Borgarráð 18. júlí 2019

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um kostnað vegna tilraunaverkefnis með vetnisstrætó ári 2001

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar við fyrirspurninni um kostnað við tilraunaverkefni með vetnisstrætó í kringum árið 2001 ekki fullnægjandi. Varla hefur þetta verið ókeypis fyrir borgarbúa. Verkefninu var stýrt og kostað m.a. af Íslenskri NýOrku sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar. Sérstakt þykir að ekki finnist nein gögn um að Reykjavíkurborg hafi lagt fjármuni beint í verkefnið utan 730 þ.kr vegna ráðstefnu. Æ oftar má sjá hvað fyrirtæki B-hluta borgarinnar virðast vera dottin úr tengslum við Reykjavíkurborg og farin að haga sér eins og einkafyrirtæki en ekki fyrirtæki í eigu borgarinnar. Reykjavíkurborg á fulltrúa í stjórnum B-hluta fyrirtækjanna og er meirihlutaeigandi í öllum byggðasamlögum en engu að síður er talað um þessi fyrirtæki eins og borgin hafi ekkert um þau að segja. Auðvelt ætti að fá upplýsingar um hvað NýOrka, félag sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar greiddi í þetta tilraunaverkefni. Verkefni var sérstakt fyrir margar sakir. Hér var um þýska vagna að ræða sem gerð var tilraun með hér á land. Hér var ekki verið að prófa íslenska tækni. Af hverju var þessi tilraun ekki gerð í Þýskalandi? En sú spurning er sjálfsögðu ekki tengd fyrirspurninni um kostnaðinn þótt hún fái að fylgja hér með.

Svar fjármála- og áhættustýringasviðs

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um vinnustaðakönnun Strætó bs.

Flokkur fólksins spurði um vinnustaðakönnun Strætó bs ekki síst í ljósi allra þeirra fjölmörgu kvartana sem fyrirtækið hefur fengið á sig sem er langt umfram það sem teljast má eðlilegt. Enn er beðið eftir nánari sundurliðun en fram kom í síðasta svari að meirihlutinn væri vegna framkomu, tímasetningar og aksturlags. Í þessari könnun er eftir því tekið að meiri en helmingur svarenda finnur fyrir streitu í vinnu, sbr. 10 og 15% segjast hafa orðið fyrir einelti á vinnustað (skv. síðustu glærunni). Þetta er hátt hlutfall. Þegar meiri en helmingur svarenda segist finna fyrir streitu í vinnunni má velta fyrir sér hvort streita kunni að tengjast eitthvað þessu háa hlutfalli ábendinga/kvartana t.d. þeim hluta sem snúa að framkomu og aksturslagi? Hjá fyrirtækinu er afar skekkt kynjahlutfall. Hlutfall kvenna sem eru vagnstjórar er aðeins 12%. Heildarfjöldi 185 vagnstjórar, konur 20 og karlar 165. Kvartanir/ábendingar voru, árið 2018, 2.778 og hafði fjölgað nokkuð frá árinu áður. Ef streita hleðst upp í starfi þekkjum við það öll að hún getur laðað fram einkenni sem hefur áhrif á framkomu okkar og atferli. Því ber þó að fagna að vinnustaðarmenningin á staðnum virðist fara batnandi.

Svar Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við að borgin geri samning við Arnarskóla vegna reykvískra nemenda

Er ekki tímabært að borgin setji á fót svona úrræði, sinn eigin „Arnarskóla“? Kostnaður vegna fjögurra nemenda sem borgin greiðir fyrir 4 börn er kr. 4.949.956,- á mánuði skv. gjaldi í maí 2019 og á ári miðað við 12 mánaða þjónustu kr. 59.399.472,-Sérúrræði sem þetta hefur Flokkur fólksins ítrekað kallað eftir enda bráðvantar það í borginni. Það er blinda og afneitun meirihlutans gagnvart þeirri staðreynd að Skóli án aðgreininga eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Dæmi eru um að börnum hafi verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautargöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist i augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla þar sem þau hafa ekki fundið sig meðal jafningja. Svona úrræði geta önnur sveitarfélög stofnað en ekki stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, sem er því upp á náð og miskunn annars sveitarfélags með að fá inni fyrir reykvísk börn.

