Skipulags- samgönguráð 20. nóvember 2019

Bókun Flokks fólksins við liðnum „Tilmæli umboðsmanns borgarbúa, vegna  framkvæmda í miðborginni og á öðrum viðkvæmum rekstrarsvæðum“:

Flokkur fólksins hefur ítrekað reynt að fá borgaryfirvöld til að hlusta á borgarbúa og virða þeirra óskir þegar kemur að stórframkvæmdum sem hafa víðtæk áhrif á rekstur. Flokkar eins og Viðreisn og Píratar hjala um að hafa samráð sem eru bara orðin tóm. Nú hefur umboðsmaður borgarbúa bæst í hóp þeirra sem eru að reyna að koma vitinu fyrir borgarmeirihlutann.
Með tilmælum sínum kallar umboðsmaðurinn eftir að borgarmeirihlutinn keyri ekki áfram framkvæmdir ýmist í óþökk íbúa og rekstraraðila nema hvort tveggja sé. Hvert málið hefur rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af Reykjavíkurborg í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.
Önnur sambærileg mál er breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi sem keyra á í gegn þrátt fyrir hávær mótmæli. Einnig eru framkvæmdir fyrirhugaðar við Stekkjarbakka sem fólk vill fá að skoða betur og kallað hefur verið eftir að fari í íbúakosningu. Það sýnir ómældan hroka og yfirgang yfirvalda borgarinnar að ætla ekki að staldra við í þessum málum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að staðið sé betur að undirbúningi framkvæmda til að koma í veg fyrir óþarfa tafir en tillögunni er vísað frá:

Flokkur fólksins áréttar þá nauðsyn að allur undirbúningur framkvæmda á vegum eða fyrir Reykjavíkurborg sé nægur til að koma í veg fyrir óþarfa tafir og fjáraustur. Með því að vísa þessari tillögu frá tekur meirihlutinn undir að vinnubrögð séu slæleg og illa undirbúin. Því fer sem fer. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með klúðrinu á Hverfisgötu, eilífar tafir sem hefur haft alvarlegar afleiðingar á rekstur fyrirtækja við götuna. Þarna hefur ekki verið staðið nógu vel að undirbúningi. Áður en framkvæmdir hefjast þarf að tryggja mun betur, en gert hefur verið, að allt tiltækt sem þarf til verkefnisins sé til staðar áður en verkið hefst s.s. nægan mannskap á öllu tímabilinu, næg tæki og tól og umfram allt, allt efni sem þarf til framkvæmdanna. Ekki er nóg að hendast bara af stað. Tafir eins og hafa verið á Hverfisgötu eru ekki líðandi og því miður er víða annars staðar í miðbænum sama vandamálið búið að vera.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar:

Tillagan hefur verið felld  þar sem áheyrnarfulltrúi  Flokks fólksins lagði fram í borgarráðs, fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar og fari í átak við að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar. Skortur á bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar er raunverulegt vandamál. Það hafa ekki allir aðstöðu fyrir stóra bíla á vinnusvæðum og sumir eru sjálfstætt starfandi. Betra er að takast á við þennan vanda og finna sameiginlega lausn en að hunsa hann sem leiðir til þess að bílum er lagt þar sem þeim er ekki ætlað af neyð. Um þetta gilda vissulega reglur en það er ekki nóg að setja reglur ef ekki er á sama tíma fundið úrræði fyrir þá sem ekki falla undir reglurnar. Vissulega getur borgarstjóri veitt undanþágur og kann að vera að meira þurfi að gera af því þar sem aðstæður bjóða upp á. Fólk þarf að geta lagt bílum sínum við heimili sín og ef ekki er fundin lausn á stæðum fyrir stóra bíla þar sem þeirra er þörf munu kvartanir halda áfram að berast frá íbúum og gestum sem ekki fá stæði vegna þess að stæðin hafa verið teppt af stærri bílum. Flokkur fólksins skorar á skipulagsyfirvöld borgarinnar að leysa þennan vanda.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins borgarráðs, átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfársárdal

Flokkur fólksins leggur til að átak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á gönguþverunum og gangbrautum í Úlfarsárdal. Víða í Úlfarsárdal eru gangbrautir ekki merktar eins og á að gera (sebrabrautir). Einnig vantar aðrar merkingar svo sem gangbrautarmerki sem nota skal við gangbraut og vera beggja megin akbrautar. Ef eyja er á akbraut á merkið einnig vera þar. Það vantar einnig víða viðvörunarmerki sem á að vera áður en komið er að gangbraut. Gangbrautarmerkið ætti ekki að vera lengra en 0,5 m frá gangbraut. Þetta er sérkennilegt því meirihlutinn í borginni hefur svo oft talað um að réttindi gangandi og hjólandi í umferðinni skuli koma fyrst. Allar gangbrautir eiga að vera merktar eins og lög og reglugerðir kveða á um. Segir í þeim að „gangbrautir verði merktar með sebrabrautum og skiltum til að auka umferðaröryggi. Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut (sebrabrautir)“. R19100240

Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um skilvirkari vinnubrögð við framkvæmdir og undirbúning í miðborg Reykjavíkur en tillögunni er vísað frá:

Flokkur fólksins leggur til að farið verði gaumgæfilega í gegnum verkferla innan borgarinnar varðandi framkvæmdir í miðborginni. Jafnframt verði skoðað með alvarlegum hætti hvernig hæg er að haga samskiptum við borgarbúa og hagsmunaaðila sem eru staðsettir á því svæði sem framkvæmdir fara fram. Borgaryfirvöld verða að hafa í huga að bæði þeir sem eiga húsnæði og eru með rekstur á framkvæmdasvæði hafa sinn rétt á upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir og gang þeirra á öllu verkferlinu. Framkvæmdir eiga ekki að hafa svo víðtæk áhrif á íbúa og rekstraraðila að viðkomandi neyðast til að flytja af svæðinu eða hætta rekstri. Það er á ábyrgð borgarinnar að tryggja öllum íbúum hennar og rekstraraðiljum skjól. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að áður en framkvæmdir hefjast sé tryggt að verktakar hafi allt sem þarf til verkefnisins, nægan mannskap á öllu tímabilinu, næg tæki og tól og umfram allt, allt efni sem þarf til framkvæmdanna. Ekki ætti að treysta á sendingar af efni sem ætlað er í framkvæmdir komi settum tíma til landsins, heldur verið að gera þá kröfu að allt efni sé til staðar þegar framkvæmdin hefst.

Tillögunni fylgir greinargerð.