Borgarráð 26. september 2019

Tillaga  Flokks fólksins að fylgiskjali 1 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði verði breytt vegna 6 mánaða reglu um húsaleigusamning

Lagt er til að fylgiskjali 1 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði verði breytt þannig að ekki verði litið til þess hvort meira en sex mánuðir eru eftir af leigusamningi þegar metið er hvort umsækjandi skori 0 að 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin út frá húsnæðisstöðu. Umsækjendur um félagslegt húsnæði þurfa að skora ákveðið mörg stig í matinu til þess að þeir komist inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það kann að vera skynsamlegt að líta til þess hve mikið er eftir af leigusamningi þegar kemur að úthlutun en það ætti ekki að mynda hindrun fyrir því að fólk komist inn á biðlista. Annars er til staðar óeðlilegur hvati til þess að fólk segi upp leigusamningum í von um að komast inn á biðlista eftir félagslegu húsnæði, sem e.t.v. er lengri en uppsagnarfrestur leigusamnings. Það ætti því aðeins að hafa þýðingu við mat á því hvort viðkomandi skori 0 eða 1 stig þegar húsnæðisþörf er metin hve íþyngjandi leigukostnaður er.

Greinargerð

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði er lagt um með stigakerfi til að meta húsnæðisþörf umsækjenda um félagslegt húsnæði og ákveðin viðmið eru svo að umsækjendur komist inn á biðlista. Meðal þeirra þátta sem hafa áhrif við stigamatið er húsnæðisstaða umsækjanda. Þar getur umsækjandi skorað 1-3 stig eftir því hve alvarleg húsnæðisstaða hans er að svo stöddu.

Meðal þeirra þátta sem líta ber til við að ákvarða stig eru fjárhæð leigu sem hlutfall af tekjum, gæði húsnæðis, lengd leigusamnings og hvort viðkomandi sé heimilislaus. Þegar metið er hvort viðkomandi skori 0 eða 1 stig þá hefur það mest áhrif hvort húsnæðiskostnaður sé undir eða yfir 30% af heildartekjum heimilis og hvort lengra en 6 mánuðir eru eftir af húsaleigusamningi.

Það er gott og gilt að líta til þess hvort stutt sé eftir af leigusamningi umsækjenda til hagsbóta, en t.a.m. þá getur það orðið grundvöllur þess að umsækjandi hljóti 2 stig, ef minna en 3 mánuðir eru eftir af leigusamningi. Hinsvegar þá er það nú svo að ef meira en 6 mánuðir eru eftir af leigusamningi þá skorar umsækjandi 0 stig óháð því hvort húsnæðiskostnaður fer umfram 30% af heimilistekjum.

Þarna geta umsækjendur lækkað um stig vegna lengdar leigusamnings þó leugverð sé þeim þung byrði og það kann að leiða til þess að þeir verði ekki samþykktir á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

Hér er lagt til að þessu verði breytt. Að sjálfsögðu á ekki að úthluta húsnæði til þeirra sem þegar leigja húsnæði annarsstaðar en það ætti ekki að standa í vegi fyrir því að viðkomandi fái sæti á biðlista eftir úthlutun.

Þegar viðkomandi er kominn inn á biðlista hefur hann betri yfirsýn yfir það hve lengi hann þarf að útvega eigið húsaskjól og getur þá hagað samskiptum sínum við leigusala í samræmi við stöðu sýna á biðlista að einhverju leyti. Ef engu er breytt þá er hinsvegar hvati til staðar fyrir fólk til þess að segja upp leigusamningi í von um að komast á biðlista. Þegar á biðlista er komið þá kann raunin að vera sú að bið eftir húsnæði sé lengri en það sem eftir lifir af leigusamningi. Þannig eykst óvissa fyrir leigjendur þegar litið er til lengdar leigusamnings að þessu leiti.

Eftir sem áður er það jákvætt að litið sé til þess hvort skammur tími sé eftir af leigusamningi og að það geti aukið stigafjölda umsækjenda en ekki á að líta til þess að langur tími sé eftir af leigusamningi þegar samningur er umsækjanda óhagstæður og húsnæðiskostnaður fer fram úr 30% af heimilistekjum

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar:

