Borgarráð 20. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði:

Fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir lá einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Brátt mun Reykvíkingum ekki standa til boða að geta lagt í námunda við heimili sín sem hyggjast kaupa nýbyggingar. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir slíkt skipulag? Húsin standa mjög nærri Bústaðavegi og vert er að athuga mengunarmál á þessu svæði, þá sérstaklega með tilliti til barna sem sannanlega kom til með að búa þarna.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars  skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skilagreinar vegna styrkumsókna til borgarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk frá Reykjavíkurborg síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum um hvernig styrkurinn var nýttur eins og reglur gera ráð fyrir. Spurt var einnig hvernig brugðist sé við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein. Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn? Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar við fyrirspurnunum er ekkert sem svarar þessum spurningum. Styrkjareglur Reykjavíkurborgar eru reifaðar en fyrirspurnunum ekki svarað. Enn er því óskað svara við fyrirspurnunum. Fulltrúi Flokks fólksins er ágætlega læs og getur lesið sér til um regluverkið á bak við styrkveitingar en fyrirspurnum er ekki svarað beint. Það er erfitt að skilja að þegar settar eru fram einfaldar fyrirspurnir að í svari sé ekki annað reifað en regluverk borgarinnar. Í svarinu kemur fram að farið sé að öllu leyti eftir reglum um styrki. Er með því verið að staðfesta að hver einasti styrkþegi undanfarin 5 ár hafi skilað inn skilagrein um verkefnið sem viðkomandi fékk styrk til að framkvæma?

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um styrkveitingar borgarráðs. Í framlögðu svari kemur m.a. fram að fjármála- og áhættustýringarsvið vinnur árlega greinargerð um framkvæmd styrkjareglna sem lögð er fram í borgarráði, er aðgengileg fulltrúum í borgarráði og er opinbert gagn. Í þeirri greinargerð kemur fram að á vettvangi borgarráðs er farið eftir öllum reglum þ.m.t. þeim ákvæðum sem fjalla um skil greinargerða um ráðstöfun styrkfjár fyrir lok ráðstöfunarárs.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmeti tillögur minnihlutafulltrúa, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. maí 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að minnihlutafulltrúar fengju aðstoð fjármálaskrifstofu við að kostnaðarmeta tillögur eftir því sem þeir telja nauðsynlegt áður en tillaga er lögð fram. Rökstuðningur fylgdi tillögunni og segir í honum að stundum nægi gróft kostnaðarmat. Að hafa hugmynd um kostnað getur stutt mál minnihlutans og hreinlega skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld. Í umsögn fjármálastjóra við tillögunni er hins vegar ekkert sem hægt er að tengja við efni tillögunnar heldur einungis um hvernig fjármálaskrifstofan þarf að haga málum við svörun á fyrirspurnum frá borgarfulltrúum. Hvergi í tillögu Flokks fólksins er minnst á fyrirspurnir eða svörun þeirra. Engin tenging er milli svars fjármálastjóra og tillögunnar sem hér er lögð fram af Flokki fólksins. Halda mætti að tillagan hafi ekki einu sinni verið lesin. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að tillagan er um að kostnaðarmeta tillögur en fjallar ekkert um hvernig fjármálaskrifstofan hagar málum þegar hún er beðin að svara fyrirspurnum. Tillagan verður þar af leiðandi lögð fram aftur.

 

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er vísað frá vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmetur nú þegar tillögur frá kjörnum fulltrúum hvort sem þær eru formlegar eða óformlegar, þ.e.a.s. áður en tillagan er lögð fram. Fjármála- og áhættustýringarsvið veitir mikla þjónustu til kjörinna fulltrúa og er það sviðsstjóra að skipuleggja starfsemina og ráðstafa tíma starfsfólks. Á sviðinu starfa margir sérfræðingar með ólíkan grunn sem endurspeglar umfang borgarinnar, því er það ekki talið heppilegt að vera með einn sérfræðing sem myndi svara öllum fyrirspurnum kjörinna fulltrúa enda eru fyrirspurnirnar jafn ólíkar og þær eru margar og oft þarf að leita fanga víða, bæði innan og utan sviðsins og borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð rekstrarleyfisumsókna sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020.:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að setja sig inn í þessi leyfisveitingamál enda talið að honum beri skylda til þess þar sem þau eru lögð vikulega fyrir borgarráð. Fulltrúi Flokks fólksins skilur svarið við fyrirspurnunum um meðferð rekstrarleyfisumsókna en veltir fyrir sér af hverju þessi mál eru yfir höfuð að koma fyrir borgarráð. Er hér einungis verið að upplýsa borgarfulltrúa og ef svo er þá til hvers? Eða eiga borgarfulltrúar að setja sig inn í þessi mál, sem eftirlitsaðilar? Komi mál fyrir borgarráð með öllum fylgigögnum eins og þessi mál, álítur fulltrúi Flokks fólksins að þau séu á dagskrá þar sem ætlast er til að þau séu skoðuð af borgarfulltrúum. Í þessum leyfismálum er alveg ljóst að borgarfulltrúar hafa engar forsendur til að setja sig inn í þessi mál og hvað þá hafa á þeim skoðun. Hver er mögulega tilgangurinn með því að leggja þau fyrir borgarráð? Er kannski aðeins verið að uppfylla einhverjar gamlar samþykktir?