Skipulags- og samgönguráð 12. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu Landmótunar dags., 20. apríl 2020, f.h. umhverfis- og skipulagssviðs að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynningu um Austurheiðar. Ljóst er að mikill metnaður er lagður í verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hagsmunaaðilar verði hafðir með frá upphafi, haldnir hafa verið fundir en mikilvægt er að fundargerðir séu aðgengilegar til að hægt sé að hafa samráðið gegnsætt. Öllu máli skiptir að þetta sé unnið í sátt frá upphafi og að hagsmunaaðilar fái að koma að undirbúningsvinnu, í hvaða átt er stefnt en þeir ekki aðeins upplýstir um það eftir á og þá boðið að ákveða um einhver smærri atriði. Flestar lóðir við Langavatn eru eignarlóðir. Gott væri að fá yfirlit yfir stöðu annara lóða, er um eignarlóðir að ræða, erfðafestulóðir sem renna út á einhverjum tíma o.s.frv. Ræktun gamalla lóða verður vonandi nýtt í stórum stíl. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að, eins og svæðið er skipulagt, að nóg ætti að verða af bílastæðum við aðkomuleiðir.

Bókun Flokks fólksins við Rekagrandi 14, leikskóli, breyting á deiliskipulagi:

Fram kemur í greinargerð með deiliskipulagsbreytingum að fækka á bílastæðum um fjögur. Það veldur nokkrum áhyggjum þar sem erfitt er að lifa bíllausum lífstíl í Reykjavík og nú þegar er skortur á bílastæðum fyrir utan suma leikskóla. Foreldrar koma með börn sín á bíl nema þeir búi skammt frá og geta gengið með þau eða hjólað. Þegar komið er með börnin í leikskóla á álagstímum er stundum engin stæði laus og þarf þá að bíða í götunni þar til stæði losnar, aðstæður sem geta skapað hættu. Í gögnum segir einnig að leggja á af snúningsreit eða snúningsás. Það að leggja af snúningsás er ekki til bóta fyrir þá sem koma á bíl. Ef reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík eru skoðaðar segir að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum þ.m.t. sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða séu yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 nemendur. Við Grunnskóla eiga að vera stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur samkv. reglum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er góð og barnvæn lausn að ganga frekar á bílastæði við stækkun leikskólans en leiksvæði barnanna eins og stundum hefur gerst. Það er rétt forgangsröðun. Börn eru mikilvægari en bílar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Finna þarf lausnir sem henta sem flestum. Afneitun hjálpar ekki í því. Staðreyndin er sú að fólk ekur börnum sínum á leikskóla nema það búi við hlið leikskólans eða getur hjólað með barnið. Það er sennilega minnihlutinn. Eftir að hafa rætt við hóp foreldra víðs vegar um borgina þá er þetta bara víða vandamál sér í lagi á álagstímum. Skipulagsyfirvöld geta ekki stungið hausnum í sandinn þegar þessi mál ber á góma. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki eiga við að meirihlutinn beri börn saman við bíla. Flokkur fólksins skilur ekki slíkan samanburð.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október:

Flokkur fólksins hefur varað skipulags- og samgönguráð við að samþykkja þessa viðbót göngugatna án samráðs og samtals við alla rekstrar- og hagsmunaaðila. Ákveðið hefur verið að fresta málinu um viku. Vonandi verður sú vika notuð til að tala t.d. við Miðbæjarfélagið í Reykjavík. Nóg er komið af þessari sorgarsögu vegna lokunar umferðar í miðbænum og hrun verslunar. Miðbærinn hefur verið í öllum mögulegum birtingarmyndum síðustu öld, ýmist dauður eða lifandi og allt þar á milli. Fulltrúi Flokks fólksins sem er borinn og barnfæddur í vesturbæ Reykjavíkur hefur aldrei séð yfirvald ganga fram með slíku offorsi að breyta vinsælustu götum miðbæjarins í trássi við fólkið. Nú er lagt til að bæta við göngugötur, svokallaðar sumargötur sem skulu vera tímabundnar. Þetta er spurning um samráð og sátt og vonandi næst að hefja alvöru samtal og umræður við aðila á þessari viku sem málinu hefur verið frestað um. Einnig segir að almenn umferð og bifreiðastöður verði óheimilar. Á það skal enn og aftur minnt að P merktir bílar hafa heimild í lögum að aka göngugötur og leggja þar samkvæmt nýjum umferðarlögum. Ekkert heyrist frá borgarmeirihlutanum um þessa heimild hvorki í ræðu né riti.

