Borgarráð 14. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við Færslu Hringbrautar vegna smáhýsa:

Fulltrúi Flokks fólksins veit að það hefur verið mjög erfitt að finna smáhýsunum stað í borgarlandinu og er það áhyggjuefni. Hér er verið að búa til svæði fyrir smáhýsi á túni sem borgin á og er nú ekki notað í annað. Þetta virðist vera góð breyting á nýtingu og ekki er betur séð en að þetta sé góður staður fyrir smáhýsin. Svona smáhýsi má auðvitað fjarlægja með stuttum fyrirvara ef þess þarf nauðsynlega, t.d. ef Vegagerðin telur sig þurfa meiri rými fyrir vegaframkvæmdir. Sömuleiðis má fjarlægja fyrirhugaðar manir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. apríl 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að þarna er verið að nema nýtt land og hvort borgarbúar vilji fórna þessu svæði undir hótel án umræðu. Borgin þarf að mynda sér almenna stefnu um hvernig framtíðarskipulag verður. Svona svæði eru takmörkuð auðlind. Sjávarlóðir sem snúa móti suðvestri eru ekki óendanlegar. Á öllum slíkum svæðum hefur einhvern tíma verið byggð og iðulega má þar rekja mannvistarþróun.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. maí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki endurskoðaðar úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla:

Bókun Flokks fólksins við endurskoðun á úthlutunarreglum styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Mikilvægt er að hlúa að rafvæðingu bílaflotans. En hér þarf gæta jafnræðis. Það er mat Flokks fólksins að í styrkveitingarkerfinu felist mismunun. Sumir fá allt að 67% af kostnaði en aðrir ekkert. Svo má auðvitað nefna í þessu tilfelli hið margumtalaða metan frá sorphaugunum sem er líka innlendur orkugjafi en alls ekki er ýtt undir notkun þess. Því er frekar brennt en að hvetja til það verði notað á bíla. En hvað varðar þessar úthlutunarreglur eru þær almennt óþarflega stífar en verst er að þær mismuna fólki.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu sem samþykkt var á fundi velferðarráðs þann 6. maí sl., um eingreiðslur og tilslakanir á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg vegna COVID-19 faraldursins, verði samþykkt:

Lagt er til að aukið verði við fjárhagsaðstoð og tilslakanir á skilyrðum hennar vegna COVID-19 og að forsjáraðili fái eingreiðslu með hverju barni sem nemur 20.000 kr tímabundið. Það er þó fullljóst að 20.000 króna eingreiðsla dugar skammt. Ef við eigum að koma til móts við fátækasta hóp borgarinnar dugir ekki að tjalda til einnar nætur. Flokkur fólksins vill sjá fjárhagsaðstoð Reykjavíkur hækka varanlega um 20.000 krónur. Ef það þykir ómögulegt þá þarf að minnsta kosti að framlengja eingreiðsluúrræðið þannig að fólk fái 20.000 króna viðbót við fjárhagsaðstoð í 3 mánuði. Staða þeirra verst settu hefur lengi verið slæm, löngu fyrir COVID-19. Nú skiptir máli að slaka einnig á stífum reglum og sýna lipurð og sveigjanleika. Hjálpa þarf öllum þeim sem eru neyð en ekki hunsa þá eða vísa annað. Falli viðkomandi umsækjandi ekki nákvæmlega innan ramma tilslakana þá þarf að finna aðra leið eða gera undantekningar eða endurskoða ramma og rýmka skilyrði. Velferðaryfirvöld þurfa að geta litið fram hjá fullt af hlutum í þessum aðstæðum enda er aldrei hægt að setja niðurnjörvaðar reglur og skilyrði þegar þróun aðstæðna eru eins óljósar og raun ber vitni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að borgarráð samþykki hjálagðar trúnaðarmerktar viljayfirlýsingar um rafvæðingu hafna með landtengingum:

Nú liggur fyrir skýrsla starfshóps um rafvæðingu hafna og landtengingar í höfnum Faxaflóahafnar. Það er alveg ljóst að þetta er stórframkvæmd, sem mun hafa jákvæð áhrif á umhverfið og líklega skila hagnaði eftir áraraðir. En nú fækkar ferðum skemmtiferðaskipa sem lengir þann tíma þar til framkvæmdin borgar sig. En flutningaskipum fækkar ekki og þau koma reglulega og því er skynsamlegt að leggja áherslu á þjónustu við þau.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að borgarráð samþykki undirritun að nýrri samþykkt Svanna lánatryggingasjóðs kvenna um áframhaldandi rekstur sjóðsins:

Meirihlutinn leggur til að sjóðurinn starfi áfram næstu fjögur ár. Þetta er sjóður sem ætlaður er til að styðja konur til nýsköpunar og þátttöku í atvinnulífinu með því að veita ábyrgðir á lánum. Þetta er hið besta mál en Flokkur fólksins vill undirstrika að hann vill að öllum þeim sé hjálpað sem hafa nýsköpunarhugmyndir og vilja koma henni í framkvæmd til að taka þátt í samfélaginu en hafa átt erfitt uppdráttar vegna þessara fordæmalausu aðstæðna í þjóðfélaginu. Allir eiga rétt á að geta tekið þátt í atvinnulífinu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Félagsbústaða, dags. 7. maí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðstoð Félagsbústaða við einstaklinga í vanda, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Fram kemur m.a. að Félagsbústaðir sinna ekki félagsþjónustu en segjast þó veita leigjendum sínum umtalsvert meiri þjónustu og sveigjanleika við úrlausn hinna ýmsu mála en almennt þekkist hjá leigufélögum hérlendis. Flokkur fólksins vill byrja á að segja að leigjendur gera ekki alltaf skýran greinarmun á hvað er velferðarsviðs nákvæmlega og hvað er ábyrgð Félagsbústaða enda fá fæstir sérstaka fræðslu í þeim hlutverkamun. Leigjendur vita þó að komist þeir í skuld er glíman við Mótus í boði Félagsbústaða. Önnur leigufélög viðhafa ekki þennan háttinn á, að minnsta kosti ekki öll. Félagsbústaðir eru hluti af velferðarþjónustu borgarinnar og ef vel ætti að vera ættu Félagsbústaðir og velferðarsvið að vinna mun þéttar saman í þágu þjónustuþega. Helstu kvartanir sem fulltrúi Flokks fólksins fær eru fyrst og fremst vegna Félagsbústaða, nr. 1 að viðhaldi sé illa sinnt og ef því er sinnt þá er það seint og um síðir og þá oft af vanefnum og nr. 2. að allar skuldir smáar og stórar eru sendar í lögfræðinnheimtu. Þetta þykir fólki sárt. Athuga ber að Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingafélag. Þessi myglu- og rakamál eru sífellt að koma upp og leigjendur sérstaklega viðkvæmir hópar, fólk með undirliggjandi sjúkdóma hefur orðið fárveikt.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Samkvæmt könnun meðal leigjenda Félagsbústaða eru um 79% þeirra frekar eða mjög ánægðir með að leigja hjá félaginu og þá telja 78% svarenda að húsnæðið sem þeir leigja af Félagsbústöðum veiti þeim öruggt umhverfi. Það er því skrítin fullyrðing að halda því fram að íbúar viti ekki hver haldi utan um húsnæðið sem það leigir Félagsbústaðir gera árlega framkvæmdaáætlun varðandi viðhald fyrir komandi ár þar sem viðhaldi er forgangsraðað eins og kostur er og við kvörtunum er brugðist. Leigjendur sem hafa orðið fyrir atvinnumissi eða tekjufalli vegna áhrifa COVID-19 faraldursins geta sótt um greiðsludreifingu í allt að 12 mánuði vaxtalaust. Það er því ekki rétt að allar skuldir séu sendar í innheimtu eða að viðhaldi sé ekki sinnt.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er mikilvægt þegar gerð er könnun eins og þessa að hún sé gerð af hlutlausum aðila. Meirihlutinn veit eins og aðrir að myglu- og rakavandi íbúða Félagsbústaða hefur verið stórt vandamál svo hér er ekki um neina fullyrðingar að ræða. Með svona tali meirihlutans er gert lítið úr kvörtunum leigjenda. Greiðsludreifing dugar skammt þeim sem eru nú án vinnu sem dæmi og vill Flokkur fólksins freista þess að reyna að fá meirihlutann til að skilja það.

