Borgarráð 14. desember 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagt er til að meðfylgjandi breytingar á gjaldskrá vegna dagforeldra verði samþykktar. Breytingin taki gildi 1. febrúar 2024:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessar niðurgreiðslur til dagforeldra vegna 18 mánaða og eldri barna komi allt of seint. Niðurgreiðslurnar voru samþykktar í borgarráði 15. júní en koma ekki til framkvæmda fyrr en rúmum sjö mánuðum seinna. Þessar niðurgreiðslur hefðu átt að taka gildi 1. janúar 2024. Að sjálfsögðu mega gjöldin aldrei vera hærri en sem nemur gjaldskrá skóla- og frístundasviðs. Hækkunin fyrir börn yngri en 18 mánaða er mjög lítil og óttast fulltrúi Flokks fólksins að hún muni ekki skila sér til foreldra þar sem dagforeldrar borga gjöld af öllum hækkunum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að það þurfi að styðja betur við dagforeldrakerfið sem hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. desember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023 á tillögu að breytingum á reglum um niðurgreiðslu daggæslu vegna barna hjá dagforeldrum:

Hér eru gerðar nokkrar breytingar sem sagt er að séu gerðar í góðri sátt við dagforeldra. Flokkur fólksins hefur engu að síður fengið sendar nokkrar athugasemdir og ábendingar frá dagforeldrum um hvað betur mætti fara í þessum reglum. Til dæmis hefur verið bent á að of langur tími líði frá því niðurgreiðslurnar voru samþykktar, þ.e. í júní sl., og þar til þær taka gildi 1. febrúar 2024. Það er mikilvægt að gera sérstaklega vel við þessa stétt sem barnafólk í Reykjavík hefur svo mikla þörf fyrir þar sem Brúum bilið hefur ekki fylgt upphaflegri áætlun. Nú er dagforeldrum heimilt að innheimta viðbótargjald fyrir umframþjónustu sem ekki er innifalin í dvalargjaldi, s.s. fyrir sérfæði og bleyjur. Þetta er gott. Á þessu gjaldi er ekkert þak en sjá á til hvernig það þróast. Spurning er vissulega hvernig það muni ganga. Ef enginn rammi er þá er einnig hætta á að ákvarðanir um samþykki á greiðslum kunni að verða, að hluta til alla vega, geðþóttaákvarðanir. Almennt eru þessar reglur frekar flóknar og ekki auðvelt að sjá í hendi sér hvernig þær reynast. Það er mikilvægt að þær verði endurskoðaðar t.d. að ári liðnu en þá ættu helstu agnúar að vera komnir í ljós.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. desember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs þann 11. september 2023 á tillögu um reglur um stofn- og aðstöðustyrki vegna daggæslu barna í heimahúsum:

Dagforeldrar hafa látið heyra í sér hvað þeim finnst hjálpa sér mest. Sumu af því hefur ekki verið tekið mark á. Ef litið er sérstaklega á styrkinn þá ætti hann að vera greiddur frá júní eins og auglýst var í fjölmiðlum. Dagforeldrar vilja ekki að styrkurinn skerðist nema kannski ef börnin eru færri en þrjú. Því miður á þá styrkurinn að falla niður. Nóg er atvinnuóöryggið samt hjá stéttinni. Fjárhagsáætlun borgarinnar á ekki að bitna á greiðslum til foreldra. Nefna má aðrar athugasemdir, t.d. að endurskoðun vegna húnsnæðisstyrks fari fram fyrir 1. september 2024. Þá væri ár frá því að samningur átti að taka gildi. Að gjaldskrá sé ekki breytt án fyrirvara. Eins má setja inn sund og menningarkort strax. Varðandi að senda þurfi inn mánaðarlega staðfestingu ásamt undirskrift foreldris er afturför að mati dagforeldra. Frekar að taka út mánaðarlega staðfestingar eins og Kópavogur og fleiri sveitarfélög hafa gert.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 11. desember 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023 á tillögu um tímabundið aukið framlag vegna niðurgreiðslu daggæslu vegna barna hjá dagforeldrum