 

Bókun Flokks fólksins við hjólreiðaáætlun í samgönguáætlun:

Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hraðamálum hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum og óttast stundum um öryggi annarra hjólandi og ekki síst gangandi, sumir með hunda í taumi. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum. Ekki er eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum sem náð geta allt að 60 kílómetra hraða á klukkustund. Það er allt of mikill hraði í kringum gangandi vegfarendur. Hámarkshraði bifreiða í íbúðagötum er 30 kílómetrar á klukkustund, og í vistgötum og göngugötum mega vélknúin ökutæki ekki fara hraðar en 10km/h. Grípa þarf til aðgerða sem tryggja öryggi að sama marki á göngustígum og hjólastígum borgarinnar. Um reiðhjól gilda um margt sömu lögmál og um bíla. Í VII. kafla umferðarlaga er fjallað um reglur fyrir hjólreiðamenn. Í 42. gr. er fjallað m.a. um hvernig skuli aka fram úr á reiðhjóli. Í 43. gr. er síðan fjallað um reglur sem gilda við notkun reiðhjóla á göngustígum, gangstéttum og göngugötum. Ekki er nóg að leggja hjólreiðastíga heldur verður yfirvald einnig að sýna tilhlýðilega ábyrgð og sinna fræðslu til að fyrirbyggja slys og óhöpp.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð. Í ljósi þess að borgarmeirihlutinn er að fækka stæðum við einstaka leikskóla í ákveðnu deiliskipulagi er vísað í Reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík. Í þeim segir m.a. að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum eða sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða sé yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 börn. Við Grunnskóla er stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar frá foreldrum um að stæði fyrir framan suma leikskóla eru of fá og stundum myndist vandræðaástand á álagstímum. Frestað

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að settur verði hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi

Flokkur fólksins leggur til að settur verði hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda.

Fundir vegna byggðasamlaga

Endurskoðun skipulags og stjórnarhátta byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu, 3. fundur.
Innlegg frá fulltrúa Flokks fólksins:

Eftir allar þessa pælingar á 3 fundum og kynning á sviðsmyndum þá situr eftir sú staðreynd að bs kerfið er ekki nógu lýðræðislegt og eitthvað þarf að gera í því eða breyta rekstrarforminu. Ohf-ið hefur sína galla líka, verður líka ríki í ríkinu. Verkefnið bs er ekki að virka, eigendur eru langt frá ákvörðunum og virkni eigenda því engin.  Vald kjörinna fulltrúa er framselt til bs. Reynslan fyrir Reykjavík af byggðasamlögum er ekki góð. Strax ætti að fjölga stjórnarmönnum frá stærsta sveitarfélaginu þannig að fjöldi fulltrúa sé í takt við fjölda kjósenda. Þá er mikilvægt að minnihluti sérhvers sveitarfélags eigi fulltrúa í stjórn með atkvæðarétt.

Byggðasamlög tefja þá þróun. Við þetta framsal ræður meirihlutinn í sveitarfélagi alfarið en minnihlutinn hefur litla aðkomu nema að tjá sig. Eitt er að fá að tjá sig en annað er að hafa bein áhrif. Tímabært er að huga að því hvernig hægt sé að losna við þetta kerfi, frekar en að reyna að bæta það. En þar sem sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins vilja ekki sameinast er spurning hvaða aðrar leiðir koma til greina til að draga úr lýðræðishalla í þessu bs. kerfi. Ein leiðin er að fjölga fulltrúum í stjórn í hlutfalli við kjósendur og veita fulltrúa frá minnihluta aðkomu að stjórn og myndi hann hafa atkvæðarétt