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um launagreiðslur til fyrrum framkvæmdastjóra Félagsbústaða fyrir árið 2018 vegna starfsloka hans.

Laun fráfarandi forstjóra Félagsbústaða eru regin hneyksli. Forstjórinn var með rúmar 1,6 m.kr á mánuði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er orðlaus yfir þessari upphæð sem sennilega er á pari við sjálfan borgarstjórann. Fram kemur í svari að viðkomandi átti um 2 mánuði ógreitt orlof og ógreidda yfirvinnutíma. Upplýst hefur verið með yfirvinnu. Við starfslok voru greiddir út  128 tímar í yfirvinnu á tímabilinu 2017 til 2018 samtals 1.961.023. Þetta var ofan á föst laun. Flokkur fólksins gerir skilyrðislausa kröfu til stjórnar að laun núverandi forstjóra verði lækkuð séu þau í einhverju samræmi við þessa upphæð. Laun viðkomandi sem sinnir þessu starfi þarf að vera í einhverju samræmi við þann veruleika sem við lifum í. Hér er um firringu að ræða sem æ oftar virðist vera raunin hjá meirihluta borgarstjórnar og fyrirtækjum í eigu borgarbúa þegar sýslað er með skattfé borgarbúa. Einhver meðvirkni virðist vera í öllu þessu máli.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs um varanlegan regnboga í Reykjavík

Flokkur fólksins fagnar því að ákveðið var að setja regnbogagötu á eina götu borgarinnar enda samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn. Skólavörðustígur hefur verið valinn án nokkurs samráðs við rekstraraðila götunnar eða íbúa þrátt fyrir tal meirihlutans um samráð. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð. Skólavörðustígur er vissulega heppileg gata en í lýðræðissamfélagi er leitað eftir samráði við fólk þegar svona ákvörðun er tekin.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjun götutrjáa 2019. Kostnaðaráætlun er 20 m.kr.

Endurnýja á götutré við gönguleiðina „Ormurinn langi“ í Rimahverfi fyrir 20 m.kr. og er hér aðeins um 1. áfanga að ræða. Fjarlæga á 25 aspir og setja lágvaxnari tegundir sem sagt er að auki „líffræðilega fjölbreytni“. Ef breyta á einu beði eykur það varla „líffræðilega fjölbreytni“, slík hugtök eru notuð á heldur stærri skala. Það sem borgarfulltrúi vill þó leggja áherslu á hér er þessi mikli kostnaður. Það er eins og ráðamenn í borginni hugsi aldrei út í kostnað og farið er af stað með tugi verkefna af alls kyns tagi fyrir stórar upphæðir eins og milljónin skipti engu máli. Fyrir 20 milljónir væri hægt að gera mikið fyrir börn þessarar borgar og skólana sem nú eru víða í lamasessi vegna viðhaldsleysis og myglu. Það er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að einhver veruleikafirring sé í gangi þegar kemur að peningum og ráðstöfun þeirra. Þetta er útsvarsfé borgarbúa sem hér er verið að sýsla með og er það skylda og ábyrgð þeirra sem ráða að horfa í hverja krónu og umfram allt sjá til þess að borgarbúar allir sem einn fái fullnægjandi þjónustu. Út á það gengur hugmyndafræði samneyslunnar. Þegar sú þjónusta er trygg er hægt að fara skoða verkefni ætluð til skreytinga.

Bókun Flokks fólksins undir lið 3 í fundargerð Strætó bs., dags. 21.6.2019, vegna funda með samstarfssveitarstjórnum sem standa að Strætó og kynninga á niðurstöðu stefnumótunarvinnu.

Áfram á að halda kynningum þar til öll sveitafélög hafa verið heimsótt. Borgarfulltrúa finnst þessi aðferð hljóti að vera æði tímafrek og dýr. Það blasir við að Strætó bs. verður að fara endurnýja og nútímavæða sig sem þjónustufyrirtæki til að það verði ekki úrelt ef tekið er mið af almenningssamgöngukerfi í borgum sem við berum okkur við. Það verður því að fara að spýta í lófana.

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar Verkefnastjórnar miðborgarmála frá 9. apríl:

Eftir því er tekið í þessari fundargerð að enginn frá borginni hafði áhuga á að ræða mótmæli 247 rekstraraðila (90%) og þá staðreynd að ekkert samráð hefur verið haft við þá hvorki nú né undanfarin ár. Öryrkjabandalagið telur einnig að ekki hafi verið haft samráð við þá af einhverri alvöru. Ef fundir verkefnastjórnar miðborgarmála eru eins einhliða og fundargerðir þeirra sýna er ljóst að allt sem kallast lýðræði hefur verið varpað fyrir róða. Þessi vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og krefst borgarfulltrúi Flokks fólksins að verkefnastjórn miðborgarmála bjóði umsvifalaust Miðbæjarfélaginu á fund og Öryrkjabandalaginu. Ef göngugötur að eiga að vera skulu þær vera á forsendum rekstraraðila og annarra hagsmunasamtaka og einnig vera gerðar í samráði við alla borgarbúa. Miðbærinn er okkar allra. Hafa skal í huga að hjá þeim 247 rekstraraðilum sem skrifuðu undir mótmæli við göngugötum vinna 1.870 manns. Þeirra lífsviðurværi er líka í hættu. Frá febrúar 2019 hafa 16 verslanir lokað.

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar Verkefnastjórnar miðborgarmála frá 14. maí vegna skorts á samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila

Fregnir hafa borist af þessum fundi frá aðilum sem vildu ræða afgerandi andstöðu rekstraraðila við lokunum en fengu ekki hlustun. Ekki eitt orð er um könnun Zenter rannsókna og Samtök þjónustu og verslunar sem fjármagnaði hana. Það er sérkennilegt þar sem stjórnarmaður í Miðborgin okkar situr einnig í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu. Því hefði mátt halda að könnunin fengi vægi á fundi verkefnastjórnar miðborgarmála. Könnunin er vissulega áfall fyrir meirihlutann í borgarstjórn sem vill loka götum fyrir umferð þrátt fyrir hávær mótmæli og óánægju rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila. 247 rekstraraðilar hafa sent borgarstjóra skrifleg mótmæli sín. Aldrei voru þessir aðilar spurðir um forsendur sínar fyrir þessum framkvæmdum. Meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru óánægðir með varanlegar göngugötur. Niðurstöður sýna skýrt að bærinn er að verða einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir. Er meirihlutinn og Miðborgin okkar að reyna að þagga þessa könnun þar sem niðurstöður hennar voru þeim ekki þóknanlegar?

Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á auglýsingu á tillögu að lýsingu fyrir deiliskipulag Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum. R19070069

Skýrsla: Laugavegur sem göngugata

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að þessum lið verði frestað.

Hér er verið að afgreiða breytingu á skipulagslýsingu sem er undanfari lokunar Laugavegar varanlega. Þetta á að gera þrátt fyrir hávær mótmæli en 230 rekstraraðilar hafa skilað inn undirskriftum. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. Öryrkjabandalags Íslands hitti arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald. Enda þótt þessum aðilum hafi e.t.v. verið leyft að tjá sig um málið hefur ekkert verið hlustað á þeirra sjónarmið og rök. Niðurstöður könnunar Zenter rannsókna sýna einnig megna óánægju meirihuta rekstraraðila og borgarbúa nema ákveðins hóps. Farið er fram á að það verði rætt við öll þessi félög og samtök og að tekið verði tillit til þeirra forsendna og þarfa áður en haldið er áfram með þetta mál. Ný lög eru skýr á að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Varla ætlar borgin að brjóta lög. Það er ekki tímabært að afgreiða skipulagslýsingu núna. Almennt séð er aðgengi hreyfihamlaðra að miðborginni afar slæmt. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða af skornum skammti og aðgengi að lokuðum götum mjög erfitt. Reyndin er að fyrirtæki flýja nú bæinn og fólk er farið að forðast hann.

Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Erindið er samþykkt (Flokkur fólksins er ekki með atkvæðarétt í borgarráði)

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins hreinlega blöskrar þau ósannindi sem reifuð eru í kafla skýrslunnar um samráðsferli. Ekkert alvöru samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið, Öryrkjabandalag Íslands og Sjálfsbjörgu en fullyrt er án þess að blikna að „víðtækt samráð hefur þegar verið haft við hagsmunaaðila“. Borgarfulltrúi vill spyrja hvort skrifleg mótmæli um 247 rekstraraðila hafi farið fram hjá borgarstjóra en honum voru afhentir undirskriftarlistar fyrir fund borgarstjórnar í byrjun apríl. Er borgarstjóri búinn að henda þessum listum? Eða skoðaði hann þá aldrei? Hér stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi meirihlutans sem viðhafði aldrei neitt samráð um ákvörðun um varanlega lokun gatna. Svokallað samráð gekk í mesta lagi út á að leyfa fólki að tala en ekkert var hlustað. Flokkur fólksins gerir þá kröfu til meirihlutans og borgarstjóra að hann fundi umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu, Öryrkjabandalagi Íslands og Sjálfsbjörgu um þessar fyrirætlanir. Hvorki hefur verið tekið mark á undirskriftum né Zenter könnun sem Miðborgin okkar fékk þó gerða. Miðbæjarfélagið hefur haft samband við á annað hundrað rekstraraðila og kannast engin við samráð hvorki nú né undanfarin ár. Allt tal um samráð eru því ósannindi og blekkingar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef. Svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Rétt er að nefna þá skipulagslýsingu sem verið er að samþykkja núna í auglýsingu í borgarráði 18. júlí sem er grunnurinn að því víðtæka lögformlega samráði sem í deiliskipulagsferlinu felst. Innihaldslausum upphrópunum fulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um ósannindi er vísað á bug.

Tillaga um að haldinn verði fundur umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu um fyrirætlanir um lokun gatna í miðbænum.

Hafa þarf beint samráð við rekstraraðila félagsins og að allar breytingar séu á þeirra forsendum og annarra hagsmunaaðila. Tugir rekstraraðila hafa flúið vegna þess að verslun þeirra hefur hrunið samhliða lokun gatna fyrir umferð. Í skýrslu sem ber heitið Laugavegur sem göngugata og er dags. 28. júní 2019 er kafli sem heitir Samráðsferli. Þar er því haldið fram að „víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað við hagsmunaaðila. Það samráð er einhliða. Ekkert samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið. Samráð sem hér er talað um er sagt hafa verið dagana 28. janúar til 3. febrúar 2019. Þar var ekki hlustað einu orði á rekstraraðila Miðbæjarfélagsins. Afstaða þeirra er skýr sbr. undirskriftalista. Zenter rannsóknir staðfesta í niðurstöðum sínum víðtæka óánægju með varanlega lokun enda ekki á forsendum rekstraraðila og meirihluta borgarbúa.
Frestað.

Tillaga um að meirihlutinn haldi fund umsvifalaust með Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörg um samráð um  varanlega lokun gatna í miðbænum.

Ekkert raunverulegt samráð hefur farið fram við Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörgu. Óskir um fundi hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. ÖBI hefur verið boðið að hitta arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald og getur ekki ákvarðað um annað en ákveðnar útfærslur, svo sem um hækkun götunnar til að auðvelda inngöngu í verslanir. ÖBI hefur verið mjög skýr um það frá upphafi að það verði að hleypa fólki með P-merki inn á göngugötur og hafa bílastæði þar. Nú verður borgin að taka mark á þeim kröfum skv. lögum. Þessi mál þarf að ræða við notendur og skal ekkert um þá gert án þeirra.
Frestað.

