Borgarráð 21. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um útvíkkun á notkunarskilyrðum frístundarkort til kaupa á sundkorti

Svar borgarinnar:

Svarið sem finna má í umsögn er vonbrigði. Í fyrsta lagi er verið að snúa út úr með því að tala um að þá ætti kortið allt eins að gilda á leiksýningar og bíó. Hér er verið að tala um sundstaði. Að fara í sund fyrir okkur íslendinga hefur ávallt verið talið mjög jákvætt, sambland af hreyfingu, útivist og vissulega skemmtun. Talað er um að ekki sé tímabært að taka svona skref án frekari umræðu. Borgarfulltrúi er með þessari tillögu að hefja þá umræðu og óskar eftir að hún verði ekki bara tekin heldur tekin áfram. Nýting kortsins til kaupa á sundkorti er tillaga sem á fullan rétt á sér og ætti Menningar-, íþrótta- og tómstundarráð hiklaust að skoða hana aftur.

Fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda sem nú eru í gangi hvað varðar kostnaðaráætlanir, innkaup, samninga, eftirlit og aukaverk sem og annað sem máli skiptir í framkvæmdum (mannvirkjagerðum)

Fyrirspurn: Óska eftir upplýsingum (lista yfir) um framkvæmdir (mannvirkjagerð) síðustu  4ra ára sem fóru fram úr kostnaðaráætlun

Fyrirspurn:
Hvernig ætlar Skóla- og frístundarráð að bregðast við  niðurstöðu könnunar Maskínu sem gerð var að beiðni Velferðarvaktarinnar um skólaforðun og tilfinningar- og félagslegrar vanlíðunar grunnskólabarna ?

Það hefur lengi verið vitað að hópur barna líður illa í skólanum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um vanlíðan barna í skólanum og m.a. tengt það því að „skóli án aðgreiningar“ er ekki nægjanlega útbúinn til að ná utan um öll börn og þarfir þeirra. í landinu er skólaskylda, skólinn á að vera fyrir alla. Niðurstöður þær sem nú liggja fyrir úr könnun Maskínu sem Velferðarvaktin lét gera koma ekki á óvart. Hópur barna bíður eftir sérhæfðri þjónustu ýmist í greiningu, í viðtöl til sálfræðinga skóla, í talþjálfun, til að komast á nauðsynleg námskeið og fleira mætti telja. Börn eru látin bíða mánuðum saman eftir þjónustu. Í ljósi þessa er ekki að undra að sum börn glími við tilfinningalega erfiðleika eða eru félagslega óörugg og treysta sér ekki í skólann. Hvað varðar borgina er orðið tímabært að horfast í augu við þennan vanda sem fengið hefur að vaxa óáreittur árum saman. Eigi „skóli án aðgreiningar“ að vera áfram stefnan verður að fara í að endurskipuleggja hana frá grunni og finna  farveg sem leiðir til þess að öll börn fái þörfum sínum fullnægt í skólanum. Nú verður að bregðast við, það er ekki nóg að fá upplýsingarnar. Fyrst er að horfast í augu við vandann og viðurkenna þá staðreynd að hópur barna líður ekki vel í skólakerfinu eins og það er uppbyggt, þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa og hætta þar að leiðandi að vilja koma í skólanum.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu erindisbréfs um meðhöndlun fjárheimilda fyrir grunnskóla

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bara fagna því að bæta eigi reiknilíkan skólanna. Eftir því sem skilst mun ávinningurinn vera sá að forsendur fyrir fjárhagsáætlun verða gegnsærri og skýrari og að áætlanir verði samræmdari milli skóla.  Allt hlýtur þetta að leiða til jákvæðrar hluta, vonandi.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2019

Niðurstöður er beggja blands í þessari könnun en sýna ákveðinn árangur og ber að fagna því. Einstaka tölur eru ívið betri en í fyrri könnunum. Ekki er þó hægt að horfa fram hjá því að upplýsingar hafa verið að berast um mikla vanlíðan starfsmanna og brotthvarf einhverra þeirra sem rekja má til vanlíðan í vinnunni.  Ef horft er til opinberra upplýsinga sem hafa verið að birtast og varða borgina og stjórnsýslu hennar er ekki að undra ef starfsmönnum mörgum hverjum liði illa á þessum vinnustað. Dómar, skýrsla Innri endurskoðunar og ákvörðun Persónuverndar rekja neikvæða þætti úr innviðum og stjórnsýslu borgarinnar hafa komið með reglulegu millibili frá hausti 2018. Engan þyrfti því að undra að starfsmenn sem starfa undir slíkri stjórnsýslu og þar sem eftirliti er víða ábótavant líði  illa og vilji jafnvel hætta. Það reynir á alla ef vinnustaður þeirra er ítrekað og aftur í neikvæðri opinberri  umræðu.  Eftir því er tekið að svarhlutfall er minna en áður og minnsta ánægja er á Umhverfis og skipulagssviði. Einelti frá samstarfsfólki er einnig hæst á Umhverfis- og skipulagssviði. Starfsmannastöðugleiki er meðal þeirra atriða sem fólk er ósáttast við. Um 400 manns segjast hafa orðið fyrir einelti og áreitni sem er vissulega allt of há tala.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins við kynningu þjónustukönnunar Reykjavíkurborgar 2019.

Það hefði verið gott að sjá samanburð við önnur sveitarfélög og heyra meira um viðhorf og skoðun gagnvart þjónustustofnunum sem vinna með börnum. Spurning er hvort könnun eins og þessi sé of viðamikil og spurningar þess eðlis oft að líklegt er að fólk svari bara einhvern veginn? Þótt margt sé áhugavert er einnig frekar erfitt að lesa úr þessu og koma með afgerandi niðurstöður t.d. þegar svör eru „hvorki né“.

Bókun  undir liðnum  að borgarráð heimili að bjóða út malbikunarframkvæmdir:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ánægð með að malbikunarframkvæmdir eru í eðlilegu fari. Lögð er áhersla á að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr loftmengun af völdum slits. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í mengun sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík.