Borgarráð 15. ágúst 2019

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um styttingu vinnuvikunnar í heimaþjónustu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019.
Einnig er lögð fram umsögn stýrihóps um styttingu vinnudags án launaskerðingar, ódags. R14050127
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessari tillögu hefur verið vísað frá. Að stytta vinnuvikuna hjá starfsfólki í heimaþjónustu er frábært tækifæri til að laða fólk að í þessi störf en í þessum geira hefur verið gríðarleg mannekla árum saman sem ekkert virðist ráðast við. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Það loforð sem gefið var fyrir rúmu ári þegar meirihlutasáttmálinn var kynntur um að taka á þessum málum fyrir alvöru hefur því ekki verið efnt.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sveigjanleg vinnulok, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019.
Einnig er lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags. R19040145
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er afar leitt að borgarmeirihlutinn vísi þessari tillögu frá. Núna er sveigjanleiki afar takmarkaður og skilyrtur við alls kyns kvaðir. Fólk sem náð hefur sjötugsaldri er ekki gamalt fólk í dag hvorki í óeiginlegum né eiginlegum skilningi og fyrir því eru margar ástæður. Það ætti að vera markmið borgarinnar leynt og ljóst að halda í starfsfólk sem allra lengst enda gríðarlegur mannauður fólginn í þeim sem komin eru með áratuga reynslu. „Endurráðning í hálft ár, tvö ár í viðbót á tímakaupi“ er lítið fyrir starfsmann í fullu fjöri sem vill fá að sinna starfi sínu áfram. Hvað með að taka bara „þakið“ í burtu, leyfa fólki að vera eins lengi og það vill og getur. Leyfa fólki að stýra sínu lífi sjálft en ekki vera stýrt af borgarkerfinu. Er ekki tími til að við förum að hugsa út fyrir boxið í þessum efnum? Losum um höft, öll þessi skilyrði og kvaðir! Sem dæmi þarf starfsmaður að hafa unnið samfellt hjá borginni í 10 ár til að minnkun á vinnuskyldu feli ekki í sér skerðingar. Hvað með þann sem hefur starfað í 12 ár hjá borginni en ekki samfellt?

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar um kostnað við aðstoðarmann borgarstjóra

Svarið má sjá hér

Í svari segir einungis að aðstoðarmaður sinnir margvíslegum verkefnum fyrir borgarstjóra. Aðstoðarmaður er með 1,3 m.kr. á mánuði sem hlýtur að þýða að hér er um sérfræðivinnu að ræða. Starf aðstoðarmanna borgarstjóra hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Spyrja má hvort þetta starf sé nauðsynlegt. Í fyrsta lagi er spurning hvort borgarstjóri sjálfur sé ekki fullfær um að annast mörg af þessum verkefnum sjálfur eða fela skrifstofu borgarstjóra eitthvað af þessum verkefnum en þar starfa fjöldi sérfræðinga. Aðstoðarmaður borgarstjóra ferðast mikið með borgarstjóra. Ferðakostnaður aðstoðarmanns 2018 er 712 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá að fetta fingur út í þetta og með því leggja áherslu á að nota mætti þetta fé sem embættið kostar í beina þágu við borgarbúa en víða í borginni er þjónustu ábótavant. Hér er ekki um neitt persónulegt að ræða að sjálfsögðu og vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að borgarstjóri og aðstoðarmaður hans taki þessari ábendingu vel.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Er hafinn undirbúningur innleiðingar nýrrar löggjafar sem taka á gildi um næstu áramót og sem kveða á um að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar? R19070069

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráðhússins a.m.k. tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sér ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum, td. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur, t.d. ef eitthvað málefni brenni á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gagnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa. Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartana um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg málefni stór sem smá.

Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fyrirspurn vegna fjölda skeyta sem borgarfulltrúa Flokks fólksins eins og aðrir borgarfulltrúar hafa fengið send og varðar meint brot skólastjóra Kelduskóla að vísa ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir og andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi í Staðarhverfi. Flest skeytin hafa eftirfarandi innihald: „Ég, x og er íbúi í Staðarhverfi í Grafarvogi óska eftir því að borgarstjórn taki til umfjöllunar mögulegt brot skólastjóra Kelduskóla á 8 gr. laga númer 91/2008 þegar hún vísaði ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir. Ykkur hafa þegar verið sendar allar upplýsingar og gögn varðandi þetta mál“. Margir hafa einnig bent á í þessum skeytum að deiliskipulag hverfisins beri að virða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekki séð nein viðbrögð við öllum þessum skeytum frá meirihluta borgarinnar í skóla- og frístundaráði og spyr hverju það sæti? R19080068