Fyrirspurn um hvað mörg fyrirtæki hafa leigt bílastæði fyrir starfsfólk sitt í bílastæðahúsum í miðborginni og hve mörg?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurnir um hvað mörg bílastæði verða fyrir almenning á Hafnartorgi?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn um hvað forstjórar B-hluta fyrirtækja hafa í laun og yfirlit yfir launahækkanir síðustu 2 ár.

Í fréttum nýlega var sagt frá því að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi samþykkt að hækka mánaðarlaun forstjóra um 5,5% eða sem nemur tæplega 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin er afturvirk til 1. mars síðastliðins. Eftir hækkunina nema grunnlaun forstjórans 2,5 milljónum króna. Hækkunin var gagnrýnd enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%. Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst auk þess mikilvægt að fá þessar upplýsingar til að bera saman við hæstu laun sem greidd eru í borginni þar á meðal laun borgarstjóra. Mörgum finnst sem B-hluta fyrirtæki borgarinnar séu orðin eins og ríki í ríkinu og ákveða stjórnir þeirra að hafa hlutina eins og þeim sýnist eins og gleymst hafi að þetta eru fyrirtæki í eigu borgarbúa.
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Tillaga um að fulltrúi úr röðum leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins frá og með næsta aðalfundi sem verður 2020.

Mikill meirihluta íbúða á Lindargötu 57-66 eru leiguíbúðir í eigu Félagsbústaða. Minnihluti eru eignaríbúðir. Engu að síður á fulltrúi eignaríbúða sæti í stjórn húsfélagsins en ekki fulltrúi leigjenda. Það segir sig sjálft að engin sanngirni er í þessu fyrirkomulagi og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja til að úr þessu verði bætt hið fyrsta. Aðalfundur er nýlega afstaðinn. Fyrir næsta fund er lagt til að gerðar verði breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar t.d. lagabreytingar til að hægt sé að kjósa fulltrúa leigjenda í stjórn á næsta aðalfundi 2020. Lindargata 57-66 er, eftir því sem næst er komist eina húsfélagið þar sem leigjendaíbúðir eru í meirihluta. Verði um fleiri slík tilfelli að ræða skal ávallt tryggja að fulltrúi leigjenda eigi sæti í stjórn húsfélagsins.
Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

Tillaga um að stofnuð séu húsfélög í þeim fjölbýlishúsum þar sem Félagsbústaðir eiga allar íbúðirnar (Félagsbústaðir eini eigandinn).

Ávallt þarf að tryggja að rödd leigjenda heyrist og húsfélag er formleg leið til þess og í stjórn sitji leigjendur. Eins og flestum er kunnugt hafa leigjendur í tugatali upplýst um að kvartanir þeirra, um langvarandi viðhaldsleysi og heilsuspillandi myglu í húsnæði þeirra, til stjórnenda Félagsbústaða hafi hreinlega verið hunsaðar eða í það minnsta ekki teknar nægjanlega alvarlega til að gert hafi verið við með fullnægjandi hætti.
Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

Fyrirspurn um hvað hyggst skóla- og frístundarráð gera fyrir þau börn í vanda sem eiga ekki inni í „venjulegum skólum“. Hvert eiga þau að fara? Hvar eiga þau að stunda nám?

