Borgarstjórn 4. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við lið 3 í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 28. maí um skort á plássum hjá dagforeldrum og hvernig gengur að brúa bilið milli dagforeldra og leikskóla.

Innritun kann að ganga vel í laus pláss leikskóla en brúin milli fæðingarorlofs og leikskóla með dagforeldra sem millilið er langt því frá að vera brúuð. Borgaryfirvöld hafa ekki hlúð nægjanlega að dagforeldrastéttinni. Horfa verður á þessi mál í samhengi. Með tali um ungbarnaleikskóla eins og þeir væru handan við hornið hefur verið sáð fræjum óöryggis í stétt dagforeldra með þeim afleiðingum að flótti hefur verið úr stéttinni, amk hundrað hafa hætt og fleiri munu bætast í þann hóp. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði orðnir nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni. Nú eru enn 48 börn 18 mánaða og eldri á biðlista. Jafnframt eru 259 börn fædd frá 1. mars til 30. júní 2018 á biðlista eftir leikskólavist þ.e. börn sem verða 14-17 mánaða 1. september nk. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi ef þeir eiga ekki að flýja úr stéttinni.

Bókun Flokks fólksins vegna fundarsköpunar á fundi forsætisnefndar 31. maí undir lið 6 og 7

Það er engin hemja hvernig fundir forsætisnefndar eru oft hvað varðar fundarsköp. Síðasti fundur var óhemju slæmur. Fyrir fundinn lágu 11 dagskráliðir en 7 af þeim var frestað eftir að dólað hafði verið með fyrstu málin. Til að forðast nokkra umræðu um frestun mála flýtti formaðurinn sér að slíta fundi.  Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og telur þetta enn eitt dæmið um valdníðslu meirihlutans á fundum. Sambærilegir hlutir hafa oft gerst áður.  Svona getur þetta varla átt að vera. Þetta veldur pirringi og gremju þar sem aldrei er þess freistað að ná samkomulagi með eitt eða neitt við fulltrúa minnihlutans t.d. að semja um hvaða málum skuli frestað. Allt sem heitir samvinna og samkomulag finnst ekki á fundum forsætisnefndar og stundum ekki heldur á öðrum fundum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki boðlegt og krefst þess að annar háttur verði hafður á í framtíðinni og borin sé einhver lágmarks virðing fyrir minnihlutafulltrúum og málum þeirra sem lögð eru fram á fundinum.

Bókun Flokks fólksins  við 24. liður; svar borgarstjóra við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Það er athyglisvert að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur séð ástæðu til að spyrja nánar um braggamálið og skýrslu Innri endurskoðunar um braggann.  Nefndin spyr:
1. Hver var eftirfylgni Innri endurskoðunar með því að brugðist yrði við umræddum ábendingum um atriði sem betur máttu fara?
2. Bárust endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendum Reykjavíkurborgar þessar ábendingar innri endurskoðunar?
3. Hver voru viðbrögð og eftirfylgni endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við ábendingum  IE og því að ekki var brugðist við ábendingum?

Allar spurningar eru í takt við  bókanir Flokks fólksins um af hverju var ábendingum ekki fylgt og af hverju gekk IE ekki röskar fram í að fylgja þeim eftir? Í bókun Flokks fólksins 4. 4 2019 segir:
Fram hefur komið hjá Endurskoðunarnefnd að allt of langur tími (2-4 ár) líður oft frá því að úttekt er gerð af IE og þar til skrifstofan fylgir eftir eigin ábendingum. En gott er til að vita að Eftirlitsnefnd er með puttann á púlsinum og kallar  væntanlega eftir ítarlegri svörum frá borgarstjóra ef þörf þykir. Borgarfulltrúa fannst hluti þessa mál aldrei vera nægjanlega upplýstur. Málið í heild sinni átti sannarlega erindi í frekari rannsóknar til þar til bærra yfirvalda en sú tillaga M og F flokksins var felld af meirihlutanum, Sósíalistaflokki og hluta Sjálfstæðisflokks.