Flokkur fólksins fagnar mörgu í þessum breytingum enda tímabært að laga stöðuna hjá dagforeldrum og foreldrum sem nota þjónustu þeirra. Það hefur of mikið verið klipið af dagforeldrastéttinni í gegnum árin, stétt sem hefur þjónað börnum og barnafólki áratugum saman. Nú þarf leikskólakerfið virkilega á henni að halda enda stóð verkefnið Brúum bilið engan veginn undir væntingum. Einn svartasti blettur þessa og síðasta meirihluta eru svikin loforð um leikskólapláss. Andvaraleysið var algjört og í fyrsta sinn í sögunni mættu foreldrar með börn sín í Ráðhúsið til að mótmæla, og það ítrekað. Ef ekki væri fyrir dagforeldra væri vandinn grafalvarlegur. Foreldrar kæmust ekki til vinnu sinnar upp til hópa. Um tíma mátti engu muna að síðasti meirihluti gengi af dagforeldrastéttinni dauðri. Fjöldi dagforeldra var 204 hinn 1. október 2015 á meðan fjöldi dagforeldra var kominn niður í 74 hinn 1. desember síðastliðinn. Börn í vistun hjá dagforeldrum 1. október 2015 voru 689 en eru vel undir 400 í dag.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 28. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fundargerð stafræns ráðs frá 26. apríl 2023, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. maí 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. um hver sé raunveruleg staða gagnaframsetningar hjá Reykjavíkurborg nú. Hvaða lausnir eru fullkláraðar? Nefndar eru 34 lausnir og að margar séu enn í þróun. Langfæst hafa að gera með skóla- og frístund og umhverfis- og skipulagsmál. Þau svið sem annast beina þjónustu við fólkið hefðu átt að vera fremst í stafrænni vegferð borgarinnar. Byrja átti á lausnum sem einfalda þjónustu og létta á starfsfólki. Einar 15 af 34 lausnum eru dagatöl og kort en megnið er einhvers konar mælaborð, t.d. talning sundlaugagesta. Þetta geta varla talist brýnar lausnir. Það er aðeins ein lausn sem hefur að gera með þjónustu við börn og það er kostnaðargreining á sérstökum stuðningi við börn. Enn bólar ekkert á upplýsingavef yfir framlögð mál borgarfulltrúa. Fjögur ár eru síðan ákveðin upphæð var eyrnamerkt fyrir það verkefni sem var áður en fjárhagsstaða borgarinnar varð svo slæm sem raun ber vitni. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með að fyrstu árin í stafrænni vegferð var ekki kannað hvort til væru lausnir í notkun áður en farið var í nýþróun lausna. Þessi vegferð öll hefur verið með ólíkindum, fjármagni lengi vel sóað í algera vitleysu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 4. desember 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

Þessar reglur eru að mörgu leyti skondnar, sérstaklega vegna þess að í þeim er talsverð forræðishyggja, s.s. að fulltrúar í íbúaráðum skulu kynna sér dagskrá sem og öll fundargögn fyrir íbúaráðsfundi, á fundum skal formaður tryggja að fundarmenn haldi sig við þann dagskrárlið sem er til umræðu hverju sinni og skulu ráðsmenn sitja saman við fundarborð á meðan á fundi stendur. Þetta minnir nokkuð á reglur í leikskólum. Þessar verklagsreglur eiga annars að hafa þann tilgang að tryggja skipulögð og samræmd vinnubrögð og jafnræði í meðferð mála íbúaráða Reykjavíkurborgar. Færri orð eru um starfsmenn ráðanna. Gera má ráð fyrir að reglurnar hafi verið endurskoðaðar eftir leiðinlega uppgötvun sem átti sér stað á fundi íbúaráðs Laugardals þegar ráðsmenn sáu tal starfsmanna sem þeim var ekki ætlað að sjá. Á tali starfsmanna mátti sjá að þeir voru að reyna að villa um fyrir íbúaráðinu. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 1., 8., 15. og 24. nóvember 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 24. nóvember:

Öllum útboðum í akstur er hafnað en þrjú tilboð bárust sem reyndust öll vera hærri en kostnaðaráætlun Strætó. Kostnaðaráætlun virðist ekki vera raunsæ. Fulltrúi Flokks fólksins hefur auk þess efasemdir um hvort útboð sé rétta leiðin varðandi þessa þjónustu. Nú á að fara í nýtt innkaupaferli í samræmi við umræður á fundinum sem ekki eru opinberaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðinum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. desember 2023: Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 26. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins spurði um byggingarhæfar lóðir og ýmislegt því tengt. Margir vita ekki hvað átt er við með byggingarhæf lóð en dettur þó eðlilega í hug að um sé að ræða lóð sem hægt er að byggja á. Byggingarhæf lóð skv. skilgreiningu telst vera þegar götur hafa verið lagðar bundnu slitlagi og séð hefur verið fyrir rafmagni, vatni og fráveitutengingu og heimild til framkvæmda fæst að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meirihlutinn segir að sjá megi allar byggingarhæfar lóðir á kortavefsjá borgarinnar. Komið hefur í ljós að sumar lóðir þar eru nú þegar komnar í hendur lóðarhafa með útboði og ættu þ.a.l. ekki að vera á kortavefsjánni eins og þeim væri óráðstafað. Það er vægt til orða tekið að segja að margt er óskýrt í umræðunni um lóðir og lóðamál. Þessi mál hafa einfaldlega verið mjög óskýr og villandi. Á sumum lóðanna á kortavefsjánni er t.d. ennþá rekstur í fullum gangi og aðrar ekki tilbúnar því þær bíða eftir framkvæmdum í tengslum við Borgarlínu. Þessar skýringar þurfa að liggja fyrir og vera aðgengilegar en ekki aðeins þegar kallað er sérstaklega eftir þeim.