Vitað er að í öll sérúrræði er langur biðlisti t.d. í Klettaskóla og Brúarskóla. Nýlega fékk Flokkur fólksins svar við fyrirspurn sinni um hve mörg börn hafa undanfarin 5 ár ekki fengið skólavist vegna þess að þau glími við djúpstæðan tilfinningar- og hegðunarvanda. Sagt var að engu barni hafi verið vísað úr skóla vegna alvarlegs hegðunarvanda á þessu tímabili sem spurt var um. Þetta er ekki rétt. Síðan þetta svar var birt hafa nokkrir foreldrar haft samband og segjast einmitt hafa verið í þessum sporum auk þess sem við öll þekkjum eitt mál sem var nýlega í fréttum. Minnt er á að ef börn eru sett í aðstæður þar sem þau fá ekki notið styrkleika sinna og almennt séð fá ekki notið sín er hætta á að þau fari að sýna einkenni depurðar og kvíða. Sé barn látið vera í aðstæðum sem þessum lengi, jafnvel árum saman mun það einfaldlega hætta að vilja fara í skólann. Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk meta svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki inni í slíku úrræði.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Tillaga um að skóla- og frístundarráð kalli markvisst eftir upplýsingum frá foreldrum sem telja að börn þeirra fái ekki þörfum sínum mætt í hinum „almenna skóla“ byggðan á stefnu borgarinnar sem kallast Skóli án aðgreiningar.

Eins og Flokkur fólksins hefur margítrekað þá er verið að taka áhættu með andlega heilsu barna ef þau eru sett í aðstæður til langs tíma þar sem þau fá ekki notið sín í. Barn sem upplifir sig ekki vera meðal jafningja og finnur sig einangrað er í áhættu með að þróa með sér depurð og kvíða. Eins og fram hefur komið m.a. í könnun Velferðarvaktarinnar er hópur barna sem neitar að fara í skólann vegna vanlíðan sem þau tengja skólanum. Hópurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár. Þessi börn geta verið alla ævi að byggja sig upp eftir áralanga veru í skólaaðstæðum sem ekki hentar þeim.

Greinargerð:

Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk metur svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki þar inni. Það er mikilvægt að Skóla- og frístundarráð viti hvað mörg börn eru í þessum aðstæðum og heyri frá foreldrum þeirra hvað þeir telji að þurfi að breytast í aðstæðunum og hvaða og hvernig úrræði henti barni þeirra til að það geti notið skólagöngu sinnar til fulls.

Í skýrslunni segir:

„Stofnað verði til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla. Fyrsti þátttökubekkurinn taki til starfa haustið 2013 og hinir með tveggja ára millibili þannig að allir bekkirnir verði farnir að starfa haustið 2019“

Spurt er af hverju hefur borgarmeirihlutinn/Skóla- og frístundarráð ekki staðið við áætlun sína sem birt er í þessari skýrslu frá 2012 um að stofna til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla?
Allir fjórir bekkirnir ættu að vera starfandi nú í haust en aðeins einn bekkur er starfræktur. Allt of mörg börn kvarta yfir vanlíðan í skólanum, skóla sem á að vera fyrir alla og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri. Foreldrar hafa stigið fram og sagt skólann ekki vera að mæta þörfum barna sinna og óska eftir að fá aðgang að sérskólum borgarinnar. Þangað inn er eins og fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga. Báðir sérskólarnir eru löngu sprungnir og hefur Flokkur fólksins lagt til stækkun þeirra og fjölgun sambærilegra úrræða, allt tillögur sem hafa verið felldar eða vísað frá.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Tillaga um að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur/Veitur og Reykjavíkurborg stefni að því að hafa margar litlar rafbílahleðslustöðvar í stað fárra stórra.

Fyrir þá sem hyggjast kaupa rafbíl eru stærstu áhyggjur að komast ekki að stöð. Ef aðeins eru fáar stórar stöðvar munu myndast biðraðir. Vænta má að margir haldi að sér höndum við að kaupa rafbíl því þeir óttast að þeir þurfi að bíða efir að komast í rafmagn. Meðan þetta er raunveruleikinn þá eykst rafbílaflotinn hægt. Reykjavíkurborg á stóran meirihluta í OR/Veitum og því er eðlilegt að borgarstjórn hafi skoðun á þessu máli þrátt fyrir að þetta sé B-hluta fyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga. Reykjavík er langstærsti eigandinn. Benda má reynsluna t.d. Osló en þar hefur einmitt fjöldi stöðva skipt öllu máli.

