Borgarráð 27. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals:

Flokki fólksins finnst leitt ef kjörnir fulltrúar meirihlutans sem hér er vísað til séu með hnýtingar í fulltrúa íbúaráða og vinnubrögð þeirra. Íbúaráðin eru sjálfstæð og geta bókað um menn og málefni eins og þau óska og telja að þurfi. Í þessari bókun íbúaráðsins er verið að vísa í opinber ummæli sem tveir kjörnir fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um íbúðahverfi sem þeim þótti ekki vel heppnuð og þar sem væri alger einangrun eins og sagt var orðrétt. Kjörnir fulltrúar sögðu jafnframt að í tveimur hverfum sem hinir kjörnu fulltrúar vísuðu til „keyrði helst einn á hverjum bíl og fólk byggi í risastórum einbýlishúsum – laus við félagsleg samskipti“. Þetta eru niðrandi ummæli og tóku íbúar þetta nærri sér og þóttu særandi. Hér lýsa kjörnir fulltrúar ótrúlega neikvæðu viðhorfi í garð hverfa og íbúa þess. Þetta er að sjálfsögðu ekki sæmandi kjörnum fulltrúum um að viðhafa slík ummæli opinberlega.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs liðir 2 og 17, fyrri liður er bókun við gerð hundargerðis í vesturbæ en sú síðari vegna íbúakosningar deiliskipulags Stekkjabakka:

Ekki hefur verið haft samráð við hundaeigendur eða Félag ábyrgra hundaeigenda við hönnun þessa hundagerðis. Ekki er heldur neinn fulltrúi hundaeigenda í stýrihópi sem endurskoðar reglur um dýrahald. Hönnun þessa hundagerðis sem hér um ræðir hefur marga galla. Það er of lítið og fullnægir því ekki hreyfiþörf hunda, girðing er of lág og öryggisþættir ófullnægjandi eins og hlið er ekki tvöfalt og bil milli rimla er of breitt og girðing nær ekki vel niður ofan í jarðveginn.

Liður 7 um deiliskipulag Stekkjabakka
Þessi úrskurður er stefnumarkandi fyrir íbúa Reykjavíkur. Ef íbúar eiga ekki lögvarða hagsmuni og geta ekki fengið úrskurð um hvort deiliskipulagið við Stekkjarbakka sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag, eins og haldið er fram, þá sér Flokkur fólksins lítinn tilgang með þeim lögum og reglum sem um þetta gilda. Borgaryfirvöld geta að því er virðist farið sínu fram að geðþótta. Fram kemur að málinu er vísað frá án þess að Reykjavíkurborg geri kröfu um frávísun. Í stað þess að vísa málinu frá með þessum hætti, hefði úrskurðarnefndin átt að taka málið fyrir og kveða upp úrskurð þar sem efnislega væri tekið á kröfugerð íbúanna, sérstaklega að því er varðar hvort deiliskipulagið sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag. Flokkur fólksins harmar málsmeðferðina sem þarna er viðhöfð hjá úrskurðarnefndinni gagnvart íbúunum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Styrkumsóknir til borgarráðs

Styrkumsóknir, árleg úthlutun var samþykkt í borgarráði. Um er að ræða styrkjapott um 25 milljónir. Verið er að styrkja mörg þörf og góð málefni. Sum verkefni sem verið er að styrkja hafa þó einungis skemmtanagildi. Flokkur fólksins hefur þá skoðun að kannski síst ætti að nota styrkjapottinn til að styrkja verkefni sem hafa einungis skemmtanagildi.

