Borgarráð 11. apríl 2019

Bókun Flokks fólksins við liðnum breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð

Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir þessar reglur enn allt of flóknar og mætti einfalda þær mun meira.  Þau gögn sem umsækjanda ber að reiða fram eru óþarflega ítarlegar t.d. upplýsingar um skráningu í nám og eða upplýsingar um greiðslur t.d. frá sjúkrasjóðnum eru dæmi um upplýsingar sem mættu e.t.v. missa sín. Markmiðið ætti ávallt að vera að kalla eftir sem minnstum upplýsingum og unnt er að komast af með í slíkri umsókn. Sjálfsagt er að fá leyfi hjá viðkomanda að aflað verði upplýsinga t.d. um skráningu hans í nám við lánshæfar menntastofnanir. Hafa skal í huga að mörgum reynist það afar erfitt að þurfa að sækja um fjárhagsaðstoð. Sumir upplifa það  niðurlægjandi og því er óþarfi að flækja þetta ferli meira en þörf er á. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda þetta ferli enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Tillaga í framhaldi af bókun um enn frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda reglur um fjárhagsaðstoða frá Reykjavíkurborg enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Skerjafjörður úthlutunarreglur

Borgarfulltrúi vill minna á sveitarstjórnarlög sem varða innkaupareglur og útboð í þessu sambandi sem öðru. Verðviðmið vegna útboðsskyldu vegna verklegra framkvæmda er 28 mkr og ætlar borgarfulltrúi rétt að vona að þessum reglum verði fylgt í hvívetna í framkvæmdum í Skerjafirði. Borgarfulltrúi vill gera athugasemdir við landuppfyllingu og spyr af hverju mega fjörur ekki fá að vera í friði? Af hverju landfylling. Á það skal minnst að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Ætlar borgin að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum? Flokkur fólksins gerir körfu um að hér sé staldrað við og fengið álit frá sérfróðum aðilum svo sem Vegaverðinni og Veðurstofunni. Tekið er undir áhyggjur af umferðarþunga ekki síst meðan á framkvæmdum stendur. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni og ekki er heldur fyrirsjáanlegt að flugvöllurinn fari næstu árin.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum svör við fyrirspurnir um Nauthólsveg:

Borgarfulltrúi vill byrja á að þakka ítarleg svör. Þessi svör staðfesta enn og aftur hvílíkur skandall Nauthólsvegur 100 er. Í framkvæmdinni allri úir og grúir af óráðsíu, bruðli og vanvirðing  gagnvart fé almennings er átakanlegt. Kunningja – og vinavæðing er áberandi. Hugmyndi arkitekta flæða og gildir þá einu hvað þær kosta. Allt þetta er stjórnlaust, án nokkurs eftirlits. Hér er dæmi: Þegar framkvæmdir síðan hófust var óskað eftir að Efla sæi um alla verkfræðilega hönnun á byggingunum. Strax í upphafi var arkitektastofan Arkibúllan valin til að hanna endurbyggingu húsanna við Nauthólsveg 100. Ekki var farin sú leið sem stundum er valin að hafa samkeppni um hönnunina og sigurvegarinn fái að hanna verkið. Ekki var heldur haft samband við fleiri arkitektastofur til að leita eftir tilboðum í hönnunina. Ástæður fyrir því að þessi arkitektastofa var valin liggja ekki ljósar fyrir. Enn fremur var starfsmaður stofunnar, sem síðar varð verkefnisstjóri, fyrrverandi starfsmaður borgarinnar og því kunnugur fyrrverandi skrifstofustjóra og verkefnastjóra SEA. Í fundargerð verkefnisstjórnarfundar, dagsettri 31. október 2016, kemur fram að landslagsarkitekt hafi verið ráðinn til að hanna lóðina. Mun það hafa verið að tillögu verkefnisstjóra á byggingarstað sem hafði samband við Dagný Land Design (DLD) og óskaði eftir að fyrirtækið tæki að sér þetta verkefni.“

Bókun Flokks fólksins undir liðnum um fyrirspurn um listaverkaeign borgarinnar:

