Velferðarráð 6. febrúar 2019

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tillaga að útfærslu á nýrri starfsemi um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

Samstarfsnetið lítur vel út. Meðal þess sem fram kemur er að eigi að leggja áherslu á er snemmtæka íhlutun. Á öllum stundum, áður, nú sem í framtíðinni ætti það ávallt að vera skylda stjórnvalda að bregðast strax við með einhvers konar stuðningsúrræði sýni barn vanlíðunareinkenni eða að það glími við einhvers konar vanda. Í kynningu kemur einnig fram að bið eftir þjónustu er langmest í skólaþjónustunni og hlýtur þá einnig að vera átt við biðlista til sálfræðinga. Skýring biðlista er sögð vera mannekla í hin ýmsu störf en varla er þar átt við sálfræðinga þar sem ekki er vitað til þess að sé skortur á þeim í Reykjavík. Bið eftir þjónustu til skólasálfræðinga er mjög langur þótt eitthvað sé hann mismunandi eftir hverfum.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Kynning á rannsókn á þörfum og væntingum þeirra sem bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði

Þetta eru sláandi niðurstöður og sorglegt að aðstæður sumra fjölskyldna með börn séu svona slæmar í Reykjavík. Hér eru lýsingar sem eru á pari við lýsingar sárfátæks fólk i löndum sem eru langt því frá að vera eins rík og vel sett og Ísland og Reykjavík. Vel er hægt að ímynda sér angistina og óöryggið sem börnin í þessum aðstæðum eru að upplifa. Það fer gríðar illa með börn að búa í langvarandi óöryggi og skynja þau flest þegar þroski færist yfir, áhyggjur og jafnvel vonleysi foreldrana sem hefur síðan margföldunaráhrif á slæma líðan barnanna. Börn sem eru viðkvæm ná sér oft illa eftir að hafa þurft að búa við aðstæður sem þessar um jafnvel langan tíma. Nú eru 944 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði, 26% eru með börn á framfæri. Langflestir bíða eftir eins til tveggja herbergja íbúð en á þeim er skortur á meðan lúxusíbúðir standa auðar í miðbæ Reykjavíkur. Enn og aftur er hér dæmi um skakka forgangsröðun borgaryfirvalda undanfarin ár þar sem ekki hefur verið nægjanlega hugsað um þá borgara sem af fjölmörgum, ólíkum orsökum hafa ekki náð að fóta sig með fjölskyldur.

Kynning á rannsókn á þörfum og væntingum þeirra sem nota þjónustu Félagsbústaði

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Niðurstöður þjónustukönnunar á ánægju/óánægju notenda Félagsbústaða með þjónustu og viðmót.

Flokki fólksins finnst þessar niðurstöður nokkuð fegraðar enda allt spurning um túlkun. Ef rýnt er í niðurstöður ætti að tala frekar um óánægju þegar hlutfall ánægju nær ekki til mikils meirihluta. Allt hlutfall yfir 20% óánægju er óásættanlegt, hvað þá yfir 30% eins og í Breiðholti. Varðandi NPS-skorið þá er ekki svo ýkja mikill munur á hlutfalli þeirra sem myndu mæla með og þeirra sem myndu hallmæla. Það eru ekki góðar niðurstöður þó skorið sé jákvætt í 15% og lýsa vandamáli er varðar traust til kerfisins. Nær væri að túlka kvarðaspurningar með óánægju, segja að 22% þætti húsnæðið EKKI öruggt og að 28% væru ekki ánægðir með húsnæðið. Skynsamlegt væri að orða hlutinn á þeim nótum sem lausnirnar eru mótaðar til að það verði meiri hvatning fyrir aðgerðir frekar en að einblína á tæpan meirihluta sem ánægður. Í kaflanum um Framtíð: 55% er rúmur helmingur, ekki „meirihluti“, það er of sterk túlkun. Í kaflanum um Samskipti ætti að beina athygli að 41% sem þykir EKKI hafa tekist vel til við úrlausn mála sinna hjá FB. Það er mjög hátt hlutfall og ætti fókusinn frekar að vera á neikvæða hlutann, ekki þann jákvæða þegar það neikvæða er svona hátt.

Niðurstöður þjónustuönnunar Félagsbústaða

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Að borgin bjóði upp á  opna móttöku velferðarráðs

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði telja mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu í góðum samskiptum við borgarbúa. Að bjóða upp á opna móttöku velferðarráðs væri góður vettvangur fyrir ráðsmenn og þjónustuþega til að ræða stefnu ráðsins og þjónustuna milliliðalaust. Varnagli þyrfti að vera á að einstaka mál þjónustuþega séu ekki tekin fyrir í opinni móttöku velferðarráðs. Beint samtal borgarbúa við ráðsmenn velferðarráðs gæti einnig verið skref í að auka traust á borgarstjórn.

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um upplýsingabækling um réttindi borgarbúa og þjónustu sem borgin veitir.

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg gefi út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Allir borgarar eiga rétt á að vera upplýstir um þá þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar. Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um mikilvægustu réttindi. Í bæklingi af þessu tagi ættu einnig að vera veittar upplýsingar um ýmis sértækari réttindi og bent á leiðir til að afla ítarlegri vitneskju um margvísleg atriði sem varða réttindi. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar.

Greinargerð:

Oft heyrist talað um að fólk viti ekki hver sín réttindi eru. Stundum vegna þess að það hefur ekki verið upplýst um þau og stundum vegna þessa réttindi hafa tekið breytingum og af einhverjum orsökum er sá sem njóta á réttindanna ekki meðvitaður um það. Ýmist reynir fólk að hringja til að fá upplýsingar eða leita að þeim á netinu. Það eru ekki allir sem nota netið með þessum hætti eða nota það yfir höfuð. Þeir sem reyna að hringja í starfsmann ná ekki alltaf sambandi auðveldlega eða sá sem óskað er eftir að tala við er oft fjarverandi eða upptekinn. Sé viðkomandi beðin að hringja til baka er allur gangur á hvort það verði gert. Oft er kvartað yfir því að illa gangi að ná í starfsmenn/fagfólk sem eru t.d. mikið á fundum, að skeytum sé ekki svarað og að ekki sé hringt til baka. Gera má því skóna að upplýsingabæklingur sem er skýr og aðgengilegur, jafnvel sendur í öll hús borgarinnar og sé einnig fáanlegur á helstu stofnunum borgarinnar muni leysa að minnsta kosti hluta þess vanda þeim sem hér er lýst.