Tillaga Flokks fólksins frá 26. september um mælingar á innleiðingu þjónustustefnu, ásamt umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Lögð fram tillaga Flokks fólksins um mælingar á innleiðingu þjónustustefnu, ásamt umsögn þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 26. september. R19090130.
Samþykkt að vísa til stýrihóps um innleiðingu þjónustustefnu.
Bókun við tillögu Flokks fólksins frá 14. nóvember, um úttekt á akstursþjónustu eldri borgara. Til afgreiðslu.
Flokkur fólksins lagði til að mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð hafi frumkvæði á að úttekt verði gerð á akstursþjónustu eldri borgara. Flokkur fólksins tekur undir að ekki sé þörf á frekari greiningu þar sem þær upplýsingar sem fram koma í ritgerð Álfhildar Hallgrímsdóttur í öldrunarfræði varpar ágætu ljósi á af hverju karlar nota akstursþjónustuna mun minna en konur. Niðurstöður eru afar áhugaverðar og lýsa án efa raunveruleikanum í þessum efnum.
Samþykkt að vísa tillögunni frá.
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Í ljósi þess að þegar hefur verið gerð rannsókn á umbeðnu úttektarefni er tillagan um að ráðast í úttekt á efninu felld þar sem ekki fæst séð hverju úttekt myndi bæta við af upplýsingum eins og farið er yfir í minnisblaði mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.
Bókun Flokks fólksins við svari mannréttida-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs við fyrirspurn vegna ferða ráðsins og sviðsins
Eftir því er tekið að árið 2018 er mun kostnaðarminna en árin 2017 og 2019. Þetta ár fara engir embættismenn í ferðir erlendis sem dæmi. Flokkur fólks gagnrýnir ávallt þegar fé borgarbúa er notað í ferðir erlendis sér í lagi þegar um skoðunarferðir er að ræða sem skilur fátt eftir nema reynslu þess sem fer ferðina. Í flestum tilfellum er hægt að nota skype og fjarfundarbúnað ef um almenna fundi er að ræða og fræðslufundi. Þegar metið er svo að brýn nauðsyn er á að einstaklingur mæti á staðinn af einhverjum ástæðum skal aðeins einn fara. Annað er bruðl. Enda þótt styrkir dekki þann kostnað sem hér um ræðir ágætlega þá kostar þetta engu að síður borgarbúa umtalsvert mikið fé sem nota mætti í aðra hluti svo sem að auka og bæta þjónustu við börn, öryrkja og eldri borgara. Tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri er hávært. Hins vegar veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvort það sé meira í nösum en reynd. Fjarfundur á að verða meginreglan og flugferð erlendis á fund þá undantekningin. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga í mun meira mæli en gert hefur verið