Markmiðið með fyrirspurninni var að fá einhverja hugmynd um þann hluta af listaverkaeign borgarinnar sem ekki er fólki sýnileg vegna þess að hún er lokuð inn í geymslum. Fram kemur að reynt er að hafa safnkost borgarinnar aðgengilegan eins og kostur er og er það gott. Fram kemur að útilistaverk á skrá eru 182. Sú hugsun sló niður í haus borgarfulltrúa hvort borgin ætti t.d. ekki útilistarverk sem er ekki í notkun en sem mætti t.d. skreyta Vogahverfið með? eða önnur hverfi ef því er að skipta.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum um framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins og Miðflokksins um leigubílakostnað:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakka þetta svar sem staðfestir það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins taldi að það er ekki stór hluti af leigubílaútgjöldum velferðarsviðs sem fer í að aka með skjólstæðinga borgarinnar. Stærsti hlutinn er vegna starfsmanna, þeirra sem mæta eiga í vinnu þegar almenningsvagnar ganga ekki og er það hluti af kjarasamningum.  Þar segir eins og fram kemur í svari að annað hvort sé starfsmanninum séð fyrir ferð eða greiddur ferðakostnaður. Það er búið að afnema aksturssamninga eins og fram kom í síðasta svari. Spurning er hvort leita eigi að hagkvæmari leiðum hér t.d. að borgin leggi enn meiri áherslu á að leggja til bíla þar sem nauðsyn er s.s. vegna heimahjúkrunar og heilbrigðiseftirlits

Fyrirspurnir vegna stöðu eldri borgara í dag.
Flokkur fólks óskar eftir að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara er varðar bið eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum?

Staðan í desember 2018 var sú samkvæmt velferðarsviði að 53 einstaklingar lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi er ósáttur við að tillagan um Hagsmunafulltrúa eldri borgara var hafnað. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir „að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara og taldi ekki þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða“. Engu að síður berast fréttir af eldri borgurum í neyð. Tillagan um hagsmunafulltrúann fól í sér að hann myndi skoða málefni eldri borgara ofan í kjölinn, halda utan um hagsmuni þeirra og fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn átti að kortleggja stöðuna í heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða. Sá „þjónustufulltrúi“ sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir „Hagsmunafulltrúa“ Flokks fólksins enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun.

Tillaga um að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok.

Lagt er til að borgin sem vinnuveitandi  leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum,  menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á  sveigjanleika þegar komið er að starfslokum.  Sumir viljað hætta áður en  „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá.  Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og um það höfum við reynslu af t.d á Droplaugastöðum sem er hjúkrunarheimili. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar stíft og ósveigjanlegt.

Lagt er til að reglur um Frístundarkort verði rýmkaðar til að hægt sé að nota það til þátttöku í stuttum verkefnum

Lagt er til að reglur um Frístundarkortið verði víkkaðar þannig að hægt sé að nota það með rýmri hætti en nú er hægt. Reglurnar eru allt of strangar eins og þær eru í dag og niðurnjörfaðar. Eins og reglurnar eru nú „er einungis hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi. Þetta eru allt of strangar reglur. Um þetta þyrfti að losa. Hægt ætti að vera nota Kortið til þátttöku í stuttum íþrótta- og félagslega tengdum verkefnum. Í þessu tilfelli skiptir húsnæði ekki miklu máli og mætti t.d. taka út þann þátt. 10 vikur er allt of langur tími og hentar ekki öllum börnum og unglingum. Sjálfsagt ætti að vera að systkini noti sama kortið ef það hentar þeim.

Greinargerð:

Tillaga Flokks fólksins um að rýmka reglur Frístundarkortsins til að ná utan um hreyfingu eins og sund (kaup á sundkorti) var nýlega felld í borgarráði. Ekki er heldur hægt að nota frístundakortið í starfi félagsmiðstöðvanna né í niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga. Hafa skal í huga að sumir foreldrar hafa ekki ráð á að senda börn sín á sumarnámskeið jafnvel þótt þau séu niðurgreidd. Það skiptir miklu máli að hvetja börn á allan mögulegan hátt til að stunda útiveru og hreyfingu. Borgin ætti því ekki að linna látum fyrr en fundnar hafa verið leiðir sem stuðla að fullnýtingu Frístundarkortsins. Í þessu sambandi er vert að leiða hugann að áhyggjum af þeim börnum sem hafa fest sig fyrir framan tölvuna. Þetta er hópur barna sem finnst erfitt með að víkja frá tölvunum til að fara í skólann eða til að stunda hreyfingu sem er öllum börnum og unglingum afar mikilvægt. Hvað varðar notkun Frístundarkorts í þessu samhengi vill Flokkur fólksins að Frístundarkortið sé ekki hvað síst notað til að hvetja börn og unglinga til hreyfingar og útiveru af hvers lags tagi, þótt ekki sé nema stuttan tíma í einu.
Leggja þarf niður höft eins og að:
1. Einungis er hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík
2. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur
3. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára
4. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi.

Allt þetta er bara til að gera börnum og unglingum erfiðara fyrir að nota kortið þar sem mörg hver treysta sér t.d. ekki til að taka þátt í námskeiði sem eru 10 vikur en myndu gjarnan vilja prófa 2-3 vikur. Eins er það allt of stífar kvaðir að kennari þurfi að vera með menntun í því sem kennt er á námskeiðinu. En ómögulegra skilyrði er að húsnæðið verði að hafa rekstrarleyfi. Hér er dæmi um óþarfa flækjustig og ósveigjanleika sem lagt er til að sé afnumið hið fyrsta.