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúum hefur borist fjölda skeyta frá foreldrum sem lýsa andstöðu sinni á „breytingum á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi“ sem standa fyrir dyrum í Staðahverfi í samræmi við gildandi deiliskipulag og gildandi aðalskipulag hverfisins. Meðal raka er bent á að núverandi strætósamgöngur úr Staðahverfi yfir í Víkurhverfi eru ekki beinar og ekki allir árgangar munu eiga rétt á strætómiðum eða skólaakstri og munu börn því þurfa að ganga í skólann um kílómetraleið yfir 2 miklar umferðargötur þar sem ekki eru merktar gangbrautir og ekki umferðarljós. Fram hefur komið hjá íbúum að eftirspurn eftir húsnæði í hverfinu er strax byrjuð að minnka eftir að þessar fyrirhuguðu aðgerðir er varðar skólamálin spurðust út. Íbúar eru afar ósáttir og benda á að með því að nýta bæði húsnæði skólans betur væri hægt að laga vandamál sem staðið hafa árum saman vegna aðstöðuleysi frístundar í Kelduskóla Vík. Flokkur fólksins spyr hvað hyggst Skóla- og frístundaráð gera í þessu máli og hvernig ætlar borgin að finna lausn sem íbúar/foreldrar geta sætt sig við? R19080068

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fyrirspurn Flokks fólksins um búsetuúrræði fyrir fatlaða einstaklinga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 57 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í flokki 1, 45 eftir sértæku húsnæði í flokki 2 og 43 eftir sértæku húsnæði í flokki 3. Til upprifjunar þá er flokkur 3 þeir sem þurfa mikla þjónustu og flokkur 2 minni og flokkur 1 minnst af þeim sem þurfa sértækt húsnæðisúrræði. Samtals eru þetta 145 auk þess eru 35 á bið eftir húsnæði með stuðningi en það þýðir að viðkomandi fær staka íbúð en teymi starfsfólks sér um að veita þjónustu heim. Ef litið er á listann fyrir ca. 5 árum kemur í ljós að hann hefur ekkert styðst. Þetta er stór hópur einstaklinga og hafa margir beðið lengi, jafnvel nokkur ár. Flokkur fólksins spyr: Hver er ástæða þess að fólk með fötlun í Reykjavík þarf að bíða mánuðum og árum saman eftir búsetuúrræði? Er það skortur á húsnæði? Skortur á starfsfólki? Hvað er verið að byggja fyrir marga? Er á dagskrá að kaupa húsnæði sem þegar er til staðar? Er til nýleg þarfagreining meðal þeirra sem þurfa sérstök húsnæðisúrræði? R19080069

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er í sambandi við all marga foreldra fatlaðra einstaklinga sem segjast vera úrvinda vegna langrar biða eftir sérstöku búsetuúrræði. Fullorðinn einstaklingar með fötlun eru heima hjá foreldrum sínum í sumum tilfellum þar sem foreldrar geta engan veginn sinnt þeim ýmist vegna fötlunar þeirra eða veikinda foreldrana. Hér er verið að brjóta á rétti fatlaðs einstaklings sem á rétt á viðeigandi þjónustu frá borginni. Á sumum heimilum eru síðan yngri systkini sem farin eru að sýna streitu- og vanlíðunareinkenni vegna aðstæðna. Þetta fólk hefur verið að banka upp á svo mánuðum og jafnvel árum skiptir í þeirri von að fá sérstakt búsetuúrræði fyrir fullorðin fötluð börn sín. Hvað eiga þessir foreldrar að gera í þessari stöðu? Borgin hefur nýlega keypt hús á Hringbraut fyrir fatlaða einstaklinga og því bera að fagna. En betur má ef duga skal. Það vantar búsetuúrræði fyrir 180 manns. Þessi málaflokkur er í lamasessi og ef litið er til síðustu ára hefur hann verið meðal þeirra sem stillt er upp aftast í forgangsröðuninni. R19080069

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill reyna að skilja þessa viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar betur sem koma reglulega inn í borgarráð. Fyrir fólkið í borginni sem vill e.t.v. rýna í þetta væri gott að með viðaukum fylgdi ítarlegri skýringar. Í þessum viðaukum sem lagðir eru fram á fundi borgarráðs 15. ágúst er óskað nánari skýringa. Til dæmis er talað um viðauka vegna samgöngusamninga jan. til jún. 2019. Ekki kemur fram hvað þetta er nákvæmlega, ferðir? Ef svo er af hverju eru þær í viðauka? Hvaða forsendur breyttust þegar gerð var áætlun um þennan lið? Í lið 3, er fjallað um námsgögn sem virðast hafa verið vanáætluð, er verið að tala um að bæta þurfi við 40 millj. vegna vanáætlunar? Þetta hefði mátt koma skýrar fram. Í 8 er talað um velferðartæknismiðju. Hvað er velferðartæknismiðja? Í 9 er talað um að lækka eigi fjárheimildir vegna frestunar á úrræði fyrir tvígreindar konur. Af hverju var þessu úrræði frestað og hvenær er þá reiknað með að því verði komið á? Í lokaliðnum er talað um að stjórnendur munu raðast í lægri flokk. Eru þessi aðilar að lækka í launum? R19010200

