Borgarstjórn 14. maí 2019

Athugasemdir Flokks fólksins við Ársreikning 2018 sem lagður var fram til síðari umræðu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skrifar undir Ársreikning borgarinnar 2018 með fyrirvara. Borgarfulltrúi er ekki sáttur við hvernig farið hefur verið efnislega með fjármuni borgarinnar. Borgarfulltrúi óttast einnig að ekki séu öll kurl komin til grafar í verkefnum sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 10. janúar að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á Nauthólsvegi 100 en Gröndalshúsið fór langt fram úr kostnaðaráætlun. Tillaga var felld á grundvelli umsagnar Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar án þess fengið væri álit Innri endurskoðanda. Það er mat borgarfulltrúa að borgaryfirvöld hafi misnotað fé borgarbúa með grófum hætti undanfarin ár. Fjölmörgum ábendingum Innri endurskoðanda hefur ekki verið fylgt eftir, 37% ábendinga sem raktar eru í nýrri skýrslu Innri endurskoðunar hafa ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar. Borgarfulltrúi áréttar aftur að með þessari undirskrift sinni samþykkir hann EKKI nein fjárútgjöld sem farið hafa fram úr fjárheimildum án heimildar og fordæmir brot borgarinnar á sveitarstjórnarlögum, á lögum um skjalasöfn, að fjárhæðum hafi verið eytt án heimildar, brot á innkaupareglum, að borgarráði hafi verið veitt rangar upplýsingar sem og að tölvupósti og afritum var eytt, allt sem staðfest hefur verið í skýrslu Innri endurskoðunar borgarinnar m.a. um Nauthólsveg 100.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 29. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí og varðar frávísun tillögu um að fá mat stjórnsýslufræðings á hið svo kallaða bráðabirgðarverkferli meirihlutans til að hægt sé að kvarta yfir borgarfulltrúum minnihlutans

Það er sérkennilegt að borgarmeirihlutinn hafi ekki viljað fá ráðleggingar stjórnsýslufræðinga á þetta verkferli sem meirihlutinn hefur nú einhliða samþykkt og ætlað er fyrir starfsmenn sem vilja kvarta undan kjörnum fulltrúum. Hér skiptir máli að hlutir séu rökréttir en ekki bara einhver geðþóttaákvörðun þeirra sem valdið hafa. Því hefði verið tilvalið að fá mat fræðinga í stjórnsýslureglum vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi er í annars vegar og starfsmaður hins vegar. Hin samþykkta tillaga er órökrétt. Kjörnum fulltrúa er í lófa lagt hvort hann ansi kalli rannsakanda að koma til tals um kvörtun á hendur honum. Geri hann það ekki fer ekkert ferli af stað. Borgarritari hefur móttekið kvörtun frá starfsmönnum sem jafngildir loforði um að kvörtunarmál fari í ferli sem lýkur með úrlausn. Borgarstjóri og -ritari hafa tapað áttum við lestur frekar óljósrar skýrslu siðanefndar sveitarfélaga. Þar segir að ekki sé hægt að vinna mál á pólitískum vettvangi en engu að síður eigi að búa til farveg. Nú á að fá utanaðkomandi aðila til verksins en sem ráðinn er af hinum pólitíska framkvæmdastjóra. Borgarritari hefur einnig boðið borgarfulltrúum að kvarta yfir starfsmönnum. Staða þess starfsmanns sem kjörinn fulltrúi kvartar yfir er mun verri en sé málið á hinn veginn. Starfsmann er hægt að áminna og reka en kjörinn fulltrúa ekki.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 36. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí er varðar tillögu að gera víðtæka skoðun vegna varanlegrar lokunar Laugavegs og Skólavörðustígs

Tillaga Flokks fólksins um víðtæka skoðanakönnun vegna varanlegra lokana gatna í miðbænum var felld um leið og hún var lögð fram. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn þori ekki að láta framkvæma slíka könnun því undir niðri er vitað að mikil mótmæli munu koma fram vegna fyrirhugaðra varanlegra lokana tveggja aðalgatna og jafnvel fleiri í miðborginni. Meirihlutinn rígheldur í eldri kannanir sem þeim hefur tekist að sannfæra borgarbúa um að styðji þessar framkvæmdir. Borgarbúar voru plataðir. Aldrei var spurt hvað fólki fyndist um varanlega lokun þessara gatna. Spurningar voru loðnar og óljósar og áttu svarendur án efa erfitt með að átta sig á um hvað málið snerist sem er að bílar munu aldrei framar geta ekið um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar. Fyrir hreyfihamlaða er þetta mikið áfall þar sem aðgengi að þessu svæði er slakt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí sem fjallar um fá tillögu innri endurskoðanda á umsögn SEA að hafna tillögu um úttekt á Gröndalshúsi.

Tillaga Flokks fólksins um að fengin yrði umsögn innri endurskoðanda á umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (frá 4. apríl og 6. maí) við fyrirspurn borgarfulltrúa vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun var vísað frá á sama fundi borgarráðs og hún var lögð fram. Þetta er allt hið sérkennilegasta mál þar sem í raun er umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar ein og sér lögð til grundvallar þess að vísa þessari tillögu frá. Hér er því „skrifstofan“ sjálf SEA að meta það ein hvort eigi að skoða stöðu verka og verkefna hennar eins og Gröndalshús. Það ætti að þykja sjálfsagt að innri endurskoðandi fengi tillögu um úttekt á Gröndalshúsinu inn á sitt borð en staðfest er að umrædd umsögn SEA kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Það ætti að vera metnaður borgarmeirihlutans að ákvörðun um hvaða verkefni fari í úttekt komi fyrst og fremst frá þeirri skrifstofu sem hefur að gera með eftirlit með verkefnum borgarinnar. Að vera dómari á eigin verk getur varla talist faglegt hvað þá trúverðugt. Borgarfulltrúi mótmælir þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, að ítrekað sé tillögum sem eiga fullan rétt á sér vísað frá eða svarað með útúrsnúningum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. maí er varðar endurskoðun innkaupareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupareglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís að kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Eitt mikilvægasta atriðið er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!