Greinargerð:

Í upphafi rafbílavæðingarinnar voru hleðslustöðvar margar og rafbílavæðingin tók hratt af stað, enda sá fólk  að það gæti hlaðið.  Fyrir hverja stöð voru ca. 4 bílar og þær voru allar litlar (lítið afl, enda höfuðmálið að setja upp margar stöðvar og nýta tímann).
Þar er í fyrsta sinn að verða vandamál að finna stöðvar, en hlutfallið er í dag ca. 10 bílar per stöð.  Viðbrögðin eru að byggja upp millihraðar stöðvar (7,4 – 22kW)  á helstu akstursleiðum til/frá borginni ásamt því að byrja í fyrsta sinn að rukka fyrir notkun hleðslustæðanna svo rafbílaeigendur noti ekki hleðslustæði til að sleppa við að borga í stæði. Osló að gera hlutina rétt – fókusinn er á að hafa nógu margar stöðvar við bílastæði í borgarlandinu fyrir langtímahleðslu og nýta tímann til að hlaða í stað þess að einblína á aflið. Það er hins vegar gert á hraðhleðslustöðvum sem eru við áningarstaði.
Svo virðist sem að ON stefni að fáum en öflugum hleðslustöðum í stað margra litla. Það er óþarfi að gera mistök sem þessi sér í lagi þegar nóg er af góðum fyrirmyndum erlendis sem virkað hafa frábærlega
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn um hvort Strætó bs hyggst skoða metan sem orkugjafa á vagna fyrirtækisins

Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að stjórn Strætó óski eftir að fengin verði utanaðkomandi ráðgjafi til að gera greiningu á mismunandi orkugjöfum vagna þar sem meðal annars komi fram reynsla, hagkvæmni og heildar líftímakostnaður. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins vill spyrja hvort Strætó bs. hyggst skoða metan sem orkugjafa vagna og horfa þá til þess metans sem Sorpa brennir engum til gagns?
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Fyrirspurn um fargjaldastefnu Strætó bs, hvort hún sé opinber og hvort kallað hafi verð eftir viðbrögðum almennings/notenda

Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að fyrir fundinum liggi drög að forsendum nýrrar fargjaldastefnu. Hefur sú stefnu verið kynnt opinberlega og kallað eftir viðbrögðum borgarbúa? Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins minna á allt tal meirihlutans um að hafa samráð við borgarbúa og hafa framkvæmdir og breytingarferli gegnsætt. Kallað er eftir meirihluti borgarstjórnar efni þetta loforð. Strætó er í meirihuta eigu borgarinnar og ætti borgin því að hafa bæði skoðun og áhrif á málefni Strætó bs.
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Fyrirspurn um kynningu Eddu Ívarsdóttur um göngugötur sem hún flutti á fundi Verkefnastjórnar miðborgarmála

Í fundargerð verkefnastjórnar miðborgarmála kemur fram undir lið 2 að Edda Ívarsdóttir hafi haldið kynningu um göngugötur sumarið 2019 ásamt kynningu á tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði að útfærslu á áfangaskiptingu á varanlegum göngugötum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá senda þá kynningu sem Edda Ívarsdóttir flutti um göngugötur sumarið 2019 og spyr auk þess hvort þessi kynning hafi verið kynnt hagsmunaaðilum öllum og óskað eftir viðbrögðum þeirra?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun um fundarsköp:

  1. Að mál eru send út í dagskrá en er síðan tekin af dagskrá án samráðs við aðila og sagt að þau séu ekki tilbúin. Þetta eru vond vinnubrögð enda borgarfulltrúar búnir að undirbúa málið.
  2. Flokkur fólksins óskar eftir að áður en fundum er slitið að það sé kannað meðal fundarmanna hvort eitthvað sé eftir, hvort einhver eigi eftir að skila bókunum og hvort menn séu sáttir við að fundi sé slitið á þessum tímapunkti. Þetta er almenn kurteisi enda eftir að fundi er slitið er engu hægt að koma til skila.