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Tillaga Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn skilgreini ábyrgð sína gagnvart öllu því fólki sem hafa treyst á að fá mat hjá frjálsum félagasamtökum. Lagt er til að borgarmeirihlutinn upplýsi um hvernig hún ætlar að axla þessa ábyrgð? Auk þess er lagt til að öllum þeim sem hafa treyst á matargjafir frá hjálparstofnunum sé boðið til fundar við félagsráðgjafa sem leggur mat á þörfina og myndi í framhaldi láta fólk fá matarkort (t.d. Bónuskort) til að kaupa sér mat. Markmiðið er að viðkomandi þurfi ekki að treysta á frjáls félagasamtök til að eiga til hnífs og skeiðar enda er það ekki lögbundin ábyrgð þeirra. Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki á peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu. Það er eitthvað að í samfélagi sem þarf að treysta á frjáls félagasamtök til að gefa fátæku fólki að borða. Staða hagkerfisins er góð og borgin segist skila hagnaði en engu að síður er á fjórða þúsund manns sem verður að treysta á frjáls félagasamtök til að fá grunnþörfum sínum fullnægt eins og að fá að borða. Hver er eiginlega ábyrgð stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu?

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um greiðslu í hússjóð hjá Félagsbústöðum

Svarið má sjá hér

Óskað var eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu.
Það kemur á óvart að verið sé að rukka leigjendur fyrir rafmagn og hita og þrif og annað sem þarna er nefnt. Eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá leigjendum eru þeir sjálfir að greiða reikninga fyrir þrif og rafmagn sem dæmi. Spurningarmerki er sett við snjómokstur, snjómokstur og fleira af þessu sem nefnt er kannast ekki allir leigjendur við. Hvað varðar öryggishnappinn ætti hann að vera valkvæður. Þetta svar í heild sinni vekur því upp margar spurningar og vangaveltur sem dæmi hvort ekki sé verið að seilast helst til of mikið í vasa leigjenda með öllum þessum gjöldum sem þeir eru sjálfir að hluta til að greiða beint eins og t.d. rafmagn og þrif. Þegar allt er talið, hússjóðsgjöld og þjónustugjöld ofan á leigu íbúða sem eru í afar misgóðu ástandi er hér orðið um ansi háar upphæðir að ræða. Nokkrar áhyggjur eru af málum hjá Félagsbústöðum. Leigjendur eru viðkvæmur hópur og margir kvarta ekki, hafa ekki vanist að kvarta og aðrir þora hreinlega ekki að kvarta

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Skóla- og frístundarráðs frá 30. júlí, liður 2 um kynningu á stöðu framkvæmda við grunnskóla Reykjavíkurborgar 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna langtíma viðhaldsleysis og myglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í Borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Falin gögn vekja tortryggni t.d. hvort ástandið kunni að vera verra en talið er?

Bókun  Flokks fólksins við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 3. júlí 2019  undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar

Undir 1. lið. Meðal tillagna stýrihóps um aðgerðaráætlun í úrgangsmálum er að hafin verði söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi til jarðgerða í tilraunaskyni, að flokkað verði gler og málmar og að hefja átak flokkunar á pappír til endurvinnslu. Þessu ber að fagna en hér er minnt á tillögu Flokks fólksins um að Sorpa taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Þetta hefði átt að vera löngu búið að gera og í raun hefði Reykjavík átt að vera leiðandi með slíkt kerfi sem stærsta sveitarfélag landsins. Nú hafa mörg sveitarfélög tekið þetta upp og má segja að Reykjavík sé að verða gamaldags þegar kemur að flokkun sorps. Þriggja flokka sorpflokkunarkerfi er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu. Flokkur fólksins hvetur umhverfis- og heilbrigðisráð til að styðja við þessa tillögu sem vísað var til stjórnar Sorpu.
Undir 4. lið fundargerðarinnar. Flokkur fólksins vill taka undir margt af því sem kemur fram hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í bókun um mál Vinnuskólans, að verkefni s.s. að búa til mótmælaspjöld hefði átt að vera borið undir foreldra. Borgarfulltrúar hafa eftirlitshlutverk og ef grunur leikur á að ekki sé leitað viðeigandi samráðs við foreldra er varðar málefni barna þeirra ber borgarfulltrúum að taka upp málið á vettvangi borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 56. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst

Hér er verið að leggja fram bréf borgarstjóra um skipulagslýsingu sem er undanfari varanlegrar lokunar Laugavegar. Flokkur fólksins óskaði eftir að þessu máli yrði frestað til að hafa mætti betra samráð við hagsmunaaðila en sú málsmeðferðartillaga var felld á síðasta fundi borgarráðs fyrir sumarhlé. Nú er komið að því að keyra málið áfram í óþökk fjölda rekstraraðila sem sent hafa inn um 230 undirskriftir til að mótmæla þessum aðgerðum. Ekkert frekara samráð hefur verið haft í sumar enda löngu ljóst að allt tal um samráð er fátt nema sýndarmennska borgarmeirihlutans. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir að þeim hafi verið lofað að haft yrði samráð við samtökin. Minnt er á ný umferðarlög sem heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Lögin taka gildi um áramót. Í framhaldi vill borgarfulltrúi spyrja hvort hafinn sé undirbúningur innleiðingar þessarar nýju löggjafar?

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf og umsagna með athugasemdum hagsmunaaðila vegna tónleika Secret Solstice í Laugardal

Allir eru sammála um að það gekk betur í ár en í fyrra og kemur margt til sem skýrir það. Ítarlegar umsagnar liggja fyrir frá ólíkum hagsmunaðilum. Þrátt fyrir aukið eftirlit komu engu að síður upp 40 fíkniefnamál og í athvarfið komu 43 unglingar vegna ölvunar. Vitni voru að því að barþjónar voru að selja gestum lokaðar dósir á barnum sem samræmist ekki lögum og unglingar fengu margir hverjir afgreiðslu á barnum þrátt fyrir að vera með Youth (13-17 ára) armbönd. Ekki var því nægjanlega fylgst með börnum allan tímann. Tímasetning stóðst ekki en skv. starfsleyfisskilyrðum fyrir hátíðina átti tónleikum að vera lokið 23:30. Engu að síður var spilað fram yfir miðnætti. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Fram kemur í umsögn Þróttar að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hefur skemmt völlinn og sé svæðið í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu. Nú liggur fyrir ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í Dalnum. Áætlaður kostnaður er 800 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur einfaldlega til að fundinn verði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessu tagi og af þessari stærðargráðu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu ársskýrslu endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 15. ágúst 2019, til borgarstjórnar fyrir árið 2019.

Flokkur fólksins tekur undir með nefndinni og innri endurskoðun að þurft hefur að takast á við mörg ófyrirséð verkefni utan áætlunar síðasta misseri sem mun hafa áhrif á framgang samþykktar endurskoðunaáætlunar. Síðasta ár hefur komið í ljós margir gallar í borgarkerfinu þegar kemur að eftirliti og skemmst er að minnast opinberunar á hvað fram fór bak við tjöldin við endurgerð braggans og fleiri verkefni sem ýmist voru ekki fullar fjárheimildir fyrir eða gerðir samningar. Allt fékk þetta að viðgangast árum saman sem hlýtur að þýða einhverskonar andvaraleysi eða ofmetið traust? Það er von borgarfulltrúa Flokks fólksins að allir þeir aðilar sem eiga að gæta þess að fjármál og fjármálastjórn borgarinnar sé í samræmi við lög og reglur séu stöðugt á tánum við að prófa og sannprófa virkni eftirlits og í sífelldri leit að veikleikum kerfisins. Erfiðast hefur verið að horfa upp á að ábendingar sem þó hafa verið lagðar fram af eftirlitsaðilum, sumar ítrekaðar, en sem samt hafa verið hunsaðar jafnvel í nokkur ár. Hvað þýðir það þegar ábyrgðaraðilar verkefna komast upp með slíka hunsun? Leiða má líkum að því að ekki hafi verið borin nægjanleg virðing fyrir eftirlitsaðilum fram til þessa og viðvaranir þeirra þess vegna bara látnar lönd og leið?

Tillaga um að borgarfulltrúar fundi með borgarbúum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráhússins amk tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sé ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum td. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur t.d. ef eitthvað málefni brenna á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gegnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa.  Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartana um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg málefni stór sem smá.

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar Miðflokksins um hönnun borgarlínu

Flokki fólksins finnst þessi svör við fyrirspurn Miðflokksins ansi rýr og telur að borgaryfirvöld geti ekki vel sett sig í spor borgarbúa sem sjá margir hverjir þetta risavaxna verkefni ekki alveg fyrir sér. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt inn fyrirspurnir sem vísað var til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Enn hefur ekki borist svör við þeim. Þær eru hér með ítrekaðar:
1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin?
2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað?
3.Hversu margir km. verður línan?
4. Hvað þarf marga vagna í hana?
5. Á hvaða orku verður hún keyrð?
6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir?
7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu?
8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna?
9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?