Tillaga um að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok.

Lagt er til að borgin sem vinnuveitandi  leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum,  menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á  sveigjanleika þegar komið er að starfslokum.  Sumir viljað hætta áður en  „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá.  Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og um það höfum við reynslu af t.d á Droplaugastöðum sem er hjúkrunarheimili. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar stíft og ósveigjanlegt.

Lagt er til að borgarmeirihlutinn hugi að börnum efnaminni foreldra og fátækra foreldra með sértækum aðgerðum

Lagt er til að Reykjavíkurborg setji það á stefnuskrá sína að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Það eru tæpar 500 fjölskyldur með um 800 börn sem eru með fjárhagsaðstoð. Á annað þúsund barna býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar og í 1.000 barnafjölskyldur fá sérstakan húsnæðisstuðning. Borgin ætti að horfa mun meira til  tekna foreldra og forráðamann þegar gjald sem snýr að börnum sem dæmi skólamáltíðir, dvöl á frístundaheimili/félagsmiðstöðvar og tómstundir er ákvarðað. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að ofangreindir þættir séu gjaldfrjálsir fyrir fjölskyldur sem eru undir framfærsluviðmiði. Áður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins lagt til að gjald skólamáltíða verði lækkað til að tryggja að ekkert barn væriAðalastræti svangt í skólanum en þær tillögur voru felldar. Það er ekki verið að gera nóg fyrir fjölskyldur sem eru í mestri neyð eins og staðan er núna. Börnum fátækra foreldra er mismuna á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar sértækar aðgerðir til að létta byrði þeirra er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman.

Greinargerð

Flokkur fólksins hefur oft áður með ýmsum hætti stungið upp á leiðum til að létta undir með fátækum foreldrum þegar kemur að ýmsum útgjöldum fyrir börn sína. Sem dæmi var tillaga um að börn foreldra undir tekjuviðmiði þurfi ekki að greiða þátttökugjald á viðburði eða í ferðir á vegum miðstöðvanna felld í Skóla- og frístundarráði. Sömu örlög hlutu tillögur um að lækka gjald skólamáltíða eins og fram kemur í tillögunni. Meirihlutinn verður að fara að horfast í augu við að hópur barna elst upp hjá fátækum foreldrum og að fátækt hindrar sum börn í að taka þátt í viðburðum sem kosta. Hér er e.t.v. ekki um stórar upphæðir að ræða en þúsund krónur er mikill peningur hjá þeim sem ekki á.  Tillaga um að reglur um frístundarkortið yrðu rýmkaðar var einnig felld. Það er afar slæmt að ekki er hægt að greiða fyrir þátttöku í starfi félagsmiðstöðva með Frístundakorti Reykjavíkurborgar og eins ætti að vera hægt að nota Frístundarkortið til að greiða enn frekar niður gjald sumarnámskeiða í þeim tilfellum sem foreldrar óska þess. Margt annað er hægt að gera í þessu sambandi með beinni tekjutengingu og horfa þá eingöngu til þeirra verst settu með það að markmiði að draga úr fátækt.

Tillaga um fjölbreyttar leiðir til að upplýsa borgarbúa um réttindi þeirra þar með talið útgáfa upplýsingabæklings:

Það er staðreynd að ekki tekst að upplýsa allar borgarbúa sem eiga tilkall til sértækra réttinda um réttindi þeirra. Það er skylda borgarmeirihlutans að láta einskis ófreistað til að koma upplýsingum til þessa hóps með eins fjölbreyttum hætti og mögulegt er. Leiðir sem hægt er að fara er að hringja í fólk, senda tölvuskeyti, auglýsa, heimsækja fólk eða senda bréfapóst. Með hverju ári sem líður er borgin að vera æ meira bákn og flækjustig fjölmargra ferla hefur aukist. Nú glittir vissulega í einhverja einföldun á einhverju af þessu og er það gott. Flokkur fólksins leggur til að borgarmeirihlutinn ráðist í að gefa út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar.

Greinargerð

Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um réttindi á aðgengilegan hátt. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar. Oft heyrist talað um að fólk viti ekki hver réttindi sín eru eða hafa frétt af þeim mörgum mánuðum eftir að þau komu til, jafnvel árum. Stundum hafa upplýsingar misfarist vegna þess að það hefur gleymst að segja fólki frá þeim eða talið að fólk sé þá þegar upplýst um þau. Stundum er ástæðan sú að „réttindin“ hafa tekið breytingum vegna breytinga á reglugerðum eða samþykktum borgarinnar og ekki hefur náðst að upplýsa fólk um breytingarnar. Ýmist reynir fólk að hringja til að fá upplýsingar eða leita að þeim á netinu. Það eru ekki allir sem nota netið og stundum næst heldur ekki í starfsmenn í síma. Sé viðkomandi beðin að hringja til baka gerist það ekki alltaf.  Oft er kvartað yfir því að illa gangi að ná í starfsmenn/fagfólk sem eru t.d. mikið á fundum, að skeytum sé ekki svarað og að ekki sé hringt til baka. Gera má því skóna að upplýsingabæklingur sem er skýr og aðgengilegur, jafnvel sendur til þeirra sem talið er að eigi tilkall til þjónustunnar muni leysa að minnsta kosti hluta þess vanda þeim sem hér er lýst.

