Borgarráð 10. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við umræðu undir yfirskriftinni; Göngum í takt – samtal við verkalýðsforystuna:

Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka forystu verkalýðsfélaganna fyrir komuna á fund borgarráðs. Samtalið var áhugavert og nýtti borgarfulltrúi Flokks fólksins tækifærið og ræddi ýmsa þætti sem snúa beint að fólkinu í borginni. Borgarfulltrúinn kallar eftir meira gegnsæi með m.a. launaupplýsingar í rauntíma frá borginni og að Reykjavíkurborg vinni að því að uppfylla loforð sín um gegnsæi stjórnsýslunnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur haft áhyggjur af óleyfisbúsetu í borginni og telur að borgaryfirvöld verði að taka af skarið og sækja sér þær lagaheimildir sem þarf til að fara í nauðsynlegt átak í þeim efnum. Það eru uppi áhyggjur um erfiðleika í mönnun en viðunandi mönnun í störf verða aðeins þegar laun verða mannsæmandi og vinnufyrirkomulag betra. Of lítil skref hafa verið tekin í gegnum árin í þessa átt þótt eitthvað mjakist. Stytting vinnuvikunnar er vissulega bónusinn í þessu öllu. Borgin er í niðurskurði þótt hann sé kannski ekki blóðugur og í því sambandi má nefna hagræðingakröfu á fagsvið sem nú þegar eru komin langt fram úr fjárhagsáætlun. Búið er að segja upp fólki. Útvistun er ekki hagkvæmari leið fyrir borgina sem lofar að standa vörð um störf á sama tíma

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. desember 2020, á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg-Skúlagötu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Frakkastíg 1:

Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá að skipulagsyfirvöld borgarinnar hefðu ljáð íbúasamtökunum Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur eyra sem hafa rökstutt ágætlega af hverju þessi bygging ætti ekki að rísa. Þarna á að rísa 7 hæða bygging en á horni samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði. Þetta er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar. Það er óþarfi að stoppa í hvert gat og bil í borginni þrátt fyrir metnaðarfull markmið meirihlutans að þétta byggð. Hér er um ákveðna ítroðslu byggingar að ræða í smá bil sem hefði auðvitað bara mátt halda sér. Svona hlutir eiga að vera gerðir í meira samráði við hagsmunaaðila og nágranna.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. desember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir við að ljúka gerð landfyllinga vegna stækkunar Bryggjuhverfis:

Skipulagsyfirvöld óska eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að ljúka landfyllingu vegna stækkunar Bryggjuhverfis. Alltaf verða einhverjar breytingar vegna landfyllingar, sem dæmi breytist umhverfi enda breytast mörk hafs og lands. Neikvæð áhrif verða t.d. á dýralíf, fiskstofna. En hversu mikilvægt er landið sem fer undir landfyllinguna? Óvissa er um umhverfisáhrif landfyllingar á þessu svæði. Í sérfræðiskýrslum er bent á að stór búsvæði muni skerðast með þessari framkvæmd, aðallega leira sem orðið hefur til á síðustu árum í tengslum við malarvinnslu Björgunar og setmyndunar því tengdu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu að gerð verði viljayfirlýsing við áhugasama fjárfesta sem hyggjast endurnýja, byggja upp og mæta þörfum fjölbreyttra jaðaríþrótta, ásamt fleiru, með innréttingu og andlitslyftingu á Toppstöðinni í Elliðaárdal:

Borgarstjóri leggur til að gerð verði viljayfirlýsing við áhugasama fjárfesta sem vilja endurnýja, byggja upp og mæta þörfum fjölbreyttra jaðaríþrótta, ásamt fleiru, með innréttingu og andlitslyftingu á Toppstöðinni í Elliðaárdal. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess mikið asbest. Á þessu húsi er þess utan enginn arkitektúr að mati einhverra alla vega. Þetta verkefni mun kosta mikið fjármagn. Nær væri að rífa þetta hús og byggja annað. Frábært er þó að fá aðstöðu undir jaðaríþróttir. Ekki liggur fyrir hvort einhver kostnaður falli á borgina þótt viljayfirlýsing áhugasamra fjárfesta sem vilja endurnýja og byggja upp verði að veruleika og leiði til samnings.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu velferðarrráðs um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar:

Sú hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar um 2.4% sem hér er lögð til nær skammt enda þótt vissulega muni um hverja krónu hjá þeim sem verst eru settir. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækka t.d. vegna barna í 16 gr. A aðeins úr 16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Nú eru þess utan allar gjaldskrár að hækka, gjöld á frístundaheimili, gjöld fyrir skólamat, ýmis gjöld fyrir þjónustu á velferðarsviði. Segja má því að þessi hækkun hafi þá þegar verið þurrkuð út. Velferðarráð þarf að skoða hvort grunnfjárhæðin eigi ekki frekar að tengjast við launaþróun frekar en verðlagsþróun. Það væri bæði eðlilegra og sanngjarnara

 

Bókun Flokks fólksins við svari um ferðakostnað árið 2020 samanborið við árið 2019, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020:

Allt of mikið fjármagn á flest öllum sviðum borgarinnar hefur farið í ferðir erlendis undanfarin ár. Með COVID lækkar þessi kostnaður eðli málsins samkvæmt nánast niður í ekki neitt. Í svari við fyrirspurn kemur fram að ferðakostnaður fyrstu níu mánuði ársins 2020 er 77,5% lægri en á sama tímabili ársins 2019 fyrir A-hluta eða sem nemur 78.642.840 m.kr. Lækkun ferðakostnaðar milli ára vegna B-hluta er um 73% eða sem nemur 53.804.220 m.kr. Nú má vænta þess að með reynslu fjarfundatækni þá sé ekki lengur nauðsynlegt fyrir borgarstjóra, borgarafulltrúa eða embættismenn að ferðast erlendis. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning enda hægt að eiga öll samskipti í gegnum fjarfundabúnað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um kostnað við Óðinstorg og nærliggjandi gatna:

Spurt var um kostnað vegna framkvæmda á Óðinstorgi. Kostnaður borgarinnar við Óðinstorg eru rúmar 60 milljónir. Heildar framkvæmdarkostnaður við Óðinstorg og nærliggjandi götur eru um 470 milljónir. Eftir því er tekið að aðeins hönnunin ein eru tæpar 59 milljónir. Það er yfir 10% af kostnaðinum sem Reykjavík varð fyrir. Velt er upp þeirri spurningu hvort þetta sé eðlilegt hlutfall. Hér er um risastórt verkefni að ræða sem hefði mátt bíða betri tíma, alla vega hluti þess. Þetta er einfaldlega spurning um hvernig við óskum að deila út fjármagninu og forgangsraða. Tvö svið, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið sem bera uppi lögbundna þjónustu og aðra grunnþjónustu eru að sligast og eru komin langt fram úr fjárhagsáætlun. Þær götur og torg sem hér um ræðir eru meira og minna mannlausar um þessar mundir ekki síst vegna COVID nema um svæðið fara vissulega búendur sem njóta góðs af fínheitunum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 30. nóvember 2020, lið 2.

Kynning fór fram á minnisblaði mannréttinda og lýðræðisskrifstofu um eftirlit með íbúðarhúsnæði í Reykjavík með tilliti til brunavarna. Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann vegna skorts á lagaheimildum en eftirlitskerfi borgarinnar er máttlaust. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra og ófullnægjandi húsnæði borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir til að gera átak í hættulegu húsnæði í borginni?

 

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál, lið 4:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir og skilur vel vonbrigði og óánægju ábúenda og landeigenda í Kollafirði/Kjalarnesi vegna málefna sem tengjast skotsvæðinu og framkomu heilbrigðiseftirlitsins í því sambandi. Þetta er óþolandi ástand, að skotsvæði sé við fjöru og á „rólegum stað“. Þarna er bæði hávaðamengun, blýmengun og vanvirðing við náttúru og mannlíf.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að borgarráð samþykki að beina því til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks leggi áherslu á að sinna betur fötluðu fólki en gert hefur verið hingað til þegar kemur að aðgengismálum:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að beina því til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks leggi áherslu á að sinna betur fötluðu fólki en gert hefur verið hingað til þegar kemur að aðgengismálum. Ganga þarf strax í að merkja með fullnægjandi hætti að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Nýlega sendi Öryrkjabandalag Íslands bréf til aðgengisnefndarinnar og fór þess á leita að bætt verði úr merkingum við göngugötur í miðbænum þannig að skýrt sé að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi rétt til að aka um umræddar götur. Fatlað fólk sem ekið hefur göngugötur eins og heimild í lögum kveður á um hafa orðið fyrir aðkasti frá vegfarendum. Merkingar eru ófullnægjandi. Hvergi er minnst á undanþáguheimild handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða sem þó væri sannarlega til staðar. Mannréttindaráð og aðgengisnefndin hafa sofið á verðinum þegar kemur að því að gæta hagsmuna fatlaðs fólks í aðgengismálum. Hjólastólaaðgengi er víða ábótavant og þurfa borgaryfirvöld að vinna þéttar með fyrirtækjum og verslunum að bæta úr því.

Greinargerð.

Fulltrúi Flokks fólksins sendi inn fyrirspurnir fyrir skemmstu til mannréttinda og lýðræðisskrifstofu um hvernig aðgengis- og samráðsnefndin hafi beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum?
Í svari segir að nefndin hafi sent ábendingar um merkingar P-stæða þar sem vitað hefur verið til að þeim sé ábótavant en það hafi aðeins átt við einstök svæði. Ekkert er minnst á í svari þann þátt sem snýr að skiltum og merkingum við göngugötur. Er verið að segja með þessu að nefndin hafi eingöngu sent inn ábendingar um merkingu sjálfra bílastæðanna á göngugötunum en ekki beitt sér neitt fyrir að skilti og merkingar við göngugötur séu samkvæmt lögum? Hér þarf að gera betrumbætur svo um munar.  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nefndin hafi ekki staðið sig nógu vel í baráttu fatlaðra fyrir bætt aðgengi. Hér þarf Grettistak ef eitthvað á að gerast.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að borgarráð samþykki að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda:

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir einnig lífsgæði margra. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið.

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.