 

Bókun Flokks fólksins við svari SORPU bs., dags. 8. maí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað við framleiðslu metans, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020:

Í svari frá framkvæmdastjóra SORPU segir að árið 2019 fóru 1,694 milljón rúmmetrar metans á bálið. Þetta svarar til tæplegra 1,9 milljón lítra af almennu bensíni. Fyrir það má aka fjölskyldubílnum ríflega 31 milljón kílómetra. En nú er fyrirhugað að fjárfesta í stærri brennara og tvöfalda bálið. Það styttist í að brennt verði eldsneyti sem dygði í 60-80 milljón kílómetra akstur. Fáir efast um að stefnt sé að því að koma þessu á markað enda annað vart í boði en það hefur bara staðið á sinnuleysi stjórnar SORPU. Öllum fyrirspurnum frá Flokki fólksins hefur verið svarað með útúrsnúningum eða hamrað á einhverjum ómöguleika, samkeppnishamlandi aðgerðum, samráðsleysi svo sem við Strætó sem gæti nýtt metan sem orkugjafa. Stjórnin hefur sýnt áberandi vanhæfni á þessu sviði. Í bókum frá fulltrúa meirihluta borgarstjórnar stóð að kostnaður væri við yfirbyggingu við að safna metani, geyma það og flytja metangas frá söfnunarstað að brennslustað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vildi vita hver sá kostnaður væri. Einnig var spurt um samkeppnisþáttinn og hvort þau mál hefðu verið könnuð. Þessu er ekki svarað, nema að unnið sé að málinu. Er hér eitthvað vanhugsað? En borgarfulltrúi Flokks fólksins fékk á örskömmum tíma svar við þessu frá Samkeppniseftirlitinu.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fyrirspurnum Flokks fólksins hefur verið svarað samviskusamlega og vandlega af framkvæmdastjórn SORPU bs. Það er af og frá að núverandi stjórn SORPU bs. sé sinnulaus enda hefur hún tekið rekstur og starfsemi félagsins föstum tökum og komið ýmsum langþráðum málum í skýran og fastan farveg. Á engan hátt hefur öðru verið haldið fram um samkeppnisstöðu SORPU bs. á eldsneytismarkaði en það sem samræmist samkeppnislögum og tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Allt sem hefur verið sagt og gert er því í samræmi við það og leitt ef áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins velji að misskilja það. Því skal haldið til haga að á meðan gas- og jarðgerðarstöðin er ekki komin í notkun er mikilvægt að brenna metan sem ekki er hægt að nýta. Starfsleyfi SORPU bs. er nefnilega háð þeim skilyrðum að brenna umfram gas sem verður til því lofttegundin er slæm gróðurhúsalofttegund og 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Best væri auðvitað að geta nýtt allt það metan sem verður til og hefur verið unnið að því sleitulaust með uppbyggingu gas- og jarðgerðarstöðvar og nú markvissri vinnu við það að nýta það sem allra best sem víðast.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins fagnar því að aðrir, almenningur og fleiri eru nú farnir að sjá hvernig hægt er að nota metan og gera sér grein fyrir þeirri óráðsíu sem er í stjórn SORPU að hafa ekki getað tekið skref í átt að því að nota metanið fyrir löngu. Betra er að selja metan á kostnaðarverði en að brenna því á báli. Af hverju finnst þessum meirihluta betra að sóa innlendum orkugjafa en að leyfa fólki að nota hann? Stjórn verður að hafa frumkvæði að því að laga hluti sem þarf að laga til að hægt sé að gera það sem þarf að gera. Svör eru allt og oft á þá leið að stjórn SORPU geti bara ekkert gert í málinu þar sem starfsleyfi er háð skilyrðum o.s.frv. Flokkur fólksins hvetur stjórn til að drífa sig í að svara fyrirspurnum Flokks fólksins sem legið hafa óhreyfðar á borði stjórnar í margar vikur.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. maí 2020:

Miðbæjarmálin voru á dagskrá fundar skipulags- og samgönguráðs og ekki í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili. Ákveðið var að fresta tillögu meirihlutans um eina viku en hún var á þá leið að stækka ætti göngugötusvæðið enn meira. Þetta mál er í raun einstakt fyrir nokkrar sakir. Fulltrúa Flokks fólksins fannst þetta vera prófmál þessa meirihluta á kosningaloforð þeirra sem var m.a. að virða lýðræði, gegnsæi og hlusta á borgarbúa. Á þessu prófi er meirihlutinn nú þegar kolfallinn. Ráðist hefur verið í breytingar sem fljótlega komu í ljós að voru ekki í þágu fjölda fólks og þ.m.t. fólks sem hefur persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Margt hefur verið reynt til að ná eyrum meirihlutans, undirskriftalistar, hróp, skrif, umræður og viðtöl. Allt hunsað og keyrt áfram af hörku. Þegar viðskipti minnkuðu flúðu tugir eigendur verslana svæðið. En það breytti engu fyrir þennan meirihluta, áfram skyldi haldið með það sem „var ákveðið og allir áttu að vita að hafi verið ákveðið fyrir löngu” eins og þau segja í meirihlutanum þegar þau eru krafin um rök fyrir framgöngu sinni. En framkoma eins og þessi við borgarbúa sýnir vanvirðingu. Flestir sjá að vel er hægt að bíða og endurmeta stöðuna. Það skaðar ekki.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Það er, niðurgreiðslan miðist við mánuðinn sem barn er níu mánaða, sex mánaða hjá einstæðu foreldri, en ekki afmælisdag barnsins. Fordæmi eru fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Foreldrar þeirra barna sem fædd er seint og jafnvel síðastu daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fæddir fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar hjá langflestum foreldrum. R20050146