 

Bókun Flokks fólksins vegna erindis Sorpu bs. ósk um samþykki fyrir tímabundna lántöku:

Þær ógöngur sem stjórn SORPU hefur komið fyrirtækinu í eru óásættanlegar. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi SORPU og mun bera hitann og þungann af greiðslu þess láns sem nú er sótt um samþykki fyrir sem og fyrri lánum. Það blasir við að til að fyrirtækið haldist á floti mun verða seilst í vasa borgarbúa og sorphirðugjald hækkað. Talað eru um að selja metan en metan ætti helst að gefa til að hvetja til orkuskipta. Stjórn situr og er allt um kring þrátt fyrir að hafa sýnt vítavert andvaraleysi. Stjórn og fjármálastjóra rann ekki í grun að Sorpa væri á leið á hvínandi kúpuna. Allt er framkvæmdarstjóranum að kenna en þó sagt að sé ekkert saknæmt. Hefði stjórn fylgst grannt með þá hefði ekkert af þessu komið þeim í opna skjöldu í það minnsta. Nú er beðið um 600 milljóna skammtíma lán til viðbótar við 500 millj. sem þegar er heimild fyrir. Hér sést óreiðan í hnotskurn sem er afleiðing af eindæma lélegri stjórnun. Sumir þeirra sem boðið er að koma að borðinu nú til að skoða hvað gerðist og hvað verður gert til að bjarga eru vanhæfir. Hér má t.d. nefna stjórnarformann Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóra.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hvort hundaeftirlitið borgi leigu fyrir aðstöðu fyrir hundageymslur:

Hundaleyfisgjöldin fara í að standa undir rekstri hundaeftirlitsins eins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tekur fram. En af hverju er rekstrarkostnaður hundaeftirlitsins eins hár og raun ber vitni? Stærsti hluti rekstrarkostnaðar fer í launakostnað starfsmanna, sem sagt laun fyrir tvo hundaeftirlitsmenn í fullu starfi og ritara í fullu starfi og 30% af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað margfalt undanfarin ár, en starfsgildin breytast ekkert í samræmi við það. Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að eltast við einn lausan hund á viku? Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að sinna hundi í geymslu einn sólarhring í mánuði? Þarf ritara í fullu starfi til að taka á móti einni kvörtun á viku og einni nýskráningu á viku? Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur getur ekki sýnt fram á að þessir starfsmenn sinni hundaeftirliti í fullu starfi, þá er bókhald hundaeftirlitsins ekkert annað en leikur að tölum, og gera má ráð fyrir að þessir starfsmenn sinni öðrum verkefnum fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur meðfram verkefnum hundaeftirlits. Það stenst ekki lög. Ef starfsemi hundaeftirlits felst öðrum verkefnum en það sem talið er upp hér að ofan, hvaða verkefni eru það þá og hversu mikill tími fer í þau verkefni? Öll verkefni tengd dýravernd fóru yfir til MAST 1.janúar 2014, en starfshlutfall breyttist ekkert hjá hundaeftirlitinu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um samstarf Reykjavíkurborgar við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna:

Flokkur fólksins spurði um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Í svari kemur fram að ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert en starfsmenn nokkurra heilsugæslustöðva hafa þá vinnureglu að hafa, með samþykki foreldra, samband við leikskóla eftir heimsókn barns í þroskamat. Sagt er að einhverjar heilsugæslustöðvar hafa samband ef grunur leikur á um að barn glími við þroskavanda en aðrar ekki. Það hljóta allir að sjá að svona hipsum haps vinnubrögð eru ekki af hinu góða. Skólaráð og velferðarráð eftir atvikum þurfa að eiga frumkvæði að sambandi við Heilsugæsluna og koma á formlegum samstarfssamning. Þegar um er að ræða óreiðukennd vinnubrögð er auðvelt að sjá fyrir sér að mikilvægar upplýsingar um barn sem nauðsynlegar eru fyrir skólann að fá til að geta stutt við bakið á barninu berist einfaldlega ekki skólanum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af samþykki foreldra fyrir samstarfi þessara tveggja stofnana enda vilja foreldrar allt það besta fyrir börn sín. Berist ekki niðurstöður úr skimun heilsugæslu þar sem fram kemur vísbendingar um vanda til skólans segir það sig sjálft að minni líkur eru á að barnið fái snemmtæka sérhæfða einstaklingsþjónustu. Flokkur fólksins hvetur skóla- og frístundarráð til að taka af skarið og kalla eftir formlegu samtali og samstarfi við heilsugæslu.