Fyrirspurnir vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun

Flokkur fólksins lagði fyrir stuttu fram tillögur um að Innri endurskoðun tæki út þrjár  framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðun hefur upplýst að umsögn SEA kom ekki til skoðunar hans áður en hún var lögð farm.

  1. Spurt er af hverju kom  umsögn SEA sem lögð var til grundvallar þess að tillögunni var synjað ekki til skoðunar Innri endurskoðunar  áður en hún var lögð fram?
  2. Munu tillögur Flokks Fólksins um úttekt á vitanum við Sæbraut og Aðalstræti 10 koma til skoðunar IE áður en þær verða afgreiddar, felldar, vísað frá eða samþykktar?

Fyrirspurn um stöðu mála Hólaborgar og Suðurborgar hvað varðar tillögu meirihlutans um sameiningu þessara tveggja leikskóla.

Óskað er eftir upplýsingum um hvenær niðurstaða þessa máls mun liggja fyrir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að svör berist sem fyrst þar sem málið allt er farið að hafa virkilega mikil áhrif á starfsmenn tilfinningalega og fólk er farið að finna fyrir vonleysi. Málið hefur legið á borði Skóla- og frístundasviðs síðan 8. janúar ásamt umsögnum frá starfsfólki og er því tímabært að starfsfólk og foreldrar fari að fá svör.

Fyrirspurnir um ávinning af  sameiningu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík undanfarin ár?

Spurt er hvort það liggi fyrir upplýsingar um hver ávinningur hefur verið af sameiningu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík undanfarin ár. Svar óskast sundurliðað eftir skólum. Bæði er spurt um fjárhagslegan ávinning sem og faglegan ávinning, þ.e. m. v. að ef ekkert hefði verið gert?

Tvær bókanir lagðar fram í borgarráði 11.4 vegna staðfestingar sem fram kemur að unnið er að varanlegri lokun Laugavegar og Skólavörðustígs fyrir bílaumferð:
 
Flokkur fólksins mótmælir því sem fram kemur undir þessum lið en það er að verið sé að vinna að varanlegri lokun og það jafnvel þótt það hafi verið sýnt fram á að kannanir sýni að fólk sé alls ekki sátt nema síður sé. Enn á ný á að reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að kannanir sýni „ánægju“ og keyra af afli áfram eitthvað sem ekki hefur verið unnið í sátt við borgarbúa. Ljóst er að valta á yfir borgarbúa og ekki síst rekstrar- og hagsmunaaðila á þessu svæði. Þetta kallast fátt annað en ofbeldi þegar hunsuð er beiðni um eðlilegt samráð. Laugavegssamtökin hafa sem dæmi fullyrt að aldrei hafi verið talað við þau enda flýja rekstraraðilar nú unnvörpum frá þessu svæði.
Bókun vegna umræðu um lokun Laugavegar og Skólavörðustígs án samráðs við hagsmunaaðila sem fram fór í borgarstjórn 3. apríl

Flokkur fólksins gerir alvarlega athugasemd að hafist verði handa við vinnu og forhönnun á Laugavegi og Skólavörðustig sem var á dagskrá Skipulags- og samgönguráðs 3. apríl 2019. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarstjórn 2. apríl s.l. vegna tillögu Flokk fólksins þar sem farið var fram á nánara samráð um framkvæmdir við hagsmunaaðila, eldri borgar, fatlaða og almenna borgarbúa víðs vegar í borginni m.a. með vel útfærðir skoðanakönnun. Áréttað er að í ljós hefur komið að ekki er hægt að hefja undirbúning eða framkvæmdir fyrr en grenndarkynning hefur átt sér stað. Jafnframt þarf að kanna vilja allra Reykvíkinga áður en hafist er handa við svo stórtækar aðgerðir á einu vinsælasta svæði borgarinnar. Það skal jafnframt bent á að ekki stendur til að hreyfihamlaðir né aldraðir hafi aðgang að götunum þegar veður eru válynd, tal um samráð virðist hljómið eitt. Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn ætlar að keyra áfram þessara lokanir þrátt fyrir mótmæli ýmissa aðila. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ótrúlegur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Flokkur fólksins gerir kröfu um fullt samráð við alla borgarbúa. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.