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar. Í stöðluðum útboðsákvæðum borgarinnar segir að verktaki skuli ávallt sjá um að allir efnisafgangar séu fjarlægðir jafnóðum. Verktaki skal sjá svo um að umhirða á vinnustað, vinnuskúrum og á lóðum sé ávallt góð og skal verktaki fara eftir fyrirmælum eftirlitsmanns þar að lútandi. Um almenna umgengni og umhirðu á vinnustað vísast að öðru leyti til kafla 4.2, ÍST 30. Verktaki skal enn fremur gæta ítrustu varúðar og öryggis við framkvæmd verksins. Hvernig er eftirliti borgarinnar með ofangreindu háttað og hvaða hluti eftirlitsins er á forræði borgarinnar? Borgarfulltrúi hefur fengið sendar myndir af byggingarstað þar sem umhirðu er ábótavant. Þegar umhirðu er ábótavant eru meiri líkur á að slysahætta skapist. Borist hafa upplýsingar um slaka umhirðu á byggingarstöðum t.d. í Úlfarsárdal. Þar ægir sumstaðar öllu saman, tæki, tólum og drasli. Sjá má moldar- og vatnspytti á byggingastöðum, hauga af byggingarefni og annarri óreiðu jafnvel á götum sem tengjast ekki byggingarsvæðinu sjálfu. Sagt er að lóðarhafar til margra ára safna byggingaefni á lóðir án þess að hefja framkvæmdir. Sumum finnst þetta ekki vinnustaðir heldur safnhaugar. R19090303

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs.

Tillaga Flokks fólksins að borgarfulltrúar og starfsmenn sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar planti trjám til að vega upp á móti flugferðum sínum:

Flokkur fólksins leggur til að borgarfulltrúar, embættismenn og starfsmenn Reykjavíkurborgar sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar planti trjám til að vega upp á móti flugferðum sínum og birti afrakstur sinn á opinberu vefsvæði og/eða greiði eðlilega upphæð til t.d. Kolviðar eða skógræktarfélaga. Með einni flugferð frá Keflavíkurflugvelli til London sem dæmi er talið að losun á koltvíoxíði sé um það bil 210 kg á farþega. Með sömu forsendum og eru hér að ofan má því segja að til að vega upp á móti flugferð til London þyrfti hver farþegi að planta um það bil 120 trjám. Sama fjölda þarf að sjálfsögðu að planta vilji farþeginn vega upp á móti losun koltvíoxíð á heimferðinni. Sá borgarmeirihluti sem nú situr hefur ítrekað gefið sig út fyrir að vera umhverfisvænn en í svo mörgu er ekki verið að sýna það í verki. Það er ekki nóg að tala um loftslagsmál og hvernig breyta eigi neysluvenjum til að sporna við frekari losun gróðurhúsalofttegunda og gera svo minnst af því sjálfur. Það hefur ekki dregið úr flugferðum starfsmanna Reykjavíkurborgar síðustu fjögur ár nema síður sé og er það umhugsunarefni.

Frestað.

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda fjarfunda/streyma sem borgarfulltrúar og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa valið að sitja í stað þess að taka sér ferð á hendur til að sækja fundi:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda fjarfunda/streyma sem borgarfulltrúar, embættismenn, yfirmenn og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa valið að sitja í stað þess að taka sér ferð á hendur til að sækja fundi/ráðstefnur/námskeið á erlendri grund. Það er brýnt að borgarmeirihlutinn setji það sem reglur hjá sér að ávallt skal leita leiða til að funda í gegnum fjarfundarbúnaði þegar taka á þátt í alþjóðafundum. Senda þarf til alþjóðasamfélagsins þau skilaboð að Reykjavíkurborg óski eftir slíkri þátttöku í stað þess að mæta á staðinn. Komi slík skilaboð frá Reykjavíkurborg má gera því skóna að boðið verði upp á þennan möguleika í flest öllum tilfellum. Fjarfundur á að verða meginreglan og flugferð erlendis á fund þá undantekningin. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga í mun meira mæli en gert hefur verið.

Tillaga Flokks fólksins að borgin fari í átak við að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar:

Flokkur fólksins leggur til að borgin fari í átak við að fjölga bílastæðum fyrir stóra bíla í úthverfum borgarinnar. Oft er spurt hvar megi leggja hópferðabifreiðum t.d. að kvöldlagi og yfir nótt? Fólks spyr vegna þess að iðulega er stórum bílum lagt í hverfum, þvert yfir allt að 5 stæði við fjölbýlishús. Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík segir: „Vörubifreiðum sem eru 4 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutninga¬bifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja á götum eða almennings¬bifreiða¬stæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar. Borgarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt“. En það er ekki nóg að banna eitthvað og hafa engin önnur úrræði til að bjóða. Vegna skorts á bílastæðum fyrir stóra bíla verða bílstjórar vöruflutningabíla oft að leggja á stöðum sem ekki er gert ráð fyrir að stórum bíl er lagt. Vandinn er oft slíkur að fólk sem býr í húsunum eða gestir fá ekki stæði vegna þess að stæðin hafa verið teppt af stærri bifreiðum. Bílastæðavandi stærri bifreiða er greinilega eitthvað sem þarf að skoða R19090307