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvernig gangi að leiðrétta gjöld vegna niðurfellingar eða skerðingar þjónustu leik- og grunnskóla og frístundaheimilis í COVID-19 aðstæðunum.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort Reykjavík hafi nú þegar leiðrétt gjöld vegna niðurfellingu eða skerðingar þjónustu leik- og grunnskóla og frístundaheimilis í COVID-19 aðstæðunum. Flokkur fólksins lagði til í upphafi faraldursins 26. mars að í þeim tilvikum sem börn geta ekki nýtt sér þjónustuna vegna sóttkvíar eða veikinda verða gjöld leiðrétt hlutfallslega. Vitað er að önnur sveitarfélög hafa nú þegar gert þessar leiðréttingar, en spurt er hvernig það gengur hjá Reykjavík? Er þessi ákvörðun komin í fulla framkvæmt? Ástæða spurningarinnar er að einhverjir foreldrar hafa sagt að þau hafi ekki fengið leiðréttinguna. Það á einnig við um sjálfstætt starfandi leikskóla sem hafa ekki allir fengið skýr svör. R20050149Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að verklagi verði breytt í nefndum og ráðum sem varðar meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta með það að markmiði að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans til málamynda svo að meirihlutinn geti lagt sambærilegar tillögur fram í eigin nafni:

Flokkur fólksins leggur til að verklagi verði breytt í nefndum og ráðum sem varðar meðferð og afgreiðslu tillagna frá minnihluta með það að markmiði að koma í veg fyrir höfnun tillagna minnihlutans til málamynda svo að meirihlutinn geti lagt sambærilegar tillögur fram í eigin nafni. Hér er dæmi til skýringar: Á fundi skóla- og frístundaráðs var lögð fram tillaga Flokks fólksins um „að farið verði kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og hver viðbrögð skólanna eru, komi kvörtun um einelti. Markmiðið er að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu. Lagt er til að athugað verði hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri og aðferðir til að geta tekið á móti og unnið með eineltismál með faglegum og skilvirkum hætti.“ Á fundinum var lögð fram breytingatillaga meirihlutans, nákvæmlega eins tillaga og Flokks fólksins en breytingartillagan var samþykkt. Það hefði verið eðlilegt að samþykkja tillögu Flokks fólksins og ef meirihlutinn vildi gera smávægilegar breytingar hefði mátt útfæra það í framhaldinu. Það eru óskiljanleg vinnubrögð að hafna tillögu minnihlutaflokks en koma með nákvæmlega eins breytingartillögu frá meirihlutanum og samþykkja hana. Ekki er hægt að sjá hvaða rök liggja að baki, önnur en pólitískir hagsmunir meirihlutans.

Greinargerð
Hér má sjá þessar tvær tillögur og það sem upp úr stendur er að tillaga Flokks fólksins er nú orðin tillaga meirihlutans.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði frá 12. september 2019 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:
Flokkur fólksins leggur til að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna a) hvernig skólar sinna forvörnum og b) hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið með kerfisbundinni yfirferð sem þessari er einnig að samræma hvorutveggja eftir því sem þurfa þykir þannig að allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis bæði hvað varðar forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnsluferli. Flokkur fólksins leggur til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri tiltæk og aðferðir, bæði almenn og sértæk til að geta tekið á móti og unnið með kvörtunarmál um einelti af öllum stærðargráðum með faglegum og skilvirkum hætti.
Lagt er til að kannað verði sérstaklega: Er tilkynningareyðublað á heimasíðu? Er viðbragðsáætlun á heimasíðu? Er lýsing á úrvinnslu ferli kvörtunarmála aðgengileg á heimasíðu? Er upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans? Er skýrt á heimasíðu hverjir taka við eineltiskvörtunum?

Breytingartillaga skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð leggur til að farið verði kerfisbundið yfir ferla grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna hvernig skólar sinna forvörnum og hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið er að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis varðandi forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnslu. Lagt er til að athugað verði hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri og aðferðir til að geta tekið á móti og unnið með eineltismál með faglegum og skilvirkum hætti.