Bókun Flokks fólksins að lokinni umræðu að beiðni Flokks fólksins um ástand skólahúsnæðis í Reykjavík og stöðu skólanýbygginga

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lýsir miklum áhyggjum af stöðu húsnæðismála margra skóla í borginni. Síðustu ár hefur forgangsröðun verið kolröng hér í borg. Borgaryfirvöld hafa ekki tekið ábyrgð hvorki á að halda við húsnæðiskosti skólanna né að sjá til þess að byggt verði nægjanlega.  Tugir barna og kennara eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Ekki er tekin ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu um aðbúnað og  stjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar hafa ekki fengið viðunandi áheyrn eða verið tekin alvarlega. Sífellt er verið að boða til sóknar í skólamálum engu að síður. Haldnir hafa verið fundir þar sem meirihlutinn reynir oft að sneyða hjá að svara fyrir hið slæma ástand. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið að einhverjum málum en vísar oft hver á annan. Flokkur fólksins krefst þess að málefnið verði sett í algeran forgang. Það er grafalvarlegt að Skóla- og frísstundarráð og borgarstjóri láti sjúkdómseinkenni barna sem rakið er til skólahúsnæðisins um vind og eyru þjóta. Haldinni er leyndri fyrir borgarfulltrúum hin svo kallaða 5 skóla skýrsla sem sagt er að sé vinnuplagg borgarstjóra. Flokkur fólksins krefst þess að fá að sjá skýrslu sem borgarstjóri segir vera  hluta af fjárfestingaráætlun næsta árs. Fyrstu skólarnir voru skoðaðir 2017 og síðan Hagaskóla og einn annar 2018

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðismanna að skora á Alþingi að samþykkja lög um að selja áfengi í hverfisverslunum

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ástæða til að rugga bátnum að óþörfu þegar kemur að aðgengi að áfengi og vill því ekki styðja þessa tillögu enda ekki málefni borgarinna. Borgarfulltrúi, eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi mál telur að með þessari breytingu á fyrirkomulagi muni þeim góða ár­angri sem við höf­um náð í for­vörn­um og minnk­andi ung­linga­drykkju  vera stefnt í voða. Aukið aðgengi gæti leitt til auk­inn­ar neyslu. Fyrir suma unglinga er áfengi fyrsta efni sem neytt er áður en farið er út í sterkara efni. Margir foreldrar eru uggandi um velferð barna sinna þegar kemur að vímuefnum og neyslu þeirra. Þessi mál eru í ágætum farvegi eins og þau eru og er því engin nauðsyn að hefja sölu áfengis í hverfisverslunum. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að við sem stjórnmálamenn sem eigum að vera góðar fyrirmyndir gætum okkar á því hvað við leggjum til er varðar mögulega heilsu og velferð barna. Við eigum ávallt að hafa hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Börnin koma fyrst og fullorðna fólk svo. Okkar verkefni er að sinna forvörnum af kappi og gæta þess að gera ekki neitt sem mögulega geta komið börnum og unglinum illa.

Bókun Flokks fólksins við umræðu meirihlutans um framtíðina í borginni hvað varðar samgöngur og mengun

Meirihlutanum er tíðrætt um bílaumferð og mengun en gerir samt lítið til að sporna við henni þar sem það er hægt. Sífellt er borgin borin saman við Osló en sú síðarnefnda getur státað af góðu almenningsamgöngukerfi sem Reykjavík getur ekki. Á annan klukkutíma tekur stundum að komast milli staða í Reykjavík með strætó. Væri borgaryfirvöldum alvara að bæta loftgæði hefði ekki eina ívilnun til að hvetja fólk að aka vistvænum bíl verið tekin af. Flokkur fólksins hefur lagt til að biðljós verði fjarlægð og sett í stað göngubrú þar sem myndast miklar umferðarteppur með tilheyrandi mengun. Biðljós á Miklubraut loga lengi eftir að gangandi vegfarandi er komin yfir og eru síðan virkjuð samstundis aftur. Þessu vill meirihlutinn ekki breyta. Sú herferð sem meirihlutinn er í gegn fólki sem kýs og þarf einkabílinn er komin út yfir öll mörk. Er ekki rétt að byrja á byrjuninni, laga strætókerfið áður en tafagjöld verða sett á bílana. Hvernig farið hefur verið með rekstraraðila á Laugavegi er mál þessu tengt. Lokað fyrir umferð án samráðs á sama tíma og státað er af lýðræði og samráði? Aðeins meira um umhverfið, af hverju hefur borgin ekki tekið upp þriggja tunnu flokkunarkerfi eins og mörg önnur sveitarfélög?

Umræða að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um ástand skólahúsnæðis og byggingar- og viðhaldsþörf skóla í Reykjavík

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að nýta metangas sem SORPA framleiðir á metanvagna Strætó bs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að SORPA hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. á metanvagna Strætó bs. Um er að ræða tvö byggðasamlög sem Reykjavíkurborg á meirihluta í. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs. noti metan á strætisvagna sem byggðasamlagið SORPA framleiðir en nýtir ekki. Strætó bs. á tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er brennt. Í ljósi þess að metan er til hér er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani á báli og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni en það er ekki framleitt hér. Framleiðsla vetnis með rafgreiningu er dýr og myndi þurfa að flytja vetnið inn.
Greinargerð fylgir
Frestað, verður lög fram 18. júní