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs, dags. 23. september 2019 á tillögu um sameiginlegan stýrihóp um heildstæða þjónustu fyrir börn sem sérþarfir

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meðal verkefna stýrihópsins er að meta árangur af sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu með það fyrir augum að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir viðkomandi börn. Að sjálfum árangursmælingunum verða vissulega að koma utanaðkomandi, hlutlausir aðilar. Skóla- og frístundasvið hefur alla tíð rennt blint í sjóinn með það hvernig fjármagni um 5 milljarðar sem veitt er í sérkennslu nýtist börnunum þar sem engar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Það sem rannsóknir hafa hins vegar sýnt er að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla. Vaxandi vanlíðan barna samkvæmt rannsóknum má án efa rekja mikið til ástandsins í skólamálum en í vanbúnum „skóla án aðgreiningar“ er ekki verið að mæta þörfum allra barna oft með hörmulegum afleiðingum. Áður en lengra er haldið með verkefnið Betri borg, sem hefur verið fyrir börnin í Breiðholti og stendur til að skoða að færa það í aðra borgarhluta, þurfa einnig að liggja fyrir einhverjar árangursmælingar. Þær mælingar þarf að vinna með þjónustuþegum ef eitthvað á að marka þær. Að borgin sé sífellt að mæla sig sjálf nær engri átt. Þær niðustöður geta aldrei orðið trúverðugar.

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundarráðs og velferðarráðs á tillögu um sameiginlegt þróunarverkefni í Breiðholti um betri borg fyrir börn

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar öllu því sem bætt getur þjónustu við börn. Búið er að stilla upp stóru myndinni. Hér er lagt af stað með að búa til útfærslu sem virkar flókin á blaði. Teymi og teymisvinna er vissulega frábært en það eru kostir og gallar við allt. Stór teymi hafa sín vandamál. Mál mega t.d. aldrei stoppa vegna þess að ekki er hægt að ná sama teyminu. Þjónustuþeginn þarf að vita hvar skuli bera niður með mál sín og geta séð myndrænt hver verkferillinn er. Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir það úr starfi sínu sem sálfræðingur að mjög oft voru dæmi um það að fólk vissi ekki hvaða þjónusta væri í boð eða hver hefði með hana að gera. Margt sem borgin bíður upp á er ekki nógu vel kynnt og erfitt er að átta sig á fyrir fólk hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins. Í augum margra ægir öllu saman. Innan verkefnisins á að gera ansi mikið, stofna deild og stofna teymi ýmissa aðila milli ýmissa deilda. Upplifunin eftir lestur tillögunnar er sú, að sú undirbúningsvinna sem liggur fyrir sé afar skammt komin og kannski er betra að bíða með frekari opinberun það sem ferlar eru skýrðir.

Bókanir Flokks fólksins sem tengjast skipulagi Laugavegar sem göngugötu og tilhögun fleiri gatna í miðbænum

  1. Bókun Flokks fólksins undir lið 9 og 11 lið fundargerðar Skipulags- og samgönguráðs frá 25. september 2019 er varðar lokanir og göngugötur:

Formaður skipulagsráðs hefur ákveðið að halda sínu striki þrátt fyrir hávær mótmæli. Ekkert samtal hefur verið átt við hagsmunaaðila og hlustar meirihlutinn heldur ekki á ráð frá nágrannaborgum eins og Osló sem hafa varað við aðferðarfræði sem þessari. Það vita það allir sem hafa fylgst með þessari umræðu að þegar formaður skipulagsráðs segir að göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa þá er það ekki alveg svo. Við göngugötur þrífast ekki allar tegundir reksturs. Vegna 5. liðar í fundargerð nr. 48; Horfa þar með gagnrýnum augum hvað Reykjavíkurborg eyðir miklu í utanlandsferðir. Fram kemur að kostnaður vegna ferðar 14 manns frá umhverfis- og skipulagssviði á ráðstefnu til Osló er rúmar 4 milljónir. Þarna hefði verið möguleiki fyrir einhverja að fylgjast með fundum í gegnum netið? Var streymi funda í boði? Það hefði dugað að senda 2-3 sem hefðu getað uppfrætt þá sem heima sátu. Flokki fólksins finnst miðlæg stjórnsýsla eyða of miklu í ferðir erlendis. Í allri umræðu borgarmeirihlutans um að leggja sitt að mörkum til umhverfisþátta þá skýtur þetta skökku við. Ferðakostnaður Reykjavíkurborgar hefur hlaupið á milljónum, jafnvel á annan tug milljóna. Ekkert er vitað hvort ferðir sem þessar skila sér. Hér þarf að staldra við og rifja upp að verið er að eyða peningum borgarbúa svo ekki sé minnst á kolefnasporin.

