2.
Kynning á ábatamati stafrænnar umbreytingar. Óþarfa tíma er eytt í að mæla væntanlega ábata verkefna í stafrænni umbreytingu þegar um er að ræða lausnir sem sjáanlega flýta fyrir þjónustu og létta vinnu á starfsfólki. Allt í kringum okkur sjáum við hvernig rafvæðing þjónustuferla sparar tíma, akstur og pappír. Skemmst er að minnast margra vikna vinnu starfsmanna við að vigta pappír í þjónustuveri til þess eins að geta tekið fram í kynningu verkefnisins hversu mikið af pappír myndi sparast af rafvæðingu þess verkefnis. Þetta er sóun á tíma og fé. Nær væri að starfsfólk lyki við innleiðingar mikilvægra þjónustulausna og tryggði örugga eftirfylgni þeirra verkefna svo þeim verði lokið innan eðlilegra marka.

Liður 3.
Kynning á Mínum síðum, Búa og Bjargeyju
Spyrja má hér hvort  þjónustu og nýsköpunarsvið hafi kannað hvaða lausnir önnur sveitarfélög og ríkið séu að gera. Eru þau að gera það sama og “Mínum síðum, Búa og Bjargey” er ætlað innan Reykjavíkurborgar. Varla er sviðið að fara í enn frekari uppgötvanir og tilraunaleiki hvað varðar lausnir sem búið er að uppgötva og innleiða annars staðar? Mikill fjármagns- og tímasparnaður næst þegar sveitarfélög sem  veita sömu þjónustu, sameinast um innleiðingu lausna eða noti þær lausnir sem flestir nota.