 

  1. Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs dags. 25. september á tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu

Nú er svo komið að gera á hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Það logar allt vegna þessa máls sem nú á að keyra í gegn á miklum hraða þvert gegn vilja fjölda fólks þar á meðal hagsmunaaðila. Enn fleiri verslanir eiga eftir að hörfa þar sem viðskipti hafa hrunið samhliða þessum framkvæmdum. Eftir standa lundabúðir og veitingastaðir sem gefa ferðamönnum að borða. Vissulega er skemmtanalíf í bænum sem alltaf einhverjir munu sækja. Þetta allt væri ekki svona ömurlegt nema vegna þess að sá borgarmeirihluti sem nú situr hefur lofað fullu samráði en það hefur hins vegar ekki verið neitt samráð nema einhvers konar yfirborðssamráð. Í aðdraganda kosninga sagði Flokkur fólksins að miðbærinn yrði með þessu áframhaldi aðeins fyrir ferðamenn og þá ríku sem eiga efni á nýjum íbúðum á svæðinu og jú vissulega fyrir þá sem þar búa. Þetta er að raungerast. Þetta er ekki lengur miðbær Reykjavíkur, borgarbúa allra. Úthverfafólk margt hvert vogar sér ekki inn á þetta svæði og hefur fundið sína miðbæi annars staðar. Eldra fólk og fatlaðir hafa margir sagst ekki treysta sér í bæinn, aðgengi er erfitt og vegakerfið ruglingslegt svo ekki sé minnst á stæðisvanda en bílastæðahúsin hafa hins vegar ekki tekist að draga að. Ótaldar eru umferðarteppur og umferðaröngþveiti í og úr bænum.

  1. Gagnbókun Flokks fólksins undir lið um bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. september 2019 á tillögu að deiliskipulagi fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu

Það getur varla talist annað en ákveðin firring þegar meirihlutinn í borginni og skipulagsyfirvöld segja fullum fetum að haft hafi verið samráð við notendur og hagsmunasamtök fatlaðs fólks við ákvörðun og skipulag göngugatna. Þetta er ekki satt og þykir borgarfulltrúa það vanvirðing að slengja svona fram sem ekki stenst. Það er rétt að engum var bannað að koma með kvartanir eða með athugasemdir en með þær var einfaldlega ekkert gert. Skrifað var mótmælabréf frá fjölda hagsmunaaðila sem aldrei hefur sést tangur né tetur af og meirihlutinn hefur aldrei minnst á. Hafi verið haft raunverulegt samráð þá hefði verið stigið skref til baka að einhverju leyti með eitthvað af þessum lokunum og reynt að finna lausn sem fleiri gátu sætt sig við. Nú er eins og þetta almannarými sé ekki lengur okkar allra heldur aðeins sumra. Skilaboðin frá meirihlutanum til rekstraraðila á þessu svæði sem hafa kallað hátt eftir hlustun er einnig að finna sér annan stað fyrir verslun sína því það er nóg af fólki sem vill reka verslun sína í miðbænum. Aðgengi að borginni hefur aldrei verið eins slæmt og þeir sem eiga bíl og vilja koma á bíl er gert eins erfitt fyrir og hugsast getur.

  1. Bókun Flokks fólksins við bókun meirihlutans v. Laugavegur/göngugötur:

Ljóst er nú að enginn mannlegur máttur mun geta breytt því að miðbærinn er að verða að varanlegum göngugötum. Þessu þurfa allir þeir sem hafa hrópað um að stoppa þessar framkvæmdir að kyngja. Staðfest hefur verið af meirihlutanum að ekki verður snúið til baka. Það blasir nú við að í raun áttu þeir sem voru á móti þessu fyrirkomulagi aldrei möguleika. Engu breytti þó fólk missti fyrirtækin sín og verslun þeirra hrundi. Þótt öll þjóðin hefði barist gegn þessu hefði það ekki breytt neinu. Þetta er gæluverkefni og hugarfóstur lítils hóps þar með talins borgarmeirihlutans, þeim finnst þetta flott. Borgarbúar þurfa að fara að sætta sig við að þeir hafa ekkert um borgina sína að segja. Samráð þýðir að fólkinu er sýnt hvað meirihlutinn og formaður skipulagsráðs vill gera. Samráð þýðir ekki að fólk sé spurt hvað það vill og það mögulega tekið til greina. Það má jú koma með athugasemdir og þær eru einhvers staðar skráðar en hafa að öðru leyti ekkert gildi. Þetta er auðvitað kjaftshögg því flestir hafa haldið að kaupin á eyrinni í borginni gangi ekki alveg svona fyrir sig. Bitur er þessi veruleiki.